Sjávarútvegsráðuneyti

788/2006

Reglugerð um dragnótaveiðar. - Brottfallin

1. gr.

Heimilt er öllum fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands, að stunda veiðar með dragnót á þeim svæðum þar sem þeim er heimilt að stunda veiðar með botn- og flotvörpu, samkvæmt 5. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

2. gr.

Veiðar með dragnót nær landi en um ræðir í 5. gr. laga nr. 79/1997 eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Leyfi til veiða með dragnót eru þrenns konar: Almenn dragnótaleyfi, sbr. 3. gr., dragnótaleyfi til kolaveiða, sbr. 4. gr. og dragnótaleyfi í Faxaflóa, sbr. 5. gr.

3. gr.

Almenn dragnótaleyfi skulu bundin við fiskveiðiárið og ákveðið svæði. Skiptast miðin umhverfis landið í fjögur leyfissvæði þannig:

  1. Suður- og Vesturland: Að austan markast svæðið af línu r/v austur og vestur um Papey og að vestan af línu réttvísandi 270° frá Öndverðarnesi.
  2. Breiðafjörður og Vestfirðir: Að sunnan markast svæðið af línu réttvísandi 240° frá Hellnanesi og að norðan af línu réttvísandi norður frá Geirólfsgnúpi.
  3. Norðurland: Að vestan markast svæðið af línu réttvísandi norður frá Horni og að austan af línu réttvísandi norður frá Rifstanga.
  4. Norðausturland og Austfirðir: Á svæði milli lína réttvísandi norður frá Rifstanga og réttvísandi suðaustur frá Stokksnesi.

Fiskistofu er eingöngu heimilt að veita skipi leyfi til dragnótaveiða á því svæði sem skipið á heimahöfn enda skal skipið skráð innan þess svæðis og gert þaðan út. Aðeins er heimilt að veita bátum dragnótaleyfi á einu svæði innan hvers fiskveiðiárs sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Þó er heimilt við endurnýjun dragnótabáts að veita nýjum báti í eigu sama eiganda leyfi til dragnótaveiða.

Ekki er heimilt að veita skipum lengri en 42 metrar að mestu lengd leyfi samkvæmt þessari grein eða skipum með aflvísi hærri en 2,500, sbr. 3.-5. mgr. 5. gr. laga nr. 79/1997. Heimilt er í leyfum að binda heimildir til dragnótaveiða innan viðmiðunarlínu, sbr. 5. gr. laga nr. 79/1997, við ákveðnar bátastærðir.

4. gr.

Dragnótaleyfi til kolaveiða skulu bundin við tímabilið frá og með 1. september til og með 15. maí á ákveðnum svæðum fyrir Suðurlandi eða Vesturlandi og markast þau þannig:

  1. Suðurland: Að austan markast svæðið af línu réttvísandi austur frá Eystrahorni og að vestan af línu réttvísandi vestur frá Garðskaga.
  2. Vesturland: Að norðan markast svæðið af línu réttvísandi 240° frá Hellnanesi og að sunnan af línu réttvísandi suður frá Hópsnesi.

Fiskistofu er aðeins heimilt að veita þeim skipum dragnótaleyfi til kolaveiða, sem slík leyfi fengu á árinu 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað, sbr. 3. mgr., enda hafi þau aflahlutdeild í langlúru. Dragnótaleyfi til kolaveiða skal bundið við svæði þar sem skipið á heimahöfn, enda sé skipið skráð innan þess svæðis og gert þaðan út.

Heimilt er Fiskistofu að samþykkja flutning veiðileyfis frá skipi, sem rétt hefur til slíks leyfis samkvæmt þessari grein, til nýs skips, enda fullnægi það skip að öðru leyti skilyrðum þessarar greinar og sé ekki lengra eða með hærri aflavísi en skip það er dragnótaleyfið er flutt af.

5. gr.

Dragnótaleyfi í Faxaflóa skulu bundin við tímabilið frá og með 15. ágúst til og með 20. desember og svæðið innan línu milli Garðskagavita og Malarrifsvita og utan línu milli Hólmbergsvita í bauju nr. 6, þaðan í punkt 64°22¢ N - 22°23¢ V og síðan um Þormóðssker í land.

Fiskistofu er eingöngu heimilt að veita þeim skipum dragnótaleyfi í Faxaflóa, sem slík leyfi fengu á árinu 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað, sbr. 3. mgr. Leyfi til þessara veiða skulu bundin því skilyrði að fari hlutur þorsks og ýsu yfir 15% af heildarafla á hverju veiðitímabili, sbr. 1. mgr., skal leggja gjald á viðkomandi útgerð vegna þess þorsk- og ýsuafla sem umfram 15% er skv. lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

Heimilt er Fiskistofu að samþykkja flutning dragnótaleyfis frá skipi, sem rétt hefur til slíks leyfis samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar, til nýs skips, enda sé skip það sem veiðileyfið er flutt til ekki lengra en 22 metrar að mestu lengd og hafi auk þess aflahlutdeildir í skarkola og sandkola. Þá skal það skip er dragnótaleyfi er flutt til eiga heimahöfn við leyfissvæðið, vera skráð innan svæðisins og gert þaðan út.

6. gr.

Heimilt er í dragnótaleyfum samkvæmt 3.-5. gr. að takmarka enn frekar veiðiheimildir innan hvers svæðis, bæði á ákveðnum svæðum eða tímum og taka þá m.a. mið af stærðum veiðiskipa eða heimahöfn. Ennfremur er heimilt að kveða nánar á um skipulag veiða innan hvers svæðis varðandi veiðarfæri og útbúnað þeirra og önnur þau atriði er veiðarnar varða.

7. gr.

Sé ekki annað ákveðið í leyfisbréfi skal lágmarksstærð möskva í dragnót vera 135 mm. Við mælingar á möskvum dragnótar gilda ákvæði reglugerðar nr. 24/1998, um möskva­mæla og framkvæmd möskvamælinga.

Legggluggi er netstykki sem skorið er á legg. Sé legggluggi áskilinn við dragnótaveiðar á tilteknu svæði skal honum komið fyrir á efra byrði pokans (belgsins) þannig:

  1. Lengd gluggans skal minnst vera fjórir metrar.
  2. Aftari jaðar gluggans skal vera mest fimm metra frá pokaenda.
  3. Þegar glugginn er festur við upptöku pokans (belgsins) skal taka tvær upptökur á móti einum legg. Lengdarhliðar gluggans skulu festast slétt við neðra byrði í leisi pokans (belgsins).
  4. Möskvastærð í glugganetinu skal ekki vera minni en möskvastærð riðilsins í pokanum.

8. gr.

Óheimilt er að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir eða herðir á nokkurn hátt möskva en þó skal eigi teljast ólögmætt að festa net eða annað efni undir poka drag­nótar í því skyni að forða eða draga úr sliti. Slitvarar þessir skulu aðeins festir að framan og á hliðunum við pokann.

Við veiðar í dragnót er óheimilt að nota hlera eða annað sem komið gæti í stað hlera til útþenslu vængjanna.

Við veiðar í dragnót í Faxaflóa er óheimilt að nota steinastiklara (rockhoppara) á fótreipi dragnótarinnar.

9. gr.

Heimilt er Fiskistofu að svipta skip leyfi til dragnótaveiða, sem gefið er út með stoð í reglugerð þessari vegna brota á reglugerð þessari eða ákvæðum leyfisbréfa til drag­nóta­veiða. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til dragnóta­veiða.

10. gr.

Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti opinberra mála og varða brot viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiði­landhelgi Íslands.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 6. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiði­landhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglu­gerð nr. 382, 30. mars 2005, um dragnótaveiðar með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr er heimilt á haustvertíðinni 2006, að hlutur þorsks og ýsu í heildarafla báts sem veiðar stundar í Faxaflóa nemi allt að 30%.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 19. september 2006.

F. h. r.

Jón B. Jónasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica