Sjávarútvegsráðuneyti

303/1999

Reglugerð um afladagbækur. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um allar veiðar íslenskra fiskiskipa hvort sem þær fara fram innan eða utan íslensku fiskveiðilögsögunnar, nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglum um viðkomandi veiðar.

2. gr.

Allir skipstjórar íslenskra fiskiskipa, sem veiðar stunda í atvinnuskyni skulu halda sérstakar afladagbækur. Þær upplýsingar sem þar eru skráðar skulu nýtast í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna er varða stjórnun fiskveiða. Að öðru leyti skulu upplýsingar úr afladagbókum vera trúnaðarmál milli ofangreindra aðila og skipstjóra.

3. gr.

Fiskistofa gefur út afladagbækur sem skipstjórar skulu færa svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

Bækurnar skulu vera innbundnar, í tvíriti og með númeruðum síðum. Skal Fiskistofa hafa yfirlit yfir hvaða síðunúmer eru í bókum sem ætlaðar eru til notkunar í hverju skipi. Óheimilt er að fjarlægja síður úr bókum, sbr. þó 8. gr.

Allt sem fært er í afladagbók, skal vera skýrt og læsilegt með varanlegu letri. Ekki má eyða eða gera á annan hátt ólæsilegt það sem eitt sinn hefur verið í þær fært þótt fyrst hafi verið misfært af vangá. Þurfi að gera breytingu á færslu skal það gert með annarri færslu eða þannig að hin ranga færsla verði áfram vel læsileg að leiðréttingu lokinni.

4. gr.

Heimilt er að færa afladagbækur á rafrænan hátt, enda sé til þess notað forrit sem hlotið hefur samþykkt Fiskistofu, og skráning sé gerð samkvæmt leiðbeiningum Fiskistofu. Í rafrænar afladagbækur skal færa allar upplýsingar sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Skal gerð krafa um að unnt sé rekja allar breytingar sem kunna að vera gerðar á skráningum. Þá getur Fiskistofa m.a. gert kröfu um að byggt sé á ákveðnum kódum og stöðlum.

5. gr.

Skipstjórum er skylt að skrá eftirfarandi upplýsingar í afladagbók:

1. nafn skips, skipaskrárnúmer og kallmerki,

2. veiðarfæri, gerð og stærð,

3. staðarákvörðun (breidd og lengd) og tími þegar veiðarfæri er sett í sjó,

4. afli eftir magni og tegundum,

5. veiðidagur,

6. löndunarhöfn.

Ef fleiri en eitt skip stunda veiðar með sama veiðarfæri, skal færa í afladagbók hvers skips fyrir sig í samræmi við þessa reglugerð. Einnig skal skrá hvaða skip önnur stunda veiðarnar. Þó skal einungis skrá afla í samræmi við það magn sem tekið er um borð í viðkomandi skip.

Að auki ber að færa í afladagbækur aðrar upplýsingar sem kveðið er á um í bókunum sjálfum.

Allar færslur í afladagbók skulu vera í samræmi við leiðbeiningar í bókunum.

Skipstjóri skal undirrita hverja síðu.

6. gr.

Afla sem fæst í hverju hali/kasti skal færa í afladagbók svo skjótt sem verða má, og áður en næsta hal/kast er tekið um borð.

Í upphafi hverrar veiðiferðar skal byrja á nýrri síðu í afladagbók.

Við línu-, neta-, og handfæraveiðar er heimilt að færa fleiri en eina veiðiferð á hverja síðu, þó skal færa heildarafla hvers sólarhrings sérstaklega. Við þessar veiðar er ekki nauðsynlegt að færa í samræmi við lið 3 í 5. gr. að öðru leyti en tíma þegar veiðar hefjast og lýkur, og veiðisvæði.

Í lok hverrar veiðiferðar skal afladagbók vera að fullu færð.

7. gr.

Skipstjóra er skylt að veita eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum Landhelgisgæslu aðgang að afladagbók og aðstoð við að sannreyna upplýsingar sem færðar hafa verið í afladagbókina.

8. gr.

Skylt er að senda útfyllt og undirritað frumrit afladagbókareyðublaðs til Fiskistofu innan tveggja vikna frá lokum hvers mánaðar. Fiskistofa getur framlengt skilafrest um allt að fjórar vikur vegna sérstakra aðstæðna s.s. langra veiðiferða, eða ef veiðar eru stundaðar langt frá Íslandi.

Um skil á afladagbókum sem skráðar eru á rafrænan hátt fer skv. ákvörðun Fiskistofu.

Afladagbók skal ávallt vera um borð í veiðiskipi og skal afrit af henni geymt um borð í skipinu í a.m.k. 2 ár frá því að frumriti var skilað til Fiskistofu.

9. gr.

Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, fyrir brot á reglugerð þessari eftir því sem nánar er um mælt í lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

10. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 151, 27. desember 1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí. 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og laga nr. 151, 27. desember 1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands öðlast gildi 1. september 1999 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegsráðuneytinu 3. maí 1999.

Þorsteinn Pálsson.

Jón B. Jónasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica