Sjávarútvegsráðuneyti

365/2002

Reglugerð um þorskfisknet. - Brottfallin

1. gr.

Heimilt er að stunda veiðar í þorskfisknet með þeim takmörkunum sem ákveðið er í lögum og reglugerðum hverju sinni.

Á eftirgreindum svæðum eru þorskfiskveiðar í net bannaðar allt árið:

a) Í Faxaflóa innan línu, sem dregin er réttvísandi 225° að Þormóðsskeri og þaðan um Hellnagölt til lands. Þó eru þorskfisknetaveiðar heimilar á tímabilinu frá 15. september til 31. mars norðan línu, sem dregin er úr Hellnagelti réttvísandi 53° að Búðahrauni.
b) Á Breiðafirði innan línu, sem dregin er frá Selskeri (austan Sigluness á Barðaströnd) um Selsker sunnan fjarðarins í Eyrarfjall.

2. gr.

Lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta, sem heimilt er að leggja, skal vera 5½ þumlungur (139,7 mm).


3. gr.

Þegar möskvastærð er mæld skulu þrír möskvar lagðir saman og teygðir horna á milli eftir lengd netsins. Netið skal mælt vott.

Um framkvæmd möskvamælinga vísast að öðru leyti til reglugerðar nr. 24/1998, um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga.


4. gr.

Allir netadrekar skulu greinilega merktir umdæmisnúmerum þeirra skipa, sem nota þá. Merki þessi skulu vera soðin á netadrekana.

Netabaujur skulu vera á báðum endum netatrossu og allar merktar með flaggi, sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Á flaggið skal mála umdæmisnúmer þess skips, sem notar netin. Auk þessa er heimilt að auðkenna flaggið með kallmerki skipsins. Auk þessa skulu allir belgir merktir með umdæmisnúmerum þess skips, sem notar þá. Merkingar á baujuflöggum og belgjum skulu vera greinilegar og skulu stafir stórir og skýrir.

Verði breytingar á umdæmisnúmerum skips, ber að breyta merkingum á veiðarfæraútbúnaði í samræmi við þá breytingu.

Þegar netadrekar, netabaujur og belgir eru um borð í veiðiskipi, skulu þau vera merkt í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


5. gr.

Hverja netatrossu skal merkja þannig að á miðju baujustangar á vestari enda hennar skal komið fyrir netahring (floti), sem hæglega má losa og færa milli bauja. Leggi skip net sín á svæði þar sem togveiðar eru heimilar, er skylt að auðkenna vestari enda netatrossa með hvítu blikkljósi.


6. gr.

Skipum, sem hafa 12 menn eða fleiri í áhöfn, er óheimilt að hafa fleiri en 268 net í sjó.

Séu í áhöfn 11 menn skulu ekki fleiri en 248 net í sjó.

Séu í áhöfn 10 menn skulu ekki fleiri en 228 net í sjó.

Séu í áhöfn 9 menn skulu ekki fleiri en 208 net í sjó.

Séu í áhöfn 8 menn skulu ekki fleiri en 188 net í sjó.

Séu í áhöfn 7 menn skulu ekki fleiri en 168 net í sjó.

Séu í áhöfn 6 menn skulu ekki fleiri en 148 net í sjó.

Séu í áhöfn 5 menn skulu ekki fleiri en 128 net í sjó.

Séu í áhöfn 4 menn skulu ekki fleiri en 108 net í sjó.

Séu í áhöfn 3 menn skulu ekki fleiri en 88 net í sjó.

Séu í áhöfn 2 menn skulu ekki fleiri en 68 net í sjó.

Sé sjálfvirkur netaafdráttarbúnaður (dráttarkarl) notaður við veiðarnar er heimilt að hafa 12 netum fleira í sjó en tilgreint er hér að ofan.

Miðað er við að 60 faðma löng slanga sé í hverju neti.


7. gr.

Þorskfisknet skulu lögð í eina stefnu á sama veiðisvæði, eftir því sem við verður komið.


8. gr.

Týni skip þorskfisknetum í sjó, ber skipstjóra að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það Landhelgisgæslunni og skýra frá staðsetningu netanna, eins nákvæmlega og unnt er.


9. gr.

Auk eftirlits Landhelgisgæslu með veiðum og veiðarfærum hafa eftirlitsmenn Fiskistofu eftirlit með því, að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt og skal skipstjóri veiðiskips gera eftirlitsmönnum kleift að gera þær athuganir á veiðarfærum skipsins, er þeir telja nauðsynlegar.


10. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk, sbr. 20. gr. laga nr. 79/1997.


11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 64, 2. febrúar 1998 um þorskfisknet, ásamt síðari breytingum.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 15. maí 2002.

Árni M. Mathiesen.
Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica