Samgönguráðuneyti

438/2008

Reglugerð um breytingu á reglugerð, nr. 416/2003, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa. - Brottfallin

1. gr.

II. viðauki reglugerðarinnar orðist svo:

II. VIÐAUKI

Viðurkenning erlendra skírteina.

1. Almennt.

Viðurkenning erlends skírteinis skal takmarkast við starfssvið, störf og ábyrgðarsvið sem þar er lýst og skal því fylgja áritun til staðfestingar á slíkri viðurkenningu.

Siglingastofnun skal sjá til þess að sjómenn, sem leggja fram skírteini til viðurkenningar á störfum á stjórnunarsviði, hafi fullnægjandi þekkingu á íslenskri siglingalöggjöf, er lýtur að þeim störfum sem þeim er heimilt að gegna.

2. Umsóknir um viðurkenningu á réttindum sem lögbært yfirvald innan EES gefur út.

Siglingastofnun Íslands skal viðurkenna erlend skírteini og réttindi sem gefið er út í samræmi við tilskipun 2001/25/EB af lögbæru yfirvaldi aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu til starfa á skipum sem reglugerð þessi tekur til. Skal viðurkenningin vera í samræmi við ákvæði tilskipunar 2005/45/EB, um gagsnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út og um breytingu á tilskipun 2001/25/EB.

3. Umsóknir um viðurkenningu á réttindum sem gefin eru út af ríkjum utan EES.

Siglingastofnun er heimilt að viðurkenna skírteini sjómanna sem ekki hafa undir höndum skírteini gefið út í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Viðurkenningin skal fara fram í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/25/EB frá 4. apríl 2001 um lágmarksþjálfun sjómanna, með síðari breytingum. Taka skal m.a. mið af málsmeðferð 18. gr. og II. viðauka tilskipunarinnar. Leggja skal rökstudda beiðni um viðurkenningu landsins sem um ræðir til framkvæmdastjórnar EB, sem tekur ákvörðun um viðurkenningu innan þriggja mánaða, líkt og lýst er nánar í tilskipuninni.

4. Athugun erlendra réttinda.

Ef nauðsyn þykir skal Siglingastofnun leita skriflegrar staðfestingar eða neitunar lögbærra yfirvalda útgáfuríkis á því að skírteini sjómanns, samsvarandi áritun eða önnur skrifleg sönnunargögn um þjálfun, sem gefin eru út í því ríki, séu ósvikin.

Vakni grunur um ólögmætt athæfi í tengslum við útgáfu eða áritun skírteina skal Siglingastofnun fara fram á það við lögregluyfirvöld að þau taki málið til rannsóknar.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 17. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/45/EB frá 7. september 2005 um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út og um breytingu á tilskipun 2001/25/EB, sem vísað er til í 56j lið í XIII. viðauka EES-samningsins eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2006 frá 10. mars 2006, sem birtist í EES-viðauka 28, bls. 21.

Samgönguráðuneytinu, 25. apríl 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica