Landbúnaðarráðuneyti

449/2002

Reglugerð um útflutning hrossa.

I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.

Reglugerðin gildir um útflutning hrossa. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að skoðun fari fram á útflutningshrossum, hestavegabréf fylgi þeim og að aðbúnaður útflutningshrossa sé fullnægjandi.


2. gr.

Í þessari reglugerð hafa eftirtalin orð eftirfarandi merkingu:
Embættisdýralæknir: Yfirdýralæknir, héraðsdýralæknir eða eftirlitsdýralæknir.

Útflutningshöfn: Höfn, flugvallarsvæði eða annað það svæði þar sem útflutningsskoðun fer fram.


II. KAFLI
Um flutning útflutningshrossa.
3. gr.

Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa. Útflutningshross skulu vera á aldrinum fjögurra mánaða til fimmtán vetra. Þó má flytja úr landi eldri kynbótahross en þá einungis með flugvélum. Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur. Áður en folöld eru flutt úr landi ber að hafa þau á gjöf í að minnsta kosti í 10 daga. Folöld má ekki flytja í stíum með fullorðnum hrossum nema þegar folald er flutt sér í stíu með móður sinni.


4. gr.

Landbúnaðarráðherra getur krafist þess, að fengnum tillögum yfirdýralæknis að dýralæknir sé um borð í flutningsfari og hafi yfirumsjón með gæslu hrossa í flutningi.

Flutningsför sem notuð eru til útflutnings hrossa skulu fullnægja þeim fyrirmælum um aðbúnað hrossa sem sett eru í þessari reglugerð, kröfum innflutningslands og stöðlum IATA (International Air Transport Association).

Óheimilt er að flytja hross frá Íslandi með sama farartæki og samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Ef um er að ræða farartæki sem áður hafa verið notuð til flutnings á erlendum dýrum skal stjórnandi farartækisins skýra hlutaðeigandi lögreglustjóra eða tollstjóra frá því og skal farartækið þá sótthreinsað á kostnað eiganda þess samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis og skal það gert áður en farartækið kemur í íslenska höfn.

Áður en hross eru flutt um borð í flutningsfar skal viðkomandi embættisdýralæknir fullvissa sig um að allur útbúnaður og sótthreinsun flutningatækis sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Óheimilt er að nota erlent hey eða hálm í farartækjum sem flytja hross frá Íslandi.


III. KAFLI
Um kynbótamat, stofnverndarsjóð o.fl.
5. gr.

Fagráð í hrossarækt, sem starfar skv. 4. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, skal árlega ákveða mörk kynbótamats sem hross þarf að hafa til að teljast úrvalskynbótagripur. Sé áformað að selja úr landi hross sem hefur kynbótamat yfir þeim mörkum skal það tilkynnt Bændasamtökum Íslands án tafar. Bændasamtök Íslands skulu halda sérstaka skrá yfir úrvalskynbótagripi sem fluttir eru úr landi.


6. gr.

Af hverju útfluttu hrossi skal greiða 500 kr. gjald í stofnverndarsjóð sbr. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Bændasamtök Íslands annast innheimtu gjaldsins og skal það greitt samhliða gjaldi vegna útgáfu hestavegabréfs.


7. gr.

Landbúnaðarráðherra skipar fimm manna ráðgjafarnefnd um málefni er snerta útflutning hrossa og skal hún jafnframt vera samráðsvettvangur stjórnvalda og þeirra sem að þeim málum vinna. Bændasamtök Íslands, félag hrossabænda, yfirdýralæknir og félag hrossaútflytjenda tilnefna menn í nefndina en ráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.


IV. KAFLI
Skoðun og merking útflutningshrossa.
8. gr.

Óheimilt er að flytja hross úr landi nema embættisdýralæknir á útflutningshöfn hafi skoðað það og metið hæft til útflutnings með tilliti til dýraverndar og smitsjúkdóma og staðfest að það sé rétt merkt og uppfylli kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi.

Óheimilt er að flytja úr landi hross sem eru mögur og illa útlítandi, illa hirt, meidd, sýnilega hölt, eða með öðrum sýnilegum lýtum eða göllum. Frekari skoðun útflutningshrossa en að framan greinir er á ábyrgð kaupanda og seljanda.

Eigi að flytja fylsugur úr landi án folalds skal venja undan þeim að minnsta kosti tveimur vikum áður en útflutningur á sér stað.

Öll útflutningshross skulu örmerkt eða frostmerkt.


9. gr.

Útflytjandi skal tilkynna embættisdýralækni á útflutningshöfn um útflutning með þriggja daga fyrirvara. Skylt er útflytjanda eða fulltrúa hans að veita embættisdýralækni aðstoð við skoðun hrossa á útflutningsstað svo að starfið geti gengið sem greiðast. Útflytjendur hrossa greiða kostnað við skoðun útflutningshrossa í útflutningshöfn samkvæmt gjaldskrá fyrir eftirlit og þjónustuverkefni dýralækna sem annast opinber eftirlitsstörf sem landbúnaðarráðherra staðfestir.

Þurfi að gera sérstök próf á hrossunum, að kröfu yfirvalda í innflutningslandi, getur embættisdýralæknir krafist þess að hrossin komi til skoðunar eigi síðar en þremur sólarhringum áður en útskipun fer fram. Kostnað vegna slíkrar skoðunar greiðir útflytjandi.


10. gr.

Hrossum sem flutt eru úr landi skal fylgja vottorð, hestavegabréf, frá Bændasamtökum Íslands er staðfesti uppruna, ætterni og hver sé eigandi þess við útflutning. Í hestavegabréfið skal skrá örmerki/frostmerki hrossins, upplýsingar um aldur, lit og kynferði í samræmi við kröfur innflutningslands. Embættisdýralæknir staðfestir að hestavegabréfið tilheyri viðkomandi hrossi og gefur út heilbrigðisvottorð. Útflytjendur hrossa greiða gjald vegna kostnaðar við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands.


11. gr.

Óheimilt er að flytja hross lengur en 8 klst. í flutningsfari á landi án hvíldar á sama sólarhring og þeim er skipað um borð í flutningsfar. Hross skulu komin á útflutningshöfn eigi síðar en 2 klst. fyrir áætlaða brottför.


V. KAFLI
Flutningur hrossa með flugvélum.
12. gr.

Þegar hross eru flutt flugleiðis skulu þau höfð í gámum eða stíum. Hvert fullorðið hross skal að minnsta kosti hafa 1,1 m² gólfflatar. Stíuveggir og milligerðir skulu ekki vera lægri en hæð meðalhests á herðakamb og þannig gerðir að hross geti ekki fest fætur í þeim. Gólf skulu gerð stöm svo hrossin, sem ávallt skulu ójárnuð, hafi trausta fótfestu. Gæta skal þess að hross verði ekki fyrir snöggum og miklum breytingum á hita- og loftþrýstingi, en að loftræsting sé þó nægileg.

Ef flytja þarf nokkur hross í stíu skal velja saman hross sem eru jöfnust að stærð. Stóðhesta skal flytja sér í bás eða stíu og skulu þeir bundnir. Önnur hross skulu vera með múl. Leitast skal við að flytja hross um borð í flugvél eins skömmu fyrir brottför og fært þykir (1/2-1 klst.), og færa þau úr flugvélinni strax að lokinni flugferð.

Gæslumenn skulu að staðaldri hafa eftirlit með hrossunum meðan á flutningi stendur. Ávallt skal vera fyrir hendi hentugt verkfæri til aflífunar, ef hross lemstrast eða veikjast. Hrossum sem flutt eru flugleiðis má ekki gefa róandi lyf, nema samkvæmt ráði embættisdýralæknis, þótt þau séu óróleg eða sýni ótta við flugtak og lendingu.


VI. KAFLI
Flutningur hrossa með skipum.
13. gr.

Heimilt er að flytja hross til útlanda með skipum á tímabilinu 15. maí til 30. september. Þegar hross eru flutt með skipum skal hafa þau í stíum svo traustgerðum að ekki bili þótt þau hross sem í þeim eru kastist á veggi í sjógangi. Stíur og básar skulu gerðir úr traustu efni með sléttu yfirborði sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Stíuveggir og milligerðir skulu ekki vera lægri en hæð meðalhests á herðakamb. Við útbúnað stía skal þess gætt að hrossin geti hvergi fest fætur milli bita og hvergi séu skarpir kantar eða horn sem valdið geta meiðslum á hrossunum.

Stíubreidd skal vera rúmlega hestlengd (2 m) svo nægilegt rými sé til gjafa og brynningar. Fyrir hvert fullvaxið hross skal ætla að lágmarki 1,5 m² rými og 70 cm breidd á jötu. Eigi má hafa fleiri en fjögur fullvaxin hross saman í hverri stíu.

Greiður og öruggur gangur, að minnsta kosti 50 cm á breidd, skal vera að hverri stíu, þannig að auðvelt sé að komast að hrossunum til gjafa, brynningar og eftirlits. Stíugólf skal gera eins stöm og frekast er unnt með nægjanlegum spónum eða hálmi. Þegar hross eru flutt með skipum skal þess gætt að þau snúi þvert í skipinu. Stóðhesta skal flytja sér í stíum og er heimilt að binda þá. Önnur hross skulu vera með múl en óbundin meðan á flutningi stendur. Hross skulu vera ójárnuð í flutningum.


14. gr.

Þegar hross eru flutt undir þiljum skal þess gætt að birta sé nægileg og jöfn svo unnt sé að hafa eftirlit með þeim. Lestar skulu hafa loftræstikerfi svo nóg loft sé í lestunum þótt þeim sé lokað til fulls í óveðrum. Fóður og vatn skal geymt svo nærri hrossunum að það sé ávallt tiltækt og gæta skal þess að fóðrið spillist ekki af sjó eða vatni.

Einangra skal sjúk eða slösuð hross svo þau verði ekki fyrir óþægindum af öðrum hrossum meðan á ferð stendur og veita þeim þá umönnun og læknishjálp sem við verður komið.

Hross, sem flutt eru ofan þilja, á tímabilinu 15. maí til 1. júní og 1. til 30. september skulu höfð í gámum, sem hægt er að loka með hlerum eða á annan traustan hátt og þeim þannig skýlt gegn sjó og veðri.


15. gr.

Skipstjóri á hverju skipi, sem flytur hross, skal sjá fyrir mannafla til að hirða hrossin, sem skulu fóðruð og þeim brynnt amk. með 8 tíma millibili meðan á ferð stendur.

Sá embættisdýralæknir sem hefur eftirlit með útflutningi hrossa á hverjum stað skal ganga úr skugga um að nægilegt fóður og drykkjarvatn sé í skipinu handa hrossunum á leiðinni. Skal fóður eigi vera minna en 7 kg af vel verkuðu, en ekki of kraftmiklu heyi á dag fyrir hvert fullorðið hross, miðað við áætlun skipsins og ætla skal hverju hrossi 20 lítra af vatni á dag.

Á skipinu skal vera tiltækt hentugt verkfæri til aflífunar ef gæslumenn þurfa að lóga hrossi vegna lemstra eða sjúkdóms.


VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 8. gr. laga nr. 55/2002 um útflutning hrossa. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.


17. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 55/2002 um útflutning hrossa og búnaðarlögum nr. 70/1998 og öðlast gildi 1. júlí 2002. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 220/1995 um útflutning hrossa ásamt síðari breytingum.

Bráðabirgðaákvæði.

Þar til 2. gr. laga um útflutning hrossa, nr. 55/2002, um að öll útflutningshross skuli vera örmerkt eða frostmerkt tekur gildi hinn 1. janúar 2003 skal merkja útflutningshross með bókstöfum og númeri sem klippt eru á vinstri síðu og glöggt skráð á múl hrossins. Númer skulu færð á skýrslu embættisdýralæknis, skýrslu flutningsaðila og í hestavegabréf skv. 10. gr. Númerin skulu samanstanda af tveimur bókstöfum og raðnúmeri. Fyrri bókstafurinn er einkennisstafur útflytjanda en síðari þess lands er hrossið verður flutt til. Bændasamtök Íslands úthluta þeim útflytjendum sem árlega flytja út fleiri en 10 hross sérstökum bókstaf jafnframt því sem þau ákveða bókstaf fyrir hvert land. Útflytjendur sem flytja út 10 hross eða færri nota allir bókstafinn X auk bókstafs innflutningslands og raðnúmer er Bændasamtök Íslands úthluta. Allir útflytjendur eru ábyrgir fyrir því að hrossin séu rétt merkt í samræmi við ákvæði þessarar greinar og skal embættisdýralæknir í útflutningshöfn líta eftir að svo sé.


Landbúnaðarráðuneytinu, 25. júní 2002.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica