Samgönguráðuneyti

317/2000

Reglugerð um framkvæmd rafrænnar farskráningar í loftflutningum. - Brottfallin

1. gr.

Flytjanda skal heimilt að taka við bókunum á flutningi farþega í loftflutningum sem gerðar eru með rafrænum hætti. Þá er flytjendum heimilt að staðfesta slíkar bókanir með rafrænum hætti og láta þá staðfestingu koma í stað útgáfu á farseðli og er þá kominn á flutningssamningur á milli aðila.

Sé heimildar skv. 1. mgr. neytt, skal flytjandi bjóða farþega skriflega staðfestingu flutningssamnings.

2. gr.

Greinargóðar upplýsingar um ferða- og samningsskilmála skulu birtast á skjámynd farþega áður en hann á þess kost að staðfesta bókun með rafrænum hætti og skulu þær einnig vera aðgengilegar eftir að bókun hefur verið staðfest.

Ferða- og samningsskilmálar skulu jafnframt vera farþegum til reiðu á einfaldan og skýran hátt á vefsíðu og söluskrifstofum flugrekanda, hjá ferðaskrifstofum og umboðsaðilum hans og við innritunarborð til brottfarar.

Sé um sérstakar aðstæður að ræða hjá farþega, s.s. hreyfihömlun eða ungan aldur, skal vera unnt að geta slíks við bókun.

3. gr.

Í staðfestingu flytjanda á bókun farþega skal greina eftirfarandi:

a. nafn farþega, heimilisfang og símanúmer

b. brottfararstað og ákvörðunarstað, tímasetningar og flugnúmer

c. að minnsta kosti einn umsaminn viðkomustað á leiðinni, svo fremi brottfararstaður og ákvörðunarstaður séu í sama ríki og samið sé um einn eða fleiri viðkomustaði í öðru ríki

d. bókunarnúmer og dagsetning bókunar

e. verð, flugvallargjöld, skatta og greiðslumáta

f. nafn flytjanda, en fljúgi annar flytjandi undir flugnúmeri flytjanda skal greinilega koma fram hvaða flytjandi annist flug. Sé um sérstakt tímabundið fyrirkomulag að ræða er nægilegt að nafn flytjanda komi fram

g. tegund loftfars, eða loftfara sé skipt um loftfar á leiðinni

h. flutninga milli flugvalla sé skipt um loftfar á leiðinni

4. gr.

Þegar flytjandi veitir farangri viðtöku skal honum heimilt að skrá innritaðan farangur og þyngd hans með rafrænum hætti.

Sé heimildar skv. 1. mgr. neytt, og enginn farangursmiði útgefinn, er flutningssamningur engu að síður gildur. Farþega skal standa til boða skrifleg staðfesting á viðtöku innritaðs farangurs.

5. gr.

Farþegum skal afhenda brottfararspjöld við innritun, til staðfestingar á heimild til að ganga um borð í loftfar.

6. gr.

Nú nýtir flytjandi sér heimildir 1. gr. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar og getur hann þá eigi borið fyrir sig ákvæði laga um loftferðir nr. 60/1998, um takmörkun ábyrgðar.

7. gr.

Ákvæðum reglugerðar þessarar skal beita eftir því sem við getur átt um bókun og staðfestingu flutningssamnings sem gerður er í síma eða með símbréfi.

8. gr.

Reglugerð nr. 2299/89/EBE, frá 24. júlí 1989, um starfsreglur fyrir notkun tölvufarskráningarkerfa, sbr. augl. 567/1993, með síðari breytingum, skal gilda um rafræna farskráningu samkvæmt reglugerð þessari eins og við getur átt.

9. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að fimm árum.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 125. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 19. apríl 2000.

Sturla Böðvarsson

Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica