Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

483/1989

Reglugerð um breytingu á hafnarreglugerð fyrir Skagastrandarhöfn nr. 383 29. september 1985. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breytingu á hafnarreglugerð fyrir Skagastrandarhöfn nr. 383

29. September 1985.

 

1. gr.

          Við 2. gr. bætist nýr liður:

2.5     Skrifstofa Höfðahrepps skal annast alla útsendingu reikninga, innheimtu og bókhald fyrir hafnarsjóð.

 

2. gr.

          3. og 4. gr. orðist svo:

 

3. gr.

Hlutverk og valdsvið hafnarnefndar.

3.1     Hafnarnefnd gerir fjárhagsáætlun fyrir hafnarsjóð, þar sem fram kemur viðhald hinna ýmsu hafnarmannvirkja svo og nýbyggingar. Hafnarnefnd skal leggja fjárhagsáætlunina fyrir hreppsnefnd til staðfestingar. Hafnarnefnd skal leita staðfestingar hreppsnefndar á lántökum og öðrum fjárhagsskuldbindingum.

3.2     Hafnarnefnd gerir tillögu um:

          -  Ráðningu fastra starfsmanna, sbr. 4. og 5. gr.

          -  Rekstur hafnarinnar, svo sem ráðstöfun á aðstöðu þ.m.t. leiga á húsnæði og landi hennar, sem leigt er til skamms tíma.

          -  Leyfisveitingar til starfsemi á hafnarsvæðinu og hefur vald til að banna eða takmarka afnot hafnarsvæða fyrir starfsemi er hún telur torvelda eðlilega hafnarstarfsemi.

3.3     Hafnarnefnd gerir tillögur til hreppsnefndar varðandi skipulagsmál á hafnarsvæðinu, enda hafi tillögurnar fengið umfjöllun skipulagsnefndar. Byggingamál á hafnarsvæðinu skulu hljóta umfjöllun hafnarnefndar áður en þau eru lögð fyrir hreppsnefnd. Hafnarnefnd fer með eftirlitshlutverk á hafnarsvæðinu með byggingu mannvirkja, sem undanþegin eru ákvæðum byggingarlaga nr. 54/1978.

 

4. gr.

Hlutverk hafnarstjóra.

4.1     Hafnarstjóri er skipaður af hreppsnefnd að fenginni tillögu hafnarnefndar. Sveitarstjóri gegnir störfum hafnarstjóra sé ekki til þess ráðinn sérstakur starfsmaður. Hafnarstjóri fer með daglega stjórn hafnarinnar í umboði hafnarnefndar. Hafnarstjóri undirbýr má1 sem leggja á fyrir hafnarnefnd og veitir viðtöku erindum til hennar. Hann sér um framkvæmd samþykkta hafnarnefndar og veitir hafnarnefnd og hreppsnefnd upplýsingar um málefni hafnarinnar. Hann sér um að fjárhagsáætlun sé fylgt og ber ábyrgð á fjárreiðum hafnarsjóðs.

4.2     Hafnarstjóri skal vinna störf sín í samræmi við ákvæði hafnalaga og hafnarreglugerðar og fara að öðru leyti eftir samþykktum hafnarnefndar og hreppsnefndar.

4.3     Hafnarstjóri sér um, að gætt sé reglu á höfninni og á landi hennar. Er öllum skylt að hlýða fyrirmælum hans, eða þeirra sem hann felur slík störf.

 

3. gr.

          Við bætist ný grein, 5. gr.:

 

5. gr.

Aðrir starfsmenn hafnarinnar.

5.1     Hafnarnefnd gerir tillögu um ráðningu hafnarvarðar og annarra fastra starfsmanna hafnarinnar (sbr. 4. gr.) svo margra sem þurfa þykir. Vikukaupsmenn og fólk til afleysinga ræður hafnarstjóri.

5.2     Hafnarstarfsmenn, sem hafa umsjón með eignum hafnarinnar, gæta reglu og sinna skipaþjónustu, skulu bera skilríki um starf sitt og/eða einkennisbúning samkvæmt ákvörðun hafnarnefndar.

5.3     Starfsmenn hafnarinnar skulu gæta allrar kurteisi í starfi. Þyki einhverjum sér óréttur gerður af starfsmönnum hafnarinnar getur hann kært það fyrir hafnarnefnd, en skipun starfsmanns ber að hlýða þegar í stað.

 

4. gr.

          Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt hafnalögum nr. 69, 28. maí 1984, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

 

Samgönguráðuneytið, 29. September 1989.

 

Steingrímur J. Sigfússon.

Helgi Jóhannesson
Þetta vefsvæði byggir á Eplica