Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

555/1987

Reglugerð um fis - Brottfallin

REGLUGERÐ

um fis.

1. Gildissvið.

Reglur þessar taka til flugs með fisum á Íslandi. Í þessari reglugerð merkir fis loftfar sem

a) er notað eða ætlað til einflugs,

b) er notað eða ætlað einungis til skemmtunar eða íþrótta,

c) hefur ekki íslenskt eða erlent lofthæfisskírteini, og

d) ef það er ekki hreyfilknúið, er léttara en 70 kg, eða

e) ef það er hreyfilknúið:

i) hefur tómaþyngd minni en 120 kg, þar sem þó er ekki meðtalin þyngd flota og öryggisbúnaðar (fallhlífa), sem ætlað er að draga úr flug- eða fallhraða í neyðartil­vikum,

             ii) hefur ekki meira eldsneytisrými en 20 lítra,

             iii) getur ekki náð meira en 100 km/klst kvörðuðum flughraða með fullu afli í láréttu flugi, og

             iv) hefur án hreyfilafls ofrishraða minni en 45 km/klst (kvarðaður flughraði).

 

2. Skráning og lofthæfi.

a) Gildandi reglur um lofthæfi loftfara, hluta þeirra og búnað taka ekki til fisa, hluta þeirra og búnaðar. Ekki er krafist lofthæfisskírteinis fyrir fis.

b) Gildandi reglur um skírteini flugliða taka ekki til stjórnenda fisa og ekki er krafist heilbrigðisvottorðs eða flugskírteinis.

c) Gildandi reglur um skráningu og merkingu loftfara taka ekki til fisa og þarf því ekki að merkja þau.

 

3. Starfræksla.

3.1. Hættulegt flug.

a) Fisi má ekki fljúga þannig að mönnum eða verðmætum stafi hætta af.

b) Eigi má varpa eða dreifa hlutum úr fisi ef það getur valdið hættu fyrir menn eða verðmæti utan þess.

 

3.2. Dagflug.

a) Fisi má einungis fljúga á tímabilinu frá sólaruppkomu til sólarlags.

b) Þó má fljúga fisi á tímabilinu frá því að miðja sólar er 6 gráður fyrir neðan sjóndeildarhring til sólaruppkomu og frá sólarlagi þar til miðja sólar er 6 gráður fyrir neðan sjóndeildarhring, ef

i) fisið er búið blikkandi varúðarljósi sem sést a. m. k. úr 5 km fjarlægð, og

ii) flogið er utan flugstjórnarrýmis.

 

3.3. Umferðarréttur.

a) Stjórnandi fiss skal gefa stöðugan gaum að annarri flugumferð og skal veita öllum öðrum loftförum forgang.

b) Fisi má ekki fljúga þannig að af því geti stafað árekstrarhætta við önnur loftför. c) Hreyfilknúin fis skulu veita forgang fisum án hreyfils.

 

3.4. Flug yfir þéttbýli.

Fisum má eigi fljúga yfir þéttbýl svæði borga og bæja eða yfir svæði þar sem mikill mannfjöldi er saman kominn.


 

3.5. Flug í flugstjórnarrými.

a) Eigi má fljúga fisum í flugstjórnarrými nema að fengnu leyfi hlutaðeigandi flugumferðar­þjónustudeildar.

b) Eigi má heldur fljúga fisum á bannsvæði eða öðrum svæðum eða yfir stöðum sem lúta sérstökum takmörkunum, tímabundnum eða varanlegum, án leyfis hlutaðeigandi yfirvalda.

 

3.6. Sýn til jarðar.

Fisi má einungis fljúga þannig að sjáist til jarðar.

 

3.7. Flugskyggni og fjarlægð frá skýjum.

Allt flug skal háð þeim skilyrðum um skyggni og fjarlægð frá skýjum sem jöfn eru eða strangari en um getur í eftirfarandi töflu. Hlutaðeigandi flugstjórnardeild getur þó veitt sérstaka undanþágu fyrir flug innan flugstjórnarsviðs.


                                                                                Innan flugstjórnarrýmis                       Utan flugstjórnarrýmis


                                                    ofar en                  í eða neðar en       ofar en                  í eða neðar en


                                                                                eftirfarandi hæðir: 3000 fet (900 m) fyrir ofan meðalsjávar-

                                                                                mál eða 1000 fet (300 m) fyrir ofan jörð, hvort sem er hærra


Flugskyggni                                   8 km                     8 km                     8 km                     1.5 km


Fjarlægð frá skýjum:                                                 

a) lárétt                                         1.5 km                  1.5 km                  1.5 km                   Laus við ský og

b) lóðrétt                                       1000 fet                1000 fet                1000 fet                 sér til jarðar

                                                    (300 m)                 (300 m)                 (300 m)


4. Skoðanir og eftirlit.

Sá, sem á eða notar fis, skal, þegar þess er krafist, heimila flugmálastjórn eða þeim, sem hún tilnefnir, aðgang að og eftirlit með loftfarinu til þess að athuga hvort reglur þessar eru haldnar. Hann skal einnig, ef þess er krafist, sanna að loftfarið þurfi einungis að fullnægja kröfum þessarar reglugerðar.

 

5. Undanþágur.

Flugmálastjórn/loftferðaeftirlit getur veitt undanþágur frá eftirfarandi ákvæðum reglu­gerðar þessarar, þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa:

1 a) um einflug, að því er varðar kennslu og þjálfun, þannig að kennara sé heimilt að fljúga með nema,

1 d) að því er varðar þyngdarmörk, og

1 e) að því er varðar þyngdarmörk, eldsneytismagn og flughraða.

 

6. Refsiákvæði og gildistaka.

6.1. Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIII. kafla laga nr. 34 21. apríl 1964 um loftferðir.

6.2. Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 34 21. maí 1964 um loftferðir, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, er hlut eiga að máli.

 

Samgönguráðuneytið, 3. nóvember 1987.

 

Matthías Á. Mathiesen.

Birgir Guðjónsson.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica