Samgönguráðuneyti

276/1995

Reglugerð um vöruflutninga á vegum innan Evrópska efnahagssvæðisins. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um vöruflutninga á landi gegn gjaldi á milli landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og innanlands í aðildarríkjum EES með flutningabifreið eða vagnlest skráðum á Íslandi með leyfilegan hámarksþunga meira en 6 tonn.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

>Millilandaflutningar eru akstur ökutækis frá einu aðildarríki til annars, með eða án umflutninga um eitt eða fleiri aðildarríki eða eitt eða fleiri þriðju lönd. Akstur ökutækis frá aðildarríki til þriðja lands og öfugt, með eða án umflutninga um eitt eða fleiri aðildarríki eða eitt eða fleiri þriðju lönd. Akstur ökutækis milli þriðju landa, í umflutningi um yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja. Akstur án farms í tengslum við slíka flutninga.

Gestaflutningar eru tímabundnir innanlandsflutningar á vegum gegn gjaldi í öðru aðildarríki.

Ökutæki er vélknúið ökutæki sem skráð er hér á landi eða samtengd ökutæki þar sem að minnsta kosti vélknúna ökutækið er skráð hér á landi og er eingöngu notað til vöruflutninga.

2. gr.

Leyfi samgönguráðuneytis þarf til að hafa með höndum vöruflutninga gegn gjaldi, sem reglugerð þessi gildir um. Undanþegnir eru flutningar sem taldir eru upp í viðauka I.

II. KAFLI 

 Aðgangur að starfsgrein.

3. gr.

Umsækjendur um leyfi til vöruflutninga á vegum skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði til að öðlast leyfi samkvæmt reglugerð þessari:
hafa óflekkað mannorð;
>hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu;
fullnægja skilyrðum um starfshæfni.

Um skilyrði þessi vísast til II. - IV. viðauka með reglugerð þessari.

III. KAFLI  Millilandaflutningar.

4. gr.

Til að stunda vöruflutninga með flutningabifreiðum á milli landa EES þarf sérstakt leyfi. Leyfi þetta er gefið út af samgönguráðuneytinu til handa fyrirtæki sem starfrækir vöruflutninga á vegum gegn gjaldi, hefur staðfesturétt hér á landi og starfsréttindi til að stunda vöruflutninga milli landa í samræmi við II. kafla þessarar reglugerðar.

5. gr.

Ráðuneytið gefur út leyfi á nafn fyrirtækisins og afhendir því frumrit leyfisins og jafnmörg staðfest afrit og ökutækin sem umsækjandi hefur til umráða í þessum tilgangi hvort sem hann hefur fullan eignarrétt yfir þeim eða með öðrum hætti, t. d. með kaupleigu- eða leigusamningum.

Staðfest afrit skal geymt í ökutækinu og ber að framvísa því ef viðurkenndur eftirlitsmaður krefst þess.

6. gr.

Leyfi eru gefin út til fimm ára og eru endurnýjanleg. Óheimilt er að framselja leyfi til þriðja aðila.

Þegar sótt er um leyfi, í síðasta lagi fimm árum eftir að leyfi var gefið út og á minnst fimm ára fresti eftir það, skal samgönguráðuneytið kanna hvort vöruflutningafyrirtækið muni fullnægja eða fullnægi enn skilyrðunum sem kveðið er á um í 3. og 4. gr. reglugerðar þessarar.

7. gr.

Ef skilyrðum til að öðlast leyfi er ekki fullnægt skal ráðuneytið hafna umsókn um útgáfu eða endurnýjun leyfis og færa rök fyrir þeirri ákvörðun.

Ráðuneytið afturkallar leyfi ef leyfishafi uppfyllir ekki lengur skilyrði 3. og 4. gr. eða hefur gefið rangar upplýsingar er varða gögn sem krafist var við útgáfu leyfis.

Ef alvarleg eða minni háttar endurtekin brot á reglum um flutninga eiga sér stað getur ráðuneytið meðal annars afturkallað tímabundið eða endanlega staðfestu afritin af leyfinu sem það hefur gefið út.

Viðurlögin eru ákveðin með hliðsjón af því hversu alvarlegt brot leyfishafi hefur framið og hve mörg staðfest afrit hann á.

IV. KAFLI 

 Gestaflutningar.

8. gr.

Öllum farmflytjendum sem stunda flutninga á vegum gegn gjaldi og hafa leyfi samkvæmt 4. gr. er heimilt með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir í reglugerð þessari að stunda tímabundið innanlandsflutninga á vegum gegn gjaldi í öðru aðildarríki EES, þótt þeir hafi þar ekki skráða skrifstofu eða aðra staðfestu þar.

9. gr.

Öllum fyrirtækjum sem hafa heimild til að stunda flutninga á vegum fyrir eigin reikning skal vera frjálst að stunda gestaflutninga fyrir eigin reikning eins og skilgreint er í 4. tl. I. viðauka með reglugerð þessari.

10. gr.

Gestaflutningar eru stundaðir innan ramma þess kvóta sem settur er á gestaflutninga innan EES á tímabilinu frá 1. janúar 1994 til 30. júní 1998.

Samgönguráðuneytið hefur heimild til þess að úthluta leyfum til gestaflutninga sem hér segir: á árinu 1995 13 leyfi; á árinu 1996 17 leyfi; á árinu 1997 23 leyfi og frá 1. janúar 1998 til 30. júní 1998 15 leyfi. Kvótakerfið fellur úr gildi 1. júlí 1998.

Hvert leyfi gildir í tvo mánuði fyrir eitt ökutæki í einu.

11. gr.

Ráðuneytið gefur út gestaflutningaleyfi til farmflytjenda sem sækja um þau og hafa staðfestu hér á landi. Leyfið skal gefið út á nafn farmflytjanda og er ekki framseljanlegt.

Skylt er að geyma leyfið í ökutækinu og því fylgir skráningarhefti yfir alla innlenda gestaflutninga sem eiga sér stað samkvæmt leyfinu. Framvísa skal leyfinu og skráningarheftinu hvenær sem viðurkenndir eftirlitsmenn krefjast þess.

12. gr.

Farmflytjandi sem ekki er búsettur í aðildarríkinu skal hafa full umráð yfir ökutækinu, annað hvort sem eigandi eða á annan hátt, t.d. á grundvelli afborgunarskilmála, leigusamnings eða kaupleigusamnings.

13. gr.

Flutningastarfsemi sem stunduð er samkvæmt gestaflutningaleyfi skal skráð í hefti með skráningarblöðum og skal þeim skilað ásamt leyfinu til samgönguráðuneytis innan átta daga frá því leyfið rennur út.

14. gr.

Við framkvæmd gestaflutninga skal farið að lögum og stjórnsýslufyrirmælum gistiríkisins þ.e. þess ríkis sem flutningarnir fara fram í um eftirfarandi atriði, nema reglur bandalagsins eins og þær eru aðlagaðar vegna EES - samningsins kveði á um annað:

gjaldskrár og skilmála um flutningasamninga;

þyngd og mál ökutækja; þyngd og mál getur í vissum tilvikum farið yfir þau mörk sem gilda í staðfesturíki fyrirtækis en má aldrei vera yfir þeim tæknilegu stöðlum sem eru ákveðnir í samræmisvottorðinu;

kröfur varðandi flutninga á tilteknum flokkum af vörum, einkum á hættulegum vörum, matvælum sem eru viðkvæm fyrir skemmdum og dýrum á fæti;

aksturs- og hvíldartíma;

virðisauka- eða veltuskatt á flutningaþjónustu.

15. gr.

Ef veruleg röskun verður á innlenda flutningamarkaðnum á tilteknu landsvæði eða ástandið versnar, vegna gestaflutninga, getur samgönguráðuneytið vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA svo að samþykkja megi verndarráðstafanir og skal ráðuneytið láta Eftirlitsstofnuninni í té nauðsynlegar upplýsingar og tilkynna henni um ráðstafanir sem það hyggst grípa til vegna flutningafyrirtækja sem hafa aðsetur í landinu.

Alvarleg röskun á tilteknu landsvæði á innlendum markaði merkir að á markaðnum séu vandamál sem einskorðast við hann og í þeim mæli að þar sé mikið og að því er virðist viðvarandi framboð umfram eftirspurn sem ógnar fjárhagslegum stöðugleika og lífslíkum margra flutningafyrirtækja.

V. KAFLI 

 Leyfisgjöld o.fl.

16. gr.

Gjald fyrir útgáfu leyfa samkvæmt 4. og 10. gr. er kr. 5.000 og breytist miðað við vísitölu vöru og þjónustu samkvæmt 18. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 með síðari breytingum.

17. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal farið með slík mál að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um vöruflutninga á landi nr. 47/1994 með síðari breytingum og lög um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og staðfestist hér með til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 8. maí 1995.

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson.

Viðauki:

sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica