Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

834/2017

Reglugerð um vöktun, vottun og skýrslugjöf vegna losunar koldíoxíðs frá sjóflutningum. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vöktun, vottun og skýrslugjöf vegna losunar koldíoxíðs frá sjóflutningum.

Skipafyrirtæki skulu vakta losun koldíoxíðs frá farþega- og flutningaskipum yfir 5.000 brúttótonnum sem koma á ferð sinni í höfn á Evrópska efnahagssvæðinu og skila um hana skýrslu til Umhverfis­stofnunar og Eftirlitsstofnunar EFTA.

2. gr.

Innleiðing EES-gerða.

Eftirfarandi EES-gerð skal öðlast gildi hér á landi:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/757 frá 29. apríl 2015 um vöktun, skýrslugjöf og sann­prófun á losun koltvísýrings frá sjóflutningum og um breytingu á tilskipun 2009/16/EB sem vísað er til í tölulið, 56b í XIII. viðauka og tölulið 21aw í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahags­svæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 frá 28. október 2016 með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XIII. og XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í fylgiskjali við reglugerð þessa.

3. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 21. gr. a laga nr. 70/2012 um loftslagsmál með síðari breyt­ingum og öðlast þegar gildi.

Ákvæði 1. gr. um vöktun losunar koldíoxíðs frá farþega- og flutningaskipum yfir 5.000 brúttó­tonnum kemur til framkvæmda 1. janúar 2018 og fyrstu skýrslu um losun koldíoxíðs skal skila eigi síðar en 30. apríl 2019.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 12. september 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fylgiskjal.
(Sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica