Landbúnaðarráðuneyti

220/1995

Reglugerð um útflutning hrossa. - Brottfallin

Reglugerð

um útflutning hrossa.

I. KAFLI 

 Um flutning og merkingu útflutningshrossa.

1. gr.

Öll farartæki sem notuð eru til útflutnings hrossa skulu fullnægja þeim fyrirmælum um aðbúnað hrossa sem sett eru í þessari reglugerð.

Ekki má flytja hross frá Íslandi með sama farartæki og samtímis flytur búfé frá öðrum löndum. Ef um er að ræða farartæki sem áður hafa verið notuð til flutnings á erlendum gripum skal stjórnandi farartækisins skýra hlutaðeigandi lögreglustjóra eða tollstjóra frá því og skal farartækið þá sótthreinsað á kostnað eiganda þess samkvæmt fyrirsögn yfirdýralæknis, ef hann telur þörf á því, og skal það gert áður en farartækið kemur í íslenska höfn.

Áður en hross eru flutt um borð í flugvél eða skip skal viðkomandi embættisdýralæknir fullvissa sig um að allur útbúnaður og sótthreinsun flutningatækis sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og fyrirmæli yfirdýralæknis. Óheimilt er að nota erlent hey eða hálm í farartækjum sem flytja hross frá Íslandi.

Hrossum skal ávallt sýna fyllstu nærgætni í hvívetna svo þeim líði eins vel og kostur er á í flutningum. Gæslumenn skulu að staðaldri hafa eftirlit með hrossunum og sjá um að þau fái viðhlítandi umhirðu og að aðbúnaður þeirra sé skv. ákvæðum þessarar reglugerðar.

2. gr.

Landbúnaðarráðherra getur krafist þess, að fengnum rökstuddum tillögum yfirdýralæknis eða útflutnings- og markaðsnefndar, að dýralæknir sé með flutningsfari og hafi yfirumsjón með gæslu hrossa í flutningi.

Á tímabilinu frá 1. nóvember til 15. apríl skulu hross flutt úr landi með flugvélum. Þó getur landbúnaðarráðherra, að fenginni umsögn yfirdýralæknis, veitt leyfi til að flytja hross með viðurkenndum flutningaskipum á þessu tímabili.

Óheimilt er að flytja úr landi folöld yngri en fjögurra mánaða. Áður en folöld eru flutt úr landi skulu þau höfð á gjöf í að minnsta kosti í 10 daga og jafnframt gefið ormalyf. Folöld má ekki flytja í stíum með fullorðnum hrossum nema þegar folald er flutt með móður sinni.

3. gr.

Útflutningshross skal merkja með bókstöfum og númeri sem klippt eru á vinstri síðu og glöggt skráð á múl hrossins. Númer skulu færð á skýrslu dýralæknis, skýrslu flutningsaðila skv. 4. gr. og á upprunavottorð skv. 17. gr. Númerin skulu samanstanda af tveimur bókstöfum og raðnúmeri. Fyrri bókstafurinn er einkennisstafur útflytjenda en sá síðari þess lands er hrossið verður flutt til. Bændasamtök Íslands úthluta þeim útflytjendum sem árlega flytja út fleiri en 10 hross sérstökum bókstaf jafnframt því sem þau ákveða bókstaf fyrir hvert land. Útflytjendur sem flytja út 10 hross eða færri nota allir bókstafinn X auk bókstafs innflutningslands og raðnúmer er Bændasamtök Íslands úthluta. Allir útflytjendur eru ábyrgir fyrir því að hrossin séu rétt merkt í samræmi við ákvæði þessarar greinar og skal dýralæknir í útflutningshöfn líta eftir að svo sé.

4. gr.

Að lokinni hverri ferð skal flutningsaðili láta útflutnings- og markaðsnefnd í té skýrslu um líðan hrossanna meðan á flutningi stóð. Hafi hross slasast eða drepist, skal greint frá orsökum ef unnt er. Skýrsluna skal senda nefndinni innan mánaðar frá því hrossunum var skipað á land í erlendri höfn.

II. KAFLI 

 Um flutning hrossa í skipum.

5. gr.

Þegar hross eru flutt með skipum skal hafa þau í stíum eða básum svo traustgerðum að ekki bili þótt þau hross sem í þeim eru kastist á veggi í sjógangi. Stíur og básar skulu gerðir úr traustu efni með sléttu yfirborði sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Stíuveggir og milligerðir skulu ekki vera lægri en hæð meðalhests á herðakamb. Við útbúnað stía skal þess gætt að hrossin geti hvergi fest fætur milli bita og hvergi séu skarpir kantar eða horn sem valdið geta meiðslum á hrossunum.

Stíubreidd skal vera rúmlega hestlengd (2 m) svo nægilegt rými sé til gjafa og brynningar. Fyrir hvert fullvaxið hross skal ætla 70 cm breidd á jötu að meðaltali. Eigi má hafa fleiri en sex fullvaxin hross saman í hverri stíu.

Greiður og öruggur gangur, að minnsta kosti 50 cm á breidd, skal vera að hverri stíu og bás, þannig að auðvelt sé að komast að hrossunum til gjafa, brynningar og eftirlits. Stíugólf skal gera eins stöm og frekast er unnt. Þegar hross eru flutt með skipum skal þess gætt að þau snúi þvert í skipinu. Stóðhesta skal flytja sér í bás eða stíu og er heimilt að binda þá. Önnur hross skulu vera með múl, en óbundin meðan á flutningi stendur. Hross skulu vera ójárnuð í flutningum.

6. gr.

Þegar hross eru flutt undir þiljum skal þess gætt að birta sé nægileg og jöfn svo unnt sé að hafa nægjanlegt eftirlit með þeim. Lestar skulu hafa loftræstikerfi svo nóg loft sé í lestunum þótt þeim sé lokað til fulls í óveðrum. Fóður og vatn skal geymt svo nærri hrossunum að það sé ávallt tiltækt og gæta skal þess að fóðrið spillist ekki af sjó eða vatni.

Einangra skal sjúk eða slösuð hross svo þau verði ekki fyrir óþægindum af öðrum hrossum meðan á ferð stendur og veita þeim þá umönnun og læknishjálp sem við verður komið.

Hross, sem flutt eru ofan þilja, á tímabilinu 15. apríl til 1. júní og 1. til 31. október skulu höfð í gámum, sem hægt er að loka með hlerum eða á annan traustan hátt og þeim þannig skýlt gegn sjó og veðri.

7. gr.

Skipstjóri á hverju skipi, sem flytur hross, skal sjá fyrir nægum og hæfum mannafla til að hirða hrossin, sem skulu fóðruð og brynnt tvisvar á sólarhring.

Dýralæknir sá sem hefur eftirlit með útflutningi hrossa á hverjum stað skal ganga úr skugga um að nægilegt fóður og drykkjarvatn sé í skipinu handa hrossunum á leiðinni. Skal fóður eigi vera minna en 7 kg af vel verkuðu, en ekki of kraftmiklu heyi á dag fyrir hvert fullorðið hross, miðað við áætlun skipsins og ætla skal hverju hrossi 20 lítra af vatni á dag.

Á skipinu skal vera tiltækt hentugt verkfæri til aflífunar ef gæslumenn þurfa að lóga hrossi vegna lemstra eða sjúkdóms.

III. KAFLI

Um flutning hrossa í flugvélum.

8. gr.

Þegar hross eru flutt flugleiðis skulu þau höfð í básum eða stíum. Ætla skal hverju fullorðnu hrossi 1,1 m2 gólfflatar og eigi má flytja fleiri en ellefu hross í hverri stíu. Stíuveggir og milligerðir skulu ekki vera lægri en hæð meðalhests á herðakamb og þannig gerðir að hross geti ekki fest fætur í þeim. Gólf skulu gerð stöm svo hrossin, sem ávallt skulu ójárnuð, hafi trausta fótfestu. Gæta skal þess að hross verði ekki fyrir snöggum og miklum breytingum á hita- og loftþrýstingi, en að loftræsting sé þó nægileg.

Ef flytja þarf nokkur hross í stíu skal alltaf velja saman hross sem jöfnust að stærð. Stóðhesta skal flytja sér í bás eða stíu og er heimilt að binda þá. Önnur hross skulu vera með múl, en óbundin meðan á flutningi stendur.

Leitast skal við að flytja hross um borð í flugvél eins skömmu fyrir brottför og fært þykir (1/2-1 klst.), og færa þau úr vélinni strax og flugferð er lokið.

Gæslumaður skal hafa vakandi auga með hrossunum meðan á flutningi stendur og birta skal vera næg til að unnt sé að fylgjast með líðan hrossanna. Ávallt skal vera fyrir hendi hentugt verkfæri til aflífunar, ef hross lemstrast eða veikjast. Hrossum sem flutt eru flugleiðis má ekki gefa róandi lyf, nema eftir læknisráði, þótt hross séu óróleg eða sýni ótta við flugtak og lendingu.

IV. KAFLI 

 Um skoðun á útflutningshrossum.

9. gr.

Óheimilt er að flytja hross úr landi nema dýralæknir hafi skoðað og metið það heilbrigt, rétt skapað, hæft til útflutnings og staðfesti að hrossið uppfylli kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi. Heilbrigðisvottorð skal undirritað af héraðsdýralækni á útflutningshöfn, dýralækni hrossaútflutnings eða yfirdýralækni.

Dýralækni er óheimilt að framkvæma skoðun á hrossum til útflutnings, sem hann á sjálfur.

10. gr.

Öll hross, sem ætlunin er að flytja úr landi skulu skoðuð af dýralækni og metin hvort þau séu hæf til útflutnings. Allir dýralæknar, sem leyfi hafa til að starfa á Íslandi, mega framkvæma slíka skoðun og skal hún fara fram innan fimm daga fyrir útflutning. Niðurstöður skoðunar skal færa á sérstakt vottorð, er útflutnings- og markaðsnefnd lætur útbúa og skal það fylgja hrossi við skoðun á útflutningshöfn. Óheimilt er að flytja út hross sem eru mögur og illa útlítandi, illa hirt, slæg, meidd, hölt, með tanngalla, mjög snúna hófa, áberandi skakka eða hnýtta fætur, áberandi bilun í fótum eða með öðrum verulegum lýtum eða göllum. Lýti og gallar teljast verulegir, þegar þeir spilla að mun útliti hrossins, rýra notagildi þess eða valda slæmri líðan hrossanna. Heimilt er þó að gera undantekningu frá þessu ákvæði varðandi hross sem þola flutning, ef fyrir liggur skrifleg yfirlýsing kaupanda að hann viti af lýti eða galla og sætti sig við hann.

Þurfi að gera sérstök próf á hrossunum, að kröfu yfirvalda í innflutningslandi, getur dýralæknir krafist þess að hrossin komi til skoðunar eigi síðar en þremur sólarhringum áður en útskipun fer fram. Greiðsla fyrir slíka skoðun og sýnatöku vegna sjúkdómsins "Smitandi blóðleysi í hrossum" (Coggins test) er innifalin í útflutningsgjaldi. Útflutnings- og markaðsnefnd greiðir einungis fyrir skoðun þeirra hrossa sem fara úr landi. Fyrir umfangsmeiri skoðun en að framan greinir eða aðra þjónustu og ferðakostnað dýralæknis greiðir útflytjandi sjálfur.

Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur. Eigi að flytja fylsugur úr landi skal venja undan þeim að minnsta kosti tveimur vikum áður en útskipun fer fram.

Skylt er útflytjanda að veita dýralækni viðhlítandi aðstöðu og aðstoð við skoðun, prófun og merkingu hrossanna, til að starfið geti gengið sem greiðast.

11. gr.

Útflytjandi skal tilkynna embættisdýralækni á útflutningshöfn um útflutning með þriggja daga fyrirvara. Þá skal jafnframt tekið fram hvort óskað er skoðunar og töku blóðsýnis skv. 10. gr. Embættisdýralæknir skal kanna hvort hross hafi meiðst í flutningi eða á útflutningsstað, að hverju hrossi fylgi upprunavottorð og undirrita heilbrigðisvottorð. Á heilbrigðisvottorði, sem skal vera í samræmi við kröfur innflutningslands, skulu koma fram upplýsingar um aldur, lit, kynferði og heilbrigðisástand á útskipunardegi. Útflytjendur skila embættisdýralækni skrá yfir útflutningshross á þar til gerðum eyðublöðum frá Bændasamtökum Íslands. Embættisdýralæknir gengur úr skugga um að merkingar hrossa séu í samræmi við skrána. Skráin skal fylgja hrossum í flutningsfari. Kyrrsetja skal þau hross sem ekki uppfylla ákvæði þessarar greinar.

Skylt er útflytjanda eða fulltrúa hans að veita embættisdýralækni aðstoð á útflutningsstað svo að starfið geti gengið sem greiðast. Kostnaður við eftirlit embættisdýralæknis á útflutningsstað er innifalinn í útflutningsgjaldi.

12. gr.

Óheimilt er að flytja hross lengra að en 150 km þann sama sólarhring og þeim er skipað um borð í flutningsfar og hross skulu komin á útflutningshöfn eigi síðar en einni klst. fyrir áætlaða brottför.

13. gr.

Embættisdýralæknar skulu eftir útskipun á hrossum senda Bændasamtökum Íslands afrit af skrám útflytjenda ásamt upplýsingum um fjölda kyrrsettra hrossa og ástæður kyrrsetningar.

14. gr.

Yfirdýralækni er heimilt að ráða sérstakan dýralækni til að hafa eftirlit með útflutningi hrossa. Kostnaður við störf hans skal greiddur af útflutnings- og markaðsnefnd.

V. KAFLI 

 Um forkaupsrétt o.fl.

15. gr.

Innlendir ræktendur og samtök þeirra eiga forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi. Hrossaræktarnefnd, sem starfar skv. 5. og 6. gr. laga nr. 84/1989 um búfjárrækt, ákveður árlega kynbótamat úrvalskynbótagripa. Heimilt er að hafa mismunandi mat eftir kyni og aldri hrossa. Að öðru leyti er útflutningur á hrossum frjáls og ekki háður öðrum skilyrðum en að hrossið standist heilbrigðisskoðun, því fylgi upprunavottorð og það sé á aldrinum fjögura mánaða til fimmtán vetra. Þó má flytja út eldri kynbótahross en þá einungis með flugvélum.

16. gr.

Landbúnaðarráðuneytið getur, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands, frestað útflutningi á úrvalskynbótagripum í allt að tvær vikur frá því að sannanlega er tilkynnt um fyrirhugaðan útflutning. Á þeim tíma skulu hrossin auglýst til sölu innanlands, skv. reglum er útflutnings- og markaðsnefnd setur. Bændasamtök Íslands veita allar upplýsingar um söluna, taka við kauptilboðum og ákveða hver fái notið forkaupsréttar. Ef fleiri en einn aðili skilar fullgildu tilboði skal útdráttur ráða. Heimilt er seljanda og aðila er óskar forkaupsréttar að vera viðstaddir útdráttin. Aðilar sem óska eftir að neyta forkaupsréttar skulu leggja fram bankatryggingu eða sambærilega tryggingu fyrir greiðslu svo tilboð teljist gilt.

17. gr.

Hverju útfluttu hrossi skal auk dýralæknisvottorðs fylgja upprunavottorð sem Bændasamtök Íslands gefa út. Eftirfarandi upplýsingar um hrossið skulu koma fram á upprunavottorði: Fæðingarnúmer, nafn, uppruni, litur, ætterni í fjóra ættliði og frost- eða örmerki séu þau til staðar. Þá skal koma fram hver sé ræktandi hrossins, útflytjandi þess og heimilt er að geta seljanda og kaupanda erlendis. Sé þeirra getið skal farið með upplýsingar sem gefnar eru skv. reglum um viðskiptaleynd. Frá vottorðinu skal gengið á þann veg að ekki sé hægt að breyta því.

Þegar um undaneldishross er að ræða, skulu fylgja upprunavottorði upplýsingar um kynbótamat og kynbótadómar hafi hrossið verið dæmt.

Útflytjendur skulu skila upplýsingum um hrossin á þar til gerðum eyðublöðum til Bændasamtaka Íslands, minnst þremur virkum dögum fyrir áætlaðan útflutning. Heimilt er að víkja frá þessum fresti ef flytja á út hross sem koma í stað annarra er kyrrsett hafa verið vegna ákvæða reglugerðar þessarar. Óski ræktandi, eða útflytjandi í hans umboði, eftir því að upplýsingar um ætterni hrossa fari ekki inn í skýrsluhald Bændasamtaka Íslands skal verða við því.

VI. KAFLI

Um útflutningsgjald og útflutnings- og markaðsnefnd.

18. gr.

Af hverju hrossi, sem flutt er úr landi, skal greiða útflutningsgjald, sem ákveðið er skv. 5. gr. laga nr. 161/1994. Útflutningsgjaldið skal greitt Bændasamtökum Íslands við útgáfu upprunavottorðs. Útflutningsgjaldið rennur í sérstakan útflutningssjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins og er ætlað til að greiða kostnað við skoðun á útflutningshrossum og útgáfu upprunavottorða. Af gjaldinu greiðist 5% í Stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins og 15% greiðist í Búnaðarmálasjóð. Þóknun fyrir umsjón með innheimtu og fjárumsýslu greiðist úr útflutningssjóði og sama gildir um þóknun fyrir setu í útflutnings- og markaðsnefnd og kostnað við störf hennar.

Bændasamtök Íslands sjá um innheimtu útflutningsgjalds og greiðslu þeirra þátta sem nefndir eru í 1. mgr. Heimilt er að veita útflytjendum greiðslufrest á útflutningsgjaldi í allt að þrjá mánuði enda leggi þeir fram bankatryggingu fyrir skilvísri greiðslu gjaldsins. Úflytjendur greiði eðlilega vexti á gjaldfresti. Eftirstöðvum útflutningsgjalds skal skilað til landbúnaðarráðuneytisins árfjórðunglega ásamt greinargerð um ráðstöfun. Reikningar útflutningssjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.

19. gr.

Eftirstöðvum útflutningsgjalds skal verja til að styrkja verkefni er lúta að útflutningi hrossa, markaðsöflun fyrir hross erlendis, rannsóknum tengdum markaðsmálum og kynningu á íslenska hestinum erlendis.

>Landbúnaðarráðherra úthlutar tvisvar á ári styrkjum úr útflutningssjóði, að fengnum tillögum útflutnings- og markaðsnefndar. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram í febrúar og ágúst ár hvert, en umsóknum um styrk skal skila til formanns útflutnings- og markaðsnefndar fyrir 15. júní og 15. desember. Óheimilt er að úthluta hærri upphæð en er í sjóðnum hverju sinni. Styrkveiting úr útflutningssjóði skal fyrst fara fram í febrúar 1996.

Útflutnings- og markaðsnefnd lætur útbúa eyðublöð vegna umsókna um styrki úr sjóðnum. Í umsókn skal að lágmarki tilgreina eftirtalin atriði; Heiti verkefnis og lýsingu á því, framkvæmdaáætlun, nafn umsækjenda, nafn verkefnisstjóra og þekkingu hans á viðfangsefninu, kostnaðaráætlun, upplýsingar um gagnsemi verkefnisins, nýtingu og birtingu niðurstaðna.

Sérstakan samning skal gera um styrki sem útflutningssjóður veitir og með reikningum sjóðsins skal árlega birta lista yfir verkefni sem styrkt voru, nafn verkefnisstjóra og styrkupphæð.

20. gr.

Landbúnaðarráðherra skipar fimm manna útflutnings- og markaðsnefnd til fjögurra ára í senn. Félag hrossabænda, Bændasamtök Íslands, yfirdýralæknir og Félag hrossaútflytjenda skulu tilnefna hver um sig einn mann í nefndina og annan til vara, en ráðherra skipar formann án tilnefningar. Hlutverk útflutnings- og markaðsnefndar er m.a.:

a.að vera ráðgefandi um málefni er varða útflutning á hrossum.

>b.að hafa tiltækar upplýsingar um lög og reglur helstu viðskiptalanda varðandi innflutning á hrossum frá Íslandi.

c.að auðvelda útflutning og markaðssetningu á íslenskum hrossum m.a. með því að ná fram breytingum á innflutningshindrunum í öðrum löndum.

>d. að stuðla að samstarfi þeirra sem kynna íslensk hross og annarra er kynna íslenskar vörur og þjónustu.

e. að leita hagkvæmustu leiða við markaðssetningu hrossa.

f. að hafa yfirumsjón með útflutningssjóði og gerð samninga við þá aðila er sjóðurinn skiptir við.

VII. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

21. gr.

Landbúnaðarráðuneytið birtir árlega með auglýsingu í Stjórnartíðindum upphæð útflutningsgjalds. Í sömu auglýsingu skulu birt þau mörk kynbótamats sem þarf til að hross teljist úrvalskynbótagripur.

22. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 8. gr. laga nr. 161/1994. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 161 31. desember 1994 um útflutning hrossa og öðlast gildi 15. apríl 1995. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 271/1983.

Landbúnaðarráðuneytið, 10. apríl 1995.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica