Viðskiptaráðuneyti

329/2004

Reglugerð um löggildingu raforkumæla. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi mælir fyrir um löggildingu raforkumæla sem eru löggildingarskyldir, sbr. 5. gr. laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu.


2. gr.
Skilgreiningar.
Eldri mælagerð og eldri markmælar

merkja í þessari reglugerð mæla sem settir voru upp hjá neytanda fyrir gildistöku reglugerðar nr. 603/2000 þann 18. ágúst 2000.

Frumsannprófun merkir EBE-frumsannprófun sbr. rg. nr. 129/1994 um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit eða innlenda frumsannprófun aðildarlands WELMEC sbr. 4. tl. viðauka II rg. nr. 612/2000 og er aðferð til að sannreyna að framleiðsla tækis sé í samræmi við viðurkennda frumgerð og standist mælifræðilegar kröfur, m.a. um heimiluð hámarksfrávik og merkingar.

Gerðarviðurkenning merkir EBE-gerðarviðurkenningu sbr. rg. nr. 129/1994 um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit eða íslenska gerðarviðurkenningu sbr. 3. tl. viðauka II rg. nr. 612/2000 byggist á ítarlegri gerðarprófun, þar sem prófað hefur verið eftir kröfum viðkomandi tilskipana og reglugerða eða annarra kröfuskjala.

Heimiluð hámarksfrávik merkja stærstu gildi sem leyfð eru fyrir frávik í reglugerðum, stöðlum og öðrum kröfuskjölum fyrir tiltekin mælitæki.

Löggildingaraðili merkir prófunarstofu eða þjónustuverkstæði með B-faggildingu með starfsleyfi til löggildingar mælitækja sbr. rg. nr. 648/2000 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Mælaspennir er samheiti fyrir spennuspenni og straumspenni.

Raforkumælibúnaður merkir raforkumæli ásamt mælaspenni.

Úrtaksskoðun merkir skoðun byggða á fyrirmælum um hvernig úrtak skuli valið úr tiltekinni skoðunarlotu og lotan er síðan öll metin á grundvelli niðurstöðu sem hefur fengist með skoðun á einu úrtaki eða tveimur ef þörf krefur skv. nánari skilyrðum í gildandi verklagsreglum um úrtaksskoðanir fyrir veitumæla og sbr. ISO 3534, 1. hluta.


3. gr.
Hæfniskröfur.

Löggildingaraðili skal uppfylla þær hæfniskröfur sem fram koma í reglugerð nr. 648/2000 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Prófunarmaður sem annast löggildingar raforkumæla og metur ástand þeirra út frá prófunum og skoðunum skal vera rafiðnaðarmaður eða hafa sambærilega menntun og hafa yfir að ráða nægilegri tæknikunnáttu til nefndra verkefna. Tryggt skal að kunnáttu hans sé haldið við með endurmenntun. Hann skal kunna skil á þeim reglum sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið setur varðandi raforkumæla.

Tæknilegur stjórnandi skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa þekkingu á raforkumælum og reynslu af löggildingu þeirra. Undanþágu má gera frá framangreindum skilyrðum um þekkingu og reynslu ef viðkomandi hefur menntun eða starfsreynslu og þjálfun sem faggildingarsvið Löggildingarstofu telur fullnægjandi. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir öllum löggildingum sem löggildingaraðili vinnur.


4. gr.
Mælitæki notuð við löggildingu.

Allir mæligrunnar, sem löggildingaraðili notar í tengslum við löggildingar raforkumæla, skulu vera kvarðaðir og skal kvörðunin rekjanleg til landsmæligrunna á Íslandi.


5. gr.
Aðstæður.

Eigandi raforkumælis ber ábyrgð á flutningi mælis og setur gæðakröfur um flutning mæla á notkunarstað, sem eru fullnægjandi að mati Löggildingarstofu.

Uppsetning löggildingarskylds raforkumælis á notkunarstað skal vera í samræmi við ákvæði í reglugerðum og stöðlum og fyrirmæli framleiðanda um umhverfisaðstæður og frágang.

Þegar prófun raforkumælibúnaðar fer fram á notkunarstað, skal geta sérstaklega um það í prófunarskýrslu og fara eftir verklagsreglum um prófun á notkunarstað.


6. gr.
Löggildingarhæfi.

Raforkumælar af gerð sem er í samræmi við rg. nr. 138/1994 um raforkumæla ásamt síðari breytingum og uppfylla eftirfarandi skilyrði, teljast löggildingarhæfir:

A Löggilding nýrra mæla.
A1. Að frumsannprófunarmerki sé á mælinum sbr. rg. nr. 129/1994 um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit og sbr. 3. og 4. tl. viðauka II rg. nr. 612/2000.
A2. Að raforkumælir sé innsiglaður frá frumsannprófunaraðila.
A3. Að staðfest sé út frá fyrirliggjandi gögnum um frumsannprófun að viðkomandi mælar hafi staðist prófanir sbr. kröfur í V. kafla um EBE-frumsannprófun í reglugerð nr. 138/1994 um raforkumæla og sbr. 2. tl. viðauka II rg. nr. 612/2000.
B Framlenging gildistíma með úrtaksskoðun.
B1. Að mælarnir standist prófanir nr. 3-10 um tómagang, gangsetningu og heimiluð hámarksfrávik í V. kafla um EBE-frumsannprófun í reglugerð nr. 138/1994 um raforkumæla. Styðjast má við önnur viðmiðunarskjöl með sambærilegum kröfum ef þau eru lögð fram af löggildingaraðila og viðurkennd af Löggildingarstofu.
B2. Prófanir skv. lið B1 skal framkvæma með úrtaksskoðun í samræmi við verklagsreglur Löggildingarstofu um framlengingu gildistíma fyrir veitumæla á grundvelli úrtaksskoðana.
B3. Að mælir hafi verið innsiglaður af prófunaraðila að lokinni prófun.
C Eldri mælagerðir.

Löggildingarstofa getur heimilað löggildingar eldri mælagerða ef þeir standast prófanir skv. B lið þó að öðrum ákvæðum sé ekki fullnægt.


7. gr.
Löggilding raforkumæla.

Eigandi raforkumælis ber ábyrgð á að mælir sé ekki tekinn í notkun nema að undangenginni löggildingu og að hann sæti reglubundnu eftirliti og uppfylli þær kröfur sem til hans eru gerðar samkvæmt lögum og reglugerðum og að löggilding hans sé ætíð í gildi.

Nýjan raforkumæli má löggilda hafi löggildingarhæfi hans eða þeirrar mælalotu, sem hann tilheyrir, verið staðfest sbr. A lið 6. gr. Sé raforkumælir löggildingarhæfur er festur á hann löggildingarmiði með númeri löggildingaðila og ártali löggildingar og telst hann þá löggiltur.

Þegar gildistími mælalotu er framlengdur á grundvelli úrtaksskoðana sbr. lið B2 6. gr. þarf ekki að setja nýja löggildingarmiða á mælana. Endurnýja má löggildingarmiða mælanna sem voru prófaðir ef þörf er á en gildistími þeirra verður sá sami og fyrir aðra hluta lotunnar. Innsigla skal mæla að nýju ef innsigli hefur verið rofið við prófanir. Upplýsingar um löggildingarstöðu allra mæla skulu skráðar og vera aðgengilegar Löggildingarstofu hverju sinni og upplýsingar um löggildingarstöðu viðkomandi mæla skulu vera á árlegu yfirliti eða reikningi frá veitu.

Þegar löggiltur raforkumælir er tengdur við mælaspenni getur Löggildingarstofa krafist staðfestingarprófana á raforkumælibúnaðinum á notkunarstað. Mælaspennar skulu uppfylla kröfur í reglugerð um raforkumæla.

Ef prófunarstofa með starfsleyfi til löggildingar raforkumæla annast einnig viðgerðir þeirra skal halda þeim verkþáttum greinilega aðskildum frá löggildingunum í samræmi við kröfur staðla. Minniháttar stillingar í tengslum við löggildingar eru heimilar sé slík stilling gerð í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda eða viðurkenndar aðferðir þegar leiðbeiningarnar eru ekki til.


8. gr.
Tíðni löggildinga.

Gildistími löggildinga raforkumæla er sem hér segir:

1. Löggilding ein- eða fjölfasa raforkumæla tengdra mælaspennum, sem hafa takmarkaða gerðarviðurkenningu eða eru notaðir til reynslu, gildir í allt að 5 ár.
2. Löggilding raforkumæla fyrir fjölþrepa gjaldskrá annarra en tvígjaldsmæla og aflmæla gildir í allt að 8 ár.
3. Löggilding raforkumæla fyrir markmælingu gildir í allt að 8 ár.
4. Löggilding ein- eða fjölfasa raforkumæla tengdra mælaspennum, annarra en getið er í 1. tl., gildir í allt að 10 ár.
5. Löggilding ein- eða fjölfasa raforkumæla, þar með talið tvígjaldsmæla, gildir í allt að 16 ár.

Ef unnt er að sýna fram á löggildingarhæfi lotu raforkumæla í notkun skv. 3., 4. og 5. tl. með úrtaksskoðun sbr. B lið 6. gr. er heimilt að framlengja gildistíma viðkomandi mælalotu um allt að 4 ár í hvert sinn.


9. gr.
Afturköllun löggildingar.

Löggildingin fellur úr gildi, þrátt fyrir að gildistími skv. 8. gr. sé ekki liðinn, ef:

1. kröfum um flutning og uppsetningu, sbr. 5. gr. er ekki fullnægt,
2. raforkumælir bilar,
3. innsigli á raforkumæli er rofið,
4. viðgerð er framkvæmd á raforkumælinum sem áhrif getur haft á mæliniðurstöðu hans,
5. frávik eru meiri en tvöföld heimiluð hámarksfrávik.

Löggildingarstofu er heimilt að veita undanþágu frá 3. tl. vegna eldri markmæla.


10. gr.
Skýrslugerð.

Skýrslugerð skal vera í samræmi við verklagsreglur og reglugerð um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Eftirfarandi upplýsingar skulu m.a. koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu:

1. Umsögn um merkingar.
2. Fjöldi mæla í lotu og hve margir þeirra voru prófaðir.
3. Frávik við mælingu og niðurstöður tómagangs- og gangsetningarprófana.

Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Löggildingarstofu.


11. gr.
Málskot.

Komi upp ágreiningur um úrskurð Löggildingarstofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til ráðherra.


12. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.

Ólöggiltir raforkumælar sem eru í notkun mega vera áfram í notkun ólöggiltir jafnlengi og ef þeir hefðu verið löggiltir þegar þeir voru settir upp og skal gildistími þeirra metinn í samræmi við ákvæði 8. gr. Veitur eða aðrir eigendur mæla skulu senda Löggildingarstofu greinargerðir með yfirliti um löggildingarskylda mæla í notkun þar sem fram koma upplýsingar um fjölda, aldur, stærð, gerð og löggildingarstöðu svo og aðrar upplýsingar sem Löggildingarstofa telur nauðsynlegar vegna framkvæmdar eftirlits með raforkumælum í notkun. Sé ekki unnt að afla gagna um aldur mælanna skal meta hann í samráði við Löggildingarstofu.


13. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu og öðlast þegar gildi.

Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 603/2000 um löggildingu raforkumæla.


Viðskiptaráðuneytinu, 6. apríl 2004.

Valgerður Sverrisdóttir.
Atli Freyr Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica