Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

1588/2022

Reglugerð um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerðin tekur til gjalda sem rekstraraðilar farneta leggja á í heildsölu og gjalda sem veitendur reikiþjónustu leggja á í smásölu. Í reglugerðinni eru sett fram skilyrði fyrir heildsölu­aðgangi að almennum farnetum í þeim tilgangi að veita reikiþjónustu sem reglur eru settar um.

Reglugerðin gildir um alþjóðlegt reiki innan Evrópska efnahagssvæðisins og eftir atvikum um reiki innanlands.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja samræmdar reglur um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, til þess að notendur almennra farneta á ferðalagi innan Evrópska efnahagssvæðisins borgi ekki óhóflegt verð, í samanburði við samkeppnis­hæf, landsbundin verð, fyrir reikiþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, þegar hringt er og tekið er á móti símtölum, send eru smáskilaboð og tekið á móti þeim, og notuð er pakkaskipta gagna­flutnings­þjónusta.

Með reglugerðinni er stuðlað að snuðrulausri starfsemi innri markaðarins og öflugri neytenda­vernd, persónuvernd, friðhelgi einkalífs og trausti, efldri samkeppni, óhæði og gagnsæi á mark­aðnum og bættrar upplýsingamiðlunar um gjöld til notenda reikiþjónustu.

 

2. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtaldar reglugerðir sem vísað er til í XI. viðauka samn­ingsins um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XI. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/612 frá 6. apríl 2022 um reiki á almennum farnetum innan Bandalagsins, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 63, dagsett 29. september 2022, bls. 178, sbr. ákvörðun sameigin­legu EES- nefndarinnar nr. 189/2022 frá 10. júní 2022.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/2286 frá 15. desember 2016 um ítarlegar reglur um beitingu viðmiðunarreglna um eðlilega notkun og um aðferðafræði til að meta sjálfbærni afnáms aukagjalds á reiki í smásölu og um umsóknina sem veitandi reikiþjónustu þarf að leggja fram vegna þess mats, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi Evrópusambandsins nr. 40, frá 29. júní 2017, bls. 106, sbr. ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 105/2017 frá 13. júní 2017.
  3. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/2228 frá 14. desember 2021 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu og um niður­fellingu á framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2082, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 38, dagsett 16. júní 2022, bls. 48, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2022 frá 29. apríl 2022.

 

3. gr.

Eftirlit og viðurlög.

Fjarskiptastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um fjarskipti, nr. 70/2022, þar á meðal að því er varðar alþjóðlega reikiþjónustu, sem nánar er útfært í reglugerð þessari.

Fjarskiptastofa fer með eftirlit með framkvæmd reglugerða sem tilgreindar eru í 2. gr. reglu­gerðar þessarar, þar á meðal skal Fjarskiptastofa hafa eftirlit með framfylgni við ákvæði um hámarks­verð og getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki breyti verði ef verðlagning þeirra er hærri en sem nemur hámarksverði.

Fjarskiptastofu er heimilt að setja reglur um framkvæmd eftirlits, þar á meðal um reglur um útreikning á viðmiðunargengi og endurskoðun þess sem og upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja.

Um framkvæmd eftirlits, aðgang Fjarskiptastofu að upplýsingum og úrlausn deilumála fer sam­kvæmt lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga um fjarskipti, nr. 70/2022.

 

4. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 54. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 og öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 1174/2012, um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum.

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. desember 2022.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica