Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

787/1998

Reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér greinir:

1. "Sjálfvirkt" er það skotvopn sem skjóta má úr röð skota með því að taka aðeins einu sinni í gikkinn.

2. "Hálfsjálfvirkt" er það skotvopn sem skjóta má úr einu skoti á eftir öðru þar til skotgeymir er tæmdur, með því að taka aðeins í gikkinn í hvert skipti sem skoti er hleypt af.

3. "Handhlaðin fjölskota haglabyssa eða riffill" er skotvopn þar sem skothylki er fært handvirkt úr skotgeymi í hlaup.

4. "Skammbyssa" er stutt skotvopn með hlauplengd allt að 30 sm og ekki meira en 60 sm að heildarlengd.

II. KAFLI

Veiting skotvopnaleyfa.

2. gr.

Almenn skilyrði.

Veita má leyfi fyrir skotvopnum til veiða, íþróttaiðkunar, starfa og til sýninga og söfnunar, samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar þessarar og vopnalaga nr. 16/1998. Umsækjandi skal gera grein fyrir því í hverju skyni sótt sé um leyfi. Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru:

1. Að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði.

2. Að hafa ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, vopnalaga eða laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

3. Að hafa nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigður og vera að öðru leyti hæfur til þess að fara með og eiga skotvopn.

Lögreglustjóri getur veitt leyfi fyrir skotvopni þó umsækjandi hafi brotið ákvæði laga þeirra, sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr., ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að brot var framið. Að liðnum tveimur árum frá því brot var framið getur þó lögreglustjóri veitt umsækjanda leyfi, enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum eða varðhaldi og ekki hafi verið um að ræða árásar- eða ofbeldisbrot, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, ítrekuð ölvunarbrot, brot á vopnalögum eða lögum um veiðar á villtum fulgum og villtum spendýrum.

 

3. gr.

Leyfð skotvopn.

Lögreglustjóra er heimilt að veita þeim er fullnægir skilyrðum 2. gr. leyfi fyrir eftirgreindum skotvopnum:

Flokkur A:

1. Haglabyssum nr. 12 og minni, þó eigi sjálfvirkum eða hálfsjálfvirkum.

2. Rifflum cal. 22 (long rifle og minni), þ.m.t. loftrifflum, þó eigi sjálfvirkum eða hálfsjálfvirkum.

Flokkur B:

Leyfi fyrir rifflum með hlaupvídd allt að cal. 30 og hálfsjálfvirkum haglabyssum skal ekki veitt nema sérstakar ástæður mæli með því, enda hafi umsækjandi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár.

Flokkur C:

Leyfi fyrir skotvopnum sem sérstaklega eru ætluð til minkaveiða eða meindýraeyðingar (t.d. skammbyssur fyrir haglaskot) má aðeins veita að fenginni umsögn veiðistjóra. Áskilið er að umsækjandi hafi haft aukin skotvopnaréttindi (B flokkur) í eitt ár. Slík leyfi vegna þeirra sem stunda minkaveiðar skal ekki veita til að eignast skotvopn heldur einungis til láns eða leigu. Lögreglustjóri skal senda slíkar umsóknir með umsögn sinni ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

Flokkur D:

Leyfi sem sérstaklega er veitt einstaklingi eða skotfélagi fyrir skammbyssum vegna íþróttaskotfimi sbr. 11. gr. Lögreglustjóri skal senda slíkar umsóknir með umsögn sinni ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

4. gr.

Skotvopn til íþróttaiðkunar.

Einstaklingur sem hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi, samkvæmt staðfestingu stjórnar félagsins, og uppfyllir skilyrði 2. gr. getur fengið leyfi til að eignast skotvopn samkvæmt ákvæðum III. kafla.

Heimilt er að veita viðurkenndu skotfélagi heimild til að eignast skotvopn samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar til notkunar við æfingar, leiðbeiningar eða keppni, enda tilnefni félagið mann, sem uppfyllir ákvæði 1. mgr., er beri ábyrgð á vörslu og ráðstöfun skotvopnanna ásamt stjórnendum félagsins.

5. gr.

Erfðir á skotvopnum.

Nú andast maður er hefur leyfi fyrir skotvopni og skal því þá innan 12 mánaða ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga sambærilegt skotvopn. Hafi svo ekki verið gert skal skotvopnið afhent lögreglu til geymslu þar til endanleg ráðstöfun þess verður ákveðin.

Maki, sem hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi, þarf leyfi lögreglustjóra fyrir skotvopni eða skotvopnum, sem hinn látni maki hafði leyfi fyrir.

Sé um að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- og tilfinningagildi fyrir erfingja hins látna er lögreglustjóra heimilt að víkja frá skilyrðum 2. gr. reglugerðarinnar, enda verði skotvopnið gert óvirkt.

6. gr.

Söfnun skotvopna.

Heimilt er að veita einstaklingum, samtökum og opinberum söfnum heimild til að eiga og varðveita skotvopn í söfnunarskyni samkvæmt V. kafla.

7. gr.

Skotvopn vegna atvinnu.

Lögreglustjóra er heimilt, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, að veita bændum, sem eru ábúendur á lögbýlum, og dýralæknum leyfi til að eiga hentugar hlaupstuttar einskota byssur (fjárbyssur) þó eigi stærri en cal. 22 til aflífunar búfjár, enda uppfylli þeir skilyrði 2. gr.

Leyfi fyrir skotvopnum samkvæmt 1. mgr. skal gefið út með þeim fyrirvara að það verði fellt niður, þegar þargreind skilyrði eru ekki lengur fyrir hendi.

III. KAFLI

Íþróttaskotfimi.

8. gr.

Viðurkenning skotfélags.

Félag sem hefur iðkun skotfimi að markmiði skal leita leyfis ríkislögreglustjóra.

Til að öðlast leyfi samkvæmt 1. mgr. skal félag uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. vera stofnað á sérstökum stofnfundi,

2. hafa skipulagsbundna stjórn,

3. hafa félagslög,

4. hafa að lágmarki 20 félagsmenn sem hafi skotvopnaleyfi,

5. vera aðili að Íþróttasambandi Íslands og

6. hafa kennitölu.

Í umsókn skal greina þá keppnisflokka sem fyrirhugað er að iðka innan félagsins.

Áður en umsókn um leyfi er endanlega afgreidd skal leita umsagnar lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi.

Uppfylli félag framangreind skilyrði gefur ríkislögreglustjóri út leyfi því til handa. Í þeirri viðurkenningu skulu koma fram þeir keppnisflokkar sem heimilt er að iðka innan félagsins.

9. gr.

Leyfð skotvopn.

Heimilt er að veita viðurkenndum skotfélögum og félagsmönnum þeirra leyfi fyrir skotvopnum til keppni í viðurkenndum keppnisflokkum samkvæmt I. viðauka reglugerðarinnar.

Skilyrði leyfis skv. 1. mgr. er að viðkomandi félag hafi tilkynnt að keppni í viðurkenndum keppnisflokki sé stunduð í félaginu.

10. gr.

Heimilir keppnisflokkar.

Skilyrði þess að keppnisflokkur hljóti viðurkenningu hér á landi er að hann sé meðal keppnisgreina Alþjóða skotsambandsins. Ríkislögreglustjóra er heimilt að viðurkenna aðra keppnisflokka hafi þeir verið iðkaðir hér á landi fyrir gildistöku reglugerðarinnar.

Sé óskað eftir viðurkenningu á nýjum keppnisflokki skal Skotsamband Íslands sækja um það til ríkislögreglustjóra.

Í umsókn um viðurkenningu skal koma fram:

1. Lýsing á keppnisflokkum.

2. Hvort um alþjóðlega keppnisgrein sé að ræða.

3. Lýsing á skotvopnum sem notuð eru innan flokksins.

11. gr.

Leyfi fyrir skammbyssu.

Einstaklingur sem óskar eftir leyfi til að eignast skammbyssu til iðkunar skotfimi (flokkur D) skal:

1. Hafa haft aukin skotvopnaréttindi skv. 3. gr. (flokkur B) í eitt ár,

2. vera virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi og hafa stundað reglulegar æfingar í viðurkenndum keppnisflokki í tvö ár og tekið þátt í landsmótum og/eða opnum mótum og ekki gerst brotlegur við umgengnis- og öryggisreglur félagsins. Framangreindar upplýsingar skulu staðfestar af stjórn félagsins þar sem fram komi upplýsingar um æfingar, keppni og ástundun umsækjanda.

Leyfi fyrir skammbyssu, þ.m.t. loftskammbyssu, skal gefið út með eftirfarandi skilyrðum:

1. Að skotvopnið verði einvörðungu notað við æfingar og keppni í viðurkenndum keppnisflokkum á viðurkenndum skotsvæðum skotfélaga.

2. Að skotvopnið sé annars geymt í traustum hirslum.

3. Að hætti umsækjandi iðkun skotíþrótta megi afturkalla leyfi.

Lögreglustjóri skal framsenda slíkar umsóknir með umsögn sinni til ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

12. gr.

Skotfimi yngri flokka.

Lögreglustjóra er heimilt að veita viðurkenndu skotfélagi leyfi til æfinga og keppni í yngri flokki (16-20 ára), enda tilnefni félagið sérstaka leiðbeinendur sem ábyrgð beri ásamt stjórn félagsins á viðkomandi flokki. Leiðbeinandi skal vera handhafi leyfis fyrir samskonar vopni og hann leiðbeinir um notkun á.

Leyfi samkvæmt 1. mgr. er bundið við eftirtalda flokka og vopn:

1. Riffill: markloftriffill, cal. 4,5.

2. Haglabyssa: tvíhleypt markhaglabyssa, nr. 12 eða minni.

3. Skammbyssa: markloftskammbyssa, cal. 4,5.

Leyfi samkvæmt grein þessari er bundið við æfingar og keppni á viðurkenndum skot-svæðum. Skotvopn samkvæmt ákvæði þessu skulu vera í eigu viðkomandi félags.

13. gr.

Varsla skotvopna og skotfæra.

Varsla skotvopna og skotfæra sem eru í eigu skotfélaga eða varðveitt í húsnæði þeirra skal vera með eftirfarandi hætti:

1. Skotvopn og skotfæri skulu vera í aðskildum læstum hirslum.

2. Húsnæði skal búið þjófavörn og vera beintengt efirlitsstöð.

Lögreglustjóra er heimilt að samþykkja vörslu með öðrum hætti enda telji hann öryggi fullnægjandi.

14. gr.

Leyfi til sölu boga.

Engum má selja boga, sbr. f. lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 nema með leyfi lögreglustjóra. Áður en lögreglustjóri veitir slíkt leyfi skal hann ganga úr skugga um að kaupandi stundi æfingar eða keppni í bogfimi hjá íþróttafélagi sem er aðili að Íþróttasambandi Íslands.

IV. KAFLI

Skotsvæði.

15. gr.

Æfingarsvæði.

Svæði sem fyrirhugað er að nota til æfinga eða keppni í skotíþróttum skal viðurkennt af lögreglustjóra áður en það er tekið í notkun. Gildir það bæði um skotsvæði utanhúss og skotvelli innanhúss.

16. gr.

Umsókn.

Sá sem óskar að taka í notkun svæði skv. 15. gr. skal sækja um leyfi til lögreglustjóra í því umdæmi þar sem svæðið er staðsett.

Í umsókninni um leyfi skal gefa nákvæmar upplýsingar um:

1. legu skotsvæðisins,

2. eignarhald á svæðinu og ef við á skal fylgja samþykki eiganda þess. Ef sveitarfélag er ekki eigandi svæðisins skal samþykki þess fylgja umsókn,

3. fyrirhugað skipulag svæðisins sem eftir atvikum skal sýnt með viðeigandi teikningum,

4. fyrirhugaða notkun svæðisins t.d. skotgreinar, skotvopn o.s.frv.,

5. öryggisráðstafanir sem fyrirhugað er að viðhafa á svæðinu. Ef um er að ræða skotsvæði innanhúss skal sérstaklega gera grein fyrir loftræstingu.

17. gr.

Athugun á skotsvæði.

Lögreglustjóri kannar að fengnum nauðsynlegum gögnum skv. 16. gr. hvort fyrirkomulag skotsvæðisins og þær öryggisráðstafanir sem þar eru gerðar eru fullnægjandi. Óheimilt er að taka svæði í notkun fyrr en könnunin hefur farið fram.

Ríkislögreglustjóri getur tilnefnt þrjá menn sem lögreglustjórum er heimilt að kalla sér til aðstoðar við viðurkenningu og úttekt á skotsvæðum.

Ríkislögreglustjóri getur sett frekari reglur um hvaða lágmarkskröfur skotsvæði skuli uppfylla.

18. gr.

Eftirlit með skotsvæðum.

Lögreglustjóri skal árlega gera úttekt á viðurkenndum skotsvæðum í umdæmi sínu til að ganga úr skugga um að þau fullnægi settum skilyrðum. Ef svæði uppfyllir ekki sett skilyrði skal lögreglustjóri banna notkun þess þar til úr hefur verið bætt og ný úttekt farið fram.

19. gr.

Tryggingar.

Áður en viðurkenning á skotsvæði er gefin út skal ábyrgðarmaður svæðisins leggja fram staðfestingu þess að ábyrgðartrygging hafi verið keypt vegna svæðisins.

V. KAFLI

Söfnun skotvopna.

20. gr.

Söfnunarleyfi.

Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingum, samtökum og opinberum söfnum leyfi til að eiga og varðveita skotvopn er hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra, tengsla þeirra við sögu landsins eða af öðrum sérstökum ástæðum.

Ef umsækjandi er lögaðili skal tilnefndur maður sem fullnægir skilyrðum 2. gr. sem ber ábyrgð á vörslu safnsins ásamt forsvarsmönnum þess.

21. gr.

Umsókn um söfnunarleyfi.

Í umsókn um söfnunarleyfi skal greina eftirfarandi:

1. Nafn, kennitölu og heimili umsækjanda og eftir atvikum ábyrgðarmanns skv. 20. gr.

2. Upplýsingar um skotvopnaleyfi umsækjanda.

3. Nákvæm tilgreining á skotvopnum sem fyrirhugað er að safna og hvernig þau uppfylli skilyrði 20. gr.

Með umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

1. Ljósrit skotvopnaleyfis umsækjanda eða eftir atvikum ábyrgðarmanns.

2. Listi yfir skotvopn sem umsækjandi áætlar að safna. Skulu koma fram upplýsingar um tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi, skotafjölda o.s.frv.

3. Áætlun um geymslu skotvopnasafnsins.

22. gr.

Meðferð umsóknar.

Sækja skal um leyfi til viðkomandi lögreglustjóra sem skal ásamt slökkviliðsstjóra gera úttekt á aðstöðu umsækjanda til geymslu og söfnunar skotvopnanna. Lögreglustjóri skal senda slíkar umsóknir með umsögn sinni til ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

23. gr.

Skilyrði söfnunarleyfis.

Umsækjandi um söfnunarleyfi skal fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

1. Hafa verið handhafi skotvopnaleyfis í a.m.k. fimm ár.

2. Hafa yfir að ráða fullnægjandi aðstöðu til varðveislu skotvopnanna.

3. Sækja fyrirfram um leyfi fyrir kaupum á skotvopnum í safnið og fá útgefna kaupheimild, sbr. 30. gr.

24. gr.

Varsla skotvopnasafns.

Skotvopnasafn skal varðveitt í læstum hirslum viðurkenndum af lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra. Skulu skotfæri varðveitt í aðskildum hirslum.

VI. KAFLI

Skotvopnaleyfi og skráning skotvopna.

25. gr.

Umsókn um skotvopnaleyfi.

Í umsókn um skotvopnaleyfi skal greina:

1. Fullt nafn, kennitölu og heimili umsækjanda.

2. Til hvaða nota skotvopnið er ætlað (veiðar, söfnun, skotfimi, meindýraeyðing, starf).

3. Hvort umsækjandi hafi hlotið refsidóm eða gengist undir sátt fyrir refsiverðan verknað sem varðað gæti synjun umsóknar.

4. Hvort fyrirhugað sé að nota skotvopnið við íþróttaskotfimi og skal þá tilgreina skotfélag það sem umsækjandi er félagsmaður í.

5. Aðrar upplýsingar samkvæmt ósk lögreglustjóra.

Í umsókn um að eignast skotvopn skal auk þeirra upplýsinga er getur í 1. mgr. tilgreina:

1. Tegund þess skotvopns sem umsækjandi hyggst eignast, svo og aðrar upplýsingar um það, þ.á m. hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda.

2. Hafi umsækjandi áður fengið leyfi fyrir skotvopni skal hann tilgreina hvar og hvenær það var útgefið og hvort það er í gildi.

3. Af hverjum umsækjandi hyggst kaupa skotvopnið.

Með umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

1. Sakavottorð.

2. Læknisvottorð.

3. Skotvopnaleyfi umsækjanda hafi hann slíkt leyfi.

4. Önnur gögn er lögreglustjóri óskar eftir.

5. Ef um er að ræða skotvopn til iðkunar íþróttaskotfimi skal fylgja staðfesting stjórnar viðkomandi skotfélags á því að umsækjandi fullnægi skilyrðum III. kafla.

Ef umsækjandi er einstaklingur skal umsókn send lögreglustjóra í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili.

Ef umsækjandi er stofnun eða félag skal umsókn send lögreglustjóra í umdæmi þar sem félagið er skráð eða þar sem stofnunin hefur starfsstöð. Í umsókn skal tilgreina notanda eða notendur og ábyrgðarmann skotvopnsins. Sé umsækjandi skotfélag skal umsókn undirrituð af stjórn félagsins og skal í henni tilgreina þá viðurkenndu skotgrein sem ætlunin er að nota skotvopnið í.

26. gr.

Meðferð umsóknar.

Lögreglustjóri skal leita allra nauðsynlegra upplýsinga um umsækjanda, svo sem með því að kanna annan sakaferil hans en samkvæmt sakaskrá.

Hyggist umsækjandi kaupa notað skotvopn skal lögreglustjóri ganga úr skugga um að skráning þess skotvopns sé í skotvopnaskrá og bera hana saman við skráningu á umsókn.

27. gr.

Námskeið og próf.

Ef lögreglustjóri telur, eftir að hafa kannað umsókn og fylgigögn og önnur þau atriði sem hann telur nauðsynleg, að til greina komi að veita umbeðið leyfi skal umsækjandi sækja námskeið í notkun og meðferð skotvopna og standast próf að námskeiði loknu.

Ríkislögreglustjóri annast framkvæmd námskeiða og prófa, setur jafnframt reglur um framkvæmd námskeiða og annast gerð kennsluefnis. Ríkislögreglustjóra er heimilt að fela öðrum framkvæmd námskeiða.

28. gr.

Útgáfa skotvopnaleyfa.

Uppfylli umsækjandi um skotvopnaleyfi skilyrði 2. gr. og standist próf skv. 26. gr. skal lögreglustjóri gefa út skotvopnaleyfi. Skotvopnaleyfi skal vera skriflegt. Í því skal tilgreina nafn, kennitölu og heimilisfang leyfishafa. Þar skal vera nýleg mynd af leyfishafa. Einnig skal tilgreina nákvæmlega hvers konar skotvopn leyfishafa er heimilt að nota. Í skotvopnaleyfi skal skrá öll skotvopn í eigu leyfishafa, sbr. 31. gr.

29. gr.

Kaup á skotvopni.

Fallist lögreglustjóri á að veita skotvopnaleyfishafa leyfi til að eignast skotvopn gefur hann út heimild (kaupheimild) til umsækjanda. Í kaupheimild skal nákvæmlega tilgreina hvaða skotvopn umsækjandi megi kaupa og af hverjum.

30. gr.

Sala á skotvopni.

Seljanda er óheimilt að selja öðrum skotvopn eða selja önnur skotvopn en greinir í kaupheimild. Seljanda ber að árita þrjú eintök kaupheimildar sem staðfestingu á því að hann hafi selt kaupanda tilgreint skotvopn.

Frumrit kaupheimildar ber kaupanda að senda til lögreglustjóra sem skráir söluna þá þegar í skotvopnaskrá og gefur út skotvopnaleyfi. Selji einstaklingur sem hefur skotvopnaleyfi skotvopn, skal seljandi senda lögreglustjóra skotvopnaleyfi sitt og skal hann eyðileggja það og gefa út nýtt, án sérstaks endurgjalds.

Öðru eintaki kaupheimildar heldur kaupandi og gildir það eintak sem leyfi fyrir tilgreindu skotvopni til bráðabirgða í allt að fjórar vikur frá útgáfu heimildar. Þriðja eintaki heldur seljandi.

Ef kaupandi er verslun sem hefur heimild til að versla með skotvopn skal sótt um kaupheimild til viðkomandi lögreglustjóra með sama hætti og ef um einstakling er að ræða en kaupaheimild skal vera án endurgjalds. Ber seljanda að senda skotvopnaleyfi sitt til lögreglustjóra til ógildingar og endurútgáfu skv. 2. mgr.

Ákvæði þessa kafla eiga við þótt eigandaskipti verði á skotvopni með öðrum hætti en sölu.

31. gr.

Skráning í skotvopnaleyfi.

Lögreglustjóri gefur út skotvopnaleyfi í samræmi við kaupheimild jafnskjótt og hann hefur móttekið hana áritaða af seljanda.

Í skotvopnaleyfi skal þá tilgreina:

1. Nafn, kennitölu og lögheimili leyfishafa. Einnig skal greina nafn, kennitölu og heimili ábyrgðarmanns ef við á.

2. Tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda.

3. Notkun skotvopnsins (veiðar, skotfimi, söfnun, atvinna o.s.frv.).

4. Útgefanda.

5. Útgáfudag og síðasta endurútgáfudag ef við á.

6. Númer leyfis í töluröð á landsvísu.

Lögreglustjóri getur sett sérstök skilyrði fyrir útgáfu leyfis telji hann þess þörf.

Gildistími skotvopnaleyfis skal vera 10 ár frá útgáfudegi. Lögreglustjóra er heimilt ef sérstaklega stendur á að gefa leyfi út til skemmri tíma.

32. gr.

Endurnýjun skotvopnaleyfis.

Sá sem óskar endurnýjunar skotvopnaleyfis skal senda umsókn þess efnis til lögreglustjóra. Við endurnýjun skal lögreglustjóri ganga úr skugga um að umsækjandi fullnægi skilyrðum laga til að fá útgefið skotvopnaleyfi.

Skotvopnaleyfi skal endurútgefa í hvert sinn sem skotvopnaeign leyfishafa breytist.

Hafi skotvopnaleyfi glatast er heimilt að gefa út samrit þess til jafnlangs tíma.

VII. KAFLI

Meðferð og vörslur skotvopna og skotfæra.

33. gr.

Meðferð og vörslur.

Eigendur eða umráðahafar skotvopna og skotfæra skulu ábyrgjast vörslur þeirra og sjá svo um, að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Í því skyni skal húsnæði sem geymir skotvopn og skotfæri ávallt læst ef íbúar eru fjarverandi. Við lengri fjarveru skal auk þess sem að framan greinir gera skotvopn óvirkt t.d. með því að fjarlægja af því nauðsynlega hluta aðra en láshús.

Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn og skotfæri geymd í aðskildum, læstum hirslum.

Lögreglustjóra er heimilt að setja skotvopnaleyfishafa sérstök skilyrði um geymslu og varðveislu skotvopna og skotfæra.

Hámarksmagn skotfæra sem einstaklingi er heimilt að kaupa og geyma hverju sinni er 500 skot. Lögreglustjóra er heimilt að veita undanþágu frá þessu hámarki ef viðkomandi hefur yfir að ráða sérútbúinni geymslu eða skáp.

Ef einstaklingur á fleiri en þrjú skotvopn er honum skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra.

34. gr.

Notkun skotvopna.

Skráður eigandi skotvopns hefur einn heimild til að nota það með þeim undantekningum sem greinir í þessum kafla.

35. gr.

Lánsheimild leyfishafa.

Skráður eigandi skotvopns hefur heimild til að lána það hverjum sem hefur leyfi til að nota sams konar skotvopn.

Lánsheimild skal vera skrifleg og með undirskrift beggja aðila. Í lánsheimild skal greina eftirfarandi:

1. Nafn, kennitölu og heimili lántaka og eiganda skotvopnsins.

2. Númer skotvopnaleyfis eiganda skotvopnsins.

3. Tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda viðkomandi skotvopns.

4. Fyrirhugaða notkun skotvopnsins.

5. Útgáfudag og gildistíma lánsheimildar.

Ef skotvopn er lánað um lengri tíma en fjórar vikur skal það tilkynnt lögreglustjóra. Skal í þeirri tilkynningu tilgreina sömu upplýsingar og fram koma í 2. mgr. Skal það skráð í skotvopnaskrá. Er lögreglustjóra heimilt að gefa út nýtt skotvopnaleyfi til eiganda skotvopns og lánþega sem kemur í stað lánsheimildar skv. 2. mgr. Í slíku leyfi til eiganda skotvopns skal geta lánþega en í skotvopnaleyfi lánþega skal geta eiganda skotvopnsins.

Sé skotvopn afhent til viðgerðar eða sölu skal það gert skriflega samkvæmt 2. mgr. Viðgerðar- eða söluaðili skal senda lögreglustjóra tilkynningu um móttöku og afhendingu vopna.

Sá sem fær skotvopn að láni ábyrgist vörslu þess meðan skotvopnið er í umsjá hans. Skal hann ávallt bera skriflega lánsheimild samkvæmt ákvæði þessu og sýna hana sé þess óskað.

36. gr.

Lánsheimild skotfélags.

Heimilt er viðurkenndum skotfélögum sem fengið hafa leyfi til að eiga skotvopn skv. 8. gr. að lána skotvopn til afnota við æfingar og keppni í viðurkenndum keppnisflokkum á viðurkenndum skotsvæðum.

Hafi viðkomandi ekki skotvopnaleyfi er heimilt að lána honum skotvopn enda noti hann það undir eftirliti ábyrgðarmanns sem skotfélag hefur tilnefnt.

Lán samkvæmt ákvæði þessu verða einungis veitt vegna tiltekinnar æfingar eða keppni.

Lán samkvæmt ákvæði þessu skulu skráð í sérstaka bók. Í bók þessari skal greina eftirfarandi upplýsingar:

1. Nafn og kennitölu lántakanda.

2. Tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda hins lánaða skotvopns.

3. Dagsetningu láns skotvopns og hvenær því var skilað.

4. Kvittun ábyrgðarmanns og lántakanda.

VIII. KAFLI

Framleiðsla skotvopna, skotfæra o.fl.

37. gr.

Leyfi til framleiðslu.

Enginn má framleiða skotvopn eða skotfæri í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Með framleiðslu er átt við tilbúning, samsetningu, endurbætur og viðgerðir á skotvopnum.

Ef umsækjandi er einstaklingur sem hyggst framleiða vopn til eigin nota skal hann sækja um leyfi á eyðublaði fyrir skotvopnaleyfi. Skal umsækjandi vera handhafi skotvopnaleyfis. Lögreglustjóri skal framsenda slíkar umsóknir með umsögn sinni til ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

38. gr.

Skilyrði framleiðsluleyfis.

Leyfi samkvæmt þessum kafla má aðeins veita þeim einstaklingum sem hafa skotvopnaleyfi og uppfylla kröfur reglugerðarinnar um hæfni til framleiðslunnar og aðbúnað á framleiðslustað.

Sé umsækjandi félag eða firma skal það vera skráð og tilnefna einn mann eða fleiri er uppfylla skilyrði 1. mgr. til að annast framleiðsluna.

39. gr.

Umsóknin og meðferð hennar.

Umsókn skal undirrituð af umsækjanda og eftir atvikum ábyrgðarmanni. Í henni skal greina eftirfarandi:

1. Fullt nafn, kennitölu og heimili umsækjanda.

2. Fullt nafn, kennitölu og heimilisfang ábyrgðarmanns framleiðslunnar.

3. Hvað fyrirhugað er að framleiða.

4. Þeim faglegu kröfum sem umsækjandi, ábyrgðarmaður eða starfsmenn búa yfir vegna fyrirhugaðrar framleiðslu.

5. Aðstæður á framleiðslustað. Gera skal grein fyrir öryggisráðstöfunum á framleiðslustað til að fyrirbyggja þjófnað, eldsvoða, sprengingar og önnur óhöpp.

40. gr.

Meðferð umsóknar og útgáfa leyfis.

Ríkislögreglustjóri sendir umsóknina lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi, sem aflar umsagnar Vinnueftirlits ríkisins, slökkviliðsstjóra eða annarra þeirra aðila er með brunamál fara og annarra yfirvalda telji hann þess þörf.

Að fengnum umsögnum sendir lögreglustjóri umsóknina á ný til ríkislögreglustjóra ásamt umsögn sinni og tillögum um hvort leyfi skuli gefið út. Skal lögreglustjóri sérstaklega gera grein fyrir hæfni ábyrgðarmanns framleiðslunnar.

Ríkislögreglustjóri ákveður á grundvelli framangreindra umsagna hvort leyfi skuli gefið út. Í leyfi skal greina eftirfarandi:

1. Nafn, kennitölu og heimili leyfishafa og eftir atvikum ábyrgðarmanns framleiðslunnar.

2. Staðsetningu framleiðslunnar.

3. Hvað fyrirhugað er að framleiða.

4. Skilyrði sem sett eru fyrir framleiðslunni.

41. gr.

Skyldur framleiðanda.

Framleiðanda ber að fylgja fyrirmælum lögreglu um framleiðslu.

Framleiðanda samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að ráðstafa framleiðslu sinni með eftirfarandi hætti:

1. Til þeirra er hafa leyfi til verslunar með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda, enda verði framvísað gildu leyfi.

2. Til þeirra er framvísa gildri kaupheimild skv. 27. gr. með áritun lögreglustjóra um samþykki fyrir kaupunum.

Framleiðandi skal halda skrá samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra yfir framleiðsluvörur sínar og ráðstöfun þeirra. Sé um að ræða skotvopn skal frumskrá þau í skotvopnaskrá sem eign framleiðanda. Tilkynna skal ríkislögreglustjóranum þegar sala fer fram til þeirra er hafa leyfi til verslunar með skotvopn og skotfæri.

Framleiðandi skal geyma framleiðslu og hráefni við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra að því er varðar öryggi s.s. gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða o.s.frv. Skal framleiðandi m.a. vera tengdur eftirlitsmiðstöð eftir því sem unnt er.

Framleiðanda er heimilt að taka sýnishorn framleiðslu úr geymslum sínum til prófunar eða sýningar, enda sé þess getið í skrá skv. 3. mgr.

42. gr.

Framleiðsla til eigin nota.

Handhafa skotvopnaleyfis er heimilt með leyfi lögreglustjóra að hlaða skothylki til eigin nota í þau skotvopn sem viðkomandi hefur leyfi fyrir, enda sé að öðru leyti heimilt að nota slík skotfæri hér á landi. Aðeins má veita þeim leyfi, sem að mati lögreglustjóra hefur nægilega þekkingu til þess að hlaða skothylki og fara með hleðslubúnað, enda hafi hann haft aukin skotvopnaréttindi skv. 3. gr. (flokkur B) og gengist undir námskeið í hleðslu skotfæra samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra.

Leyfi skv. 1. mgr. (flokkur E) gefur jafnframt heimild til kaupa á púðri, hvellhettum og skothylkjum samkvæmt nánari ákvörðun lögreglustjóra.

Um varðveislu á sprengjanlegum efnum svo sem púðri fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni.

IX. KAFLI

Inn- og útflutningur skotvopna og skotfæra.

43. gr.

Innflutningsleyfi.

Enginn má flytja til landsins skotvopn eða skotfæri nema með leyfi ríkislögreglustjóra. Hið sama gildir um einstaka hluta skotvopna og skotfæra.

Sé umsækjandi einstaklingur, sem hyggst flytja inn skotvopn til eigin nota, skal hann sækja um innflutningsleyfi á eyðublaði fyrir skotvopnaleyfi til lögreglustjóra. Skal umsækjandi vera handhafi skotvopnaleyfis. Heimilt er að veita sama einstaklingi slíkt leyfi fyrir mest tveimur vopnum á ári. Að öðru leyti gilda um innflutninginn ákvæði reglugerðarinnar um leyfi fyrir viðkomandi skotvopni, þ.m.t. um skráningu skotvopns og útgáfu skotvopnaleyfis. Lögreglustjóri skal framsenda umsóknina til ríkislögreglustjóra til ákvörðunar ásamt umsögn sinni um hana.

Ríkislögreglustjóra er heimilt að ákveða hámarksmagn skotfæra sem einstaklingi er heimilt að flytja til landsins.

Sé umsækjandi handhafi leyfis til innflutnings eða verslunar með skotvopn og skotfæri skal leyfi bundið við tiltekið magn og gerðir skotvopna og skotfæra. Í umsókn til ríkislögreglustjórans skal greina:

1. Nafn, kennitölu og heimili umsækjanda.

2. Gerð, tegund og stærð þess sem fyrirhugað er að flytja inn.

3. Magn þess sem fyrirhugað er að flytja inn.

4. Nafn og heimili seljanda.

5. Áætlun um fyrirhugaðan flutning (flutningsleið, brottfarar- og komudag).

Leyfi til innflutnings á skotvopnum og skotfærum gildir í sex mánuði. Afrit leyfis skal sent lögreglustjóra.

44. gr.

Tollafgreiðsla.

Óheimilt er að tollafgreiða eftirtaldar vörur nema innflytjandi leggi fram við tollafgreiðslu innflutningsleyfi ríkislögreglustjóra, vörureikning sem lögreglustjóri hefur samþykkt til innflutnings og eftir atvikum tilflutningsleyfi skv. 10. gr. tilskipunar ráðsins nr. 93/15/EBE frá 15. apríl 1993 um samhæfingu ákvæða um markaðssetningu og eftirlit með sprengiefnum til almennra nota:

1. Skotvopn og hluta þeirra, sbr. 93. kafla tollskrár.

2. Skotfæri og hluta til þeirra eða efni til skotfæragerðar, sbr. tollskrárnúmer 3601.0000 (púður til skotfæragerðar) og 93. kafla tollskrár (tóm skothylki).

3. Vopn er falla undir tollskrárnúmer 9307.0000.

4. Örvarboga og örvar, sbr. tollskrárnúmer 9506.0000.

Innflytjandi skal sækja um áritun vörureiknings til lögreglustjóra. Skal með umsókninni fylgja innflutningsleyfi ríkislögreglustjóra. Skal í umsókninni tilgreina tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda þeirra skotvopna sem fyrirhugað er að tollafgreiða. Lögreglustjóri skal á grundvelli þess frumskrá skotvopnin í skotvopnaskrá sem eign innflytjanda.

45. gr.

Innflutningur á skammbyssum.

Innflutningur skammbyssa er óheimill án leyfis ríkislögreglustjóra.

Hyggist einstaklingur eða lögaðili flytja inn skammbyssur skal sótt um leyfi ríkislögreglustjóra áður en pöntun er gerð og skal í umsókn tilgreina nákvæmlega um hvers konar skammbyssur er að ræða og í hvaða skyni fyrirhugað er að flytja þær inn.

Óheimilt að leyfa innflutning á öðrum skammbyssum en þeim er nota má í viðurkenndum flokki skotíþrótta eða til atvinnu samkvæmt 14. gr. vopnalaga.

46. gr.

Skammtímadvöl.

Heimilt er að veita einstaklingum búsettum erlendis, sem dveljast hér á landi í allt að þremur mánuðum leyfi til að flytja til landsins skotvopn til eigin nota með eftirgreindum skilyrðum:

1. Að viðkomandi fullnægi skilyrðum íslenskra laga til að mega eiga skotvopn.

2. Að hann hafi skotvopnaleyfi útgefið í heimalandi sínu.

3. Að hann leggi fram meðmæli tveggja manna búsettra hér á landi.

4. Að einvörðungu verði um að ræða skotvopn sem heimilt er að flytja inn skv. íslenskum lögum.

Í umsókn skal umsækjandi tilgreina eftirfarandi:

1. Fullt nafn, fæðingardag, fæðingarár, ríkisfang og heimilisfang í heimalandi og hérlendis meðan á dvöl stendur.

2. Hvar og í hvaða skyni hann hyggst nota skotvopnið.

3. Tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, modelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda þeirra skotvopna er hann hyggst flytja með sér til landsins.

4. Tegund og magn skotfæra ef við á.

5. Áætlaðan komudag og brottfarardag.

Með umsókn skal umsækjandi senda staðfest endurrit eða ljósrit af skotvopnaleyfi sínu. Sé um að ræða skotvopn til nota í skotkeppni skal umsækjandi framvísa keppnisboði viðurkennds íslensks skotfélags.

Ríkislögreglustjóri gefur út leyfi samkvæmt þessari grein. Leyfin skulu vera skrifleg og tilgreina þær upplýsingar er fram koma í 2. mgr. Ríkislögreglustjóri tilkynnir tollayfirvöldum um útgáfu leyfa.

Leyfishafa er skylt að framvísa vopnum þessum til skráningar hjá tollayfirvöldum við komu til landsins og við brottför frá landinu. Tollayfirvöld skulu tilkynna ríkislögreglustjóra um skráninguna hverju sinni.

47. gr.

Útflutningur skotvopna og skotfæra.

Enginn má flytja úr landi skotvopn eða skotfæri nema með leyfi ríkislögreglustjóra.

Í umsókn um leyfi til útflutnings skal greina:

1. Nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda,

2. nafn og heimili kaupanda eða viðtakanda (ákvörðunarstaður sendingar),

3. gerð, tegund og stærð þess sem fyrirhugað er að flytja út,

4. magn þess sem fyrirhugað er að flytja út,

5. flutningsmáta og

6. brottfarardag og áætlaðan komudag.

Í leyfi til útflutnings skal greina sömu upplýsingar og greinir í 2. mgr. Útflutningsleyfi skal sent tollayfirvöldum.

Sé um að ræða útflutning í atvinnuskyni til vopnasala/vopnaframleiðanda á Evrópska efnahagssvæðinu er heimilt að gefa leyfið út til þriggja ára og gildir það sem leyfi skv. 10. gr. tilskipunar ráðsins nr. 93/15/EBE frá 15. apríl 1993 um samhæfingu ákvæða um markaðssetningu og eftirlit með sprengiefnum til almennra nota. Áður en útflutningur á sér stað hverju sinni skal leyfishafi gefa ríkislögreglustjóra upplýsingar um þau atriði er greinir í 2. mgr.

48. gr.

Skammtímadvöl erlendis.

Einstaklingur sem hyggst dveljast erlendis í skemmri tíma en þrjá mánuði getur með leyfi ríkislögreglustjóra flutt með sér skráð skotvopn til persónulegra nota við veiðar eða skotkeppni ásamt hæfilegu magni skotfæra.

Í leyfi skv. 1. mgr. skal greina:

1. nafn, heimili og kennitölu viðkomandi auk fyrirhugaðs dvalarstaðar og brottfarardag og áætlaðan komudag aftur til landsins,

2. tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, modelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi og skotafjölda skotvopna,

3. magn skotvopna og skotfæra.

Með sama hætti er heimilt að veita forsvarsmönnum viðurkennds skotfélags heimild til útflutnings á skotvopnum til keppni.

Útgefið leyfi skal sent tollayfirvöldum sem skulu tilkynna ríkislögreglustjóra um að útflutningur hafi farið fram og eins þegar vopnið kemur aftur til landsins.

49. gr.

Skyldur inn- og útflytjanda.

Leyfishafi skal halda skrá samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra yfir vörur sínar og ráðstöfun þeirra.

Leyfishafi skal geyma vörur sínar við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra að því er varðar öryggi s.s. gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða o.s.frv. Skal húsnæði leyfishafa m.a. vera tengt eftirlitsmiðstöð eftir því sem unnt er.

 

X. KAFLI

Verslun og leiga með skotvopn og skotfæri.

50. gr.

Skilyrði leyfis.

Umsækjandi um leyfi til verslunar með skotvopn og skotfæri skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Hafa verslunarleyfi,

2. hafa skotvopnaleyfi eða sérþekkingu á þeim vörum sem hér um ræðir.

Sé umsækjandi fyrirtæki eða félag skal það einnig uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Vera skrásett í fyrirtækjaskrá,

2. tilnefna ábyrgðarmann sem uppfyllir skilyrði 2. tölul. 1. mgr.

Umsækjandi skal hafa yfir að ráða húsnæði sem uppfyllir skilyrði brunamálayfirvalda um öryggi. Jafnframt skal húsnæðið þannig úr garði gert að það, að mati lögreglustjóra, sé svo tryggt gegn innbrotum sem unnt er s.s. með tengingu við eftirlitsmiðstöð.

51. gr.

Leyfisumsókn.

Leyfi til verslunar með skotvopn og skotfæri er gefið út af ríkislögreglustjóra.

Með umsókn um leyfi til verslunar með skotvopn og skotfæri skulu fylgja eftirtalin gögn:

1. verslunarleyfi á nafni umsækjanda,

2. staðfesting á skráningu umsækjanda í fyrirtækjaskrá ef við á,

3. samþykki ábyrgðarmanns ef við á og

4. skotvopnaleyfi umsækjanda eða ábyrgðarmanns eða eftir atvikum staðfesting á sérþekkingu hans.

Ríkislögreglustjóri leitar umsagnar lögreglustjóra í því umdæmi sem fyrirhugað er að reka verslunina. Skal hann leggja mat á umsækjanda og húsnæði hans m.t.t. öryggis gagnvart innbrotum. Lögreglustjóri aflar umsagnar slökkviliðsstjóra eða annarra þeirra er með brunamál fara og skulu þeir leggja sérstakt mat á öryggi húsnæðis m.t.t. brunavarna og sprengihættu.

52. gr.

Skyldur leyfishafa.

Leyfishafi skal halda skrá samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra yfir vörur sínar og ráðstöfun þeirra. Kaupandi skotfæra skal kvitta fyrir móttöku þeirra.

Skotvopn sem verslun kaupir af innlendum framleiðanda skal skrá í skotvopnaskrá sem eign verslunaraðila. Kaupandi skal tilkynna ríkislögreglustjóra um að kaupin hafi farið fram.

Leyfishafi skal geyma vörur sínar við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra að því er varðar öryggi s.s. gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða o.s.frv. Húsnæði leyfishafa skal m.a. vera tengt eftirlitsmiðstöð eftir því sem unnt er.

Ríkislögreglustjóra er heimilt að banna ákveðnar tegundir skotfæra.

53. gr.

Skotvopnaleiga.

Um rekstur skotvopnaleigu gilda ákvæði þessa kafla eftir því sem við á.

Beiðni um lán á skotvopni skal vera skrifleg og berast skotvopnaleigu a.m.k. einni viku áður en vopn er afhent leigutaka. Með beiðni skal fylgja skotvopnaleyfi leigutaka. Leigusali skal leita heimildar lögreglustjóra til þess að leigja viðkomandi einstaklingi tilgreint vopn.

Ríkislögreglustjóra er heimilt að setja frekari reglur um leigu á skotvopnum.

Ákvæði þetta gildir ekki um lán viðurkenndra skotfélaga á skotvopnum til félagsmanna til notkunar á viðurkenndum skotsvæðum.

XI. KAFLI

Skráning upplýsinga.

54. gr.

Landsskrá skotvopna.

Haldin skal skotvopnaskrá er nær til landsins alls.

Í skotvopnaskrá skulu skráðar upplýsingar um:

1. Skotvopnaleyfishafa þar sem fram komi nafn, kennitala og heimilisfang,

2. skotvopn hvers leyfishafa tilgreind með tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti, módelheiti, eintaksnúmer, lásgerð, hlauplengd, heildarlengd, skotgeymi, skotafjölda o.fl.,

3. útgáfudag hvers skotvopnaleyfis og dagsetningu endurútgáfu,

4. afturköllun skotvopnaleyfis,

5. leyfðar breytingar á skotvopni,

6. skotvopn sem flutt eru inn og út frá Íslandi skv. IX. kafla og

7. leyfi til hleðslu skotfæra.

55. gr.

Skrá yfir inn-, útflytjendur og framleiðendur.

Ríkislögreglustjóri skal halda skrá um inn-, útflytjendur og framleiðendur skotvopna og skotfæra.

Ríkislögreglustjóri skal halda skrá yfir útgefin leyfi til skammtíma inn- og útflutnings skotvopna og skotfæra samkvæmt reglugerð þessari.

XII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

56. gr.

Synjun umsókna.

Komi til greina að synja umsókn samkvæmt reglugerð þessari skal gefa umsækjanda kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sé umsókn samkvæmt reglugerð þessari synjað skal það gert skriflega og skal synjunin rökstudd. Gera skal grein fyrir því að kæra megi synjunina til æðra stjórnvalds innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Skal viðkomandi tilkynnt í hverju tilviki hvert æðra stjórnvald er.

57. gr.

Eftirlit lögreglu.

Lögregla hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Í því skyni er henni m.a. heimilt eftirfarandi:

1. Skoða skrár leyfishafa samkvæmt reglugerð þessari um ráðstöfun skotvopna og skotfæra.

2. Að skoða húsnæði þar sem skotvopn eða skotfæri eru varðveitt.

58. gr.

Afturköllun leyfis.

Leyfi samkvæmt reglugerð þessari getur leyfisveitandi afturkallað ef ekki teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, leyfishafi hefur ekki farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni eða tæki sem leyfið tekur til.

Þegar um er að ræða skotvopnaleyfi skal lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfishafi á lögheimili taka ákvörðun um leyfissviptingu, án tillits til þess hvar leyfið var upphaflega gefið út.

Leyfisveitanda er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án þess að með mál sé farið samkvæmt reglum stjórnsýslulaga enda sé hætta á tjóni fyrir menn eða muni.

59. gr.

Refsingar.

Brot á reglum þessum varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

60. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í vopnalögum nr. 16 25. mars 1998 og með hliðsjón af XXIX. kafla II. viðauka EES-samningsins (tilskipun 93/15/EBE) öðlast gildi 1. janúar 1999.

Með reglugerð þessari er felld úr gildi reglugerð um skotvopn og skotfæri nr. 16 20. janúar 1978 með síðari breytingum.

EB gerðin sem vísað er til er birt í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 3, bls. 663-679.

Ákvæði til bráðabirgða

Þrátt fyrir 2. tölul. viðauka reglugerðarinnar er heimilt að keppa í þeim greinum skotfimi er þar greinir fyrir skammbyssur allt að cal. 45, enda sé um að ræða skráð skotvopn sem flutt hafa verið til landsins fyrir gildistöku reglugerðarinnar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 21. desember 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Björg Thorarensen.

 

VIÐAUKI.

Viðurkenndar keppnisgreinar í skotfimi.

Í viðauka þessum greinir þær skotíþróttagreinar sem viðurkenndar eru á Íslandi og þau skotvopn sem notuð eru í hverri grein.

1.Skotgreinar Alþjóða skotsambandsins.

Skotgrein

Tegund skotvopns

Hlaupvídd

Fjöldi skota

300 m: þríþraut

riffill

allt að 8 mm

1

300 m: liggjandi

riffill

allt að 8 mm

1

300 m, staðlaður:þríþraut

riffill

allt að 8 mm

1

50 m: þríþraut

riffill

cal. 22

1

50 m: liggjandi

riffill

cal. 22

1

50 m running target

riffill

cal. 22

1

10 m: loftriffill

loftriffill

4.5 mm

1

10 m running target

loftriffill

4.5 mm

1

50 m frjáls

skammbyssa

cal. 22

5

25 m rapid fire

skammbyssa

cal. 22

5

25 m gróf

skammbyssa

7.62 mm-9.65 mm

5

25 m stöðluð

skammbyssa

cal. 22

5

25 m sport

skammbyssa

cal. 22

5

10 m loftskotvopn

skammbyssa

4.5 mm

1

Gildra (trap)

haglabyssa

nr. 12

2

Sjálfvirk gildra (trap)

haglabyssa

nr. 12

2

Tvöföld gildra (trap)

haglabyssa

nr. 12

2

Skeet

haglabyssa

nr. 12

2

1.Aðrar viðurkenndar keppnisgreinar.

Silhouette

riffill

allt að cal. 30

5

Silhouette

skammbyssa

allt að cal. 22

5

Bench rest

riffill

allt að cal. 30

1

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica