Umhverfisráðuneyti

485/1998

Reglugerð um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum nr. 378/1994, nr. 536/1994, nr. 394/1996, nr. 26/1997, nr. 273/1997 og nr. 23/1998. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Reglugerð

um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum nr. 378/1994, nr. 536/1994, nr. 394/1996, nr. 26/1997, nr. 273/1997 og nr. 23/1998.

 

1. gr.

1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

6.1 Fyrirtæki sem upp eru talin í viðaukum 7 og 8, greiða árlegt eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins vegna fyrirtækja í viðauka 7 og samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna fyrirtækja í viðauka 8. Gjaldið skal standa straum af kostnaði við eftirlitið.

2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Komi, að mati eftirlitsaðila, í ljós veruleg frávik frá ákvæðum starfsleyfis, laga eða reglugerða, getur eftirlitsaðili krafist úttektar á kostnað hlutaðeigandi fyrirtækis. Ágreiningi um nauðsyn slíkrar úttektar og/eða um kostnað er heimilt að vísa til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

3. gr.

3. mgr. 11. gr. orðist svo:

11.3 Þegar um er að ræða starfsemi sem ekki er starfsleyfisskyld samkvæmt viðauka 7, getur ráðherra, að fenginni tillögu heilbrigðisnefndar, veitt tímabundna undanþágu frá banni samkvæmt 2. mgr., ef sérstakar aðstæður gefa tilefni til og að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins. Umsókn með beiðni um undanþágu ásamt niðurstöðum rannsókna og/eða útreikninga sem sýna væntanleg umhverfisáhrif, skal senda til umhverfisráðuneytis.

4. gr.

2. mgr. 12. gr. orðist svo:

12.2 Þegar um er að ræða starfsemi sem ekki er starfsleyfisskyld samkvæmt viðauka 7, getur ráðherra, að fenginni tillögu heilbrigðisnefndar, og að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, þegar um fráveitur er að ræða, veitt tímabundna undanþágu frá banni 1. mgr. Þó er ætíð óheimilt að veita undanþágu vegna efna sem getið er í viðauka 11 ef um beina losun er að ræða. Einungis er heimilt að veita leyfi til tiltekins tíma ef áætlað er að losa efni á listum I eða II í grunnvatn.

5. gr.

4. mgr. 12. gr. orðist svo:

12.4 Umsókn með beiðni um undanþágu ásamt niðurstöðum rannsókna og/eða útreikninga sem sýna væntanleg umhverfisáhrif, skal senda til umhverfisráðuneytis eða til heilbrigðisnefndar, sem gerir tillögur til ráðherra. Ef rannsókn leiðir í ljós að grunnvatn sé óhæft til notkunar, einkum til heimilis- og búsþarfa, má leyfa losun með því skilyrði að hún hindri ekki nýtingu auðlinda, skaði ekki vistkerfi eða annað vatn.

6. gr.

4. mgr. 13. gr. orðist svo:

13.4 Þegar um er að ræða starfsemi sem ekki er starfsleyfisskyld samkvæmt viðauka 7, getur ráðherra, að fenginni tillögu heilbrigðisnefndar, og að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, veitt tímabundna undanþágu frá ákvæðum 1. og 3. mgr., þó með þeim takmörkunum sem gilda fyrir viðkvæm svæði, sbr. og ákvæði viðauka 12. Umsókn um undanþágu frá 1. og/eða 3. mgr., ásamt niðurstöðum rannsókna og/eða útreikninga, er sýna væntanleg umhverfisáhrif fráveituvatnsins, skal senda til ráðuneytisins eða heilbrigðisnefndar sem gerir tillögur til ráðherra.

7. gr.

3. mgr. 56. gr. orðist svo:

56.3 Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir geta lagt til við ráðherra að atvinnurekstri verði bætt við eða hann felldur út í viðauka 8.

8. gr.

62. gr. orðist svo:

Telji umsækjandi starfsleyfis að krafist sé óeðlilegra athugana og/eða rannsókna, sbr. 57. gr. og/eða 3. mgr. 61. gr. getur hann skotið málinu til ráðherra.

9. gr.

63. gr. orðist svo:

Starfsleyfistillögur skulu liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar og á öðrum aðgengilegum stöðum ef þörf er á, til kynningar þeim aðilum sem rétt hafa til að gera athugasemdir, sbr. 64. gr. Skal auglýsing birt í Lögbirtingablaði þar sem fram kemur frá hvaða degi starfsleyfistillögur liggi frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar. Frestur til að gera athugasemdir er 8 vikur frá því starfsleyfistillögur eru lagðar fram.

10. gr.

65. gr. orðist svo:

Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skal senda Hollustuvernd ríksins sem kannar málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og gerir aðilum málsins grein fyrir áliti sínu innan fjögurra vikna frá því frestur til að skila inn athugasemdum rann út. Sætti aðilar málsins sig ekki við það álit og náist ekki málamiðlun er heimilt að vísa málinu til úrskurðar ráðherra, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, innan tveggja vikna. Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að málið barst honum. Úrskurður ráðherra er fullnaðarúrskurður innan stjórnsýslunnar.

11. gr.

69. gr. orðist svo:

Telji starfsleyfisumsækjandi að krafist sé óeðlilegra athugana og/eða rannsókna, sbr. 57. gr. og/eða 3. mgr. 67. gr., getur hann skotið málinu til ráðherra.

12. gr.

70. gr. orðist svo:

70.1 Starfsleyfistillögur skulu liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar og öðrum aðgengilegum stöðum ef þörf er á, til kynningar þeim aðilum sem rétt hafa til að gera athugasemdir, sbr. 64. gr. Skal auglýsing þess efnis birtast með tryggilegum hætti þar sem fram kemur frá hvaða degi þær liggi frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar. Frestur til að gera athugasemdir er 8 vikur frá því starfsleyfistillögur eru lagðar fram.

70.2 Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skal senda hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd. Heilbrigðisnefnd kannar málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og gefur álit sitt. Sætti aðilar máls sig ekki við álit heilbrigðisnefndar er heimilt að vísa málinu til úrskurðar ráðherra, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, innan tveggja vikna. Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að málið barst honum. Úrskurður ráðherra er fullnaðarúrskurður innan stjórnsýslunnar.

13. gr.

71. gr. orðist svo:

71.1 Hollustuvernd ríkisins gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem upp er talinn í viðauka 7.

71.2 Heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem upp er talinn í viðauka 8.

14. gr.

72. gr. reglugerðarinnar fellur niður.

15. gr.

3. mgr. 73. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Auglýsa skal í B-deild Stjórnartíðinda útgáfu og gildistöku starfsleyfa sem Hollustuvernd ríkisins gefur út.

16. gr.

84. gr. orðist svo:

84.1 Um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

84.2 Ef sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefndar eftir því sem við á, veitt undanþágur frá einstökum ákvæðum reglugerðar þessarar, m.a. í samræmi við ákvæði EES-samningsins.

17. gr.

Reglugerð þesssi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal greiða árlegt eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá Hollustuverndar ríkisins nr. 648/1996 og svæðisbundnum gjaldskrám heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga þar til gjaldskrár hafa verið settar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Umhverfisráðuneytinu, 28. júlí 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

               

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica