Samgönguráðuneyti

70/1942

Reglugerð um stjórn, rekstur og eftirlit fjarskiptamála. - Brottfallin

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 30 27. júní 1941, um fjarskipti, er hér með sett eftirfarandi reglugerð um stjórn, rekstur og eftirlit fjarskiptamála.

1. gr.

Ríkið hefur einkarétt á:

1. að stofna og reka hvers konar fjarskiptavirki á Íslandi og í íslenzkri landhelgi og lofthelgi,

2. að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa út á annan hátt, smíða, gera við, breyta eða setja upp fjarskiptavirki eða hluta þeirra.

2. gr.

Póst- og símamálastjórnin annast framkvæmd á einkarétti ríkisins, sem í 1. gr. getur, og hefur eftirlit með því, að gildandi alþjóðafyrirmælum, milliríkjasamningum, lögum, reglugerðum og fyrirmælum um fjarskiptamál sé fylgt, þar á meðal gildandi fyrirmælum til öryggis mannslífa á sjó, að því er snertir radiotæki í íslenzkum skipum og rekstur þeirra. Þó er undanskilin framkvæmd þeirra mála, sem ríkisútvarpinu, vitamálastjórninni og skipaskoðun ríkisins eru falin með sérstökum lögum.

3. gr.

Ef einstakir menn, félög eða stofnanir óska leyfis til framkvæmda, sem heyra undir einkarétt ríkisins, samkv. 1. gr. þessarar reglugerðar, skal umsókn um það send póst- og símamálastjórninni. Verði leyfi veitt, gefur póst- og símamálastjórnin út leyfisbréf, og skal þar tekið fram, hvað sé leyft, hve lengi leyfið gildir, svo og skilyrði þau og kvaðir, sem settar eru fyrir leyfinu.

Ekki þarf þó að sækja um leyfi póst- og símamálastjórnarinnar, þegar um er að ræða:

a. innflutning, sölu, viðgerðir og uppsetningu á venjulegum hringingarlögnum, einföldum merkjakerfum einstaks húss eða opinbers fyrirtækis, enda séu ekki notaðir rafstraumar með hærri tíðni en 60 rið/sek. og ekki sé um fjarflutning á orðum eða orðasamböndum að ræða, eða þessi kerfi geti valdið truflunum á rekstri annarra fjarskiptavirkja;

b. viðgerðir fjarskiptatækja, sem eru aðeins fólgnar í að endurnýja lampa, vör eða aðra þvílíka lausa hluti í tækjunum, enda valdi það engum breytingum á starfi tækjanna, svo sem aukinni lífshættu, brunahættu eða hættu á að trufla rekstur annarra fjarskiptavirkja

c. uppsetning útvarpsloftnetja (og grunnsambands), þar sem engin rafmagnsveita (með yfir 24 volta spennu) er á staðnum og engin símalína nær en í 10 metra fjarlægð;

d. rekstur útvarpsviðtækja, sem hafa verið tilkynnt ríkisútvarpi, sbr. 6. gr. laga nr. 63 28. des. 1934, um útvarpsrekstur ríkisins. Ef útvarpsviðtækin ná yfir önnur öldusvið en þau, sem ætluð eru til útvarps, samkv. alþjóðafjarskiptareglugerðinni (Kairo 1938), getur póst- og símamálastjórnin þó, ef ástæta þykir til, bannað að nota tækin, þar til þeim hefur verið breytt þannig, að þau taki ekki á móti öldusviðum, sem samkvæmt alþjóðaákvæðum eru ætluð til annarra viðskipta.

Þótt ekki þurfi að sækja um leyfi í framangreindum tilfellum, ber hlutaðeigendum ávallt að fylgja settum reglum þar að lútandi.

Enn fremur kemur skírteini 1. og 2. flokks loftskeytamanna í stað leyfisbréfs, ef um er að ræða viðgerðir á radiotækjum, sem tilheyra loftskeytastöð þeirri, sem þeir eiga að gæta.

Löggiltum rafvirkjum er heimilt, án leyfisbréfs frá póst- og símamálastjórninni, að setja upp venjuleg útiloftnet (og grunnsamband) fyrir útvarpsviðtæki, svo og að leggja taugar innan húss að þessum tækjum og til gjallarhorns, enda fylgi þeir settum reglum varðandi slík loftnet og taugar.

4. gr.

Póst- og símamálastjórnin gefur út nánari reglur og fyrirmæli varðandi hinar ýmsu tegundir fjarskiptavirkja, rekstur þeirra, uppsetningu og viðhald, eftirlit met þeim og annað, er þar að lýtur, og varða brot á þeim reglum viðurlögum samkvæmt framangreindum lögum um fjarskipti.

5. gr.

Brot gegn þessari reglugerð varða viðurlögum samkvæmt framangreindum lögum um fjarskipti.

Póst- og símamálaráðherra, 9. maí 1942.

 
Eysteinn Jónsson.


Guðmundur Hlíðdal.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica