Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

320/2013

Reglugerð um ábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Verðbréfamiðlun er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 161/2002.

Með verðbréfamiðlun er átt við fjármálafyrirtæki með starfsleyfi skv. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Verðbréfamiðlun stundar viðskipti og þjón­ustu með fjármálagerninga sem felur í sér móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskipta­vinum um einn eða fleiri fjármálagerninga og/eða fjárfestingarráðgjöf.

2. gr.

Skilgreiningar.

Um skilgreiningar á hugtökum fer eftir ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og laga um vátryggingasamninga nr. 56/2010 eftir því sem við á.

3. gr.

Efnd tryggingarskyldu.

Verðbréfamiðlun uppfyllir tryggingarskyldu sína með því að kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða tryggingu hjá viðskiptabanka, sparisjóði eða annarri lánastofnun sem hefur starfsleyfi hér á landi eða í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ábyrgðartrygging verðbréfamiðlunar skal taka til starfsemi hennar hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

4. gr.

Fjárhæð tryggingar.

Ábyrgðartrygging verðbréfamiðlunar skal bæta viðskiptavinum almennt fjártjón sem leitt verður af gáleysi í störfum starfsmanna hennar. Ábyrgðartrygging skal tekin til eins árs í senn og nema minnst 22.224.123 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks sem verður á tryggingartímabilinu. Heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers tryggingartímabils getur þó ekki orðið hærri en 66.676.317 kr. Fjárhæðir þessar skulu taka mið af breytingu á vísitölu neysluverðs í janúarmánuði ár hvert og miðast fyrrgreindar upphæðir við vísitölu neysluverðs í janúar 2012.

Vátryggingafélagi eða öðrum aðila sem hafa starfsleyfi hér á landi á grundvelli 21. gr. laga nr. 56/2010 er heimilt að endurkrefja hvern þann sem veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi.

5. gr.

Brottfall tryggingar.

Falli ábyrgðartrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag eða aðili sem hefur starfsleyfi á grundvelli 21. gr. laga nr. 56/2010 tilkynna það tryggingataka og Fjár­mála­eftirlitinu þegar í stað. Niðurfelling ábyrgðartryggingar hefur ekki áhrif á tjónþola fyrr en átta vikur eru liðnar frá því að vátryggingafélag eða annar aðili sem hefur starfsleyfi á grundvelli 21. gr. laga nr. 56/2010 tilkynnti tryggingataka og Fjármála­eftirlit­inu sannanlega um tryggingarslit.

Falli vátrygging úr gildi og fullnægjandi ábyrgðartrygging hefur ekki verið sett, getur Fjár­mála­eftirlitið beitt vátryggingartaka þeim viðurlögum sem lög heimila.

6. gr.

Eigin áhætta.

Heimilt er að áskilja sjálfsáhættu verðbréfamiðlunar í tryggingarskilmálum en slíkt má ekki skerða réttarstöðu þriðja manns til bóta. Tilhögunar eigin áhættu skal getið í skil­málum tryggingar. Sé trygging í formi vátryggingar er jafnframt heimilt að geta eigin áhættu í vátryggingaskírteini eða iðgjaldskvittun.

7. gr.

Skilmálar.

Skilmálar ábyrgðatrygginga skv. reglugerð þessari skulu látnir Fjármálaeftirliti í té áður en þeir eru boðnir verðbréfamiðlunum.

8. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 3. mgr. 26. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki með áorðnum breytingum og öðlast þegar gildi.

Með reglugerð þessari fellur úr gildi reglugerð nr. 508/2000 um ábyrgðartryggingu verð­bréfa­miðlara.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 25. mars 2013.

F. h. r.

Kristján Skarphéðinsson.

Valgerður Rún Benediktsdóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica