Samgönguráðuneyti

551/1998

Reglugerð um skylduvátryggingar vegna loftferða. - Brottfallin

Reglugerð

um skylduvátryggingar vegna loftferða.

1. gr.

Flugrekendur skulu taka og halda í gildi ábyrgðartryggingu gegn tjóni á mönnum eða hlutum í loftfari, eða við för eða flutning þeirra í loftfar eða úr því svo og gegn tjóni á innrituðum farangri og öðrum varningi, meðan flytjandi ber ábyrgð á honum skv. ákvæðum X. kafla loftferðalaga nr. 60/1998.

Skal vátryggingin taka yfir flutning með loftfari á farþegum, farangri og öðrum varningi, enda sé flutningurinn inntur af hendi í atvinnuskyni, sem liður í flugrekstri hlutaðeigandi flytjanda. Þó skal tryggingin jafnframt taka til flutnings af hálfu flugrekanda, enda þótt hann sé inntur af hendi án endurgjalds.

2. gr.

Vátryggingarfjárhæðir skulu miðast við hlutlæga bótaábyrgð gagnvart hverjum farþega vegna lífs- og líkamstjóna að SDR 100.000 en jafnframt skal vátryggt gegn þeirri áhættu sem fjárhæðamörk íslenskra skaðabótalaga geta leitt til, umfram þá fjárhæð í tilvikum lífs- og líkamstjóna.

Fjárhæð bóta ákvarðast skv. íslenskum skaðabótalögum.

Bótaábyrgð vegna tjóna umfram SDR 100.000 fellur niður ef flytjandi leiðir sönnur að því, að hann sjálfur og starfsmenn hans hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að afstýra tjóni eða það hafi eigi verið á þeirra valdi.

Tryggja skal fyrirframgreiðslu upp í væntanlegar bætur, ekki lægri en SDR 15.000 vegna hvers farþega, verði dauðaslys, sem greiðist nánasta aðstandanda. Við önnur slys en dauðaslys skal fyrirframgreiðsla þessi taka mið af aðstæðum, en henni er ætlað að mæta brýnustu fjárhagsþörf hins slasaða vegna slyssins. Fyrirframgreiðslan skal innt af hendi eigi síðar en 15 dögum eftir að ljóst verður hver hinn slasaði eða látni er.

Innritaður farangur skal tryggður fyrir SDR 17, hvert kg.

Sá handfarangur sem hver einstakur farþegi má hafa í vörslu sinni skal tryggður fyrir SDR 332 til hvers farþega.

Nú sannar flytjandi að sá sem fyrir tjóninu varð, hafi sjálfur verið valdur eða samvaldur að því og má þá færa skaðabætur niður eða fella þær niður.

Vátryggingarfjárhæð vegna bótaábyrgðar flugrekenda skv. ákvæðum þessarar greinar skal að lágmarki nema SDR 500.000 vegna hvers farþega.

3. gr.

Taka skal og halda í gildi ábyrgðartryggingu gegn tjóni, sem stafa kann af notkun sérhvers loftfars, á mönnum eða hlutum sem eru utan loftfarsins. Vátrygging þessi skal m.a. tryggja greiðslu kostnaðar við hreinsun á slysstað og brottnám flaks.

Vátryggingarfjárhæðir vegna hvers tjónsatburðar, skulu fara eftir hámarksflugtaksþyngd og vera sem hér segir:

1.             Fyrir loftför með leyfðan hámarksflugtaksþunga undir 10 tonnum:

 

SDR

6.000.000gagnvart tjóni á mönnum

 

SDR

500.000 gagnvart öðrum tjónum.

2.             Fyrir loftför með leyfðan hámarksflugtaksþunga á bilinu 10 - 350 tonn:

 

SDR

15.000.000 gangvart tjóni ámönnum

 

SDR

2.000.000 gagnvart tjóni á öðrum

3.             Fyrir loftför með leyfðan hámarksflugtaksþunga yfir 350 tonnum:

 

SDR

30.000.000 gagnvart tjóni á mönnum

 

SDR

4.000.000 gagnvart öðrum tjónum

Heimilt skal eigendum loftfara með minni flugtaksþunga en 25 kg að taka sameiginlega ábyrgðartryggingu vegna slíkra loftfara. Skal vátryggingarfjárhæð nema minnst SDR 500.000 vegna hvers tjónstilviks. Með þeirri ábyrgðartryggingu telst vátryggingarskyldu fullnægt.

4. gr.

Taka skal vátryggingu er bæti beinan útlagðan kostnað ríkisins og stofnana þess vegna leitar að loftfari sem saknað er, sé um að ræða loftfar með takmarkað lofthæfisskírteini, en sem fær allt að einu heimild til að fara um íslenskt yfirráðasvæði, t.a.m. í formi ferjuleyfis. Skal vátryggingarfjárhæð nema SDR 10.000 hið lægsta.

5. gr.

Ábyrgðartryggingar erlendra loftfara sem fljúga um íslenskt yfiráðasvæði, svo og tryggingar vegna leitarkostnaðar, skulu uppfylla sömu kröfur um bótasvið og lágmarksfjárhæðir og gilda gagnvart íslenskum loftförum, sbr. 3. og 4. gr.

6. gr.

Heimilt er vátryggingartaka og vátryggjanda að semja um eigin áhættu vátryggingartaka, en slíkt má í engu skerða rétt þriðja manns til greiðslu bóta frá félaginu. Skal það koma fram í vátryggingarskírteini, skilmálum eða iðgjaldskvittun, sé samið um eigin áhættu vátryggingartaka.

7. gr.

Eigendum og/eða umráðendum kennslu- og einkaflugvéla, skal skylt að taka og halda í gildi slysatryggingu fyrir þá, sem ferðast með slíkum vélum, þ.m.t. stjórnendur þeirra, vegna slysa sem rakin verða til notkunar loftfarsins. Auk þeirra slysa sem verða í loftfari, skal trygging þessi taka til farar í loftfar og úr því. Bætur samkvæmt slysatryggingu þessari greiðast þegar bótarétti er ekki til að dreifa úr ábyrgðartryggingu skv. 1. og 2. gr. reglugerðar þessarar, sé vélin ýmist nýtt sem atvinnuflugvél eða til einkaflugs.

Örorku skal meta í hundraðshlutum skv. miskastigatöflu örorkunefndar, sem starfar skv. skaðabótalögum. Miða skal við töflur örorkunefndar sem í gildi eru þegar mat fer fram. Meta skal skerðingu á líkamlegri færni án tillits til starfs, sérstakra hæfileika eða þjóðfélagsstöðu hins slasaða. Sé áverka ekki getið í töflum örorkunefndar um miskastig skal meta hann sérstaklega og þá með hliðsjón af töflunum. Örorka getur aldrei talist meiri en 100%.

Vátryggingarfjárhæð vegna dauða og 100% varanlegrar örorku skal að lágmarki miðast við jafnvirði 100.000 SDR í íslenskum krónum fyrir hvern mann. Við minni örorku greiðast bætur hlutfallslega.

Heimilt skal að lækka bætur eða fella þær niður vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis hins slasaða.

8. gr.

Falli vátrygging skv. reglugerð þessari úr gildi, ber félagið allt að einu ábyrgð í tvo mánuði frá því er það tilkynnti Flugmálastjórn að vátryggingin væri úr gildi fallin, enda hafi loftfarið eigi á þeim tíma verið strikað af loftfaraskrá, flugleyfi skv. c-lið, 3. gr. laga nr. 60/1998 verið afturkallað, eða önnur vátrygging verið tekin sem uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar.

9. gr.

Vátryggingar íslenskra loftfara skv. reglugerð þessari, skulu teknar hjá vátryggingarfélögum sem Vátryggingareftirlitið og frá 1. janúar 1999, Fjármálaeftirlitið staðfestir að hafi leyfi til þeirrar tryggingarstarfsemi sem hér er kveðið á um, sbr. lög nr. 60/1994 um vátryggingarstarfsemi með síðari breytingum.

Vátryggingarskilmálar skulu kynntir Vátryggingaeftirliti, en Fjármálaeftirliti eftir að það tekur til starfa, áður en þeir eru boðnir vátryggingartökum. Jafnframt skal leitað viðurkenningar Flugmálastjórnar á vátryggingarfélagi og vátryggingarskilmálum.

10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að 5 árum.

11. gr.

Reglugerð þessi sem sett er skv. heimild í 131. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, staðfestist hér með til að öðlast gildi þann 19. september 1998. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 116/1965 um vátryggingu vegna loftferða.

Samgönguráðuneytinu, 17. september 1998.

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica