Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

500/2017

Reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða.

I. KAFLI

Um frágang, vigtun og kjötmat.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Allar sláturafurðir, aðrar en af alifuglum, sem eru settar á markað eða til dreifingar og neyslu innan­lands skal flokka og merkja eftir tegundum og gæðum samkvæmt reglum í viðaukum I til V við reglugerð þessa.

2. gr.

Snyrting og frágangur skrokks.

Áður en mat og innvigtun fer fram skal gengið frá skrokkum, þeir snyrtir og af skrokkum skal fjar­lægja:

  a) Hálsæðar og gæta þess að nema á brott blóðlifrar við stungusár á hálsi.
  b) Kirtla og tægjur úr brjóstholsinngangi (hósti).
  c) Mör og fituklepra úr grindar-, kviðar- og brjóstholi og skal þess sérstaklega gætt að hreinsa í burt nýrnamör og fituhellu af magál.
  d) Getnaðarlim að rótum aftan við lífbein.
  e) Fitumakka af hrossum.
  f) Júgur af öllum kvendýrum nema grísum.
  g) Náraband sauðfjárskrokka með eitli og fitu.
  h) Dindil við rót á sauðfjárskrokkum.
  i) Þind.
  j) Fætur við framhné og hækil, nema á grísaskrokkum þar sem þeir fylgja skrokknum.

Matvælastofnun gefur út verklýsingar um snyrtingu og sundurhlutun og skulu kjötmatsmenn fylgjast með því að farið sé eftir þeim.

3. gr.

Snyrting og mat verkunargalla, óhreininda og útlitsgalla.

Snyrta skal verkunargalla, óhreinindi, mar o.fl. eftir fyrirmælum dýralæknis. Ef hár eða önnur óhreinindi sjást á kjötinu á þessu verkunarstigi, skal það hreinsað vandlega, áður en vigtun og gæðamat fer fram. Takist með snyrtingu að nema á brott galla eða lýti á skrokk svo sem marbletti, bólusetningarör o.fl. án þess að verðgildi þess sem eftir verður sé skert að mati kjötmatsmanns, skal ekki fella skrokkinn í gæðamati. Ella flokkist kjötið og merkist eftir því sem við á skv. nánari ákvæðum í viðaukum með þessari reglugerð. Matvælastofnun samræmir vinnureglur um þessa snyrtingu.

4. gr.

Sérstakar kröfur.

Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 371/2013 um gildistöku framkvæmdarreglugerðar fram­kvæmda­stjórnarinnar (ESB) nr. 233/2012 um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 999/2001 að því er varðar samþykkt breyttrar landsáætlunar um varnir gegn riðu­veiki skulu skrokkar af nautgripum, hrossum og svínum klofnir að endilöngu eftir miðri hrygg­súlu, án þess að skerða vöðva sitt hvorum megin á hryggnum. Ef skrokkar af veturgömlu og eldra sauðfé eru klofnir að endilöngu skal fjarlægja mænu. Annars skal hreinsa burt mænu að lokinni heil­brigðis­skoðun og fjarlægja allar leifar af þind. Séu bakvöðvar eða lundir skemmdar við sögun, skal skrokkur­inn felldur í mati. Skipting í fjórðunga skal ekki fara fram fyrr en eftir kælingu þar sem því verður við komið. Huppa og síður skal fjarlægja af öllu hrossakjöti samkvæmt nánari fyrir­mælum Matvæla­stofnunar. Þó er annars konar skipting á hrossakjöti í fjórðunga heimil ef sérstak­lega er um það samið.

5. gr.

Undanþágur.

Matvælastofnun getur heimilað að vikið sé frá 2. og 3. gr. um frágang og snyrtingu ef markaðs­aðstæður krefjast.

6. gr.

Vogir og búnaður.

Vogir til vigtunar á kjöti og öðrum sláturafurðum, skulu vera löggiltar. Þær skulu vera með hámarks­skerðingu 100 g. Hæklajárn, brautarkrókar og rúllur skulu vera úr efni sem ekki gefur frá sér ryð og af staðlaðri stærð og þyngd í hverju húsi.

7. gr.

Framkvæmd og innvigtun.

Vigtun og gæðamat skal fara fram innan 24 klst. frá slátrun, enda hafi heilbrigðisskoðun farið fram. Óheimilt er að flytja sláturafurðir úr sláturhúsi án vigtunar og gæðamats. Skylt er að vigta hvern einstakan skrokk sér. Sláturleyfishafi ber ábyrgð á vigtun og ber að sjá til þess að vog sé löggilt og að haft sé daglegt eftirlit með henni.

Framleiðanda er heimilt að fylgjast með innvigtun sláturafurða sinna, en því aðeins að hann valdi ekki töfum né trufli kjötmatsmenn í starfi.

Allir á athafnasvæði sláturhúsa skulu hlíta sömu reglum um klæðnað, vinnubrögð og umgengni og starfsfólk sláturhúsanna.

Ef innvigtun kjöts og annarra sláturafurða fer fram fljótlega eftir slátrun, þ.e. strax eftir hreinsun og snyrtingu, er heimilt að draga frá vigtinni þá sannanlegu rýrnun er fram kemur við kælingu yfir nótt í kjötsal sláturhúss og staðfest er af Matvælastofnun að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa.

8. gr.

Lágmarksskráningar.

Sláturleyfishafi skal halda daglega skrá yfir fjölda sláturdýra af hverri búfjártegund, flokkun og þyngd.

II. KAFLI

Merking á sláturafurðum.

9. gr.

Merking skrokka og skrokkhluta.

Við gæðamat skal festa merkimiða tryggilega á hvern skrokk eða hluta úr skrokk. Á miða skal skráð skýrum stöfum nafn eða skammstöfun sláturleyfishafa og samþykkisnúmer sláturhúss þar sem slátrað er, ásamt tegundarheiti kjötsins og gæðaflokksmerki.

Sama merking gildir einnig um aðrar sláturafurðir en kjöt, eftir því sem við á. Á merkimiða skal einnig stimpla sláturdag og -ár og raðnúmer skrokks.

Heimilt er að prenta viðbótarupplýsingar á merkimiðann, t.d. strikamerki, fallþunga, nafn inn­leggj­anda, býlisnúmer og nafn kaupanda.

Þegar sláturleyfishafi og heildsölufyrirtæki afgreiðir kjöt í heilum skrokkum, helmingum, fjórðungum eða sundurhlutað, er skylt að láta fylgja hverju stykki eða pakkningu tegundarheiti og gæða­flokks­merki kjötmatsins en einnig fylgi þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt öðrum lögum og reglugerðum eftir því sem við á.

Óheimilt er að flytja úr landi sláturafurðir sem ekki uppfylla kröfur innflutningslands um merkingar.

III. KAFLI

Um kjötmat og samræmingu þess.

10. gr.

Verkefni og skyldur Matvælastofnunar.

Matvælastofnun, fagsviðsstjóri kjötmats, skal:

  1. Hafa forystu um mótun á reglum um gæðamat og flokkun á kjöti.
  2. Ákveða hvaða kröfur á að gera til kjötmatsmanna.
  3. Skipuleggja námskeið fyrir kjötmatsmenn.
  4. Meta og staðfesta hæfni kjötmatsmanna og setja þeim erindisbréf.
  5. Með reglubundnum hætti fylgjast með og samræma störf og starfsaðferðir kjötmatsmanna.
  6. Leiðbeina kjötmatsmönnum um gæðamat.
  7. Skera úr ágreiningi um gæðamat og störf kjötmatsmanna.
  8. Gera athuganir á kjöti og sláturafurðum, framkvæma yfirmat að beiðni kaupanda eða selj­anda vörunnar, enda fylgi rökstuðningur slíkri beiðni.
  9. Sjá til þess að safnað sé upplýsingum um gæðamat á kjöti og að þær séu til reiðu á aðgengi­legu formi.

11. gr.

Kostnaður vegna yfirmats og námskeiða.

Matvælastofnun ber eigin kostnað af yfirmati en annan kostnað sem af því hlýst greiðir sá er um það biður, samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar. Sláturleyfishafar skulu greiða kjötmatsmönnum laun, svo og kostnað vegna ferða og dvalar vegna námskeiða sem matsmönnunum er skylt að sækja samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar. Þeir sem sækja námskeið á eigin vegum greiði allan kostnað sjálfir sem af því hlýst.

IV. KAFLI

Um þjálfun, störf og skyldur kjötmatsmanna.

12. gr.

Erindisbréf, menntun og réttindi.

Sérhver sláturleyfishafi skal ráða einn eða fleiri kjötmatsmenn á hvert löggilt sláturhús. Matvæla­stofnun skal samþykkja fjölda þeirra og hæfni og setja þeim erindisbréf þar sem fram komi:

  1. starfssvið,
  2. starfsskyldur og
  3. siðareglur.

Kjötmatsmenn skulu hafa lokið námskeiði í kjötmati og fengið réttindi til að meta kjöt. Starfandi kjötmatsmenn skulu sækja upprifjunarnámskeið, þegar Matvælastofnun mælir svo fyrir. Á kjötmats­námskeiðum skal lögð áhersla á:

  1. Að þekkja lög og reglur á þessu sviði.
  2. Að þekkja aldur sláturfénaðar og helstu einkenni í byggingu einstakra búfjártegunda.
  3. Að gera matsmönnum grein fyrir mismunandi verðmæti einstakra skrokkhluta og áhrifum mismunandi byggingarlags og fitu á verðgildi þeirra.
  4. Að kenna matsmönnum matsreglur og hvaða aðferðir eru bestar við framkvæmd matsins.
  5. Verklegar æfingar við kjötmat og merkingu kjöts.
  6. Vinnubrögð í sláturhúsi þ. á m. meðferð og frágang á kjöti til frystingar eða sölu.
  7. Áhrif mismunandi kæli-, frysti- og raförvunaraðferða á kjöt og kjötgæði.
  8. Helstu þætti við heilbrigðisskoðun kjöts og sláturafurða.

Grunnnámskeið skal halda að minnsta kosti einu sinni á ári. Því skal ljúka með prófi. Einkunnir skal gefa í heilum tölum 1-10 og lágmarkseinkunn til að standast próf er 7.

Upprifjunarnámskeið skal halda eftir þörfum. Til að viðhalda réttindum skal kjötmatsmaður sækja upprifjunarnámskeið fyrir hverja dýrategund sem hann metur á sama ári og hann starfar, nema Matvælastofnun ákveði annað. Upprifjunarnámskeiði skal lokið með umsögn, staðist eða ekki staðist.

Matvælastofnun gefur út leyfi til þeirra einstaklinga sem standast námskeið í kjötmati.

13. gr.

Starfsskyldur og siðareglur.

Kjötmatsmaður annast mat, flokkun og merkingu á kjöti eftir gildandi reglum. Kjötmatsmaður skal gera verkstjóra og dýralækni viðvart, ef hann telur sláturstörfum áfátt, sérstaklega þeim er lúta að þrifnaði og vöruvöndun. Kjötmatsmaður skal ávallt gæta fyllsta hlutleysis í störfum sínum og þess skal gætt að önnur störf hans hjá sláturleyfishafanum valdi ekki vanhæfi eða torveldi honum matsstörfin. Kjötmatsmanni er óheimilt að meta skrokka sem koma frá hans eigin búi.

Kjötmatsmaður skal ganga ríkt eftir því að heilbrigðisskoðun fari fram áður en flokkun og merking hefst.

14. gr.

Yfirmat.

Kjötmatsmaður, innleggjandi, kaupandi kjöts eða sláturleyfishafi geta skotið ágreiningi um gæða­mat til Matvælastofnunar.

V. KAFLI

Refsiákvæði og gildistaka.

15. gr.

Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt ákvæðum 21. gr. laga nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir með síðari breytingum. Með mál vegna brota skal farið að hætti laga um meðferð sakamála.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir með síðari breytingum og lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi 1. júlí 2017.

Við gildistöku þessarar reglugerðar falla úr gildi reglugerðir nr. 882/2010 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða, með síðari breytingum og nr. 364/2017 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1150/2016 um stuðning í nautgriparækt.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. maí 2017.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Elísabet Anna Jónsdóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica