Landbúnaðarráðuneyti

19/2001

Reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum, beingreiðslur, uppkaupaálag og jöfnunargreiðslur 2001-2007. - Brottfallin

I. KAFLI
Beingreiðslumark, greiðslumark lögbýla o.fl.
1. gr.
Beingreiðslumark og greiðslumark lögbýla.

Frá og með 1. janúar 2001 verður beingreiðslumark sauðfjárafurða kr. 1.740.000.000 á almanaksári og skiptist hlutfallslega eins milli lögbýla og beingreiðslur gerðu árið 2000. Beingreiðslur til einstakra lögbýla taka breytingum í samræmi við ákvæði 2. og 4. mgr. 38. gr., 1. mgr. 39. gr. og 41. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum.

Greiðslumark er bundið við lögbýli. Bændasamtök Íslands halda skrá yfir greiðslumark lögbýla.


2. gr.
Aðilaskipti og flutningur.

Þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi á grundvelli ákvæðis 2.3 í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða dags. 11. mars 2000, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 og reglugerð nr. 399/2000 um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki sauðfjár, en þó ekki síðar en 1. janúar 2004 er heimilt að flytja greiðslumark milli lögbýla. Fram að þeim tíma er einungis heimilt að flytja greiðslumark milli lögbýla með eftirtöldum skilyrðum: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli.

Framsal greiðslumarks skal taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.

Sé ábúandi annar en eigandi lögbýlis þarf samþykki ábúanda og eiganda fyrir framsali greiðslumarks.

Aðilaskipti greiðslumarks skulu tilkynnt á þar til gerðum eyðublöðum sem Bændasamtök Íslands láta í té og liggja frammi á skrifstofum búnaðarsambanda. Með tilkynningu um aðilaskipti að greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa í lögbýlinu. Bændasamtök Íslands skulu staðfesta aðilaskiptin með áritun á tilkynningu og öðlast þau þá gildi frá og með 1. janúar, sbr. 2. mgr. Bændasamtök Íslands skulu tilkynna báðum aðilum bréflega um staðfestingu aðilaskipta.


3. gr.
Búskaparhlé.

Lögbýli heldur greiðslumarki sínu óskertu þótt réttur til beingreiðslna falli niður vegna búskaparhlés án þess að samið sé um búskaparlok og greiddar bætur fyrir.

Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands fyrir 15. janúar ár hvert ef framleiðandi óskar eftir að fá beingreiðslur aftur að loknu hléi. Beingreiðslur greiðast handhafa frá og með 1. janúar það ár.


II. KAFLI
Beingreiðslur.
4. gr.
Beingreiðslur.

Beingreiðslur greiðast úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlis eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðslur skulu vera kr. 4.399 á hvert ærgildi á árunum 2001 og 2002 en lækka eftir það miðað við framangreinda fjárhæð sem hér segir: árið 2003 um 12,5%, árið 2004 um 15%, árið 2005 um 17%, árið 2006 um 20% og árið 2007 um 22,5%.


5. gr.
Handhafar beingreiðslna.

Handhafi beingreiðslna er ábúandi lögbýlis.

Bændasamtök Íslands halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila, er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör.

Réttur til beingreiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða.

Handhafar beingreiðslna skulu láta Bændasamtökum Íslands í té upplýsingar um sérstakan reikning í banka eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á.


6. gr.
Ásetningshlutfall.

Til að fá fullar beingreiðslur þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur ásettar haustið 2000, fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 2001. Síðan skal landbúnaðarráðherra ákveða árlega ásetningshlutfall að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Ásetningshlutfall skal auglýst fyrir 15. september ár hvert vegna næsta almanaksárs, í fyrsta sinn fyrir 15. september 2001.


7. gr.
Lækkun ásetningshlutfalls.

Ásetningshlutfall hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar bótaskyldum sjúkdómum skal þó á fyrsta almanaksári eftir fjártöku aðeins nema 1/3 af því sem ákveðið er samkvæmt 6. gr. og á öðru ári 2/3, til að þeir haldi fullum beingreiðslum.

Á lögbýlum, þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland, er landbúnaðarráðherra heimilt að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga og að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins að semja um lægra ásetningshlutfall án þess að beingreiðslur skerðist.


8. gr.
Skerðing eða niðurfelling beingreiðslna.

Heimilt er að skerða eða fella niður beingreiðslur ef sauðfjárframleiðandi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundin ákvæði um afsetningu afurða.


9. gr.
Gjalddagi beingreiðslna.

Beingreiðslur greiðast með ellefu jöfnum mánaðarlegum greiðslum 1. hvers mánaðar frá janúar til nóvember ár hvert, þó þannig að greiðsla fyrir janúar fer fram 1. febrúar ásamt greiðslu fyrir þann mánuð. Verðbætur, sbr. 22. gr. greiðast með nóvembergreiðslu.


10. gr.
Fjármunir til markaðsaðgerða.

Beingreiðslum sem sparast vegna skerðingarákvæða 7. og 9. gr. skal varið til sameiginlegra markaðsaðgerða.

Landbúnaðarráðherra staðfestir ráðstöfun á fjármunum til markaðsaðgerða að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga.


III. KAFLI
Uppkaupaálag.
11. gr.
Uppkaupaálag.

Beingreiðslum sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkissjóður hefur keypt upp á grundvelli ákvæðis 3.2 í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars 2000, sbr. og 4. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 með síðari breytingum og reglugerð nr. 399/2000 skal varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt sem kemur til meðferðar í afurðastöð á árunum 2001 og 2002. Eftir það verða þær nýttar til álags á gæðastýrða framleiðslu.


12. gr.
Handhafar uppkaupaálags.

Handhafi uppkaupaálags er handhafi beingreiðslna á viðkomandi lögbýli. Ef ekkert greiðslumark fylgir lögbýli skal tilkynna Bændasamtökum Íslands um einn handhafa uppkaupaálags á lögbýli nema um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða sem standa að búinu en þá er heimilt að skrá þá sérstaklega, sbr. 5. gr.


13. gr.
Útreikningur og uppgjör uppkaupaálags.

Uppkaupaálag reiknast með þeim hætti að árlegri fjárhæð beingreiðslna fyrir fyrstu 25.000 ærgildin sem ríkissjóður hefur keypt skal deilt jafnt niður sem álagi á hvert kíló af framleiddu dilkakjöti á lögbýlum sem kemur til meðferðar í afurðastöð árið 2001 og árið 2002.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga tekur ákvörðun um hvernig uppgjöri uppkaupaálags skuli háttað. Miða skal við að 90% greiðist eigi síðar en 31. desember og að endanlegt uppgjör fari fram eigi síðar en 5. febrúar næsta ár.


IV. KAFLI
Jöfnunargreiðslur.
14. gr.
Jöfnunargreiðslur.

Jöfnunargreiðslur skal greiða til framleiðenda á lögbýlum eftir þeim reglum sem hér fara á eftir.

Jöfnunargreiðslur greiðast þannig að greidd verður jöfnun, að hámarki kr. 100 á kíló á greiðslugrunn, sem reiknast á eftirfarandi hátt: Finna skal það meðalinnlegg dilkakjöts tveggja ára af árunum 1997, 1998 og 1999 sem er umfram 18,2 kg á hvert ærgildi lögbýlisins eins og það var skráð við hver áramót þar á undan. Reikna skal 30% álag á framleiðslu júní- og júlímánaða og 12% álag á framleiðslu ágústmánaðar.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal samanlögð fjárhæð jöfnunargreiðslna ekki fara fram úr kr. 60.000.000 á ári.


15. gr.
Handhafar jöfnunargreiðslna.

Jöfnunargreiðslur greiðast til framleiðenda á lögbýlum sem skiluðu árlega í afurðastöð að reiknuðu meðaltali meira en 1.250 kg dilkakjöts á árunum 1997, 1998 og 1999.

Skilyrði til að hljóta jöfnunargreiðslur eru ennfremur að reiknað innlegg dilkakjöts á árinu fari ekki niður fyrir 18,2 kg á hvert ærgildi greiðslumarks og að reiknað innlegg dilkakjöts árið á undan sé að lágmarki 18,2 kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Álag á framleiðslu í júní, júlí og ágúst reiknast samkvæmt 2. mgr. 14. gr.

Frá og með 1. janúar 2003 er réttur til að hljóta jöfnunargreiðslur einnig bundinn því skilyrði að framleiðendur hafi með höndum gæðastýrða framleiðslu.

Handhafi jöfnunargreiðslna er handhafi beingreiðslna á viðkomandi lögbýli. Ef ekkert greiðslumark fylgir lögbýli skal tilkynna Bændasamtökum Íslands um einn handhafa jöfnunargreiðslna á lögbýli nema um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða sem standa að búinu en þá er heimilt að skrá þá sérstaklega, sbr. 5. gr.

Jöfnunargreiðslur verða ekki framseldar, uppkeyptar eða fluttar á milli lögbýla.


16. gr.
Uppgjör jöfnunargreiðslna.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga tekur ákvörðun um hvernig uppgjöri jöfnunargreiðslna skuli háttað. Jöfnunargreiðslur skulu greiðast í desember til þeirra sem hafa uppfyllt skilyrði 2. mgr. 15. gr. en lokauppgjör skal fara fram eigi síðar en 5. febrúar á næsta ári.


17. gr.
Búrekstur sama aðila á fleiri en einu lögbýli.

Ef sami aðili býr á fleiri en einu lögbýli eða hefur sameinað greiðslumark fleiri lögbýla á viðmiðunartímabilinu skal reikna sameiginlegar jöfnunargreiðslur, þ.e. reikna út frá heildargreiðslumarki og heildarinnleggi lögbýlanna á hverju viðmiðunarári.

Jöfnunargreiðslur skiptast þá milli lögbýla í hlutfalli við greiðslumark þeirra nema handhafi óski eftir annarri skiptingu við upphaf skráningar.


18. gr.
Búrekstur fleiri aðila á einu lögbýli.

Ef fleira en eitt greiðslumark eða fleiri handhafar eru skráðir á sama lögbýli eða ef framleiðsla er skráð á fleiri en einn innleggjanda og ekki hefur orðið tilfærsla milli þeirra á greiðslumarki, innleggi eða fjárstofnum á viðmiðunarárunum 1997, 1998 og 1999 skal miða við heildargreiðslumark lögbýlis og heildarinnlegg á lögbýlinu. Jöfnunargreiðslum sem útreikningar staðfesta skal deilt á greiðslumarkshafa í hlutfalli við hlutdeild í greiðslumarki lögbýlanna. Sé ekki um samrekstur eða samnýtingu að ræða geta handhafar greiðslumarks einn eða fleiri óskað eftir að vera reiknaðir sérstaklega. Miða skal við að reiknað innlegg dilkakjöts sé a.m.k. 1.250 kg á hvern greiðslumarkshafa.


19. gr.
Fjárleysi vegna niðurskurðar.

Sala líflamba vegna fjárskipta skal talin til framleiðslu við ákvörðun jöfnunargreiðslna. Sama gildir um eigin ásetning líflamba vegna uppbyggingar bústofns eftir fjárleysi.

Sauðfjárbændur sem ekki voru með eðlilega framleiðslu sauðfjárafurða vegna niðurskurðar af völdum riðuveiki geta einnig óskað eftir að viðmiðunarár við ákvörðun jöfnunargreiðslna verði tvö af þremur síðustu árum fyrir niðurskurð.

Við mat á sölu líflamba vegna fjárskipta skal að jafnaði byggt á upplýsingum embættis yfirdýralæknis um fjölda og þunga lamba sem seld hafa verið af þeim svæðum sem rétt hafa til sölu líflamba inn á riðusýkt svæði. Liggi aðeins fyrir fjöldatölur skulu gimbrar áætlaðar 38 kg og hrútlömb 45 kg. Reikna skal 43% kjöthlutfall á gimbrar og 41% á lambhrúta. Þar sem upplýsingar embættis yfirdýralæknis reynast ófullnægjandi geta sauðfjárframleiðendur lagt fram afrit af skattframtali ásamt sölunótu sem staðfesti fjölda og þunga lamba.


20. gr.
Slátrun utan haustsláturtíðar.

Þeir sauðfjárframleiðendur sem slátrað hafa lömbum mánuðina janúar-apríl 2000 geta óskað eftir að þau verði reiknuð með við ákvörðun jöfnunargreiðslna enda sé um aukna vetrarslátrun að ræða miðað við þau ár sem verða grunnur að útreikningi jöfnunargreiðslna.


21. gr.
Útreikningur, skráning og tilkynningar.

Bændasamtök Íslands annast útreikning og skráningu jöfnunargreiðslna.

Bændasamtök Íslands skulu tilkynna framleiðendum á lögbýlum um greiðslugrunn fyrir 1. mars 2001. Athugasemdir við greiðslugrunn skulu hafa borist Bændasamtökum Íslands innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar. Bændasamtök Íslands skulu hafa svarað öllum athugasemdum við greiðslugrunn fyrir 1. maí 2001.


V. KAFLI
Verðtrygging.
22. gr.

Allar fjárhæðir í reglugerð þessari eru miðaðar við verðlag 1. mars 2000 og skulu breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs.


VI. KAFLI
Málskot.
23. gr.
Málskotsheimildir.

Ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýla, skráningu greiðslumarks og rétt til beinna greiðslna er heimilt að skjóta til þriggja manna úrskurðarnefndar samkvæmt 42. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum.


VII. KAFLI
Viðurlög og gildistaka.
24. gr.
Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið sem opinber mál.


25. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 5 11. janúar 1996 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum og beingreiðslur 1996-2000, með síðari breytingum.


Landbúnaðarráðuneytinu, 11. janúar 2001.

Guðni Ágústsson.
Sigríður Norðmann.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica