Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

1130/2006

Reglugerð um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildar og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála. - Brottfallin

1. gr.

Rannsókn refsiverðra brota er í höndum lögreglu í því umdæmi þar sem þau eru framin. Lögregla annast rannsókn brota í samráði við ákærendur.

Sérstakar rannsóknardeildir, sbr. 8. gr. laga nr. 90/1996, annast rannsóknir manndrápa, rána, kynferðisbrota, brenna, alvarlegra fíkniefnabrota, alvarlegra líkamsárása, alvarlegra fjármunabrota, alvarlegra slysa og meiri háttar eldsvoða. Auk þess skulu rannsóknardeildir annast rannsókn brota telji lögreglustjóri, þar sem brot er framið, að rannsókn þess muni vera umfangsmikil og taka langan tíma.

2. gr.

Lögreglustjóri hefur forræði á rannsókn brota, sem framin eru í umdæmi hans.

Sá lögreglustjóri, sem rannsóknardeild á undir, fer með forræði á rannsókn máls, sem til rannsóknar er hjá rannsóknardeild hans.

Nú fremur maður fleiri en eitt brot í fleiri en einu lögsagnarumdæmi og skal þá rannsókn þeirra fara fram á vegum eins lögreglustjóra ef unnt er, enda valdi það ekki verulegum töfum á rannsókninni. Rannsókn máls skal sá lögreglustjóri að jafnaði annast, sem fyrstur hóf rannsóknina.

3. gr.

Ríkislögreglustjóri skal setja verklagsreglur um verkaskiptingu, samvinnu og samskipti lögreglustjóranna sem hafa rannsóknardeildir. Í þeim verklagsreglum skal sérstaklega kveðið á um hlutverk lögreglustjórans á Seyðisfirði um rannsóknir á innflutningi á ávana- og fíkniefnum.

4. gr.

Einstakar rannsóknaraðgerðir í máli, utan þess lögregluumdæmis þar sem brot er framið, annast lögreglustjóri í því umdæmi sem sá dvelst, sem yfirheyra skal, eða vettvangur sá er eða munir, sem rannsóknaraðgerð lýtur að, sbr. þó 2. mgr. 1. gr. Lögreglustjórar skulu aðstoða hver annan við rannsókn máls, með því m.a. að annast einstakar rannsóknaraðgerðir, eftir beiðni þar um.

Lögreglustjóri getur annast, eða falið undirmanni sínum að annast, rannsóknaraðgerð utan umdæmis síns, ef hætta er á að dráttur á aðgerðum lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi valdi sakarspjöllum. Lögreglustjóra í því umdæmi sem aðgerðin fór fram skal gert viðvart um hana eins fljótt og kostur er.

Við meðferð tiltekins máls geta lögreglustjórar samið um að lögreglustjóri sem annast rannsókn málsins megi annast rannsóknaraðgerð í þágu þess í umdæmi hins.

5. gr.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu metur, að höfðu samráði við lögreglustjóra í umdæmi þar sem brot var framið, hvort nauðsynlegt sé að senda mann eða menn frá tæknideild til að aðstoða við vettvangsrannsókn, samkvæmt 4. mgr. 8. gr. lögreglulaga. Synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu má skjóta til ríkislögreglustjóra.

Ríkissaksóknari getur lagt fyrir lögreglustjóra að vísa máli til rannsóknardeildar.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 8. gr. og 40. gr. lögreglulaga, nr. 90/1997 með áorðnum breytingum, sbr. einnig 3. gr. laga nr. 46/2003, öðlast gildi 1. janúar 2007.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála nr. 396/1997 með síðari breytingum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 29. desember 2006.

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica