Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

734/2010

Reglugerð um ráðstöfun aflaheimilda í skötusel á fiskveiðiárinu 2010/2011. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um úthlutun aflaheimilda í skötusel samkvæmt ákvæði I til bráða­birgða í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

2. gr.

Úthluta skal allt að 400 lestum af skötusel á fiskveiðiárinu 2010/2011.

Heimilt er að úthluta á skip allt að 5 lestum í senn gegn greiðslu gjalds enda hafi viðkomandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þó er skilyrði að skip, sem hefur framselt aflamark sitt í skötusel sem úthlutað var á grundvelli aflahlutdeildar, hafi a.m.k. aflamark í skötusel sem nemur því magni sem skipinu er úthlutað á grundvelli reglugerðar þessarar, enda hafi framsal aflamarks átt sér stað eftir gildistöku reglugerðar þessarar.

3. gr.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um úthlutun aflaheimilda í skötusel.

Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda sem skal fara fram eigi síðar en 25. október 2010 á grundvelli umsókna sem borist hafa stofunni eigi síðar en 11. október 2010. Ef umsóknir um aflaheimildir eru umfram þær aflaheimildir sem til ráðstöfunar eru skal Fiski­stofa skipta því sem til ráðstöfunar er jafnt á milli umsækjenda, enda hafi umsækj­andi ekki sótt um minna magn en því nemur.

Verð á aflaheimildum skötusels er 120 kr. hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Hafi gjald ekki verið greitt eigi síðar en 18. október 2010 fellur réttur útgerðar til úthlutunar á grundvelli umsóknarinnar niður og skiptast aflaheimildirnar á önnur skip enda hafi úthlutun þeirra ekki numið 5 lestum. Komi til aukinnar úthlutunar hafa útgerðir 7 daga frá dagsetningu tilkynningar Fiskistofu þar að lútandi til að greiða gjald vegna þeirrar úthlutunar.

4. gr.

Framsal aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt. Afla­heimildum í skötusel samkvæmt reglugerð þessari skal haldið aðgreindum frá aflaheim­ildum sem úthlutað er í skötusel á grundvelli aflahlutdeildar við aflaskráningu og skal skipstjóri við löndun afla gefa hafnarvigtarmanni upplýsingar um aflann.

Hafi skip, við úthlutun samkvæmt reglugerð þessari, veitt umfram aflaheimildir þess skulu aflaheimildir sem úthlutað er koma á móti þeim umframafla skips í skötusel sem til staðar er þegar önnur úrræði laga vegna umframafla skips hafa verið fullnýtt.

Útgerð sem kaupir aflaheimildir á skip sitt á grundvelli reglugerðar þessarar er óheimilt að flytja frá viðkomandi skipi aflamark í skötusel sem úthlutað hefur verið á grundvelli aflahlutdeildar sem nemur þeim aflaheimildum sem keyptar voru.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. september 2010.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Hrefna Gísladóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica