Samgönguráðuneyti

94/2004

Reglugerð um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skipa og búnaðar.

1. gr.
Gildissvið.

Faggiltum skoðunarstofum skipa er heimilt að skoða öll skip nema:

a) Farþegaskip sem eru 24 m að lengd eða lengri.
b) Farþegaskip sem eru smíðuð eftir 1. júlí 2001.
c) Háhraðaför, sbr. kóða um háhraðaför (HSC-kóðinn).
d) Skip sem eru 400 brúttótonn að stærð eða stærri.
e) Olíuflutningaskip sem eru 150 brúttótonn að stærð eða stærri.
f) Skip í reglubundnum millilandasiglingum og eru 24 m að lengd eða lengri smíðuð eftir 1966.
g) Upphafsskoðun.
h) Eftirlit með nýsmíði og meiri háttar breytingum skipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd.
i) Þykktarmælingar skipa, nema Siglingastofnun Íslands ákveði annað.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Skoðunarstofa: Faggilt skoðunarstofa sem hlotið hefur starfsleyfi til að annast skoðun á skipum og búnaði þeirra í samræmi við reglur þar að lútandi.

Skoðunarmaður: Starfsmaður skoðunarstofu sem uppfyllir hæfniskröfur samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og starfar að skoðun á skipum og búnaði.

Skoðunarskýrsla: Skjal gefið út af Siglingastofnun, undirritað af skoðunarmanni, sem staðfestir ástand skips og búnaðar miðað við þær opinberu kröfur sem gerðar eru þar að lútandi.

Faggildingaraðili: Faggildingarsvið Löggildingarstofu eða annar viðurkenndur faggildingaraðili á Evrópska efnahagssvæðinu.


3. gr.
Skoðun skipa.

Skoðun á skipum og búnaði skal vera í samræmi við gildandi reglugerðir um eftirlit með skipum og aðrar reglur er lúta að skoðun á skipum og búnaði.


4. gr.
A-faggilding.

Skoðunarstofa, sem annast skoðun á skipum og búnaði, skal hafa hlotið faggildingu í samræmi við íslenskan staðal ÍST EN 45004 og lög nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa skoðunarstofur allt að 12 mánuði frá því umsókn um starfsleyfi er lögð inn til Siglingastofnunar til þess að uppfylla ákvæði þessarar greinar um faggildingu enda leggi þessir aðilar fram greinargóða áætlun um á hvern hátt unnið verður að innleiðingu gæðakerfa og vinnuferla og annarra ákvæða staðalsins og reglugerða. Áætluninni skal skila til faggildingardeildar Löggildingarstofu og skal hún hljóta samþykki Löggildingarstofu. Í áætluninni skal skilgreina tímasetningu einstakra þátta verkefnisins og skal Löggildingarstofa hafa eftirlit með því að áætluninni sé fylgt.


5. gr.
B-faggilding.

Skoðunarstofa, sem annast skoðun einstakra hluta búnaðar skipa, þ.e. gúmmíbjörgunarbáta, áttavita, björgunarbúninga, handslökkvitæki, fastan slökkvibúnað, losunar- og sjósetningarbúnað, reykköfunartæki, fjarskiptabúnað og eldskynjunar- og eldviðvörunarbúnað skal hafa hlotið faggildingu í samræmi við íslenskan staðal ÍST EN 45004 og lög nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu. Skoðunarstofunum sem hafa starfsheimildir við gildistöku þessarar reglugerðar er þó heimilt fram til 30. september 2004 að halda áfram að starfa í samræmi við eldri lög og reglugerðir. Að þeim tíma liðnum skulu þær hafa hlotið starfsleyfi í samræmi við reglugerð þessa og aðrar reglur sem um þá starfsemi gilda.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa skoðunarstofur allt að 12 mánuði frá því umsókn um starfsleyfi er lögð inn til Siglingastofnunar til þess að uppfylla ákvæði þessarar greinar um faggildingu enda leggi skoðunarstofan fram greinargóða áætlun um á hvern hátt unnið verður að innleiðingu gæðakerfa og vinnuferla og annarra ákvæða staðalsins og reglugerða. Áætluninni skal skila til faggildingardeildar Löggildingarstofu og skal hún hljóta samþykki Löggildingarstofu. Í áætluninni skal skilgreina tímasetningu einstakra þátta verkefnisins og skal Löggildingarstofa hafa eftirlit með því að áætluninni sé fylgt.


6. gr.
Hlutleysi.

Starfsemi skoðunarstofu skal haga á þann hátt að treysta megi að fullu að starfsmenn hennar séu lausir við hvers kyns viðskiptaleg, fjárhagsleg og önnur hagsmunatengsl sem áhrif getur haft á störf þeirra hjá skoðunarstofunni.

Skoðunarstofa með A-faggildingu má ekki jafnframt annast ráðgjöf varðandi skip, hönnun skipa, viðgerðir á skipum, sölu á varahlutum í skip eða aðra þá þjónustu sem stangast á við hlutleysisreglur reglugerðarinnar og staðalsins ÍST EN 45004.


7. gr.
Starfsleyfi.

Siglingastofnun Íslands veitir starfsleyfi til rekstrar skoðunarstofa sem annast skoðun á skipum og búnaði. Áður en starfsleyfi er veitt skal Siglingastofnun kanna hvort einstakir hlutar gæðakerfis stofunnar séu skilvirkir og hvort líklegt sé að sett markmið í störfum hennar náist. Siglingastofnun skal kanna hvort skilyrðum 6. gr. um hagsmunatengsl sé fullnægt sem og öðrum skilyrðum skv. 8. gr.

Skoðunarstofur skulu sinna öllum skoðunarbeiðnum sem berast og geta annast skoðanir hvarvetna á landinu.

Starfsleyfi skoðunarstofa skal veitt til fimm ára í senn. Starfsleyfi fellur niður ef skoðunarstofa hættir starfsemi. Framsal starfsleyfis er óheimilt.

Siglingastofnun Íslands skal hafa eftirlit með starfsemi skoðunarstofa, gæta samræmis í störfum þeirra og gera úttektir á þeim, m.a. með skyndiskoðunum í skipum. Slíkt eftirlit er óháð eftirliti faggildingaraðila.


8. gr.
Skilyrði starfsleyfis.

Sá sem sækir um starfsleyfi til reksturs skoðunarstofu skipa skal leggja fram sönnun fyrir því að hann hafi hlotið faggildingu á viðkomandi faggildingarsviði, sbr. þó 4. gr. Ennfremur skal hann staðfesta að skoðunarstofan:

a) hafi tæknilegan stjórnanda í föstu starfi með tilskilda hæfni í samræmi við ákvæði 9. gr. sem beri tæknilega ábyrgð á framkvæmd skoðana;
b) hafi fastráðna skoðunarmenn með fullnægjandi þekkingu til að annast skoðanir skv. 10. gr.;
c) hafi yfir að ráða hentugu húsnæði og aðstöðu;
d) hafi yfir að ráða hentugum tækjabúnaði eftir því sem við á;
e) taki þátt í samanburðarskoðunum þegar Siglingastofnun og/eða faggildingaraðili óskar eftir því og hlíti fyrirmælum um ráðstafanir ef frávik milli skoðunarstofa koma fram. Skoðunarstofan skal bera allan kostnað vegna þátttöku sinnar svo og ráðstafana sem gera verður innan skoðunarstofunnar;
f) muni taka þátt í samvinnuverkefnum þegar óskað er;
g) muni skila skýrslum í gagnagrunn Siglingastofnunar í samræmi við kröfur stofnunarinnar þar um og hafi yfir að ráða nauðsynlegum tölvubúnaði;
h) sýni fram á fjárhagslega burði/fjárhagslegt sjálfstæði til þess að standa að skoðun skipa á faglegan hátt og í samræmi við fyrrgreindar hlutleysisreglur og
i) hafi ábyrgðartryggingu vegna starfseminnar.

Siglingastofnun getur svipt skoðunarstofu starfsleyfi ef hún uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef skoðunarstofa hlítir ekki fyrirmælum Siglingastofnunar, vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða óvarkárni í starfi. Starfsleyfi fellur sjálfkrafa niður verði skoðunarstofa svipt faggildingu sinni. Siglingastofnun er heimilt að veita skoðunarstofum áminningu fyrir brot á reglugerð þessari.


9. gr.
Tæknilegur stjórnandi.

Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur með sérþekkingu á skipum og búnaði og hafa minnst tveggja ára starfsreynslu á því sviði. Undantekningu má gera frá framangreindum skilyrðum um háskólamenntun ef viðkomandi hefur menntun, starfsreynslu og þjálfun sem faggildingaraðili telur fullnægjandi.


10. gr.
Skoðunarmenn.

Skoðunarmaður á skoðunarstofu skal uppfylla eitt eftirfarandi skilyrði:

1. Hafa:
a) atvinnuskírteini skipstjóra sem heimilar honum að stjórna skipi sem er 1.600 brúttótonn að stærð eða meira (sbr. STCW-regla II/2) og hafa starfað til sjós í fimm ár að minnsta kosti sem yfirmaður á þilfari; eða
b) atvinnuskírteini yfirvélstjóra sem heimilar honum að taka að sér starf um borð í skipi þar sem afl aðalvélbúnaðar er 3.000 kW eða meira (sbr. STCW-regla III/2) og hafa starfað til sjós í fimm ár að minnsta kosti sem yfirmaður í vélarúmi; eða
c) lokið prófi sem skipaverkfræðingur/tæknifræðingur, vélaverkfræðingur/tæknifræðingur eða verkfræðingur/tæknifræðingur á sviði siglingamála og unnið sem slíkur í fimm ár að minnsta kosti; eða
d) iðnmenntun og meistararéttindi á viðkomandi sviði (svo sem: skipasmíði, plötusmíði, vélvirkjun, rafvirkjun eða rafeindavirkjun) og unnið sem slíkur í fimm ár að minnsta kosti.
2. Skoðunarmenn sem ekki fullnægja viðmiðununum hér að framan geta einnig öðlast viðurkenningu ef þeir störfuðu við skipaskoðun fyrir 1. mars 2004.

Skoðunarmaður skal hafa þekkingu á ákvæðum alþjóðasamninga og viðeigandi starfsaðferðum við skoðun á skipum og búnaði þeirra.


11. gr.
Gjaldskrár.

Samgönguráðherra er heimilt að setja gjaldskrá fyrir hámarksgjaldtöku við skipaskoðanir að fenginni umsögn hagsmunaaðila.

Skoðunarstofur skipa skulu innheimta og standa skil á gjöldum til Siglingastofnunar Íslands fyrir útgáfu haffærisskírteina sem Siglingastofnun gefur út í framhaldi af skoðunum skoðunarstofu.


12. gr.
Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, þ.e. sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála.


13. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 10. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Ákvæði til bráðabirgða.

Reglugerðin skal endurskoðuð innan tveggja ára frá birtingu hennar.


Samgönguráðuneytinu, 5. febrúar 2004.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica