Umhverfisráðuneyti

1025/2007

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 903/2002 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

2. mgr. 4. gr. orðast svo:

Bann við notkun arsensambanda samkvæmt 1. mgr. tekur ekki til notkunar ólífrænna saltlausna kopar-króm-arsens (CCA), gerðar C, í iðnfyrirtækjum sem hafa sérstakan tækjabúnað þar sem notaður er þrýstingur eða lofttæmi til gegndreypingar á viði enda hafi markaðssetning þeirra verið heimiluð í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1101/2004 um markaðssetningu sæfiefna.

2. gr.

9. gr. orðast svo:

Trjávið, sem meðhöndlaður hefur verið með arsensamböndum og var í notkun fyrir 30. september 2007, er heimilt nota áfram með óbreyttum hætti á meðan viðurinn endist.

Trjávið meðhöndlaðan með CCA, sbr. 2. mgr. 4. gr., má ekki markaðssetja fyrr en viðarvarnarefnið er alveg bundið í viðnum. Einungis er heimilt að markaðssetja slíkan trjávið til faglegrar notkunar og í iðnaði þar sem þörf er á að nota sterkan og endingargóðan við til að tryggja öryggi manna eða búpenings og ólíklegt er að almenningur komist í snertingu við viðinn. Heimil notkun samkvæmt þessari málsgrein er bundin við eftirtalin mannvirki eða mannvirkjahluta:

  1. burðarvirki í opinberum byggingum, landbúnaðarbyggingum og skrifstofu­byggingum auk burðarvirkja á iðnaðarsvæðum,
  2. brýr og undirstöður þeirra,
  3. timbur í virki í ferskvatni og í söltu vatni t.d. bryggjur og brýr,
  4. hljóðtálma,
  5. snjóflóðavarnagarða,
  6. öryggisgrindverk og tálma við þjóðvegi,
  7. jarðvegsstoðvirki,
  8. sívala búfjárgirðingarstaura úr afbirktum barrviði,
  9. rafmagns- og símastaura,
  10. þvertré á járnbrautarteina neðanjarðar.

Allur markaðssettur viður sem fellur undir 2. mgr. 4. gr. skal merktur sérstaklega, auk annarra lögbundinna merkinga, með eftirfarandi áletrun: "Eingöngu til nota í iðnaðarframleiðslu, inniheldur arsen". Að auki skal allur pakkaður viður sem fellur undir 2. mgr. 4. gr. og settur er á markað merktur með eftirfarandi áletrun: Notið hlífðarhanska við meðhöndlun viðarins. Notið rykgrímu og hlífðargleraugu við sögun eða aðra smíði úr viðnum. Úrgangsvið skal meðhöndla sem spilliefni og skila á viðurkennda móttökustöð".

Trjávið meðhöndlaðan með CCA viðarvörn, sem var í notkun fyrir 30. september 2007 eða settur er á markað í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, er heimilt að nota, endurnota, selja eða dreifa á endursölumarkaði að uppfylltum skilyrðum í 2. og 3. mgr.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun 2006/139/EB, um breytingu á tilskipun 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna, sem vísað er til í 4. tl., XV. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 108/2007 þann 29. september 2007.

Reglugerðin tekur gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu, 7. nóvember 2007.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Ingibjörg Halldórsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica