Samgönguráðuneyti

383/1994

Reglugerð um aðgang að almennum fjarskiptanetum - Brottfallin

1. gr.

Ríkið hefur einkarétt á að starfrækja talsímaþjónustu á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi og að eiga og reka almenn fjarskiptanet. Póst- og símamálastofnun annast framkvæmd þessa réttar.

2. gr

Samkvæmt fjarskiptalögunum er samgönguráðherra heimilt að veita leyfi til að veita fjarskiptaþjónustu aðra en talsímaþjónustu á almennum fjarskiptanetum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. reglugerð nr. 382/1994 um skilyrði fyrir leyfum til að veita fjarskiptaþjónustu.

3. gr.

Póst- og símamálastofnun skal tryggja notendum og þeim, sem leyfi ráðherra hafa fengið til að veita fjarskiptaþjónustu, aðgang að almennum fjarskiptanetum og þjónustu. Skilmálar fyrir aðgang skulu fullnægja eftirfarandi grundvallarreglum:

- þeir skulu byggjast á hlutlægum viðmiðunum.

- þeir verða að vera auðskyldir og birtir opinberlega.

- þeir verða að tryggja jafnan aðgangsrétt án mismununar.

4. gr

Skilmálar fyrir aðgangi að almennum fjarskiptanetum eða almennri fjarskiptaþjónustu mega ekki fela í sér takmarkanir, nema af ástæðum, sem byggja á grunnkröfum, þ.e. kröfum um:

- rekstraröryggi neta.

- tryggingu heildstæðis neta.

- samhæfni mismunandi þjónustu í rökstuddum tilvikum.

- verndun gagna.

Hér merkir rekstraröryggi nets tryggingu þess að það sé ávallt tiltækt í neyðartilvikum, heildstæði nets að tryggð sé eðlileg starfsemi og samtenging almennra neta, samhæfni að fylgt sé tæknilýsingum. sem gerðar hafa verið til að auka framboð á þjónustu og valmöguleikum notenda og verndun gagna að tryggð sé leynd fjarskipta og verndun persónulegra upplýsinga.

Að auki er heimilt að setja skilmála um að búnaður, sem tengja á við netin, uppfylli ákvæði reglugerðar um notendabúnað.

5. gr.

Nota skal viðurkennda evrópska staðla sem grundvöll fyrir tæknilegri samhæfingu við almenn fjarskiptanet eða þjónustu í þeim tilgangi að tryggja opinn aðgang. Með því að hlíta ákvæðum staðlanna telst sá, sem veitir þjónustu, hafa uppfyllt grunnkröfur sbr. 4. gr. Sömuleiðis telst Póst- og símamálastofnun hafa uppfyllt kröfur um greiðan og skilvirkan aðgang að netum hlíti hún ákvæðum staðlanna. Ákvæði þessarar greinar skulu einnig eiga við um samhæfingu þjónustu innan EES.

6. gr.

Skilmála sbr. 3. og 4. gr. skal setja eigi síðar en 1. janúar 1995 í gjaldskrá og reglur Póst- og símamálastofnunar. Skilmálarnir skulu fjalla um eftirfarandi svið:

1. Talsímaþjónustu.

2. Gagnaflutningsþjónustu.

3. Leigðar línur.

4. Fjarritaþjónustu.

5. Farstöðvaþjónustu.

Bæta skal við þennan lista eftir því sem opnuð er ný þjónusta eða net.

Skilmálar þeir, sem hér um ræðir, skulu vera í samræmi við ákvæði um opinn aðgang að netum, sem gilda innan EES.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984 sbr. lögum nr. 32/1993 og með hliðsjón af tilskipun 90/387/EBE frá 28. júní 1990 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum, sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 4, mars 1994.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica