Sjávarútvegsráðuneyti

77/1998

Reglugerð um botn- og flotvörpur. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um botn- og flotvörpur.

1. gr.

                Lágmarksmöskvastærð í botnvörpu og flotvörpu skal vera 135 mm.

                Botnvarpa og flotvarpa merkir samkvæmt reglugerð þessari vörpur sem notaðar eru til veiða á helstu botnfisktegundum hér við land og tekur ekki til varpna, sem notaðar eru til veiða á sérstökum nytjastofnum eins og humri, rækju, kolmunna, spærlingi og fleiri tegundum, sem háðar eru sérstökum leyfum.

                Með poka skv. reglugerð þessari er átt við aftasta hluta vörpunnar. Pokinn skal allur jafnbreiður og skorinn á legg eða síðum. Heimilt er þó að þrengja poka (sekk) á leisum í tveimur öftustu metrum pokans. Óheimilt er að nota umbúnað af nokkru tagi til að koma í veg fyrir rennsli afla aftur í poka.

2. gr.

                Lágmarksmöskvastærð í netþaki (miðneti) humarvörpu skal vera 135 mm en 80 mm í öðrum hlutum vörpunnar. Auk þess er skylt að hafa tvö netstykki á legg úr a.m.k. 200 mm riðli á efra byrði belgs vörpunnar. Fremra netstykkið skal vera a.m.k. 3 x 4 metrar að stærð og skal því komið fyrir fremst á efra byrði vörpunnar fyrir aftan netþak (miðnet). Aftara netstykkið skal vera 2 x 2 metrar og skal það staðsett 2 metrum aftan við aftari rönd fremra netstykkisins. Netstykki þessi skulu fest þannig að hver leggur netstykkisins skal festast við 5 upptökur efra byrðisins.

3. gr.

                Lágmarksmöskvastærð rækjuvörpu skal vera 45 mm í vængjum aftur að netþaki (miðneti) en 36 mm í öðrum hlutum rækjuvörpunnar.

                Við veiðar á rækju á eftirgreindum svæðum skal nota net á legg í a.m.k. fjórum öftustu metrum vörpunnar eða smárækjuskilju samkvæmt reglum þar um:

A.            Innan viðmiðunarlínu, á svæði frá Bjargtöngum norður og austur um að Rauðanúp.

B.            Við úthafsrækjuveiðar fyrir Norðurlandi milli 14°V og 18°V. Austan Langaness markast syðri mörk svæðisins af línu, sem dregin er réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi.

C.            Fyrir Suðvesturlandi sunnan 65°15,0 N og vestan 23°00,0 V.

                Við notkun leggpoka er heimilt að nota þrjá síðumöskva fyrir framan kolllínumöskvana. Skal hver leggur leggpokans festast við eina upptöku vörpunnar.

4. gr.

                Við veiðar er óheimilt að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum þeim sem getið er um í 1. gr. reglugerðar þessarar. Þó er heimilt að:

A.            Slitnet. Festa undir allt að 25 öftustu metra botnvörpu net með sömu möskvastærð og er í pokanum í því skyni að draga úr sliti. Slitvara þessa má festa við pokann að framan og til hliðar og einnig er heimilt að festa slitvarana við styrktarnet efra byrðis að aftan sbr. C-lið þessarar greinar. Óheimilt er að nota meira en eitt byrði af slitneti.

B.            Slitmottur. Festa undir slitvara þá er getið er í A-lið nautshúðir, mottur úr gerviefnum eða aðra sambærilega slitvara í því skyni að auka enn núningsþol pokans. Slitmottur þessar má aðeins festa að framan og á hliðunum.

C.            Styrktarnet. Festa styrktarnet úr sama efni og varpan er gerð úr við allt að 18 öftustu metra efra byrðis botnvörpu og efra og neðra byrðis flotvörpu. Möskvastærð styrktarnetsins skal vera rúmlega tvöfalt stærri en möskvastærð vörpunnar þar sem það er fest við. Heimilt er að festa styrktarnet þetta við pokann að framan, á hliðum og að aftan sbr. A-lið þessarar greinar. Ganga skal þannig frá styrktarneti þessu að hver möskvi þess falli saman við fjóra möskva pokans. Óheimilt er að nota meira en eitt byrði af slíku styrktarneti.

                Óheimilt er að nota styrktarnet nema möskvastærð í 8 öftustu metrum vörpunnar sé a.m.k. 155 mm, á svæði umhverfis Ísland og norður af Íslandi innan línu, sem dregin er þannig: 320° réttvísandi frá stað 66°17,0 N og 24°00,0 V og 12 sjómílur utan viðmiðunarlínu, samkvæmt lögum nr. 79/1997 að línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum og þaðan suðureftir um eftirgreinda punkta:

                                1.             64°43,7 N - 24°26,0 V

                                2.             64°43,7 N - 24°12,0 V

                og þaðan 5 sjómílur utan við Geirfugladrang í punkt 5 sjómílur réttvísandi suður frá Geirfugladrangi og þaðan í punkt 4 sjómílur suður frá Surtsey, síðan í punkt 4 sjómílur suður frá Lundadrangi og þaðan utan 4ra sjómílna frá viðmiðunarlínu austur um að 18°00,0 V og þaðan í réttvísandi 180° í stað 63°17,0 N, 18°00,0 V og síðan um eftirgreinda punkta:

                                1.             63°41,0 N - 15°30,0 V

                                2.             64°19,0 N - 12°26,0 V

                                3.             64°25,0 N - 12°11,0 V

                                4.             64°40,0 N - 11°26,0 V

                og þaðan er línan dregin í réttvísandi norður út að mörkum fiskveiðilandhelginnar í punkt 69°29,5 N - 11°26,0 V og síðan í réttvísandi austur.

D.            Styrktargjarðir. Nota styrktargjarðir utan um pokann á allt að 25 öftustu metra botnvörpu og flotvörpu. Bil á milli gjarða skal vera minnst 1,8 m en heimilt er að festa öftustu gjörðina nær kolllínunni. Lengd gjarða skal vera minnst 45% af strengdri lengd netsins á þeim stað sem gjörðin er.

E.             Steinamottur. Festa innan á neðra byrði botnvörpu húð eða mottu til að auka núningsþol pokans vegna grjóts, sem berst í pokann. Stærð þessara hlífa má mest vera 4 m² alls í hverri botnvörpu.

5. gr.

                Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. gr. er heimilt við úthafskarfaveiðar að nota í 35 öftustu metrum vörpunnar minni möskva en 135 mm og klæða þann hluta hennar með öðrum hætti en segir í 4. gr. Tekur þetta til veiða á úthafskarfa með flotvörpu á svæði utan línu, sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

                                1.             65°20,0 N - 29°45,0 V (við miðlínu milli Íslands og Grænlands)

                                2.             63°00,0 N - 26°00,0 V

                                3.             62°00,0 N - 27°00,0 V

                                og vestan línu, sem dregin er 180° réttvísandi frá 62° N - 27° V.

                Sama gildir við botnvörpuveiðar á blálöngu á Franshóli á svæði sem markast af línu sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

                                1.             61°03,0 N - 27°25,0 V

                                2.             60°57,0 N - 27°25,0 V

                                3.             60°57,0 N - 27°40,0 V

                                4.             61°03,0 N - 27°40,0 V

6. gr.

                Við veiðar með botn- og flotvörpum er óheimilt að nota nokkurn þann útbúnað, sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum þeim, sem um er getið í 2.- 3. gr., eða nota umbúnað af nokkru tagi til þess að koma í veg fyrir rennsli afla aftur í poka eða nota net eða annað til þéttingar poka að aftan. Þó er heimilt:

A.            Við veiðar með rækjuvörpum samkvæmt 3. gr. að nota hlífðarpoka utan um pokann sjálfan. Lágmarksmöskvastærð slíks hlífðarpoka skal vera 100 mm.

B.            Við rækjuveiðar er heimilt að binda fyrir rækjupoka allt að 40 cm fyrir ofan pokaendann og stinga lausa netinu inn í pokann til að þétta pokahnútinn. Rækjupokinn skal ekki vera meira en 50 cm lengri en hlífðarpokinn. Heimilt er að binda fyrir hlífðarpokann að aftan.

C.            Við veiðar með humarvörpum samkvæmt 2. gr. að festa undir pokann net allt að 9 m að lengd með 135 mm lágmarksmöskvastærð til þess að koma í veg fyrir slit.

D.            Við veiðar með botnvörpum samkvæmt 2.-3. gr. að festa undir 8 öftustu metra vörpunnar nautshúðir eða mottur úr gerviefnum í því skyni að auka núningsþol pokans.

7. gr.

                Eigi ná ákvæði þessarar reglugerðar til fiskveiða í þágu vísindalegra rannsókna. Enn fremur er ráðuneytinu heimilt að veita tímabundin leyfi til þess að nota vörpur með annarri möskvastærð eða öðrum útbúnaði en heimilt er samkvæmt reglugerð þessari. Leyfi þessi skulu bundin við veiðar á ákveðnum fisktegundum og ákveðin veiðisvæði.

                Séu togveiðar á tilteknu svæði háðar því skilyrði að fótreipisvarpa sé notuð, skal sú varpa ekki búin bobbingum heldur fótreipi gerðu úr vír eða keðju, sem skífur, körtur úr gúmmíi eða gerfiefni er þrætt upp á, enda sé heildarþvermál fótreipisins ekki meira en 20 cm.

8. gr.

                Bannað er að henda í sjóinn veiðarfærum, netastykkjum svo og öðrum hlutum úr veiðarfærum. Týni skip veiðarfærum í sjó ber skipstjóra að reyna að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það til Landhelgisgæslunnar og skýra frá staðsetningu veiðarfærisins, eins nákvæmlega og unnt er og hvenær það týndist.

9. gr.

                Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Um ólögmætan afla fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

10. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. maí 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands til þess að öðlast gildi 1. mars 1998 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er frá sama tíma felld úr gildi reglugerð nr. 25, 15. janúar 1998, um botn- og flotvörpur, með síðari breytingum.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 6. febrúar 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Árni Kolbeinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica