Viðskiptaráðuneyti

508/2000

Reglugerð um ábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana. - Brottfallin

1. gr.

Fyrirtæki sem hyggst stunda miðlun verðbréfa skv. 9. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni, sbr. 3. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.

 

2. gr.

Verðbréfamiðlun uppfyllir tryggingaskyldu sína annað hvort með því að kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða ábyrgðartryggingu hjá viðskiptabanka, sparisjóði eða annarri lánastofnun sem hefur starfsleyfi hér á landi. Ábyrgðartrygging verðbréfamiðlunar skal taka til starfsemi hennar hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

 

3. gr.

Ábyrgðartrygging verðbréfamiðlunar skal bæta viðskiptavinum almennt fjártjón sem leitt verður af gáleysi í störfum starfsmanna hennar. Ábyrgðartrygging skal tekin til eins árs í senn og nema minnst 5.500.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks sem verður á tryggingartímabilinu. Heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers tryggingartímabils getur þó ekki orðið hærri en 16.500.000 kr. Fjárhæðir þessar skulu miðast við vísitölu neysluverðs og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á henni. Grunnvísitala er 195,5 vísitala janúarmánaðar 2000.

Vátryggingafélagi, viðskiptabanka, sparisjóði eða annarri lánastofnun er heimilt að endurkrefja hvern þann sem veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi.

 

4. gr.

Falli ábyrgðartrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag, viðskiptabanki, sparisjóður eða önnur lánastofnun tilkynna það tryggingataka og viðskiptaráðuneytinu þegar í stað. Tryggingartímabili telst þó eigi lokið fyrr en átta vikur eru liðnar frá því að vátryggingafélag, viðskiptabanki, sparisjóður eða önnur lánastofnun tilkynnti tryggingataka og ráðuneytinu sannanlega um tryggingarslit. Að þeim tíma loknum telst starfsleyfi verðbréfamiðlunar úr gildi fallið nema önnur fullnægjandi ábyrgðartrygging hafi verið sett.

 

5. gr.

Heimilt er að áskilja sjálfsáhættu verðbréfamiðlunar í tryggingarskilmálum en slíkt má ekki skerða réttarstöðu þriðja manns til bóta. Tilhögunar eigin áhættu skal getið í skilmálum tryggingar. Sé trygging í formi vátryggingar er jafnframt heimilt að geta eigin áhættu í vátryggingaskírteini eða iðgjaldskvittun.

 

6. gr.

Skilmálar ábyrgðatrygginga skv. reglugerð þessari skulu látnir viðskiptaráðuneyti og Fjármálaeftirliti í té áður en þeir eru boðnir verðbréfamiðlunum.

 

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 361/1993, um tryggingaskyldu vegna verðbréfamiðlunar og verðbréfaviðskipta, með síðari breytingum.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Eigi síðar en 1. janúar 2001 skulu verðbréfamiðlanir afhenda viðskiptaráðuneytinu staðfestingu á að þær hafi í gildi ábyrgðartryggingu, sem uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 7. júlí 2000.

 

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica