Landbúnaðarráðuneyti

398/1995

Reglugerð um áburð og jarðvegsbætandi efni.

I. KAFLI 

 Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. 

 Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur með reglugerð þessari er að tryggja fullnægjandi gæði þeirrar framleiðslu sem reglugerðin tekur til, án þess að settar séu ónauðsynlegar hindranir á viðskipti.

Reglugerðin tekur til áburðar, jarðvegsbætandi efna, jarðvegslíkja og vaxtarefnis sem seld eru á Íslandi.

Reglugerðin gildir ekki um seyru, nema um sé að ræða hluta af blöndu eða seyru sem meðhöndluð hefur verið til að virka sem áburður.

2. gr.

 Skilgreiningar.

Framleiðsla: Framleiðsla, hreinsun, blöndun, pökkun, merking á vöru sem reglugerðin tekur til.

Framleiðandi: Sérhver sá sem með sölu í huga framleiðir, hreinsar, blandar, pakkar og merkir vörur sem reglugerðin tekur til. Framleiðandi telst einnig sá sem markaðsfærir eða selur eina af þeim vörum sem reglugerðin tekur til undir öðru nafni en varan er framleidd undir.

Innflytjandi: Sérhver sá sem flytur til landsins einhverja af þeim vörum sem reglugerðin tekur til.

Sala: Öll sala, birgðahald og hvers kyns miðlun þessara vara til neytenda. Sala tekur einnig til vara sem afhentar eru ókeypis.

Plöntunæringarefni: Sem plöntunæringarefni teljast aðalnæringarefnin köfnunarefni (N), fosfór (P) og kalí (K) og aukanæringarefnin kalk (Ca), magnesíum (Mg), natríum (Na) og brennisteinn (S) og snefilefnin bór (B), kóbolt (Co), kopar (Cu), járn (Fe), mangan (Mn), molýbden (Mo) og sink (Zn).

Áburður: Tæknilega framleidd eða meðhöndluð vara sem vegna innihalds af plöntunæringarefnum hefur jákvæð áhrif á vöxt plantna.

Jarðvegsbætandi efni: Vörur sem aðeins eða aðallega hafa jákvæð áhrif á efna-, eðlis- eða líffræðilegt ástand jarðvegs og þar með aðeins óbein áhrif á plöntuvöxt.

Jarðvegslíki: Efni af náttúrulegum toga eða gerfiefni sem ein sér eða í blöndu, með eða án næringarefna eða annarra efna sem ætluð eru til ræktunar á plöntum.

Efni til jarðgerðar: Efni eða hvatar ætluð til íblöndunar lífrænum efnum (úrgangi), notuðum til jarðgerðar eða til blöndunar í búfjáráburð til að flýta fyrir rotnun og bæta áburðargildið.

Vaxtarhvatar: Efni sem örva vöxt eða stýra þroska plantna án þess að um plöntunæringaráhrif sé að ræða.

Eingildur áburður: Eingildur áburður er áburður sem inniheldur aðeins eitt aðalnæringarefni.

Blandaður áburður: Blandaður áburður er ólífrænn áburður sem inniheldur a.m.k. tvö aðalnæringarefni og er framleiddur í verksmiðju þannig að aðalnæringarefnin eru annað hvort að öllu leyti eða að hluta til saman í efnasambandi.

Blandaðar áburðategundir: Blandaðar áburðategundir (tæknilega blandaður áburður) er ólífrænn áburður sem inniheldur a.m.k. tvö aðalnæringaefni og framleiddur er með því að blanda saman tveim eða fleiri eingildum áburðartegundum eða blönduðum áburði og einum eða fleiri eingildum áburðartegundum.

Lífrænn áburður: Lífrænn áburður er áburður úr dýra- eða jurtaríkinu og inniheldur a.m.k. 40% lífrænna efna miðað við þurrefni og hefur beint áburðargildi umfram önnur jákvæð áhrif sem kunna að skapast fyrir plöntur. Þvagefni eða önnur tilbúin lífræn köfnunarefnissambönd eru ekki talin lífrænn áburður.

Áburðarkalk: Kalksamband eða kalkmagnesíumsamband sem hafa afsýrandi eiginleika.

Seyra: Allar tegundir af botnfalli sem verða til við hvers kyns hreinsun á fráveitum, rotþróm eða öðrum þeim búnaði sem notaður er til að hreinsa fráveitur.

3. gr. 

 Viðaukar.

Viðaukar með reglugerð þessari gilda sem hluti reglugerðarinnar og gilda bæði fyrir ESB-áburð og annan áburð.

II. KAFLI 

 Vörugæði og markaðssetning.

4. gr. 

 Almennt um vörugæði.

Óheimilt er að flytja inn eða versla með vörur sem ekki uppfylla gæðakröfur sem þessi reglugerð kveður á um, einnig ef notkun þeirra getur reynst hættuleg mönnum, dýrum eða plöntum.

Landbúnaðarráðuneytið getur að fengnum tillögum aðfangaeftirlits ákveðið að innihald tiltekinna grunnefna eða efnasambanda megi ekki fara yfir ákveðin mörk og mælt fyrir um að innihald slíkra efna skuli tilgreint við skilgreiningu á viðkomandi vöru.

Landbúnaðarráðurneytið getur einnig bannað sölu tiltekinna efna sem áburðar, jarðvegsbætandi efna eða jarðvegslíkis og notkun slíkra efna sem kunna að verða notuð til framleiðslu þeirra vara sem reglugerðin tekur til. Vörur sem innihalda seyru, búfjáráburð, lífrænan úrgang og skyld efni ber að meðhöndla þannig að ekki valdi smithættu fyrir menn, dýr eða plöntur.

Landbúnaðarráðuneytið getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið ákveðið gæðamörk fyrir vörur sem reglugerð þessi tekur til og unnar eru úr úrgangsefnum.

Ef nota á seyru að hluta til eða öllu leyti í vörur sem reglugerð þessi tekur til skal seyran fyrst hafa hlotið viðurkenningu til slíkra nota af viðkomandi heilbrigðisyfirvöldum.

Vörur sem reglugerð þessi tekur til verða að hafa sýnileg og skráningarhæf áhrif.

Komi ekki sérstaklega fram með vörumerkingu, skal vatnsinnihald og aðrir eiginleikar sem máli skipta við not vörunnar ekki víkja til muna frá því sem telja má eðlilegt um viðkomandi vöru.

5. gr. 

 Markaðsfærsla og sala.

Vörur sem reglugerð þessi tekur til má því aðeins bjóða til sölu að þær fullnægi ákvæðum reglugerðarinnar um gæði, þar með talið kröfur um merkingar og vottun.

Landbúnaðarráðuneytið getur bannað verslun með þær vörur sem reglugerð þessi tekur til ef vöruheiti er villandi eða ófullnægjandi eða hafi á einhvern hátt verið gefnar villandi upplýsingar um vöruna. Eiginleika vöru og gagnsemi hennar verður að vera hægt að sanna við sölu.

Við sölu, dreifingu eða kynningu er með öllu óheimilt að vísa til þess að varan sé háð opinberu eftirliti eða framleidd með opinberu samþykki eða leyfi.

III. KAFLI

Skráning, vöruvottun og tilkynningar.

6. gr. 

 Skráning.

Öllum þeim sem flytja inn eða framleiða vörur sem reglugerð þessi tekur til eða hyggjast hefja slíka starfsemi ber að tilkynna það til aðfangaeftirlitsins.
Allar vörur sem reglugerð þessi tekur til skulu skráðar hjá aðfangaeftirliti áður en kynning, dreifing og sala hefst. Við skráningu skal eftirfarandi upplýst:

  • Vöruflokkur og vörutegund (áburður, jarðvegsbætandi efni o.s.frv.) ásamt vörulýsingu. Ef selja á vöruna undir sérstöku verslunarheiti skal það einnig gefið upp.
  • Nánari upplýsingar um innihald vörunnar af virkum efnum, efnasamböndum og annað það sem þýðingu hefur fyrir mat á eiginleikum vörunnar.
  • Fyrir vörur sem innihalda seyru, húsdýraáburð, lífrænan úrgang eða sambærileg efni, sbr. 3. mgr. 4. gr., þarf að lýsa þeirri sótthreinsun sem varan hefur hlotið.
  • Upplýsingar um merkingu á umbúðum, miðum eða fylgiseðlum.

Aðfangaeftirlitið getur gert kröfur um vottun á virkni vörunnar og aðrar nauðsynlegar viðbótarupplýsingar um vöruna, sbr. a-d lið 2. mgr.

Allar breytingar á áður gefnum upplýsingum skal tilkynna aðfangaeftirlitinu eins fljótt og unnt er og eigi síðar en þremur vikum áður en sala hinnar breyttu vöru hefst.

7. gr.

Vöruvottun.

Krafa um vottun skv. þessari grein gildir ekki um ESB-áburð nema með tilliti til kornastærðar og kadmíuminnihalds, enda sé sá sem hyggst bjóða áburðinn heimilisfastur á hinu evrópska efnahagssvæði (EES).

Vörur þær sem reglugerð þessi tekur til skulu að öðru leyti vera viðurkenndar af aðfangaeftirlitinu til dreifingar og sölu á Íslandi.

Heimilt er að veita tímabundna viðurkenningu allt að einu ári ef sérstaklega stendur á að mati yfirvalda. Einnig má takmarka slíka heimild til þriggja ára ef nauðsynlegt telst og æskilegt að þróa viðkomandi vöru betur með tilraunum.

8. gr. 

 Tilkynningarskylda.

Öllum þeim sem flytja inn eða framleiða vörur sem falla undir þessa reglugerð skulu fyrir 31. janúar ár hvert gefa eftirfarandi upplýsingar til aðfangaeftirlitsins fyrir hverja vöru:
Sala frá innflytjanda eða framleiðanda undangengið almanaksár.
Kadmíuminnflutning undangengins árs í kílóum í hverri þeirri vörutegund sem flutt var inn eða framleidd. Aðfangaeftirlitið útbýr eyðublöð vegna þessara tilkynninga.

9. gr. 

 Staðfesting kadmíuminnihalds.

Fyrir ólífrænan áburð sem inniheldur fosfór þarf að leggja fram yfirlýsingu um kadmíuminnihald áður en sala hefst. Í yfirlýsingu skal eftirfarandi koma fram:
Lýsing á viðkomandi áburðarsendingu (við innflutning: vörutegund og stærð sendingar; við framleiðslu á Íslandi: vörutegund og framleiðslutímabil).
Staðfesting á að áburðurinn innihaldi minna en 50 mg kadmíum (Cd) pr. kg fosfór (P).
Undirskrift frá framleiðanda eða þeim aðila sem ber ábyrgð á á dreifingu og sölu á áburðinum.

Við innflutning skal samskonar yfirlýsing fylgja tollskjölum hverrar einstakrar vörusendingar.

Á a.m.k. sex mánaða fresti skal aðfangaeftirlitinu fengin samskonar yfirlýsing vegna hérlendrar framleiðslu. Yfirlýsing þessi skal fylgja á öllum heildsölustigum og hefur kaupandi rétt á að sjá hana. Aðfangaeftirlitið getur gert kröfu um nánari staðfestingu á að viðkomandi yfirlýsing sé rétt.

10. gr. 

 Undanþága frá kröfu um skráningu, vottun og tilkynningar.

Landbúnaðarráðuneytið getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið veitt tímabundna undanþágu fyrir vörur sem reglugerð þessi tekur til, enda sé varan á þróunarstigi og staðfest að varan spilli ekki heilsu manna og dýra.

IV. KAFLI 

 Merking á vörum.

11. gr. 

 Merkingarskylda.

Framleiðendur og/eða innflytjendur vöru sem reglugerð þessi tekur til eru skyldugir að sjá til þess að vörurnar séu greinilega merktar með vörulýsingu. Sekkjuð vara skal merkt með vörulýsingu, annað hvort á umbúðir eða á fylgimiða. Fyrir ósekkjaða vöru (í búlk) skal vörulýsingin fylgja sölunótu. Allar vörur þarf að auðkenna t.d. með skiltum á vörulager og á öllum sölustigum.
Fyrir allar vörur sem reglugerðin tekur til skal merkingu hagað sem hér segir, annað hvort á umbúðum, á miðum eða með fylgiseðlum:
Vörulýsing (auðkenni) sbr. skilgreiningu í 12. gr.
Aðrar upplýsingar sem heimilaðar hafa verið skv. reglugerð þessari.
Vörumerki framleiðandans og venjulegt verslunarheiti vörunnar.
Sérstakar upplýsingar um notkun, geymslu og meðhöndlun vörunnar.

Upplýsingar þær sem nefndar eru undir stafaliðum c. og d. mega ekki vera í mótsögn við upplýsingar sem nefndar eru í stafaliðum a. og b. og verða að vera greinilega aðskildar frá þeim.

Merkingar sem krefjast má skv. öðrum reglum má setja á umbúðirnar, miða eða fylgiseðla. Þessar merkingar verða að vera greinilega aðskildar frá merkingum skv. þessari reglugerð.

12. gr. 

 Vörulýsing.

Í vörulýsingu á umbúðum, á miðum eða á fylgiseðlum þarf að gefa eftirfarandi upplýsingar:
Fyrir ESB-áburð: Stafina "ESB-ÁBURÐUR" með stórum bókstöfum. Tilsvarandi áritun á einhverju tungumáli EES svæðisins er fullnægjandi.
Vörutegund: Fyrir áburð í samræmi við 15. gr., fyrir áburðarkalk í samræmi við 24. gr. og fyrir jarðvegslíki í samræmi við 25. gr. Fyrir vöru sem ekki er hægt að flokka skv. 15., 24. og 25. gr. skal flokkunin gefin skv. uppruna vörunnar og tegund. Í slíkum tilvikum er vöruflokkunin ákveðin í samráði við aðfangaeftirlitið.
Innihald næringarefna sem ábyrgst er og annarra virkra efna og þeir eiginleikar sem framleiðandi lýsir og ábyrgist með tilliti til gerðar og/eða leysanleika eins og kveðið er á um fyrir hverja vörutegund í viðaukum 1 og 2, eða í stöðlum sem tilgreindir eru í reglugerðinni.
Innihald nánar ákveðinna grunnefna eða efnasambanda, hugsanlega aðrir eiginleikar, þar sem það kann að vera ákveðið fyrir ákveðnar vörutegundir í seinni greinum þessarar reglugerðar, í viðaukum reglugerðarinnar eða í stöðlum sem reglugerðin vísar til.
Þungi eða rúmtak vöru. Fyrir áburð þarf alltaf að gefa upp nettó- eða brúttóþunga. Ef gefinn er upp brúttóþungi þarf einnig að gefa upp þyngd umbúða.
Nafn og heimilisfang framleiðanda eða innflytjanda, eða fyrir ESB-áburð: nafn, verksmiðjunafn eða vöruheiti eða heimilisfang þess aðila sem ber ábyrgð á markaðsfærslu, enda hafa viðkomandi heimilisfesti á EES svæðinu.

Fyrir vörur sem ekki er hægt að vöruflokka skv. 15., 24. og 25. gr. skal magn hins virka efnis gefið upp sem hundraðshluti af þunga vörunnar. Aðfangaeftirlitið getur heimilað að hið virka efni sé gefið upp í þunga m.v. ákveðið rúmtak. Vörulýsingin fyrir slíkar vörur ákveðst að öðru leyti af aðfangaeftirlitinu.

Næringarefnin á alltaf að telja í eftirfarandi röð: köfnunarefni (N), fosfór (P og/eða P2O5), kalí (K og/eða K2O), kalk (Ca), magnesíum (Mg), natríum (Na), brennisteinn (S), bór (B), kóbolt (Co), kobar (Cu), járn (Fe), mangan (Mn), mólýbden (Mo) og sink (Zn).

Innihald næringarefnana á að gefa upp á grundvelli frumefnis og skal alltaf gefa upp magn frumefnis og efnafræðiheiti. Óheimilt er að gefa upp innihald af óskilgreindum næringarefnum. Landbúnaðarráðuneytið getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið bannað að einhverjar þær upplýsingar séu gefnar þar sem vafi kann að leika á um raunverulega virkni.

Landbúnaðarráðuneytið getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið heimilað að innihald efna sé gefið upp á ákveðnu bili með tveimur tölum. Þetta bil má ekki vera stærra en tvöfalt leyfilegt efnafrávik viðkomandi efnis í áburðinum.

13. gr. 

 Kröfur um merkingar.

Miðar eða umbúðarmerkingar með tilskyldum vörulýsingum sbr. 12. gr. verða að sjást vel. Merkimiða verður að festa með lokunarbúnaði umbúða. Ef lokunarbúnaðurinn er innsigli verður það að vera á einhlítan hátt merkt framleiðanda, innflytjanda eða þeim sem ábyrgð hefur skv. f-lið 12. gr.

Vörulýsingu má ekki vera hægt að afmá og hún verður að vera vel læsileg.

Þegar vörulýsing er gefin sem fylgiseðill (sbr. 11. gr.) verður eintak af fylgiseðlinum alltaf að vera með vörunni og vera aðgengilegt fyrir eftirlitsaðila.

Merkingar og texti á hugsanlegum fylgiseðlum eiga að vera á íslensku. Ef merking á umbúðum er ekki á íslensku skal tryggja kaupanda tilsvarandi upplýsingar á fylgiseðli á íslensku. Fylgiseðlar með lausri vöru skulu alltaf vera á íslensku.

14. gr. 

 Undanþágur frá ákvæðum merkingar.

Landbúnaðarráðuneytið getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið í sérstökum tilvikum heimilað undanþágu frá ákvæðum 11., 12. og 13. gr. um merkingar.

Landbúnaðarráðuneytið getur að fenginni umsókn og að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið, heimilað að vöru sé lýst með innihaldi af öðrum grunnefnum en þeim sem tilgreindar eru sem plöntunæringarefni í 2. gr. og heimilað lýsingu á efnasamböndum sem hafa þýðingu fyrir vöxt plantna. Skulu þá fylgja umsókninni fullnægjandi upplýsingar á aðferðum sem notaðar eru til að ákveða viðkomandi efni og ákveða lýsinguna í hverju tilviki.

Þessi undanþága um merkingu gildir ekki fyrir ESB-áburð.

V. KAFLI 

 Áburður.

15. gr.

 Merking vörutegunda.

Áburð þarf að tegundamerkja í samræmi við ákvæði í viðauka 1 og 2 fyrir blandaðan áburð og áburðarblöndur að viðbættum tölum sem gefa upp innihald næringarefnanna. Tölurnar eru gefnar í sömu röð og efnafræðiheitið.

Áburður sem aðallega inniheldur aðalnæringarefni N og/eða P og/eða K og sem skilgreindur er með eitt eða fleiri af aukanæringarefnunum kalki, magnesíum, natríum og brennisteini skal tegundamerkja með merkingunum í viðauka 1 kafla A og B að viðbættu "með" ásamt efnafræðiheiti eða heitum þeirra næringarefna sem sögð eru í áburðinum. Tölur um efnainnihald má síðan gefa upp í sviga eftir tölum um innihald aðalnæringarefna. (T.d.: NPK-áburður 15-4-12 (3-3) með magnesíum og brennisteini).

Áburður sem aðallega inniheldur aðalnæringarefnin og sem skilgreindur er að innihaldi snefilefni skal tegundamerktur skv. ákvæðum í viðauka 1, kafla A og B að viðbættu annað hvort"með snefilefnum" eða "með" og síðan nafn eða nafn þess/þeirra snefilefna sem eru í áburðinum eða efnafræðiheitið. Aðeins tölurnar sem gefa upp innihald aðal- og aukanæringarefna má setja í tegundarskráningu, en ekki snefilefnin.

Áburður sem inniheldur aðeins eitt snefilefni (bór, kóbolt, kobar, járn, mangan, mólýbden eða sink) er tegundarmerktur í samræmi við viðauka 1, kafla B. Blöndur sem gerðar eru úr tveimur eða fleirum áburðartegundum í kafla D og sem innihalda í það minnsta tvö ólík snefilefni skulu tegundarmerktar með "blanda af snefilefnum" og síðan nafnið á þeim snefilefnum sem eru í áburðinum eða efnafræðiheiti þeirra.

Tegundamerkingar má aðeins nota fyrir vörur sem uppfylla ákvæði reglugerðarinnar úr viðaukanum um vörulýsingar, samsetningu, leysanleika o.s.frv.

16. gr.

ESB-áburður.

Eingöngu er heimilt að merkja áburð sem ESB-áburð ef hann er framleiddur að öllu leyti eða að öðru leyti nægjanlega unninn innan EES svæðisins. Ákvæði starfsreglu 4 í EES-samningnum um upprunareglur gilda eftir því sem við á.
Eftirfarandi vörur má merkja sem "ESB-ÁBURÐ":
Áburð sem fullnægir ákvæðum um efnainnihald, samsetningu, leysanleika o.fl. sbr. viðauka 1.
Áburð sem er í samræmi við viðauka 1, kafla A og B og sem er skilgreindur með innihald annarra næringarefna þegar innihald þessara efna er ámóta eða meira en gildin í viðauka 3, dálk 3-5.
Áburð sem er í samræmi við viðauka 1, kafla C og sem skilgreindur er með innihald næringarefna þegar innihald þessara efna er sama eða meira en gildin í viðauka 3, dálki 3-5.
Blöndu af tveim eða fleiri áburðartegundum í viðauka 1, kafla D sem innihalda a.m.k. tvö mismunandi snefilefni í magni sem er sama eða stærra en gildin í viðauka 3, dálki 1-2.

ESB-áburð skal merkja með stöfunum "ESB-ÁBURÐUR" , sbr. 12. gr.

17. gr. 

 Vörulýsingar fyrir áburð.

a. Vörulýsing skal vera í samræmi við 12. gr. stafliði a-f.

b. Allar upplýsingar um efnainnihald skulu gefnar sem þungaprósenta og í heilum tölum eða hugsanlega með einum aukastaf. Innihald næringarefna má þó gefa upp með þeim fjölda aukastafa sem hvert næringarefni er tilgreint í viðauka 3. Gerð og leysanleiki næringarefna má einnig gefa upp í þungaprósentu af áburðinum, nema í þeim tilvikum þar sem í viðauka 1 er kveðið á um að upplýsingar séu gefnar upp á annan hátt.

Innihald næringarefna skal gefa bæði með heiti efna og efnafræðitákna. Í vörulýsingu skal alltaf nefna næringarefni í sömu röð og í 6-lið 2. gr.

c. Fyrir þær áburðartegundir sem taldar eru upp í viðauka 1, þar með talið NPK-áburð, sbr. 18. gr., er lýsingarmörk m.t.t. næringarefna gefin í grein 17.1-17.3.

d. Fyrir áburðartegundir sem ekki eru taldar upp í viðauka 1 eru lýsingarmörk m.t.t. næringarefna gefin upp í grein 17.4.

17.1 Áburður sem eitt eða fleiri aðalnæringarefni.

a. Lýsa skal magni, gerð og leysanleika hvers aðalnæringarefnis skv. því sem kveðið er á um fyrir hverja mismunandi vörutegund í viðauka 1, kafla A, dálki 6 eða kafla B, dálki 5, 6 og 7.

b. Tilgreina má magn á kalki, magnesíum, natríum og brennisteini að því tilskyldu að þau séu í því magni sem fram kemur í viðauka 3, dálki 3-6. Magnið skal alltaf gefa upp sem þungaprósentu af áburðinum og skal það gefið upp á eftirfarandi hátt:

Í ESB-áburði:
- Heildarmagn eða
- ef næringarefnið er algerlega leysanlegt í vatni: Vatnsleysanlegt innihald eða
- ef vatnsleysanlegt innihald er minnst 1/4 af heildarmagninu: Bæði heildarinnihald og vatnsleysanlegt innihald.

Í öðrum áburði en ESB-áburði:
- Bæði heildarinnihald og vatnsleysanlegt innihald eða
- næringarefni alveg leysanleg í vatni: Aðeins vatnsleysanlegt innihald.

c. Því aðeins má tilgreina kalkmagn í fljótandi ESB-áburði sem ætlaður er til úðunar að kalkinnihald sé í það minnsta 5,7%.

d. Innihald snefilefna skal tilgreina þegar snefilefnum er bætt í og/eða eru til staðar í magni sem a.m.k. jafnast á við minnsta magn sem tilgreint er í viðauka 3, dálki 3-6 og áburðurinn eftir sem áður uppfyllir ákvæði viðauka 1, kafla A og B. Ef snefilefnin eru venjuleg fylgiefni hráefnis aðal- eða aukanæringarefna og til staðar í magni skv. viðauka 3 er frjálst að tilgreina snefilefnin. Innihald snefilefna skal skilgreina eins og tilgreint er í grein 17.3, staflið b.

17.2 Áburður með aukanæringarefni sem þýðingarmesta næringarefni.

a. Lýsing á innihaldi aukanæringarefna og eiginleika þeirra, gerð og leysanleika skal skilgreind eins og kveðið er á um fyrir ólíkar vörutegundir í viðauka 1, kafla C, dálki 6.

b. Innihald af kalki má aðeins skilgreina fyrir vörutegundirnar 1 og 2 í viðauka 1, kafla C.

c. Innihald snefilefna skal skilgreina þegar þeim er bætt í og þau til staðar í því magni sem a.m.k. svarar til lágmarksins sem tilgreint er í viðauka 3, dálki 3-5 og áburði sem áfram uppfyllir ákvæði viðauka 1, kafla 7. Ef snefilefnin eru eðlilegur hlutur þeirra hráefna sem sjá fyrir aukanæringarefnunum og til staðar í því magni sem tilgreind er í viðauka 3, er skilgreining snefilefna valfrjáls. Innihald snefilefna skal skilgreina sbr. ákvæði b-liðar í grein 17.3.

17.3 Áburður með eitt eða fleiri snefilefni sem aðalnæringarefni.

a. Fyrir áburð sem aðeins inniheldur eitt snefilefni skal innihaldið skilgreint í samræmi við kröfur í viðauka 1, kafla B.

b. Í blöndum af tveim eða fleiri áburðartegundum skv. staflið a, má því aðeins tilgreina magn snefilefna að það a.m.k. svari til lágmarksins sem gefið er upp í viðauka 3.

Fyrir blöndur af tveim eða fleiri áburðartegundum sem tilgreindar eru í staflið a og fyrir áburð með aðal- eða aukanæringarefni sem þýðingarmestu næringarefnin og samtímis eru skilgreind að innihaldi snefilefna þá skal magn snefilefna gefið upp í þungaprósentu af áburðinum á eftirfarandi hátt:

Í ESB áburði:
- Heildarmagn eða
- ef næringarefnið er algjörlega leysanlegt í vatni: Bara vatnsleysanlegt innihald eða
- ef vatnsleysanlegur hluti er í það minnsta helmingurinn af heildarmagninu: Bæði heildarinnihald og vatnsleysanlegt innihald.

Í öðrum áburði en ESB-áburði:
- Bæði heildarinnihald og vatnsleysanlegt innihald eða
- ef næringarefnið er algjörlega leysanlegt í vatni: Bara vatnsleysanlegt innihald.

Ef snefilefni eru að hluta eða alveg efnafræðilega bundin lífrænu efnasambandi skal næringarefnið auðkennt með þessum upplýsingum:
- "bundið..." og síðan skal tilgreina nafn þess lífræna efnasambands eða stytting þess eins og gefið er upp í viðauka 4, kafla A eða B.

Nota má styttingu fyrir hið lífræna efnasamband í stað nafnsins.

c. Innihald snefilefna skal gefið upp sem þungaprósenta í heilum tölum, hugsanlega með einum aukastaf fyrir efnaáburðategundir sem innihalda aðeins eitt snefilefni (viðauki 1, kafli D). Fyrir áburðategundir sem innihalda fleiri snefilefni má fjöldi aukastafa fyrir hvert næringarefni vera í samræmi við það sem gefið er upp í viðauka 3.

d. Innihald snefilefna skal gefið upp bæði með nöfnum og efnafræðiheitum.

17.4 Áburðartegundir sem ekki eru tilgreindar í viðauka 1.

a. Innihald næringarefna o.s.frv. í ólífrænum áburðartegundum sem ekki eru taldar í viðauka 1 skal gefa upp á eftirfarandi hátt:
- Köfnunarefni (N): Í öllum áburðartegundum sem innihalda köfnunarefni N, er uppgefið heildarköfnunarefni.
- Fosfór (P): Í NPK- og NP áburði skal bæði gefa upp vatns- og sítratleysanlegt P. Hið sama gildir um eingildar tegundir fosfóráburðar nema Thomasfosfat og hráfosfat þar sem líka skal gefa upp heildar P. Kornastærð (fínleiki) fyrir Thomasfosfat og hráfosfat skal gefin upp í mm.
- Kalíum (K). Í öllum áburðartegundum sem innihalda kalíum, skal gefa upp vatnsleysanlegt innihald af K.
- Innihald af magnesíum (Mg), kalki (Ca), brennisteini (S) og snefilefnum má aðeins gefa upp ef innihald þeirra fer yfir þau gildi sem tiltekin eru í viðauka 3.
- Ef innihald af magnesíum, kalki, brennisteini og snefilefnum er gefið upp skal gefa upp heildarinnihald svo fremi að ekki sé annað tiltekið.

b. Lífrænum áburði og áburðarblöndum af lífrænum og ólífrænum toga skal lýsa í samræmi við ákvæði viðauka 2.

Landbúnaðarráðuneytið getur, að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið, veitt undanþágu varðandi upplýsingar um næringarefnainnihald undir þeim mörkum sem hér hafa verið tilgreind, fyrir einstakar vörur eða vörur til sérnota.

18. gr. 

 Kröfur til NPK-áburðar.

NPK-áburður sem ekki er seldur sem ESB-áburður á að innihalda a.m.k. 0,8% magnesíum (Mg) í formi kíseríts, eða 0,8% vatnsleysanlegt magnesíum (Mg) ef notaður er annar Mg gjafi, a.m.k. 0,8% brennistein (S) og a.m.k. 0,018% bór (B). Hlutfallið milli ammoníumköfnunarefnis og nítratköfnunarefnis í slíkum áburði má ekki vera yfir 60/40.

19. gr. 

 Snefilefnaáburður.

Snefilefnaáburður sem tilgreindur er í viðauka 1, kafla D og blöndur tveggja eða fleiri tegunda í kafla D, skulu vera í lokuðum umbúðum. Eftirfarandi setningum skal bætt á umbúðirnar, miða eða á fylgiseðla: "Má aðeins nota skv. staðfestri þörf. Ekki má nota meira en mælt er með."

Fyrir snefilefnaáburð sem tilgreindur er í viðauka 1, kafla D, og blöndur af honum, verða á miðanum eða á fylgiseðlinum að vera upplýsingar um magn og skilyrði fyrir þau jarðvegs- eða ræktunarskilyrði sem að nota á áburðinn fyrir. Þessar upplýsingar eiga að vera greinilega aðskildar frá þeim vörulýsingum sem tilgreindar eru í 12. gr.

20. gr. 

 Áburðarvökvi.

Áburðarvökva má ekki bjóða eða selja nema að honum fylgi viðeigandi leiðbeiningar, sem m.a. veita upplýsingar um geymsluhita og hvernig hindra megi hugsanlegt tjón við geymslu. Í vörulýsingu með áburðarvökva má gefa upp magn næringarefna í þunga á hverja rúmeiningu (kg/hl eða g/l) til viðbótar við innihald tilgreint sem þungaprósenta. Í vörulýsingu skal tilgreina þunga fljótandi áburðar. Heimilt er að tilgreina rúmtak.

21. gr. 

 Áburðarblöndur (blandaðar áburðartegundir).

Áburðarblöndur eiga að auðkennast með orðunum "Áburðarblöndur" í framhaldi af tegundamerkingu.

22. gr. 

 Hreinn ammoníumnítratáburður með hátt köfnunarefnisinnihald.

Átt er við "hreinan ammoníumnítratáburð" og vörur framleiddar úr ammoníumnítrati sem framleiddar eru efnafræðilega til notkunar sem áburður og sem hafa köfnunarefnisinnihald hærra en 28% af þunga og geta innihaldið ólífræn íblöndunarefni eða óvirk efni (sem sprengiefni) eins og t.d. kalksteinsmjöl eða dólómítmjöl, kalsíumsúlfat, magnesíumsúlfat og kíserít. Hreinn ammoníumnítratáburður verður að vera í samræmi við lýsingar og mörk sem sett eru í viðauka 6. Hreinan ammoníumnítratáburð má aðeins selja neytanda í lokuðum umbúðum.

Landbúnaðarráðuneytið getur krafist þess að ammoníumnítratáburður hafi verið sprengjuþolsprófaður sbr. lýsingu í viðauka 7 áður en hann er settur á markað. Óheimilt er að selja áburð sem ekki uppfyllir kröfur í viðauka 6 eða hefur ekki staðist sprengjuþolsprófun skv. ákvæðum í viðauka 7.

23. gr. 

 Innihald óæskilegra efna.

Magn af kadmíum í ólífrænum áburði má ekki fara yfir 50 mg Cd per kg P. Sama gildir um ólífrænan áburð í blöndum, sbr. 8. og 9. gr. Framleiðandi og/eða innflytjandi áburðar verður að geta staðfest kadmíuminnihald vöru sinnar fyrir skráningu hjá aðfangaeftirliti.

Magn af bíuret í þvagefni (urea) má ekki verða hærra en hámarksinnihald sem gefið er upp fyrir einstakar vörutegundir í viðauka 1. Hugsanleg þvagefni í blönduðum áburði sem ekki er flokkaður í vörutegundir skv. viðauka 1 og ekki er seldur sem ESB-áburður má ekki innihalda meira en 0,5% bíuret.

Klórmagn má ekki fara yfir þau mörk sem skráð eru fyrir hverja vörutegund í viðauka 1. Lýsinguna "klórsnautt" má því aðeins nota að klór fari ekki yfir 2%. Klórinnihald má skilgreina í samræmi við það sem gefið er upp fyrir einstaka vörutegundir í viðauka 1.

Landbúnaðarráðuneytið getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið ákveðið hámarksinnihald og skilgreiningar fyrir önnur óæskileg efni.

VI. KAFLI.

Jarðvegsbætandi efni og jarðvegslíki.

24. gr. 

 Jarðvegsbætandi efni.

Fyrir áburðarkalk og önnur jarðvegsbætandi efni skulu gilda sérstakar reglur sem aðfangaeftirlitið setur um gæði. Fyrir önnur jarðvegsbætandi efni gilda auk þess ákvæði 3. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 12. gr.

25. gr. 

  Jarðvegslíki.

Jarðvegur og jarðvegsblöndur, ræktunartorf, jarðgerðarefni og aðrar vörur sem seldar eru til nota vegna ræktunar plöntu eiga að skilgreinast í samræmi við reglur sem aðfangaeftirlitið setur um skilgreiningar, pökkun og merkingu.

Undir trjábörk til notkunar við ræktun falla ferskur-, gamall- og jarðgerður börkur. Skilgreiningar skulu vera í samræmi við reglur sem aðfangaeftirlitið setur um skilgreiningar, sýnatöku, pökkun og merkingu.

Aðfangaeftirlitið setur einnig reglur um skilgreiningar, sýnatöku, pökkun og merkingu fyrir jarðveg til notkunar í almenningsgörðum og matjurtargörðum, sem hefur verið blandaður eða meðhöndlaður.

VII. KAFLI

 Frávik.

26. gr.

 Leyfileg frávik.

Vegna breytileika í framleiðslu, sýnatöku og við efnamælingar varðandi flestar af þeim vörum sem reglugerð þessi tekur til skulu sett skilgreind mörk milli mældrar niðurstöðu og þess sem skilgreint hefur verið og gildir fyrir viðkomandi næringarefni og eiginleika þess.

Með leyfilegu fráviki er átt við, ef ekkert annað er tekið fram, leyfilega vöntun á skilgreindu innihaldi næringarefnis. Þar sem ekki eru sett leyfileg mörk skal skilgreint gildi vera Lágmarksgildi. Ef hið skilgreinda gildi er gefið upp með tveim tölum sem ákveðið bil, gildir lægri talan sem lágmarksgildið. Ekki eru leyfð frávik frá lágmarks- eða hámarksgildum þeim sem tekin eru fram í reglugerðinni eða viðaukum við hana. Umframmagn eins næringarefnis réttlætir ekki skort eða vöntun á öðru.

Sé niðurstaða ítrekaðra mælinga við neðri mörk er heimilt að mæla svo fyrir að framleiðandi viðkomandi vöru geri breytingar til hækkunar á efnainnihaldi eða lækki viðmiðunarmörk samkvæmt vörulýsingu.

Fyrir áburð gilda mörk um leyfileg frávik sem gefin eru upp í viðauka 5. Fyrir áburðarkalk og jarðvegsbætandi efni verða mörk fyrir leyfileg frávik tilgreind í reglum sem aðfangaeftirlitið setur.

VIII. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

27. gr.

Eftirlit.

Aðfangaeftirlitið skal hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt. Aðfangaeftirlitinu er heimilt að taka sýnishorn af öllum vörum sem reglugerðin gildir um.

28. gr.

Undanþágur.

Landbúnaðarráðherra getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar reglugerðar ef sérstakar aðstæður mæla með því.

29. gr. 

 Sáðvöru- og áburðarnefnd.

Til aðstoðar afangaeftirlitinu skipar landbúnaðarráðherra sáðvöru- og áburðarnefnd til fjögurra ára og skal nefndin vera ráðgefandi um framkvæmd eftirlits samkvæmt reglugerð þessari. Um skipun nefndarinnar og hlutverk fer samkvæmt ákvæðum 2. gr. laga nr. 22/1994.

30. gr.

Þóknun.

Til að standa straum af kostnaði við rekstur aðfangaeftirlitsins samkvæmt reglugerð þessari skal innheimta eftirlitsgjald sem skal vera 0,1% af innflutningsverði (cif) vöru sem reglugerðin gildir um sem innheimt skal við tollafgreiðslu vörunnar og 0,1% af söluverði (án vsk.) innlendrar vöru, sem innheimt skal tvisvar á ári samkvæmt söluskýrslum framleiðenda, sem aðfangaeftirlitið sendir þeim að kostnaðarlausu. Gjalddagar eftirlitsgjalds skulu vera 1. mars og 1. október ár hvert. Sé gjaldið ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal reikna mánaðarlega dráttarvexti af því sem gjaldfallið er og eru dráttarvextir hinir sömu og hjá innlánsstofnunum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands. Eftirlitsgjald má taka fjárnámi.

Standi framleiðandi ekki skil á upplýsingum sem nauðsynlegar eru til álagningar eftirlitsgjalds eða gögn um gjaldskylda vöru eru ófullnægjandi að mati aðfangaeftirlitsins er heimilt að áætla gjaldið og innheimta það samkvæmt þeirri áætlun. Aðfangaeftirlitið skal skriflega tilkynna greiðanda gjaldsins um áætlunina. Telji greiðandi áætlunina ranga, getur hann innan 20 daga frá og með póstsendingardegi tilkynningarinnar um áætlun gjaldsins, krafist þess skriflega að aðfangaeftirlitið taki áætlunina til endurskoðunar. Skal sú krafa rökstudd með söluskrám eða öðrum nauðsynlegum gögnum. Aðfangaeftirlitið skal innan eins mánaðar frá lokum þessa frests gera greiðanda skriflega grein fyrir afgreiðslu á kröfu hans. Heimilt er greiðanda að skjóta lokaafgreiðslu aðfangaeftirlitsins til landbúnaðarráðherra og skal skrifleg og rökstudd beiðni þar um hafa borist ráðherra innan 30 daga frá póstlagningu bréfs aðfangaeftirlitsins. Beiðni um endurskoðun á áætlun gjaldsins eða deila um gjaldskyldu frestar ekki eindaga eftirlitsgjaldsins, né leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu þess. Ef gjaldið er lækkað samkvæmt afgreiðslu aðfangaeftirlits eða úrskurði ráðherra skal endurgreiðsla þegar fara fram.

31. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða viðurlögum samkvæmt 9. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

32. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 22 29. mars 1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felldur I. kafli reglugerðar nr. 256/1981.

Landbúnaðarráðuneytið, 29. júní 1995.

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.

VIÐAUKAR 1-7
(sjá PDF-skjal)

 

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica