Viðskiptaráðuneyti

612/2000

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 138 28. febrúar 1994 um raforkumæla. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Í samræmi við reglugerð um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit er nauðsynlegt að mæla fyrir um tæknikröfur um hönnun raforkumæla og hvernig þeir vinna.

Þessi reglugerð gildir um raforkumæla og mælaspenna sem hannaðir eru til að mæla 50 Hz virkan einfasa- eða fjölfasaorkustraum.


2. gr.
Skilgreiningar.
EA

(The European Cooperation for Accreditation) eru samtök evrópskra ríkja í faggildingum.

Frumsannprófun (EBE-frumsannprófun) er aðferð til að tryggja að framleiðsla tækis sé í samræmi við viðurkennda frumgerð og standist mælifræðilegar kröfur, m.a. um heimiluð hámarksfrávik og merkingar. Aðferðinni er lýst nánar í viðeigandi reglugerðum.

Gerðarviðurkenning (EBE-gerðarviðurkenning) byggist á ítarlegri gerðarprófun, þar sem prófað hefur verið eftir kröfum viðeigandi reglugerða eða annarra kröfuskjala. Gerðarviðurkenning er forsenda frumsannprófunar og markaðssetningar eftir öðrum leiðum.

Heimiluð hámarksfrávik eru stærstu gildi sem leyfð eru fyrir frávik í reglugerðum, stöðlum og öðrum kröfuskjölum fyrir tiltekin mælitæki.

Mælaspennir er samheiti fyrir spennuspenni og straumspenni.

WELMEC (The European Cooperation in Legal Metrology) eru samtök evrópskra ríkja í lögmælifræði.

Tæknilegar skilgreiningar er að finna í I. kafla viðauka I.


3. gr.
Markaðssetning og notkun.

Raforkumælum, sem mega fá EBE-merki og -tákn, er lýst í viðauka I við reglugerð þessa og nefnast þeir spanmælar. Skylt er að þeir fái EBE-gerðarviðurkenningu og að EBE-frumsannprófun fari fram á þeim.

Óheimilt er að hindra, banna eða takmarka markaðssetningu eða notkun raforkumæla hafi slíkir mælar EBE-gerðarviðurkenningarmerkið og EBE-frumsannprófunarmerkið.

Rafeindamæla og aðra raforkumæla, sem ekki falla undir viðauka I, er heimilt að setja á markað ef þeir standast kröfur viðauka II, bera gild auðkenni þar að lútandi og eru innsiglaðir.

Mælaspenna, sem notaðir eru við mælingar fyrir raforkusölu, er heimilt að setja á markað standist þeir kröfur viðauka II.


4. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu og með hliðsjón af ákvæðum um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í 19. tölul., IX. kafla, II. viðauka, tilskipunar 76/891/EBE ásamt síðari breytingum um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi raforkumæla, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af bókun 1, II. viðauka við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.


Viðskiptaráðuneytinu, 18. ágúst 2000.

F. h. r.
Þorgeir Örlygsson.
Atli Freyr Guðmundsson.VIÐAUKI fær nýtt heiti og kallast: VIÐAUKI I

[Þessi viðauki er óbreyttur]


VIÐAUKI II

1. Rafeindamælar og mælaspennar.
Þessi viðauki tekur til rafeindamæla og annarra raforkumæla sem viðauki I gildir ekki fyrir og nefnast þeir hér eftir rafeindamælar í þessum viðauka. Þá tekur þessi viðauki einnig til mælaspenna sem notaðir eru til raforkusölumælinga.
2. Tæknilegar kröfur.
Rafeindamælar skulu uppfylla kröfur sambærilegar þeim kröfum sem gerðar eru til spanmæla í viðauka I.
Til að sýna fram á að rafeindamælir uppfylli tæknilegar kröfur þarf hann að hljóta gerðarviðurkenningu og vera frumsannprófaður í samræmi við kröfur þessa viðauka.
Mælaspennar þurfa að hljóta gerðarviðurkenningu og vera frumsannprófaðir í samræmi við kröfur þessa viðauka.
3. Gerðarviðurkenning.
Einungis má markaðssetja rafeindamæla hafi Löggildingarstofa veitt þeim innlenda gerðarviðurkenningu.
Gerðarviðurkenningin skal veitt hverjum þeim rafeindamæli sem stenst kröfur sambærilegar þeim sem gerðar eru til spanmæla í viðauka I og skal hafa aðferðir EBE um mælifræðilegt eftirlit skv. reglugerð nr. 129/1994 til hliðsjónar.
Löggildingarstofu er heimilt að byggja gerðarviðurkenningu á viðurkenningum frá aðildarlöndum WELMEC og á prófunum frá prófunarstofum sem eru faggiltar innan EA til gerðarprófana á rafeindamælum.
Einungis má markaðssetja mælaspenna hafi þeir hlotið gerðarviðurkenningu í aðildarlöndum WELMEC.
4. Frumsannprófun.
Frumsannprófun rafeindamæla er unnin í samræmi við viðauka I og skulu mælarnir standast kröfur sambærilegar þeim sem gerðar eru til spanmæla í viðauka I og skal hafa aðferðir EBE um mælifræðilegt eftirlit skv. reglugerð nr. 129/94 til hliðsjónar.
Löggildingarstofu er heimilt að samþykkja frumsannprófanir rafeindamæla frá aðildarlöndum WELMEC frá prófunarstofum sem eru faggiltar innan EA til frumsannprófana á rafeindamælum.
Einungis má markaðssetja mælaspenna hafi þeir verið frumsannprófaðir í aðildarlöndum WELMEC.
5. Hlutverk Löggildingarstofu.
Löggildingarstofa gefur út gerðarviðurkenningu rafeindamæla samkvæmt 3. tölul.
Löggildingarstofa hefur umsjón með frumsannprófunum og leggur mat á erlendar frumsannprófanir rafeindamæla samkvæmt 4. tölul. Faggiltar prófunarstofur geta tekið að sér frumsannprófanir í umboði Löggildingarstofu.
Löggildingarstofa sker úr um hvaða kröfur eru gerðar til gerðarviðurkenningar og frumsannprófunar rafeindamæla samkvæmt þessum viðauka. Úrskurði hennar má þó vísa til ráðherra til endanlegrar ákvörðunar, enda sé það gert innan fjögurra vikna frá því að Löggildingarstofa kvað upp úrskurð sinn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica