Umhverfisráðuneyti

568/2001

Reglugerð um þjóðgarðinn Snæfellsjökul. - Brottfallin

I. KAFLI
Inngangur.
1. gr.

Reglugerð þessi er um þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Snæfellsbæ, sem stofnaður var 28. júní 2001.

Um þjóðgarðinn gilda ákvæði 51. og 52. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og ákvæði reglugerðar þessarar eftir því sem þau geta átt við.


II. KAFLI
Stjórn þjóðgarðsins.
2. gr.

Náttúruvernd ríkisins fer með stjórn þjóðgarðsins. Henni til ráðgjafar starfar ráðgjafanefnd sem umhverfisráðherra skipar með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórnar, Fornleifaverndar ríkisins, Ferðamálasamtaka Snæfellsness og Náttúruverndar ríkisins til að fara með málefni sem varða rekstur og skipulag. Fulltrúi Náttúruverndar ríkisins skal vera formaður nefndarinnar.


3. gr.

Náttúruvernd ríkisins ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglegan rekstur þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður skal gera tillögu til Náttúruverndar ríkisins um rekstur hans í samræmi við verndaráætlun og staðfest skipulag.

Náttúruvernd ríkisins setur þjóðgarðsverði erindisbréf. Þjóðgarðsvörður skal vera búsettur í húsnæði þjóðgarðsins í Snæfellsbæ.


III. KAFLI
Mörk þjóðgarðsins.
4. gr.

Mörk þjóðgarðsins eru þessi:
Á sunnanverðu Snæfellsnesi liggja mörk þjóðgarðsins í norður frá Gjafavík í austurjaðar Háahrauns í landi Dagverðarár og fylgir jaðri hraunsins í punkt x=274554 og y=481631 og þaðan í punkt x=274067 og y=482377 og áfram í punkt x=274234 og y=484118 við jökuljaðarinn. Þaðan fylgja mörkin jaðri jökulsins meðfram Kvíahnúki norður fyrir Geldingafell í gegnum eftirfarandi punkta (x=275177 og y=484730, x=275809 og y=485869, x=275881 og y=486776, x=275972 og y=487881, x=275870 og y=488522, x=275458 og y=489452, x=275454 og y=489704, x=275511 og y=490306, x=275333 og y=490563). Frá þessum punkti liggja mörkin til vesturs í gegnum punkt x=273551 og y=490386 að punkti x=272078 og y=489890. Úr þeim punkti fylgja mörkin austurmörkum Gufuskálalands til sjávar. (Hnit eru gefin í Lambert keiluvörpun, ISN93.) Mörk þessi eru í samræmi við samþykkt aðalskipulag Snæfellsbæjar.

Þjóðgarðinum tilheyra ekki tvö svæði innan ofangreindra marka. Annars vegar er um 25 ha svæði sunnan Gufuskála, sbr. afmörkun á meðfylgjandi uppdrætti, og hins vegar þríhyrnt svæði á jörðinni Einarslóni sem afmarkast af hnitapunktunum A; N 64° 46,053' og V 23° 52,233', sem er við gatnamót þjóðvegar nr. 574 og vegslóða í átt að Djúpalónssandi og fylgir línu þaðan til vesturs, sem dregin væri með vegöxl vegslóða að hnitpunkti B; N 64° 45,200' og V 23° 53,718' við bílastæði, bein lína þaðan í hnitpunkt C; N 64° 44,991' og V 23° 53,995', við Kerlingu og með strandlínu til suðurs að hnitpunkti D; N 64° 44,373' og V 23° 50,652' og þaðan bein lína í framangreindan hnitpunkt A við gatnamótin, sbr. afmörkun á meðfylgjandi uppdrætti.

Mörkin eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.


IV. KAFLI
Réttindi og skyldur gesta.
5. gr.

Þjóðgarðurinn er opinn gestum allt árið.

Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum fyrirvaralaust og gera mönnum að hverfa burt ef að steðjar vá. Sama gildir, ef þjóðgarðsvörður telur að dvöl manna geti spillt lífríki eða jarðmyndunum.


6. gr.

Gangandi fólki er heimil för um þjóðgarðinn. Fylgt skal merktum gönguleiðum, en annars hefðbundnum gönguleiðum sem við verður komið eða þá fyrirmælum starfsmanna þjóðgarðsins.


7. gr.

Öllum er skylt að ganga vel og snyrtilega um þjóðgarðinn. Ekki má spilla þar gróðri, trufla dýralíf né hrófla við jarðmyndunum.

Úrgangi skal komið fyrir í sérstökum sorpílátum, enda er óheimilt að fleygja úrgangi eða grafa hann.


8. gr.

Óheimilt er að flytja plöntur, fræ og dýr í þjóðgarðinn. Verndun lífríkis svæðisins skal taka mið af alþjóðlegum samningum eins og samningi um líffræðilega fjölbreytni og samningi um verndun villtra plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu.


9. gr.

Í þjóðgarðinum er bannað að hrófla við menningarminjum.


10. gr.

Notkun skotvopna er bönnuð í þjóðgarðinum og óheimilt er að kveikja eld á víðavangi.


11. gr.

Óheimilt er að vera með gæludýr, svo sem hunda og ketti, laus í þjóðgarðinum.


12. gr.

Göngumönnum og hjólreiðamönnum er heimilt að tjalda í þjóðgarðinum að fengnu leyfi þjóðgarðsvarðar. Öðrum er bent á tjaldsvæði í nágrenni þjóðgarðsins og gildir það jafnt um tjöld, tjaldvagna og hjólhýsi.


13. gr.

Öll umferð með hesta um þjóðgarðinn er óheimil nema á merktum reiðleiðum og afmörkuðum áningarstöðum enda liggi leyfi þjóðgarðsvarðar fyrir.


14. gr.

Öll umferð reiðhjóla er óheimil utan akvega, bílastæða og reiðhjólaleiða.


15. gr.

Umferð á vélknúnum ökutækjum í þjóðgarðinum er ferðamönnum aðeins heimil á vegum og bílastæðum. Akstur vélknúinna ökutækja á jökli er háð leyfi þjóðgarðsvarðar.


16. gr.

Skylt er gestum í þjóðgarðinum að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar og landvarða starfsmanna hvað snertir umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.

Nú brýtur maður ákvæði reglugerðar þessarar, og er þjóðgarðsverði og landvörðum þá heimilt að vísa honum úr þjóðgarðinum.


V. KAFLI
Starfsemi í þjóðgarðinum.
17. gr.

Hvers konar atvinnustarfsemi og samkomuhald er óheimilt í þjóðgarðinum, nema til komi sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins. Ferðaþjónusta innan þjóðgarðsins skal skipulögð á grundvelli sjálfbærrar ferðamennsku.


18. gr.

Mannvirkjagerð, efnistaka og hvers konar annað jarðrask er óheimilt nema til komi sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins.


19. gr.

Lausaganga hrossa er óheimil í þjóðgarðinum. Í verndaráætlun skal kveðið á um lausagöngu sauðfjár.


20. gr.

Rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í þjóðgarðinum eru háðar leyfi Náttúruverndar ríkisins.


VI. KAFLI
Lokaákvæði.
21. gr.

Náttúruvernd ríkisins ræður landverði að fengnum tillögum þjóðgarðsvarðar og setur þeim starfsreglur. Þeim skulu fengin sérstök auðkenni og skilríki, er sanni heimildir þeirra til framkvæmdar á reglugerð þessari og fyrirmælum þjóðgarðsvarðar.

Náttúruvernd ríkisins ræður aðra starfsmenn að fengnum tillögum þjóðgarðsvarðar.


22. gr.

Náttúruvernd ríkisins skal gera tillögu að verndaráætlun og landnotkun fyrir þjóðgarðinn sem ráðherra staðfestir.


23. gr.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá ákvæðum reglugerðar þessarar að fenginni umsögn Náttúruvernd.


24. gr.

Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.

Með mál samkvæmt þessari grein skal farið að hætti opinberra mála, sbr. lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.


25. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd, öðlast þegar gildi.


Umhverfisráðuneytinu, 28. júní 2001.

Siv Friðleifsdóttir.
Sigurður Á. Þráinsson.

Fylgiskjal.Kort af þjóðgarðinum
Þetta vefsvæði byggir á Eplica