1. gr.
Gildissvið og markmið.
Reglugerðin tekur til gjalda sem rekstraraðilar farneta leggja á í heildsölu og gjalda sem veitendur reikiþjónustu leggja á í smásölu. Í reglugerðinni eru sett fram skilyrði fyrir heildsöluaðgangi að almennum farnetum í þeim tilgangi að veita reikiþjónustu sem reglur eru settar um.
Reglugerðin gildir um alþjóðlegt reiki innan Evrópska efnahagssvæðisins og eftir atvikum um reiki innanlands.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja samræmdar reglur um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, til þess að notendur almennra farneta á ferðalagi innan Evrópska efnahagssvæðisins borgi ekki óhóflegt verð, í samanburði við samkeppnishæf, landsbundin verð, fyrir reikiþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, þegar hringt er og tekið er á móti símtölum, send eru smáskilaboð og tekið á móti þeim, og notuð er pakkaskipta gagnaflutningsþjónusta.
Með reglugerðinni er stuðlað að snuðrulausri starfsemi innri markaðarins og öflugri neytendavernd, persónuvernd, friðhelgi einkalífs og trausti, efldri samkeppni, óhæði og gagnsæi á markaðnum og bættrar upplýsingamiðlunar um gjöld til notenda reikiþjónustu.
2. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtaldar reglugerðir sem vísað er til í XI. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XI. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:
3. gr.
Eftirlit og viðurlög.
Fjarskiptastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um fjarskipti, nr. 70/2022, þar á meðal að því er varðar alþjóðlega reikiþjónustu, sem nánar er útfært í reglugerð þessari.
Fjarskiptastofa fer með eftirlit með framkvæmd reglugerða sem tilgreindar eru í 2. gr. reglugerðar þessarar, þar á meðal skal Fjarskiptastofa hafa eftirlit með framfylgni við ákvæði um hámarksverð og getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki breyti verði ef verðlagning þeirra er hærri en sem nemur hámarksverði.
Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um framkvæmd eftirlits, þar á meðal um reglur um útreikning á viðmiðunargengi og endurskoðun þess sem og upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja.
Um framkvæmd eftirlits, aðgang Fjarskiptastofu að upplýsingum og úrlausn deilumála fer samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga um fjarskipti, nr. 70/2022.
4. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 54. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 og öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 1174/2012, um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. desember 2022.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir.