Umhverfisráðuneyti

378/1994

Reglugerð um breytingu á mengunarvarnarreglugerð nr. 48/1994. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

REGLUGERÐ

um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994.

1. gr.

2. gr. orðist svo:

Merking orða og orðasambanda í reglugerð þessari:

Bein losun í grunnvatn: losun efna í grunnvatn án þess að þau síist í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.

Efnafræðileg súrefnisþörf (COD): mælikvarði á magn lífrænna efna í vatni, mælt með staðlaðri aðferð.

Eftirlitsmæling: stakar mælingar sem framkvæmdar eru samkvæmt fyrirmælum í starfsleyfum, sbr. ákvæði 8. kafla, eða í þeim tilgangi að kanna hvort settum reglum og viðmiðunarmörkum sé fylgt.

Endurmyndun: aðgerð til að hreinsa úrgang svo að hann eða hluti hans komist í svipað eða sama form og hann var upphaflega.

Endurvinnsla: hvers konar nýting úrgangs til framleiðslu, orkuvinnslu o.þ.h.

Ferskvatnsmörk: sá staður í á þar sem selta hækkar vegna nálægðar sjávar á fjöru enda sé miðað við lítið rennsli í ánni.

Fráveita: leiðslukerfi og búnaður til meðhöndlunar skólps.

Fráveituvatn: vatn (skólp, ofanvatn, vatn frá upphitunarkerfum húsa o.fl.) sem veitt er í fráveitur.

Förgun spilliefna: skil á spilliefnum til viðurkenndrar spilliefnamóttökustöðvar, svo og meðhöndlun og eyðing þeirra.

Förgun úrgangs: aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og komið fyrir varanlega eða í geymslu (sjá nánar aðferðir sem getið er í viðauka 18).

Gámastöð: sérstök aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og smærri fyrirtækjum til flokkunar áður en hann er fluttur til móttökustöðva.

Grunnvatn: vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.

Hreinsun skólps:

Eins þreps hreinsun: hreinsun skólps með aflfræðilegum og/eða efnafræðilegum aðferðum þar sem svifagnir eru botnfelldar eða önnur hreinsun þar sem BOD5-gildi skólps er lækkað um að minnsta kosti 20% áður en það er losað og heildarmagn svifagna í skólpi er lækkað um að minnsta kosti 50%.

Grófhreinsun: hreinsun fastra hluta úr fráveituvatni, með rist, síu eða öðrum búnaði, til að koma í veg fyrir sjónmengun.

Tveggja þrepa hreinsun: frekari hreinsun skólps en eins þreps með aðferð sem oftast felur í sér líffræðilega hreinsun sem fylgt er eftir með botnfellingu eða öðru ferli, sbr. kröfur í viðauka 12 (I. viðauki, 1. tafla). Rotþró með siturlögn eða sandsíu telst t. d. vera tveggja þrepa hreinsun.

Viðeigandi hreinsun: hreinsun skólps með viðurkenndum hreinsibúnaði í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar svo að gæðamarkmiðum fyrir viðtaka sé náð, sbr. viðauka 1, 2 og 12.

Húsaskólp: skólp frá íbúðarhúsnæði og þjónustustarfsemi sem einkum á rætur að rekja til efnaskipta mannslíkamans og heimilisstarfa.

Iðjuver: þar sem iðnaðarstarfsemi, orkufrekur iðnaður eða önnur mengandi starfsemi fer fram.

Iðnaðarskólp: skólp annað en húsaskólp og ofanvatn sem losað er frá húsnæði eða annarri aðstöðu sem notuð er til atvinnurekstrar eða iðnaðar.

Líffræðileg súrefnisþörf (BOD5): mælikvarði fyrir magn lífrænna efna í vatni mælt með staðlaðri aðferð.

Losun: þegar efnum og efnasamböndum er veitt í fráveitur og viðtaka.

Meðhöndlun spilliefna: söfnun, flokkun, flutningur, umpökkun og umbreyting spilliefna sem nauðsynleg er fyrir endurmyndun, endurvinnslu eða eyðingu þeirra.

Meðhöndlun úrgangs: söfnun, böggun, flutningur, nýting, endurvinnsla og förgun úr

gangs, þar með talið eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.

Mengun: þegar örverur, efni og efnasambönd valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, raska lífríki eða óhreinka loft, láð eða lög. Mengun tekur einnig til óþæginda vegna ólyktar, óbragðs, hvers konar hávaða og titrings, geislunar og varmaflæðis.

Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til lengri eða skemmri geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangur til förgunar eða nýtingar.

Nýting úrgangs: hvers konar meðhöndlun, umbreyting eða endurvinnsla efna eða hluta í stað förgunar, sbr. og aðgerðir sem nefndar eru í viðauka 18.

Næringarefnaauðgun: ofauðgun næringarsalta í vatni, einkum efnasambanda köfnunarefnis og/eða fosfórs, sem veldur því að þörungar og æðri tegundir plantna vaxa hraðar en ella og valda óæskilegri röskun á jafnvægi lífríkis í vatninu og spilla gæðum þess.

Ofanvatn: regnvatn og leysingarvatn sem rennur í fráveitur af húsþökum, götum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði.

Óbein losun í grunnvatn: þegar efni eða gerlar berast, eða er hætt við að geti borist, í grunnvatn eftir síun í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.

Persónueining (p.e.): magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring. Ein p.e. af lífrænu efni er það magn lífrænna efna í skólpi sem getur brotnað niður líffræðilega með 60g súrefnis á dag mælt með 5 sólarhringa líffræðilegri súrefnisnotkun.

Ruslabiða: ílát sem komið er fyrir á almannafæri í því skyni að auðvelda fólki að losa sig við rusl.

Sigvatn: mengað vatn frá hvers konar starfsemi sem ekki er veitt í fráveitu og vatn sem rennur frá úrgangi eða í gegnum hann.

Siturleiðsla: götuð leiðsla sem lögð er í jörðu og dreifir fráveituvatni út í jarðveg.

Skólp: húsaskólp og iðnaðarskólp eða blanda húsaskólps eða iðnaðarskólps og/eða ofanvatns.

Sorpbrennslustöð: hvers kyns tæknibúnaður sem notaður er til að meðhöndla úrgang með brennslu, hvort sem hitinn sem myndast við brennsluna er nýttur eða ekki. Undanskildar eru þó stöðvar sem notaðar eru sérstaklega til að brenna seyru, spilliefnum, sóttmenguðum úrgangi eða öðrum tegundum sérstaks úrgangs, á landi eða í sjó, jafnvel þótt þessar stöðvar brenni öðrum úrgangi jafnhliða.

Sorpílát: ílát sem sorpi er safnað í áður en það er losað eða flutt til móttökustöðvar.

Strandsjór: sjór utan við stórstraumsfjörumörk eða ytri mörk ármynnis.

Strandsvæði: fjara ásamt 250 m breiðu svæði út frá stórstraumsfjörumörkum.

Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa

sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt, sbr. og flokkun og evrópsk skrá um úrgang í viðauka 18.

Helstu gerðir úrgangs eru:

Framleiðsluúrgangur: úrgangur sem fellur til við framleiðslu, verslun og þjónustu, svo sem pappír, timbur, gler o.þ.h.

Ristarúrgangur: fastur úrgangur sem fellur til við grófhreinsun á skólpi.

Salernisúrgangur: allur úrgangur frá þurr- eða vatnssparandi salernum sem ekki eru tengd við fráveitu.

Seyra: allur fastur úrgangur sem fellur til við skólphreinsun nema ristarúrgangur.

Sérstakur úrgangur: úrgangur sem ekki verður meðhöndlaður á sama hátt og sorp eða framleiðsluúrgangur, t.d. vegna umfangs, eðlis eða hættu á alvarlegri mengun.

Sorp (neysluúrgangur): leifar, rusl og umbúðir sem til falla við heimilishald eða aðra starfsemi og úrgangur sem hefur svipaða eiginleika.

Sóttmengaður úrgangur: hvers kyns úrgangur sem getur haft í för með sér smithættu fyrir menn og dýr sem komast í beina eða óbeina snertingu við hann.

Spilliefni: hvers kyns sérstakur úrgangur (hættulegur úrgangur) sem inniheldur efni sem skráð eru í viðauka 4 eða 19 eða er mengaður af þeim, á þann hátt, í slíku magni eða af slíkum styrkleika að það stofni heilsu manna eða umhverfi í hættu.

Útblástursmörk: leyfilegur hámarksstyrkur og/eða massi mengunarefna í útblæstri iðjuvera og vélknúinna ökutækja miðað við tiltekinn tíma.

Úttektarrannsókn: viðamikil rannsókn eða langtímamæling, venjulega bundin við stærra svæði, svo sem landsvæði, þéttbýli eða hluta af þéttbýli, eða rannsókn á yfirgripsmiklum þáttum mengunar, svo sem frá farartækjum, eða rannsókn á mengun er berst frá öðrum löndum.

Viðmiðunarmörk: leyfilegur hámarksstyrkur mengandi efna í viðtaka á tilteknu tímabili.

Viðtaki: svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.

Yfirborðsvatn: kyrrstætt eða rennandi yfirborðsvatn, ár, vötn og jöklar.

Ytra umhverfi: land, lögur og loft utandyra og utan vinnustaða.

Þéttbýlissvæði: svæði þar sem þéttbýli er nægilegt og/eða atvinnustarfsemi nægilega mikil til að hægt sé að safna og veita skólpi til hreinsistöðva eða til staða þar sem það er endanlega losað.

Þynningarsvæði: sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og eftirlitsaðilar með reglugerð þessari samþykkja, að mengun megi vera yfir viðmiðunarmörkum.

Viðkvæm og síður viðkvæm svæði: svæði flokkuð samkvæmt flokkum I og II, sbr. 4. kafla og/eða svæði skilgreind, sbr. viðmiðanir í viðauka 12 (II. viðauki) og/ eða, sbr. viðauka 27 (I. viðauki).

2. gr.

Á eftir 2. mgr. 5. gr. bætist við málsgrein:

5.3 Eftirlitsaðila er heimilt að draga úr eftirliti, samkvæmt 4. gr. með atvinnurekstri sem upp er talinn í viðaukum 7 eða 8 og tekur þátt í umhverfisstjórn og eftirlitskerfi fyrirtækja, sbr. sérstaka reglugerð þar að lútandi.

3. gr.

6. gr. orðist svo:

6.1 Fyrirtæki sem upp eru talin í viðaukum 7 og 8, greiða árlegt eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir að fengnum tillögum stjórnar Hollustuverndar ríkisins vegna fyrirtækja í viðauka 7 og hlutaðeigandi svæðisnefndar um heilbrigðiseftirlit vegna fyrirtækja í viðauka 8. Gjaldið skal standa straum af kostnaði við eftirlitið.

6.2 Eftirlitsaðila er heimilt að innheimta lægra gjald, sbr. 1. mgr. 6. gr., eða fella gjaldið niður hjá atvinnurekstri sem fellur undir 3. mgr. 5. gr.

4. gr.

9. gr. orðist svo:

Með sérstöku samkomulagi við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir, sem ráðherra staðfestir, getur Hollustuvernd ríkisins tekið að sér að sinna hluta eftirlitsins með starfsemi fyrirtækja sem talin eru upp í viðauka 8. Á sama hátt getur heilbrigðisnefnd tekið að sér að sinna hluta eftirlits með starfsemi fyrirtækja sem talin eru upp í viðauka 7.

5. gr.

Á eftir 5. mgr. 10. gr. bætast við eftirfarandi málsgreinar:

10.6 Í hverfi íbúðarhúsa, sumarbústaða eða atvinnuhúsnæðis skal komið á sameiginlegu fráveitukerfi, sbr. þó 4. mgr. 15. gr. Þar sem skólpi frá einstökum húsum eða sumarbústöðum verður ekki veitt í sameiginlega fráveitu skal veita því eftir vatnsheldum lögnum í rotþrær og siturlögn eða sandsíu. Afla skal fyrirmæla og leyfis hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar hverju sinni. Aðeins er heimilt að nota rotþrær sem Hollustuvernd ríkisins hefur viðurkennt. Rotþró skal sýnd á holræsateikningu hússins.

10.7 Gera skal ráðstafanir til að draga úr hættu á að vatn mengist og koma í veg fyrir mengun vatns af völdum köfnunarefnis frá landbúnaði eða af öðrum orsökum.

10.8 Til að koma í veg fyrir mengun yfirborðsvatns og grunnvatns skal heilbrigðisnefnd láta tilgreina sérstaklega vatna- og grunnvatnssvæði sem hafa lítið viðnám gegn mengun og eru menguð eða gætu mengast, þ.m.t. af völdum köfnunarefnis, sbr. viðauka 27 (I. viðauki), ef ekki er gripið til sérstakra aðgerða til verndar. Sama á við um grannsvæði og fjarsvæði, sbr. verndarflokkun vatnsbóla samkvæmt heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990.

10.9 Heilbrigðisnefnd sendir yfirlit til Hollustuverndar ríkisins yfir svæði, sbr. 8. mgr., sem tilgreind hafa verið að gætu verið viðkvæm. Hollustuvernd ríkisins metur hvort um viðkvæm svæði sé að ræða eða ekki og gefur út lista yfir viðkvæm svæði. Stofnunin endurskoðar listann á fjögurra ára fresti.

10.10 Til að stuðla að vernd vatns gegn mengun af völdum notkunar áburðar í landbúnaði, gefur Hollustuvernd ríkisins, í samráði við stofnanir landbúnaðarráðuneytisins, út starfsreglur um góða búskaparhætti á svæðum sem hafa lítið viðnám gegn mengun. Í starfsreglunum skulu vera a. m. k. ákvæði um þau atriði sem tilgreind eru í viðauka 27 (II. viðauki A). Hollustuvernd ríkisins skal í samráði við landbúnaðarráðuneytið koma starfsreglunum á framfæri við bændur.

10.11 Innan tveggja ára frá því viðkvæm svæði eru fyrst tilgreind, sbr. 8. mgr., eða innan árs frá því bætt er við svæðum, skal birta framkvæmdaráætlun um vernd viðkomandi svæða í viðauka með mengunarvarnareglugerð. Áætlunin skal taka mið af tiltækum gögnum á sviði vísinda og tækni, einkum sem hafa tilvísun til ákomu köfnunarefnis frá landbúnaði. Áætlunin skal einnig taka mið af umhverfisaðstæðum á viðkomandi landsvæði. Í áætluninni skulu vera ákvæði um bindandi ráðstafanir, sbr. viðauka 27 (III. viðauki). Ákvæði í starfsreglum um góða búskaparhætti sem ekki eru tilgreind í viðauka 27 (III. viðauki), skulu einnig vera bindandi á svæðum sem eru viðkvæm og hafa lítið viðnám gegn mengun. Áætlanirnar skulu koma til framkvæmda fjórum árum eftir að þær eru birtar.

10.12 Til að stuðla að því að tilætluð vernd náist með framkvæmdaráætlun sbr. 11 mgr., skal endurskoða hana á fjögurra ára fresti og gera viðbótarráðstafanir reynist þess þörf.

10.13 Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, í samráði við Hollustuvernd ríkisins, skal koma á fót vöktun á köfnunarefnisinnihaldi yfirborðsvatns og grunnvatns á völdum mælistöðum, sbr. 23. gr., til að meta árangur verndaraðgerða og til að unnt sé að meta ákomu köfnunarefnis frá landbúnaði og öðrum upptökum almennt.

10.14 Hollustuvernd ríkisins gefur á fjögurra ára fresti út yfirlitsskýrslu um stöðu og ástand mála hvað næringarefnaauðgun í fersku vatni, árósum og strandsjó varðar.

6. gr.

1. mgr. 11. gr. orðist svo:

11.1 Til að koma í veg fyrir vatnsmengun skulu sveitarstjórnir og skipulagsyfirvöld flokka vatnasvæði í eftirfarandi flokka við gerð svæðis- og aðalskipulags í samráði við heilbrigðisnefnd, Náttúruverndarráð og Hollustuvernd ríkisins:

Flokkur I: svæði sem hafa sérstaka þýðingu vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarð myndana eða útivistar, auk annarra sérstakra vatnsverndunarsvæða.

Flokkur II: yfirborðsvatn sem ekki nýtur sérstakrar verndar.

Flokkun þessi gildir einnig þó að skipulagsáætlanir hafi ekki verið samþykktar. Tilgreina skal sérstaklega í þessum tilgangi svæði sem eru viðkvæm og hafa lítið viðnám gegn mengun og sérstakar verndaraðgerðir gilda fyrir, sbr. 8. mgr. 10. gr. og viðauka 27 (I. viðauki).

7. gr.

4. mgr. 11. gr. orðist svo:

11.4 Fráveituvatn einstakra íbúðarhúsa eða sumarbústaða er undanþegið rannsóknarskyldu, enda sé það veitt um rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum heilbrigðisnefndar.

8. gr.

5. mgr. 13. gr. orðist svo:

13.5 Fráveituvatn sem veitt er frá einstökum íbúðarhúsum eða sumarbústöðum er undanþegið rannsóknarskyldu enda sé því veitt um rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum heilbrigðisnefndar.

9. gr.

3. mgr. 17. gr. orðist svo:

17.3 Hreinsun skólps, sbr. a - c, skal a. m. k. uppfylla kröfur sem gerðar eru til eins þreps hreinsunar, sbr. skilgreiningu í 2. gr. Notkun síubúnaðar til hreinsunar skólps jafngildir eins þreps hreinsun á síður viðkvæmum svæðum.

10. gr.

Fyrirsögn 24. gr. verði "Rekstur fráveitna." í stað "Starfandi fráveitur.".

11. gr.

Á eftir 4. mgr. 26. gr. bætist ný málsgrein:

26.5 Styrkur ósons í andrúmlofti sem mældur er í samræmi við tilvísunaraðferð í viðauka 28 (V viðauki) eða aðrar sambærilegar aðferðir sem Hollustuvernd ríkisins samþykkir, skal ekki vera yfir viðmiðunarmörkum í viðauka 3. Fari styrkur ósons yfir almenn tilkynningarmörk eða almenn viðvörunarmörk í viðauka 28 (I. viðauki 3. eða 4. liður), skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd senda út tilkynningu í samræmi við viðauka 28 (IV viðauka) til almennings t.d. í útvarpi eða sjónvarpi.

12. gr.

3. mgr. 35. gr. orðist svo:

35.3 Í viðauka 13, 14, 15, 16 og 28 eru birtar aðferðir sem beita skal við loftgæðarannsóknir. Heimilt er að beita jafngildum aðferðum, enda hafi Hollustuvernd ríkisins staðfest að þær uppfylli ákvæði alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að.

13. gr.

3. mgr. 37. gr. orðist svo:

37.3 Óheimilt er að meðhöndla úrgang nema í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og starfsleyfa.

14. gr.

Á eftir 3. mgr. 37. gr. kemur ný málsgrein:

37.4 Bannað er að skilja eftir, flytja eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða eða lýtum á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti, svo sem bílflök, skipsskrokka o.s.frv.

15. gr.

40. gr. orðist svo:

Þeim hluta sérstaks úrgangs, sem telst til spilliefna samkvæmt viðauka 4 má ekki blanda saman við annan úrgang. Einstökum tegundum spilliefna skal auk þess halda aðgreindum. Aðgreina skal spilliefnablöndur, þar sem kostur er.

16. gr.

3. mgr. 43. gr. orðist svo:

43.3 Spilliefni samkvæmt viðauka 4 og viðauka 19 með reglugerð þessari, og annan úrgang sem inniheldur spilliefni skal flytja til móttökustöðva sem hafa fengið starfsleyfi til að taka á móti slíkum úrgagni, sbr. 8. kafla þessarar reglugerðar.

17. gr.

1. mgr. 44. gr. orðist svo:

44.1 Heimila má starfsleyfishafa, sbr. 3. mgr. 43. gr., að farga úrgangi sem inniheldur takmarkað magn spilliefna á sama hátt og heimilis- og framleiðsluúrgangi. Hollustuvernd ríkisins gefur út lista yfir þennan úrgang þar sem fram kemur við hvaða styrk spilliefna miðað er í hverju tilfelli og hvernig förgunin skuli framkvæmd.

18. gr.

3. mgr. 46. gr. orðist svo:

46.3 Þar sem verður til, er safnað og/eða fargað meira en 200 lítrum af olíuúrgangi á ári, ber að halda dagbók yfir magn, ástand, uppruna og geymslustað úrgangsolíunnar, móttöku, afhendingu og/eða förgun.

19. gr.

1. mgr. 47. gr. orðist svo:

47.1 Draga skal eins og unnt er úr myndun spilliefna, sbr. viðauka 4 og viðauka 19. Stuðla ber að öruggri eyðingu þeirra eða nýtingu og öðru sem lýtur að endurnotkun.

20. gr.

5. mgr. 47. gr. orðist svo:

47.5 Spilliefni skal skrá og staðfesting liggja fyrir um hvar eða hvernig þeim hafi verið fargað. Fyrirtæki þar sem spilliefni verða til eða meðhöndla spilliefni skulu halda nákvæma skrá yfir þau. Í skránni skal m.a. koma fram gerð og magn úrgangs, eðlis- og efnafræðilegir eiginleikar, uppruni úrgangs, flutningsaðili, meðferð hans og móttöku- eða förgunarstaður. Allar færslur skulu varðveittar í a.m.k. 3 ár og skulu eftirlitsaðilar og fyrri eigendur úrgangsins hafa aðgang að þeim.

21. gr.

6. mgr. 47. gr. orðist svo:

47.6 Þeir aðilar sem flytja spilliefni til annarra landa skulu hlíta ákvæðum reglugerðar um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu og tilkynningaskyldu aðila sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang, og m.a. afla sér vottorðs Hollustuverndar ríkisins áður en spilliefnin eru flutt frá landinu. Sama gildir um innflutning spilliefna. Í beiðni um vottorð skulu m.a. koma fram upplýsingar um gerð og magn úrgangsins, nafn og aðsetur viðtakanda, innflutnings- eða útflutningsland, fyrirhugaða flutningsleið og fyrirhugaða meðhöndlun eða förgun spilliefnanna.

22. gr.

48. gr. orðist svo:

48.1 Aðili sem sem hefur með höndum starfsemi þar sem spilliefni verða til eða hefur undir höndum spilliefni og hefur ekki starfsleyfi samkvæmt 3. mgr. 47. gr. skal eins fljótt og unnt er, afhenda þau til stöðvar, stofnunar eða fyrirtækis sem hefur samkvæmt áðurnefndri grein leyfi til að meðhöndla þau.

48.2 Aðilar sem sjá um flutning spilliefna er skylt að láta fylgja með farminum skrifleg gögn þar sem fram koma upplýsingar um gerð, samsetningu, magn og þyngd úrgangs, nafn og heimilisfang framleiðanda eða fyrri úrgangshafa, nafn og heimilisfang móttakanda úrgangs eða förgunaraðila og hvar úrgangnum verði endanlega fargað, ef vitað er, sbr. reglugerð um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu og tilkynningaskyldu aðila sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang.

48.3 Fyrirtæki sem farga spilliefnum eða senda þau til annarra landa skulu eigi síðar en 1. mars ár hvert senda Hollustuvernd ríkisins skrá yfir móttöku, meðferð, förgun og útflutning spilliefna almanaksárið á undan, sbr. reglugerð um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu og tilkynningaskyldu aðila sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang.

23. gr.

50. gr. orðist svo:

Hávaði skal vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka 5 með reglugerð þessari, sbr. þó 53. gr. Ennfremur skal leitast við að uppfylla þau leiðbeiningarmörk sem fram koma í viðauka 5. Ef ekki er um ný skipulögð svæði að ræða, heldur svæði þar sem skipulag eða starfsemi er fyrir, má heimila undanþágur sem lýst er í viðauka 5.

24. gr.

2. mgr. 54. gr. orðist svo:

54.2 Heilbrigðisnefnd framkvæmir eða lætur framkvæma reglubundnar eftirlitsmælingar á hávaða. Hollustuvernd ríkisins gefur út reglur um framkvæmd mælinga.

25. gr.

Á eftir 2. mgr. 54. gr. bætist við ný málsgrein:

54.3 Í viðauka 5 er gerð grein fyrir þeim aðferðum sem nota skal við mælingar og/eða útreikninga á hávaða.

26. gr.

55. gr. orðist svo:

Við gerð svæða- og aðalskipulags skulu skipulagsyfirvöld hafa hliðsjón af niðurstöðum hávaðamælinga og útreikninga, svo og áliti eftirlitsaðila samkvæmt reglugerð þessari, sbr. einnig skipulagsreglugerð nr. 318/1985, ásamt síðari breytingum.

27. gr.

57. gr. orðist svo:

Ef um er að ræða atvinnurekstur, sem upp er talinn í viðaukum 7 eða 8 og er háður mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 63/1993 skal niðurstaða á mati liggja fyrir, áður en starfsleyfi er gefið út. Einnig skal áður en starfsemi hefst framkvæma nauðsynlegar rannsóknir, vegna starfsleyfis og eftirlits, á þeim umhverfisþáttum sem starfsemin hefur helst áhrif á. Slíkar rannsóknir eru á kostnað umsækjanda.

28. gr.

2. mgr. 66. gr. orðist svo:

66.2 Umsóknum skulu fylgja upplýsingar um þau atriði er heilbrigðisnefnd telur að fylja þurfi hverju sinni, s.s. nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaða starfsemi, hugsanlega mengunarhættu og fyrirhugaðar mengunarvarnir, lýsing á staðháttum, uppdrættir af staðsetningu mannvirkja og næsta umhverfi, svo og annað það er máli kann að skipta.

29. gr.

71. gr. orðist svo:

71.1 Hollustuvernd ríkisins gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem upp er talinn í viðauka 7 og ekki fellur undir ákvæði 1. mgr. 72. gr.

71.2 Heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem upp er talinn í viðauka 8 og ekki fellur undir ákvæði 1. mgr. 72. gr.

30. gr.

72. gr. orðist svo:

72.1 Umhverfisráðherra gefur út starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem fjárfesting framkvæmda er meiri en 800 milljónir miðað við byggingarvísitölu 187 febrúar 1992.

72.2 Hollustuvernd ríkisins afgreiðir endanlegar starfsleyfistillögur fyrir atvinnurekstur sem fellur undir 1. mgr. og upp er talinn í viðauka 7, til ráðuneytisins í samræmi við kynntar tillögur, úrskurð og/eða samkomulag vegna framkominna athugasemda, sbr. 62. 65. gr.

72.3 Heilbrigðisnefnd afgreiðir endanlegar starfsleyfistillögur fyrir atvinnurekstur, sem fellur undir 1. mgr. og upp er talinn í viðauka 8 til ráðuneytisins í samræmi við kynntar tillögur, úrskurð og/eða samkomulag vegna framkominna athugasemda, sbr. 69. og 70. gr.

31. gr.

1. mgr. 73. gr. orðist svo:

73.1 Starfsleyfi skal gefa út til tiltekins tíma.

32. gr.

1. mgr. 82. gr. orðist svo:

82.1 Í starfsleyfum fyrirtækja, sbr. 47. gr., skulu vera ákvæði um gerð og magn úrgangs, tæknikröfur, varúðarráðstafanir, förgunarstað og förgunaraðferðir. Starfsleyfisskyldir aðilar sem stunda starfsemi þar sem spilliefni myndast, hafa þau undir höndum eða farga þeim, skulu halda skrár um magn, gerð, eðlis- og efnafræðilega eiginleika og uppruna efnanna, förgunaraðferðir og förgunarstaði ásamt upplýsingum um dagsetningar móttöku og förgunar. Að öðru leyti er vísað til 6. kafla hvað varðar meðhöndlun olíuúrgangs.

33. gr.

2. mgr. 84. gr. orðist svo:

84.2 Ef sérstaklega stendur á getur ráðherra veitt tímabundnar undanþágur frá einstökum ákvæðum reglugerðar þessarar, m.a. í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Áður en undanþágur eru veittar skal leita umsagnar Hollustuverndar ríkisins eða Siglingamálastofnunar ríkisins eftir því sem við á, hverju sinni.

34. gr.

86. gr. orðist svo:

86.1 Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, og samkvæmt lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar, ásamt síðari breytingum, einkum 9. og 10. gr. laganna til að öðlast þegar gildi. Reglugerðin er ennfremur sett með hliðsjón af 4., 6., 8. - 18., 20. - 22., 26. - 27., 29. og 32. tölul. XX. viðauka við EES-samninginn (tilskipanir nr. 76/464/EBE, 80/68/EBE, 82/176/EBE, 83/513/EBE, 84/156/EBE, 84/491/EBE, 86/280/EBE, ásamt síðari breytingum, 91/271/EBE, 80/779/EBE, ásamt síðari breytingum, 82/884/EBE, 84/360/EBE, 85/203/EBE, ásamt síðari breytingu, 87/217/EBE, 89/369/EBE, 89/429/EBE, 76/403/EBE, 75/439/EBE, ásamt síðari breytingu, 74/442/EBE, ásamt síðari breytingu, og 86/278/EBE) og XX. viðauka 1. viðbótarpakka EES-samningsins (tilskipanir 91/676/EBE, 92/72/EBE, 94/3/EBE, 91/689/EBE og 92/112/EBE).

35. gr.

2. mgr. 86. gr. verður óbreytt en fyrir framan hana kemur eftirfarandi:

86.2

36. gr.

Á eftir 2. mgr. 86. gr. koma eftirfarandi málsgreinar:

86.3 Með vísun til meginmáls samnings um Evrópskt efnahagssvæði, viðauka XX, ásamt viðbótum og breytingum, bókunar 1 við samninginn og annarra ákvæða, öðlast eftirtaldar tilskipanir ráðs ESB gildi og verða hluti af viðaukum reglugerðar þessarar.

a) Tilskipun ráðsins 75/442/EBE um úrgang.

b) Tilskipun ráðsins 91/689/EBE um hættulegan úrgang.

c) Tilskipun ráðsins 91/676/EBE um vernd vatns gegn mengun af völdum nítrata úr landbúnaði.

d) Tilskipun ráðsins 92/72/EBE um loftmengun af ósoni.

e) Tilskipun ráðsins 92/112/EBE um samræmingu áætlana um að draga úr og hugsanlega stöðva mengun af völdum úrgangs frá títandíoxíðiðnaði.

86.4 ESB gerðir sem vísað er til í 3. mgr. hér að framan eru birtar í sérriti, sbr. auglýsingu í C deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993, sbr. lög nr. 95/1994 um breytingu á lögum um birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla nr. 64/1943. Umhverfisráðuneytið mun gefa út í sérstakri handbók viðauka þá er vísað er til og öðlast gildi með reglugerð þessari. Viðauka þessa mun vera hægt að fá hjá Hollustuvernd ríkisins.

37. gr.

Ákvæði til bráðabirgða fellur á brott og í stað kemur nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

Ákvæði til bráðabirgða

1. Þeir sem bera ábyrgð á atvinnurekstri samkvæmt reglugerð þessari skulu innan þriggja mánaða frá útgáfu eða endurskoðun starfsleyfis hafa lokið öllum almennum úrbótum vegna ákvæða þess. Heimilt er í starfsleyfi að veita lengri frest fyrir sértækum, flóknum og/eða kostnaðarsömum úrbótum.

2. Endurskoðun starfsleyfa atvinnurekstrar sem við gildistöku reglugerðar þessarar losar efni eða fellur að öðru leyti undir ákvæði sem getið er í tilskipun nr. 76/464/EBE, nr. 82/176/EBE, nr. 83/513/EBE, nr. 84/156/EBE, nr. 84/491/EBE, nr. 86/280/EBE, nr. 88/347/EBE, nr. 90/415/EBE, nr. 80/779/EBE, nr. 89/427/EBE, nr. 82/884/EBE, nr. 84/360/EBE, nr. 87/217/EBE, nr. 78/319/EBE, eða fellur undir ákvæði tilskipana nr. 76/403/EBE, nr. 81/857/EBE og nr. 85/203/EBE eins og við á hverju sinni skal lokið fyrir 1. janúar 1996.

3. Endurskoðun starfsleyfa atvinnurekstrar sem við gildistöku reglugerðar þessarar losar efni eða fellur að öðru leyti undir ákvæði sem getið er í tilskipun nr. 80/68/EBE, nr. 87/101/EBE, nr. 91/156/EBE eða nr. 86/278/EBE eða fellur undir ákvæði tilskipana nr. 75/439/EBE, nr. 75/442/EBE, nr. 78/176/EBE, nr. 83/29/EBE eða nr. 82/883/EBE eins og við á hverju sinni skal lokið fyrir 1. júlí 1995.

4. Starfsleyfi starfandi sorpbrennslu skulu endurskoðuð fyrir 1. desember 1995. Þá skulu stöðvarnar uppfylla ákvæði viðauka 24. Frá 1. desember 2000 gilda sömu ákvæði fyrir nýjar og starfandi sorpbrennslustöðvar, sbr. viðauka 23.

5. Endurskoðun starfsleyfa vegna starfandi skólphreinsistöðva skal vera lokið fyrir 1. janúar 1995.

6. Iðnaðarstarfsemi, sbr. 77. gr., skal uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar eigi síðar en 31. desember 2000.

7. Atvinnurekstur, þ. m. t. sorpbrennslustöðvar, sem fær/eða fengið hefur útgefið starfsleyfi eftir 27. janúar 1994 telst nýr atvinnurekstur enda hafi meginundirbúningur leyfisins farið fram fyrir þann tíma. Atvinnurekstur, þ. m. t. sorpbrennslustöðvar, sem fengið hefur útgefið starfsleyfi í fyrsta sinn fyrir 27. janúar 1994 eða að undirbúningur starfsleyfis hefur að mestu leyti farið fram fyrir það tímamark telst starfandi atvinnurekstur.

8. Þrátt fyrir ákvæði 87. gr. taka viðaukar nr. 10, 16, 20, 21, 22, 23 og 25 gildi 1. janúar 1995. Sama á við um viðmiðunarmörk fyrir blý í viðauka 3, 3. mgr. 26. gr. og 79. gr.

38. gr.

Núverandi viðauki 3 er felldur úr gildi og í stað hans kemur nýr viðauki 3 sem orðist svo:

VIÐAUKI 3

Viðmiðunarmörk fyrir hámarksmengun andrúmslofts.

Efni

Viðmiðunartími

Mörk

Brennisteinsdíoxíð
(S02)

Sólarhringur
Ár og vetur

50 µg/m3
30 µg/m3

Köfnunarefnisdíoxíð
(N02)

Ein klst.
Sólarhringur
Ár og vetur

110 µg/m3
75 µg/m3
30 µg/m3

Kolmonoxíð
(CO)

Ein klst.
Átta klst.

20 mg/m3
6 mg/m3

Svifryk
(Þ < 10 µm)

Sólarhringur
Ár og vetur

130 µg/m3
40 µg/m3

Fallryk, ekki vatnsleysanlegt

Mánuður

10 g/m2

Blý

Ár og vetur

0,4 µg/m3

Óson

Ein klst.

120 µg/m3

(O3)

Átta klst
Sólarhringur

90 µg/m3
65 µg/m3

Mörk fyrir mánuð og ár eru meðaltöl sem mengun má ekki fara yfir. Vetur er skilgreindur frá 1. október. til 31. mars. ár hvert. Mörk fyrir sólarhring eða skemmri tíma skulu vera undir viðmiðunarmörkum í 98% tilvika á ári, sbr. og viðauka 13 (I. viðauki). Svifryksmælingar eru miðaðar við þyngdarmælingar, sbr. viðauka 15 (IV viðauki). Átta klst. meðaltöl fyrir óson eru reiknuð fjórum sinnum á dag út frá klukkustundargildunum milli 00.00 og 09.00, 08.00 og 17.00, 12.00 og 21.00 og 16.00 og 01.00.

39. gr.

Núverandi viðauki 5 er felldur úr gildi og í stað hans kemur nýr viðauki 5 sem orðist svo:

 

VIÐAUKI 5

Reglur um hávaða utanhúss.

1. Almennt.

Við nýskipulag hverfa skal taka mið af Töflu 1, sem sýnir viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi varðandi hljóðstig frá bílaumferð og atvinnustarfsemi.

Ef upp koma tilvik sem þessar reglur ná ekki yfir, skal velja viðurkennda hávaðareglu sem stuðst er við í slíkum tilvikum í einhverju hinna Norðurlandanna.

Ef ekki er um nýskipulag íbúðarhverfa að ræða, heldur skipulag eða starfsemi sem fyrir er, má heimila undanþágur varðandi umferðarhávaða, sem nánar er fjallað um í grein 5 í þessum viðauka. Um hávaða á iðnaðarsvæðum er fjallað í grein 4 í þessum viðauka.

2. Hugtök og skilgreiningar.

2.1 Hljóðstig er mælikvarði á hljóðstyrk. Það er oft mælt í decibelum í gegnum s.k. A-síu ("filter"), sem líkir eftir næmi eyrans. Hljóðstigið er þá táknað LA og einingin er dB(A).

2.2 Jafngildishljóðstig, Leq er ákveðið meðaltalshljóðstig, sem samsvarar sömu hljóðorku á mælitímanum og hinn raunverulegi breytilegi hávaði. Ef jafngildishljóðstigið er mælt í dB(A), er það táknað LAeq.

2.3 Hámarkshljóðstig er hæsta gildi sem hljóðmælir sýnir yfir ákveðinn mælitíma, þegar hann er stilltur á staðlaða tímastillingu "FAST". Ef hámarkshljóðstigið er mælt í dB(A) er hámarkshljóðstigið táknað LAmax.

2.4 Viðmiðunargildi er það gildi sem verður að uppfylla til þess að ástandið geti talist viðunandi. Ef þetta viðmiðunargildi er samt sem áður ekki uppfyllt, skal skilgreina hvernig hægt verður að uppfylla það innan ákveðins tíma.

2.5 Leiðbeiningargildi er gildi sem ákjósanlegt er að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið, en leitast skal við að uppfylla það þar sem þess er nokkur kostur.

3. Mæliaðferðir.

Ef ástæða þykir til þess að kanna hvort hljóðstig sé innan marka skulu mælingar gerðar samkvæmt ákveðnum mæliaðferðum. Þær aðferðir sem nota skal þar til Evrópustaðlar hafa tekið gildi hérlendis á þessu sviði eru eftirfarandi: (NT = Nordtest, samræmdar norrænar mæliaðferðir.)

3.1

3.1.1 Við athugun á hávaða frá atvinnustarfsemi skal mæla skv. samnorrænni mæliaðferð, t.d. sænsku útgáfunni: "Metod för imissionsmätning av externt industribuller. Statens Naturvårdsverk: Meddelande 6/1984".

3.1.2 Við útreikninga á hávaða frá atvinnustarfsemi skal nota Nordtest aðferðina NT ACOU 080: "Industrial plants: Noise emission". Þar er hávaðinn fyrst mældur við upptökin, og síðan má reikna útbreiðslu hans.

3.2

3.2.1 Við athuganir á hljóðstigi frá umferð skal mæla skv. NT ACOU 039: "Road traffic: Noise" eða NT - ACOU 056: "Road traffic: Noise - Simplified method"

3.2.2 Útreiknað hljóðstig skal fundið með samnorrænu reiknilíkani fyrir umferðarhávaða: "Nordisk beräkningsmodell för vägtrafikbuller."

Tafla 1. Viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi ,fyrir hljóðstig f og við íbúðarhúsnæði, kennslu- og sjúkrastofur. (Leiðbeiningargildi eru innan sviga). Hljóðstig "utan við glugga" í töflunni er frísviðsgildi, annaðhvort mælt beint án áhrifa frá endurkastandi flötum, eða mæligildi við húshlið leiðrétt m.t.t. áhrifa frá endurkastandi flötum.

Hljóðgjafar úti

 

Mesta hljóðstig

Mælitími

 

utan við glugga

inni

 

Bílaumferð:
Íbúðarhúsnæði, kennslu- og sjúkrastofur

LAeq


55 (45)


30


24 klst.

Atvinnustarfsemi - virka daga (07 - 18):
Blönduð byggð: verslun, þjónusta,
smáiðnaður, íbúðarbyggð
Hrein íbúðarbyggð
SumarhúsabyggðLr
Lr
Lr55
50
40

 

 

Atvinnustarfsemi - kvöld (18 - 23) og helgidaga:50
45
35

 

 

 

Blönduð byggð: verslun, þjónusta,
smáiðnaður, íbúðarbyggð
Hrein íbúðarbyggð
Sumarhúsabyggð


Lr
Lr
Lr

Atvinnustarfsemi - nótt (23 - 07):
Blönduð byggð: verslun, þjónusta,
smáiðnaður, íbúðarbyggð
Hrein íbúðarbyggð
SumarhúsabyggðLr
Lr
Lr40
40
35

 

 

Lr stendur fyrir "rating level" skv. ISO 1996/1 (1982) par. 3.11 og er jafnt LAeg nema þegar hljóðið inniheldur ríkjandi tón eða högghljóð, en þá bætast 5 dB við mæligildið.

4. Hljóðstig frá fyrirtækjum og annarri starfsemi.

Auk þeirra viðmiðunargilda sem sýnd eru í töflu 1, gilda eftirfarandi mörk fyrir iðnaðarsvæði um mesta hljóðstig utan við glugga:

 

 

Virkir dagar

kl. 07-18

Kvöld

kl. 18-23

Nætur

kl. 23-07

Iðnaðarsvæði

Lr

70

70

70

5. Hljóðstig frá umferð.

Hljóðstig frá umferð er mælt og markgildi sett sem sk. jafngildishljóðstig í dB(A) fyrir heilan sólarhring. Viðmiðunargildin miðast við ákveðna tímadreifingu umferðarinnar, þannig að reiknað er með 7-8% næturumferð á stofnbrautum og tengibrautum, en um 4-5% næturumferð á safngötum og húsagötum. (Næturumferð hérlendis telst vera milli kl. 00.00 og 07.00.)

Þessi forsenda um tímadreifingu umferðarinnar gefur um 7-8 dB(A) minni umferðarhávaða að næturlagi en að degi til á stofnbrautum og tengibrautum, en um 9-10 dB(A) á safn- og húsagötum. Ef veruleg frávik eru á tímadreifingu umferðarinnar miðað við þessar forsendur, skulu viðmiðunargildin fyrir umferðarhávaðann breytast í samræmi við það.

Viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi fyrir umferðarhávaða, jafngildishljóðstig í dB(A) fyrir sólarhring. (Leiðbeiningargildi eru innan sviga.) Viðmiðunargildin "innanhúss" í töflunni miðast við lokaða glugga. Viðmiðunargildin "utan við glugga" í töflunni eru frísviðsgildi, annaðhvort mæld beint án áhrifa frá endurkastandi flötum, eða mæligildi við húshlið leiðrétt m.t.t. áhrifa frá endurkastandi flötum.

 

Grunntafla:

Nýskipulag

Frávik 1)

I

II

Innanhúss:

Íbúðarhúsnæði

Kennslu- og sjúkrastofur

Hávaðalitlir vinnustaðir

30

30

40

40

35

50

30

30

40

Utan við glugga:

Íbúðarhúsnæði

Kennslu- og sjúkrastofur

55 (45)

55 (45)

65

60

70/55

70

Útisvæði:

Útivistarsvæði í þéttbýli

Sumarhúsabyggð

55 (45)

45 (40)

65

65

 

70

70/55 merkir að viðmiðunarkrafan um 55 dB(A) utan við glugga skal vera uppfyllt fyrir a.m.k. helming íveruherbergja í hverri íbúð, en í öðrum herbergjum er leyfilegt hljóðstig allt að 70 dB(A).

1 ) Frávik: I Veruleg breyting á umferðaræð í byggð sem fyrir er.

II Endurnýjun byggðar sem fyrir er.

 

40. gr.

Við viðauka 18 bætist við nýr viðauki III um Evrópska skrá yfir úrgang, sem er skrá yfir úrgang samkvæmt a-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins nr. 75/442/EBE.

41. gr.

Núverandi viðauki 19 er felldur úr gildi og í stað hans kemur nýr viðauki 19 með eftirfarandi viðaukum við tilskipun ráðsins 91/689/EBE um hættulegan úrgang:

I. Viðauki A og B um flokka eða helstu gerðir af hættulegum úrgangi, flokkað eftir því hvers eðlis úrgangurinn er eða frá hvaða starfsemi hann kemur.

II. Viðauki um efni sem gera úrgang í I viðauka A og B hættulegan þegar hann hefur eiginleika sem lýst er í III viðauka.

III. Viðauki um eiginleika sem gera úrgang hættulegan.

42. gr.

Við reglugerðina bætist við viðauki 27 með eftirfarandi viðaukum við tilskipun ráðsins 91/676/EBE um vernd vatns gegn mengun af völdum nítrata úr landbúnaði:

I. Viðauki um viðmiðanir við kortlagningu vatns samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

II. Viðauki um starfsreglur um góða búskaparhætti.

III. Viðauki um ráðstafanir sem skulu felast í aðgerðaráætlunum, samanber A-lið 4. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.

IV. Viðauki um mælingaraðferðir.

V. Viðauki um upplýsingar sem skulu vera í skýrslunni samkvæmt 10. gr. tilskipunarinnar.

43. gr.

Við reglugerðina bætist við viðauki 28 með eftirfarandi viðaukum við tilskipun ráðsins 92/72/EBE um loftmengun af ósoni:

I. Viðauki um mörk ósonstyrkleika í loftinu.

II. Viðauki um eftirlit með ósonstyrkleika.

III. Viðauki útreikningar á mælingarniðurstöðum á árlegum viðmiðunartíma.

IV Viðauki um skrá yfir lágmarksupplýsingar til íbúa ef mikið ósonmagn er í lofti.

V. Viðauki um tilvísunaraðferð við greiningu sem nota skal í tengslum við þessa tilskipun.

44. gr.

Við reglugerðina bætist við fylgiskjal IV sem er tilskipun ráðsins 92/112/EBE um samræmingu áætlana um að draga úr og hugsanlega stöðva mengun af völdum úrgangs frá títandíoxíðiðnaði.

45. gr.

Endurskoðun þessi er í samræmi við 9. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í núverandi mengunarvarnareglugerð.

Umhverfisráðuneytið, 30. júní 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica