Sjávarútvegsráðuneyti

596/2003

Reglugerð um úthlutun á 1.500 þorskígildislestum til stuðnings sjávarbyggðum. - Brottfallin

1. gr.

Á fiskveiðiárinu 2003/2004 skal úthluta 1.500 þorskígildislestum til stuðnings sjávarbyggðum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Magn þetta skiptist í einstakar fisktegundir miðað við óslægðan fisk þannig: Þorskur 1.194 lestir, ýsa 428 lestir, ufsi 286 lestir og steinbítur 91 lest.


2. gr.

Ráðuneytið skal reikna út hve miklar aflaheimildir, sbr. 1. gr., komi í hlut hvers sveitarfélags. Við þann útreikning skal gefa hverju sveitarfélagi punkta sem fundnir eru með eftirfarandi hætti:

1. Tekjur undir landsmeðaltali. Séu heildartekjur einstaklinga í sveitarfélagi samkvæmt skattframtali 2003 undir landsmeðaltali, samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra, gefa hver 2% einn punkt. Hámark skal þó vera 15 punktar.
2. Stærð sjávarbyggða innan sveitarfélags. Taka skal tillit til fjölda íbúa í sveitarfélagi þannig að gefa skal einn punkt fyrir hverja 100 íbúa í sjávarbyggðum innan hvers sveitarfélags, samkvæmt upplýsingum Hagstofu, sem íbúar eru færri en 1000. Hámark skal þó vera 10 punktar.
3. Fólksfækkun. Hafi íbúum fækkað í sveitarfélagi, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, frá 1. desember 1997 til 1. desember 2002 skal gefa einn punkt fyrir hver 3% sem íbúum hefur fækkað. Hámark skal þó vera 10 punktar.
4. Samdráttur í afla samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Fyrir hvert 0,1% sem afli fiskiskipa í sjávarbyggðum innan tiltekins sveitarfélags hefur minnkað, sem hlutfall af heildarlandsafla frá fiskveiðiárinu 1996/97 til ársins 2002/03, skal gefa tvo punkta. Hámark skal þó vera 20 punktar.
5. Samdráttur í aflaheimildum samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Fyrir hvert 0,1% sem aflaheimildir fiskiskipa frá sjávarbyggðum í tilteknu sveitarfélagi hafa dregist saman sem hlutfall af heildaraflaheimildum frá fiskveiðiárinu 1996/97 til áætlaðra heildaraflaheimilda á fiskveiðiárinu 2003/04, skal gefa tvo punkta. Hámark skal þó vera 25 punktar.
6. Samdráttur í vinnslu samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Fyrir hvert 0,1% sem vinnsla afla í sjávarbyggðum innan tiltekins sveitarfélags hefur dregist saman frá árinu 1996/97 til ársins 2002/03, sem hlutfall af unnum heildarafla, skal gefa tvo punkta. Hámark skal þó vera 20 punktar.


Samanlagðir punktar einstakra sveitarfélaga ráða því hversu mikið af aflaheimildum kemur í þeirra hlut en ráðherra getur ákveðið lágmark punkta sem sveitarfélag þarf að hljóta til að eiga kost á aflaheimildum og tekið sérstakt tillit til töluliða 4.-6. í 1. mgr. þegar ljóst má vera að punktar sveitarfélaga eru að minnstu leyti til komnir vegna samdráttar í sjávarútvegi.


3. gr.

Ráðuneytið skal skipta þeim veiðiheimildum sem koma í hlut hvers sveitarfélags milli einstakra fiskibáta sem skráðir eru frá viðkomandi sveitarfélagi 1. september 2003. Skal úthluta til einstakra aflamarksskipa og krókaaflamarksbáta hlutfallslega miðað við heildaraflamark þeirra í botnfiski, í þorksígildum reiknað, miðað við úthlutun til þeirra á grundvelli aflahlutdeilda í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra báta ekki aukast um meira en 100% miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004 og enginn bátur skal hljóta meira en 15 þorskígildislestir miðað við óslægðan fisk.

Afla sem úthlutað er samkvæmt þessari grein er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi sveitarfélags.


4. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. er sveitarstjórnum í þeim sveitarfélögum sem til greina koma samkvæmt 2. gr. heimilt að gera tillögur til ráðuneytisins um reglur er gildi um úthlutun aflaheimilda innan þess sveitarfélags. Tillögur sveitarstjórna skulu byggjast á almennum hlutlægum reglum og skal jafnræðissjónarmiða gætt. Heimilt er sveitarstjórn að miða við ákveðnar stærðir eða flokka fiskiskipa. Þá er henni heimilt að líta hvort um sé að ræða samstarf aðila í veiðum og vinnslu afla innan viðkomandi sveitarfélags, hvort fiskiskip hafi áður landað hjá sveitarfélaginu og annarra atriða sem stuðla að því að tilgangi reglugerðar þessarar og laganna, sem hún hvílir á verði náð. Þá er sveitarstjórnum heimilt að gera það að skilyrði við gerð tillagnanna að afla samkvæmt úthlutuðum aflaheimildum verði landað í viðkomandi sveitarfélagi að hluta eða öllu leyti.

Skulu tillögur sveitarfélaga um þessar reglur hafa borist ráðuneytinu fyrir 15. október 2003 auk ítarlegrar greinargerðar sveitarstjórnar um forsendur reglnanna. Geti ráðuneytið ekki fallist á tillögur sveitarstjórnar vegna þess að það telur að sjónarmiða samkvæmt 1. mgr. hafi ekki verið fylgt skal ráðuneytið gefa sveitarstjórn tveggja vikna frest til þess að leggja fram nýjar tillögur og greinargerð.

Fallist ráðherra á reglur sveitarstjórnar staðfestir hann reglurnar og birtir. Umsóknum einstakra aðila um aflaheimildir skal síðan beint til sveitarstjórna á grundvelli slíkra reglna, sem sveitarstjórn kynnir einnig. Að loknum fresti sem sveitarstjórn kynnir gerir sveitarstjórn síðan tillögur til ráðuneytisins um endanlega skiptingu aflaheimilda, sem í hennar hlut koma, milli skipa og skulu tillögur hafa borist ráðuneytinu eigi síðar en 15. nóvember 2003.

Fallist ráðherra á endanlegar tillögur sveitarstjórnar um skiptingu aflaheimildanna staðfestir hann þær. Geti ráðherra ekki fallist á tillögu sveitarstjórna um skiptingu aflaheimildanna felur hann Fiskistofu að skipta þeim milli einstakra báta samkvæmt 3. gr.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 8. ágúst 2003.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica