Umhverfisráðuneyti

384/1997

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 533/1993 um kæli- og varmadælukerfi fyrir ósoneyðandi kælimiðlum. - Brottfallin

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Þrýsti- og lekaprófanir.

Óheimilt er að nota CFC-, HCFC-kælimiðla eða halóna við þrýsti- og lekaprófanir á kerfum eða kerfishlutum.

2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Val á kælimiðlum.

Óheimilt er að setja upp ný kerfi með CFC-, HCFC-kælimiðlum eða halónum.

Við meiri háttar breytingar og viðgerðir á eldri kerfum með CFC-kælimiðlum og með kælimiðlinum HCFC-22 (díklórflúormetan) skal skipta yfir í kælimiðil sem hefur engin eða óveruleg ósoneyðandi áhrif (ODP < 0.04). Meiri háttar breyting telst t.d. vera flutningur á hluta kerfis, svo sem þjöppu eða eimi úr einu rými í annað. Stærri viðgerðir eru t.d. skipti á þjöppu, eimsvala eða eimi.

3. gr.

13. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Lekaskynjarar.

Öll nýsmíðuð kælikerfi, með kælimiðilsmagn yfir 70 kg, skulu hafa sjálfvirkan búnað sem gefur það þegar í stað til kynna ef kælimiðill byrjar að leka af kerfinu. Öll eldri kælikerfi með kælimiðilsmagn yfir 70 kg skulu koma samskonar búnaði upp ekki seinna en einu ári frá gildistöku reglugerðar þessarar.

4. gr.

18. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skráning kæli- og varmadælukerfa.

Sérhvert fyrirtæki eða atvinnurekstur sem hefur yfir að ráða kæli- og varmadælukerfi með samanlagða kælimiðilsfyllingu yfir 30 kg skal fylla út þar til gerð eyðublöð um rekstur kerfanna sem Hollustuvernd ríkisins lætur í té og senda eftirlitsaðila fyrir 1. mars ár hvert fyrir árið á undan. Staðfesting Hollustuverndar ríkisins fyrir móttöku eyðublaðsins skal liggja fyrir hjá Siglingastofnun Íslands áður en haffærisskírteini er veitt hverju sinni og skal dagsetning hennar ekki vera eldri en eins árs.

5. gr.

23. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Eftirlitsaðilar.

Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðar þessarar. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga annast eftirlit á landi, Siglingastofnun Íslands annast eftirlit um borð í skipum og með flutningagámum og Flugmálastjórn annast eftirlit um borð í flugvélum.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, 1. gr. laga nr. 51/1993 um breytingu á lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og að höfðu samráði við samgönguráðuneytið hvað varðar þátt Siglingastofnunar Íslands og Flugmálastjórnar.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 167/1996 um breytingu á reglugerð nr. 533/1993 um kæli- og varmadælukerfi með ósoneyðandi kælimiðlum.

Umhverfisráðuneytinu, 16. júní 1997.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica