Umhverfisráðuneyti

619/2000

Reglugerð um bann við notkun gróðurhindrandi efna sem í eru kvikasilfurssambönd, arsensambönd og lífræn tinsambönd. - Brottfallin

619/2000

REGLUGERÐ
um bann við notkun gróðurhindrandi efna sem í eru
kvikasilfurssambönd, arsensambönd og lífræn tinsambönd.

1. gr.
Gildissvið og skilgreiningar.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til málningar og annarrar efnavöru sem ætluð er til að hindra vöxt gróðurs og annarra lífvera á ýmsum tækjabúnaði og mannvirkjum.

Lífræn tinsambönd taka í þessari reglugerð til efnasambanda þar sem tin er bundið alkýl- eða akrýlhópum, t.d. tríbútýltin.

Gróðurhindrandi efni taka til efna sem ætlað er að halda í skefjum vexti og hindra bólfestu gróðurs (örvera og æðri plantna- og dýrategunda) á skipum, fiskeldisbúnaði eða öðrum byggingum og búnaði sem notaður er í vatni.


2. gr.
Takmarkanir.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota lífræn tinsambönd sem gróðurhindrandi efni í málningu ef tinsamböndin eru á óbundnu formi í málningunni (free association antifouling paint).

Óheimilt er að nota gróðurhindrandi efni sem í eru kvikasilfurssambönd, arsensambönd eða lífræn tinsambönd á báta, skipskrokka, búr, flotbúnað, net eða önnur tæki eða búnað fyrir fisk- eða skelfiskseldi. Einnig er óheimilt að nota slík efni á tæki og hluti sem eru alveg eða að hluta til undir vatni.

Óheimilt er að nota kvikasilfurssambönd, arsensambönd eða lífræn tinsambönd við meðhöndlun iðnaðarvatns, óháð notkun vatnsins.


3. gr.
Undanþágur.

Bann samkvæmt 2. mgr. 2. gr. tekur ekki til notkunar lífrænna tinsambanda á skip sem eru lengri en 25 metrar að mestu lengd (skv. ISO-staðli 8666). Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem notuð eru á ám, vötnum eða skipaskurðum.


4. gr.
Sala og merking.

Gróðurhindrandi efni með lífrænum tinsamböndum, sbr. 3. gr., má einungis selja í umbúðum sem eru a.m.k. 20 lítrar og þá einungis til faglegra nota.

Umbúðir slíkra efna skulu, auk annarra lögbundinna merkinga, merktar með eftirfarandi áletrun með skýru og óafmáanlegu letri: "Notist ekki á skip eða báta styttri en 25 metra að mestu lengd. Notist ekki á skip eða báta, óháð lengd, sem notaðir eru á ám, vötnum eða skipaskurðum. Notist ekki á tæki eða búnað sem notaður er til fisk- eða skelfiskseldis. Notist einungis af fagfólki".


5. gr.
Eftirlit.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.


6. gr.
Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum.


7. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, sbr. einnig lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar.

Einnig er höfð hliðsjón af ákvæðum 4. tl. XV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, tilskipun 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna, ásamt breytingum í tilskipunum 89/677/EBE og 1999/51/EB.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 516/1994 um bann við notkun á efnum sem innihalda kvikasilfurssambönd, arsenefnasambönd og lífræn efnasambönd tins (tríbútýltin).


Umhverfisráðuneytinu, 30. ágúst 2000.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica