Sjávarútvegsráðuneyti

439/2007

Reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2006/2007 samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda.

Úthluta skal aflaheimildum byggðarlaga til fiskiskipa sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fisk­veiða,
  2. eru skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. maí 2007,
  3. eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðar­lagi 1. maí 2007. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóð­skrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

2. gr.

Sérstök skilyrði fyrir úthlutun
aflaheimilda innan einstakra byggðarlaga.

Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórna að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og stað­bundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga.

Eftir að slíkar tillögur sveitarstjórna hafa borist skulu þær birtar með aðgengilegum hætti, svo sem á vefsíðu ráðuneytisins, eigi síðar en sjö dögum áður en tekin verður afstaða til þeirra. Fallist ráðherra á tillögur sveitarstjórna um slík skilyrði staðfestir ráðuneytið tillögurnar og auglýsir þær í B-deild Stjórnartíðinda.

3. gr.

Staðfesting á tillögum sveitarstjórna.

Ráðuneytið skal leita eftir afstöðu sveitarstjórna til þess hvort þær óski eftir að setja sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimildanna innan einstakra byggðarlaga. Sveitar­stjórnir skulu hafa tveggja vikna frest til að senda ráðuneytinu tillögur sínar. Ef fallist er á tillögur sveitarstjórna um slík skilyrði staðfestir ráðuneytið tillögurnar og auglýsir þær í B-deild Stjórnartíðinda og felur Fiskistofu að úthluta samkvæmt þeim. Berist tillögur sveitarstjórna ekki innan áðurnefnds frests eða ef ráðherra fellst ekki á tillögur sveitar­stjórna fer um úthlutun aflaheimilda einstakra byggðarlaga til fiskiskipa sam­kvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum og ákvæðum reglu­gerðar þessarar.

4. gr.

Viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa.

Úthlutun aflaheimilda samkvæmt reglugerð þessari skal að öðru leyti fara fram til ein­stakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og 2. gr. eftir því sem við á, og skal úthlutað hlutfallslega af þeim aflaheimildum sem fallið hafa til viðkomandi byggðarlags, miðað við úthlutun til þeirra á grundvelli aflahlutdeilda skv. lögum nr. 116/2006 í upphafi fiskveiðiárs 2006/2007. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra fiskiskipa þó ekki aukast um meira en 100% í þorskígildum talið miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2006/2007 og ekkert fiskiskip skal hljóta meira en 15 þorskígildislestir. Vikið skal frá þessari takmörkun á hlut hvers fiskiskips fáist heildarhlut viðkomandi byggðarlags ekki skipt með öðrum hætti. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur úthlutun til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skipt­ingu samkvæmt úthlutunarreglum.

5. gr.

Framkvæmd úthlutunar.

Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda, sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiski­skipa og skal auglýsa eftir umsóknum útgerða. Í umsóknum skulu koma fram upp­lýsingar um hvort og hvernig uppfyllt eru skilyrði sem fram koma í 1. gr., og eftir atvikum sérstök skilyrði sem ákveðið hefur verið að gildi um úthlutun í einstökum byggðarlögum, sbr. 2. gr. Einnig skulu fylgja umsóknum viðeigandi gögn sem staðfesta þær upplýsingar samkvæmt nánari ákvörðun Fiskistofu. Umsóknarfrestur skal vera tvær vikur. Fiskistofa annast mat og úrvinnslu umsókna og skal svara öllum umsóknum svo fljótt sem unnt er.

Ákvarðanir Fiskistofu varðandi úthlutun samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til sjávarútvegsráðuneytisins. Kærufrestur er tvær vikur frá tilkynningu Fiskistofu um ákvörðun og skal úthlutun ekki fara fram fyrr en að þeim fresti liðnum. Skal ráðuneytið leggja úrskurð á kærur innan tveggja mánaða. Ráðuneytið getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda til skipa í tilteknu byggðarlagi verði frestað að hluta eða öllu leyti þar til það hefur lokið afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar þar.

6. gr.

Löndun til vinnslu.

Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt. Ráðherra er heimilt, að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar, að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Meðal annars er heimilt að úthluta aflaheimildum fyrir fiskveiðiárið í þremur áföngum, 1/3 hverju sinni enda séu skilyrði um landað magn til vinnslu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar uppfyllt í sama hlutfalli á sama tíma. Hafi framangreind skilyrði fyrir úthlutun a.m.k. 2/3 hluta aflaheimilda sem koma til úthlutunar til fiskiskips á grundvelli reglugerðar þessarar á fiskveiðiárinu ekki verið uppfyllt 1. ágúst 2007 fellur niður úthlutun þeirra aflaheimilda sem óráðstafað er og skal Fiskistofa úthluta þeim aflaheimildum til annarra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í viðkomandi byggðarlagi í samræmi við skiptingu samkvæmt viðeigandi úthlutunarreglum.

Með vinnslu skv. 1. mgr. er átt við flökun eða flatningu.

7. gr.

Lágmarksverð.

Verð fyrir afla sem landað er til vinnslu til að uppfylla skilyrði 6. gr. skal ekki vera lægra en það verð sem ákveðið er af Verðlagsstofu skiptaverðs eða algengast er fyrir sambæri­legar tegundir í viðkomandi byggðarlagi m.t.t. gæða.

8. gr.

Tryggingar fyrir greiðslum.

Heimilt er eigendum og útgerðum fiskiskipa að krefja vinnslustöðvar um tryggingar fyrir greiðslu afla sem landað er í byggðarlögum samkvæmt 6. gr., t.d. í formi banka­ábyrgðar.

9. gr.

Framsal.

Framsal aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt en þó skulu heimil jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Framsal aflaheimilda skal þó vera heimilt hafi fiskiskip efnt löndunar- og vinnsluskyldu í samræmi við 6. gr.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda fyrir fiskveiðiárið 2006-2007.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 16. maí 2007.

F. h. r.

Jón B. Jónasson.

Hinrik Greipsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica