Umhverfisráðuneyti

903/2002

Reglugerð um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn. - Brottfallin

903/2002

REGLUGERÐ
um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn.

I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.

Reglugerð þessi er sett til þess að takmarka notkun tiltekinna efnasambanda sem geta verið hættuleg heilsu manna eða skaðað umhverfið.


2. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til framleiðslu, innflutnings, sölu og notkunar eftirfarandi efna og vörutegunda:
1. Viðarvarnarefna sem í eru:

a) kvikasilfurs- eða arsensambönd,
b) pentaklórfenól, sölt þess og esterar CAS-nr.1) 87-86-5
c) eftirtalin efni og efnasambönd sem fengin eru við
eimingu kolatjöru:
- kreósót CAS-nr. 8001-58-9
- kreósótolía CAS-nr. 61789-28-4
- naftalenolíur CAS-nr. 84650-04-4
- kreósótolía, asenaftenþáttur CAS-nr. 90640-84-9
- eimingarafurðir við hátt hitastig CAS-nr. 65996-91-0
- antrasenolía CAS-nr. 90640-80-5
- kolatjörusýrur, óhreinsaðar CAS-nr. 65996-85-2
- kreósót, viðartjara CAS-nr. 8021-39-4
- lághitatjöruolíur, basískar CAS-nr. 122384-78-5

2. Málningar sem í er:

a) blýkarbónat:
- PbCO3 CAS-nr. 598-63-0
- 2PbCO3.Pb(OH)2 CAS-nr. 1319-46-6
b) blýsúlfat:
- PbSO4 CAS-nr. 7446-14-2
- PbxSO4 CAS-nr. 15739-80-7
c) kadmíum og efnasambönd þess.

1)

CAS-nr.: Chemical Abstract Service – Alþjóðleg númer efna og efnasambanda.

II. KAFLI
Viðarvörn.
3. gr.

Viðarvarnarefni má einungis flytja til landsins, framleiða eða selja ef þau hafa verið skráð sem slík í samræmi við lög um eiturefni og hættuleg efni.


4. gr.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota viðarvarnarefni sem í eru eftirtalin efnasambönd:
a) kvikasilfurssambönd,
b) arsensambönd.

Bann við notkun arsensambanda samkvæmt 1. mgr. tekur ekki til notkunar ólífrænna saltlausna, kopar-króm-arsen (CCA), í iðnfyrirækjum sem hafa sérstakan tækjabúnað þar sem notaður er þrýstingur eða lofttæmi til gegndreypingar á viði.


5. gr.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota viðarvarnarefni sem í er meira en 0,1%2) af pentaklórfenóli, söltum þess eða esterum.

2) Hlutfall miðað við þyngd.

6. gr.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota viðarvarnarefni sem í eru eitt eða fleiri þeirra efna sem tiltekin eru í stafl. c), 1. tölul. 2. gr.

Bann skv. 1. mgr. tekur ekki til notkunar viðarvarnarefna í iðnaði eða notkunar fagmanna ef efnin innihalda minna en 0,005% af benzó(a)pýreni og/eða minna en 3% af vatnsleysanlegum fenólsamböndum, sjá þó 7. og 8. gr.

Óheimilt er að selja framangreind efni á almennum markaði. Þau má eingöngu selja eða dreifa í umbúðum sem eru a.m.k. 20 lítrar. Viðarvarnarefni þessi skulu merkt sérstaklega, auk annarra lögbundinna merkinga, með skýru og óafmáanlegu letri með eftirfarandi áletrun: "Eingöngu til nota í iðnaðarframleiðslu".


III. KAFLI
Notkun viðar.
7. gr.

Óheimilt er að flytja inn, selja eða dreifa trjáviði sem meðhöndlaður hefur verið með efnum sem bönnuð eru samkvæmt ákvæðum 5. gr.

Óheimilt er að flytja inn, selja eða dreifa trjáviði sem meðhöndlaður hefur verið með efnum sem bönnuð eru samkvæmt ákvæðum 6. gr. nema til nota í samræmi við ákvæði 8. gr.


8. gr.

Nýjan trjávið sem meðhöndlaður hefur verið með viðarvarnarefnum, sbr. ákvæði 6. gr., má einungis nota í faglegum tilgangi og í iðnaði, t.d. í tengslum við samgöngur, raforkuflutninga og fjarskiptatækni, í girðingar, í landbúnaði (t.d. trjáplöntustoðir) og mannvirki við hafnir og siglingaleiðir.

Trjávið sem hefur verið meðhöndlaður með slíkri viðarvörn fyrir 1. janúar 2003 er heimilt að setja á endursölumarkað.

Trjávið, sem meðhöndlaður hefur verið með viðarvarnarefnum sbr. 1. eða 2. mgr. þessarar greinar, er ekki heimilt að nota á eftirtöldum stöðum eða í eftirtalinn búnað:

inni í byggingum hvort sem um er að ræða íbúðarhús, orlofshús eða vinnustaði,
í leikföng,
á leikvöllum,
í almenningsgörðum, á skemmtisvæðum og öðrum stöðum utanhúss þar sem hætta er á að viðurinn komist í snertingu við húð,
í húsgögn til nota utanhúss,
í ílát sem ætluð eru til ræktunar,
í umbúðir sem geta komist í snertingu við hráefni eða vörur sem ætlaðar eru til neyslu eða fóðurs.


IV. KAFLI
Málning.
9. gr.

Óheimilt er flytja inn, framleiða, selja eða dreifa málningarvörum sem í eru blýkarbónöt, blýsúlföt eða kadmíum og efnasambönd þess, sbr. 2. tölul. 2. gr., sjá þó ákvæði 3. mgr. þessarar greinar.

Í málningu sem inniheldur sink skal styrkur kadmíumleifa vera eins lítill og kostur er og ekki undir neinum kringumstæðum meiri en 0,1%.

Umhverfisráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. varðandi málningu sem í eru blýkarbónöt eða blýsúlföt ef slíkt er talið nauðsynlegt vegna endurbyggingar og viðhalds á listmunum, sögulegum byggingum og innviðum þeirra. Undanþágan skal vera í samræmi við samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 13 um notkun hvíts blýs og blýsúlfata í málningu.


V. KAFLI
Eftirlit, málsmeðferð, viðurlög og gildistaka.
10. gr.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hefur eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.


11. gr.

Um viðurlög við brotum gegn reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.


12. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum.

Einnig er höfð hliðsjón af ákvæðum 4. tl. XV. kafla II. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun 76/769/EBE, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna, ásamt breytingum í tilskipunum 89/677/EBE, 91/173/EBE, 91/338/EBE, 94/60/EB, 99/51/EB og 2001/90/EB.

Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2003. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 176/1998, um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn, ásamt breytingum í reglugerð nr. 618/2000.


Umhverfisráðuneytinu, 16. desember 2002.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica