1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að notendur almennra farsímaneta á ferðalagi innan EES greiði aðeins hóflegt verð fyrir reikiþjónustu þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum í farsímaþjónustu. Þá er leitast við að efla neytendavernd og val neytenda um leið og hvatt er til samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerðin tekur til gjalda sem rekstraraðilum farsímaneta er heimilt að leggja á fyrir að veita alþjóðlega reikiþjónustu fyrir símtöl í farsímaþjónustu með upphaf og lúkningu innan EES og tekur bæði til gjalda milli rekstraraðila netkerfa í heildsölu og gjalda sem þjónustuveitendur heimaneta leggja á í smásölu.
3. gr.
Viðurlög.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt XVI. kafla laga nr. 81/2003 um fjarskipti.
4. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Bandalagsins frá 13. júní 2012, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67, dags. 29. nóvember 2012, á bls. 487, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2012 frá 28. september 2012, sem birtist sem fylgiskjal við reglugerð þessa, um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af IX. viðauka, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans.
5. gr.
Gildistaka og heimild.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 1046/2008 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES og reglugerð nr. 183/2010 um breytingu á reglugerð nr. 1046/2008 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES.
Innanríkisráðuneytinu, 7. desember 2012.
Ögmundur Jónasson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)