Samgönguráðuneyti

220/1951

Hafnarreglugerð fyrir Svalbarðseyri við Eyjafjörð - Brottfallin

I. KAFLI

Takmörk hafnarinnar.

1. gr.

Höfnin takmarkast að norðan með línu, sem hugsast dregin þvert í vestur úr Svalbarðseyrarodda, 40 m norðan vitans. Að sunnan af línu, sem dregin er þvert í vestur úr Sigluvíkurklöppum. Að vestan af línu, sem dregin er úr norðurlínu 500 m frá fjöruborði og þvert í suður, 500 m framan við Sigluvíkurklappir. Athafnasvæði bryggjunnar á landi er takmarkað af frystihúsinu að norðan, verzlunarhúsi K. S. Þ. að austan og af vöruhúsi sama félags að sunnan.

 

II. KAFLI

Stjórn hafnarinnar.

2. gr.

Að nýafstöðnum hreppsnefndarkosningum skal hreppsnefnd Svalbarðsstrand­arhrepps kjósa 3 menn í hafnarnefnd og jafnmarga til vara. Kjörtímabil hafnar­nefndar er það sama og hreppsnefndar. Hafnarnefnd sér um að reglugerð þessari sé hlýtt, sér um innheimtu gjalda þeirra, sem ákveðin eru samkvæmt reglugerð þessari, gegn innheimtulaunum eða föstum launum, sem um semur, sér um viðhald hafnar og lendingarbóta, og stýrir öllum framkvæmdum, sem þar að lúta. Hafnar­nefnd annast reikningshald og fjárvörzlu hafnarsjóðs, fyrir hönd hreppsnefndar, enda ber hreppsnefnd ábyrgð á eignum sjóðsins, sem öðrum eignum hreppsins, svo og öllum skuldbindingum sjóðsins.

 

III. KAFLI

Um almenna reglu.

3. gr.

Hafnarnefnd sér um að gætt sé reglu á hafnarsvæðinu og mannvirkjum þess, og er öllum, er hlut eiga að máli, skylt að hlýða boði hennar og banni tafarlaust, en Beta síðan, ef þeim finnst sér óréttur ger, skotið máli sínu til lögreglustjóra.

 

4. gr.

Óheimilt er skipum eða bátum að kasta útbyrðis seglfestu, ösku, kolum eða öðru, sem valdið getur skemmdum á hafnarsvæðinu.

 

5. gr.

Skylt er öllum að gæta varúðar um allt, er slysum gæti valdið.

 

6. gr.

Hafnarnefnd, svo og aðrir starfsmenn hafnarsvæðisins, skulu gæta allrar kurteisi í starfi sínu.

 

IV. KAFLI

Um hafnarsjóð..

7. gr.

Til þess að standast kostnað við lendingarbætur og hafnarmannvirki og til árlegs rekstrarkostnaðar, skal stofna hafnarsjóð. Í hafnarsjóð renna allar tekjur, sem ákveðnar eru með reglugerð þessari. Við lok hvers rekstrarárs skal hafnar­nefnd semja reksturs- og efnahagsreikning sjóðsins ekki síðar en í febrúarlok næsta reikningsárs. Reikningar skulu endurskoðaðir og úrskurðaðir á sama hátt og hrepps­reikningar. Fyrir 1. nóvember ár hvert skal hafnarnefnd hafa samið og lagt fyrir hreppsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps frumvarp til áætlunar um tekjur og gjöld hafnarinnar á komandi ári. Hreppsnefnd skal síðan fullsemja áætlunina og senda hana samgöngumálaráðuneytinu til staðfestingar fyrir árslok, ásamt nauðsynlegum skýringum á gjalda- og tekjuliðum.

 

8. gr.

            Reikningsár hafnarsjóðs er almanaksárið.

 

V. KAFLI

Bryggjugjöld.

9. gr.

            Hvert skip sem leggst að bryggju eða skipi, sem liggur við bryggju hafnar­sjóðs, greiði bryggjugjald sem hér segir:

            Öll aðkomuskip, 15 smálestir eða stærri, greiði 20 aura af hverri brúttó smálest.             Minnsta gjald skal þó vera kr. 3.00. Aðkomubátar undir 15 smálestum greiði kr. 1.50. Bátar, sem stunda veiðar héðan, greiði kr. 1.00 af brúttó smálest á mánuði eða broti úr mánuði, þó skal minnsta árgjald vera kr. 25.00.

Bryggjugjald reiknast fyrir hverjar 24 klst, eða brot úr þeim.

Skip, sem leggst við festar á höfninni, greiði lestagjald, þótt það leggist ekki að bryggju, kr. 0.30 fyrir hverja smálest.

Algerlega undanþegin þessu gjaldi eru herskip, varðskip, björgunarskip, skip, sem hafa skírteini sem skemmtiferðaskip, og skip, sem gerð eru út til vísindalegra rannsókna. Einnig skip, sem leita hafnar vegna óveðurs, sjóskaða eða skemmda á einhvern hátt, nema þau fermi eða affermi einhverja vöru. Sama gildir um skip, sem leita hafnar til að setja á land sjúka menn eða látna. Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari má taka lögtaki.

 

10. gr.

Vörugjaldskrá.

1. flokkur. 65 aurar fyrir hver 100 kg:

            Kol, salt, sement, fiskur, saltaður eða nýr.

2. flokkur. 100 aurar fyrir hver 100 kg:

          Óunnið járn, eldavélar, bárujárn, saumur, garðávextir, mjólk.

3. flokkur. 160 aurar fyrir hver 100 kg:

Korn og mjölvörur, kjöt, asbest, kaðlar, þakpappi, vatnsleiðslu- og mið­stöðvarvörur, heyvinnuvélar, plógar, herfi, ull, sykur, fóðurbætir, fræ, tilbúinn áburður, olíur, benzín, vír til girðinga og raflagna, tómir pokar, hessían og bindigarn.

4. flokkur. 50 aurar fyrir hver 10 kg:

Málningarvörur, veggfóður, brauðvörur, kex, linoleum, gúmmívörur, pappír, bækur, olíufatnaður, útgerðarvörur.

5. flokkur. 100 aurar fyrir hver 10 kg:

Niðursuðuvörur, blikkvörur, hjólhestar, verkfæri svo sem smíðatól, rekur, skóflur, kvíslar og þess háttar vörur; emeleraðar vörur, leirvörur, glervörur, prjónavélar, skilvindur, saumavélar, burstavörur, eldhúsáhöld, skóáburður, leð­urvörur, ávextir, eldspítur.

6. flokkur. 150 aurar hver 10 kg:

Vefnaðarvörur, fatnaður, skotfæri, sælgæti, súkkulaði, kakóduft, kaffi, kaffi­bætir, húsgögn, jólatré, leikföng.

7. flokkur. 300 aurar fyrir hver 10 kg:

            Tóbaksvörur, tóbak.

8. flokkur. 15 aurar fyrir hvert stykki.  

            Tómar tunnur og föt.    

9. flokkur. 2.5 aurar hvert teningsfet:

            Trjáviður, sem reiknast í rúmmáli.

10. flokkur. 50 aurar teningsfetið:

          Allar aðrar vörur, sem reiknast í rúmmáli.

11. flokkur. 5 kr. fyrir hvern stórgrip, og 50 aura fyrir hverja sauðkind.

12. flokkur. b kr. fyrir hverja smálest af frosinni beitusíld.

Gjald þetta reiknast jafnt fyrir fermingu og affermingu skipa og báta.

Gjald fyrir vörur, sem ekki eru tilfærðar í skránni, ákveður hafnarnefnd.

            Hafnarnefnd getur með sérstökum samningum og samþykki hreppsnefndar leigt bryggjuna til síldarsöltunar og annars meiri háttar reksturs.

 

11. gr.

Undanþegið vörugjaldi er póstflutningur og farangur ferðamanna, allt að 25 kg svo og vistir og aðrar nauðsynjar til báta og skipa til eigin notkunar, sem fluttar eru úr landi.

 

12. gr.

Vörugjald skal reiknað eftir máli eða þyngd með umbúðum. Skipstjóri eða formaður ber ábyrgð á greiðslu skipa og bátagjalda, svo og rétt uppgefnu vöru­ magni, en viðtakandi eða afgreiðslumaður skipa á vörugjaldi. Hefur hafnarsjóður haldsrétt á skipi eða bát, þar til skipagjöld eru greidd, nema öðruvísi semjist um, en í vörum sé vörugjald ekki greitt. Ef skip eða bátur hefur ekki farm sinn skráðan, ber skipstjóri eða formaður ábyrgð á greiðslu vörugjaldsins. Ef margs konar vörur eru í sömu sendingu, skal reikna vörugjaldið af þeirri vörutegund, sem hæst vöru­gjald reiknast af. Gildir þar um úrskurður hafnarnefndar, en úrskurði hennar má skjóta til lögreglustjóra.

 

VI. KAFLI

Eignatjón og bætur.

13. gr.

Þeir, sem valdir verða að tjóni á bryggjunni eða öðrum mannvirkjum, eða á áhöldum hafnarsjóðs, skulu bótaskyldir, annað hvort greiði þeir tjónið með upp­hæð, er um semur við hafnarnefnd, eða viðgerðarkostnað eftir reikningi. Takist ekki samningar um bætur, skulu þær ákveðnar af 3 óvilhöllum dómkvöddum mönn­um. Hvorum aðila um sig er heimilt að krefjast yfirmats og skal þá krafa um það borin fram innan mánaðar frá því að matsgerð lauk. Yfirmat skal framkvæmt af 5 óvilhöllum dómkvöddum mönnum. Kostnað við yfirmat greiði sá, er þess hefur krafizt, ef matsupphæðinni verður ekki breytt meir en sem svarar 10% af hinni ákveðnu endurgjaldsupphæð, að öðrum kosti greiði hinn aðilinn kostnaðinn.

 

14. gr.

Um skaðabótaskyldu fyrir tjón, sem tilfært er í næstu grein hér á undan, fer eftir almennum lagafyrirmælum.

 

15. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum allt að kr. 10000.00, nema þyngri refs­ing liggi við samkvæmt almennum lögum. Sektir renna i hafnarsjóð.

 

16. gr.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal fara sem almenn lögreglumál.

 

Reglugerð þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 29 23. apríl 1946, um hafnargerðir og lendingarbætur, til þess að öðlast þegar gildi, og birtist til eftir­breytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

 

Samgöngumálaráðuneytið, 20. desember 1951

 

Ólafur Thors.

 

Páll Pálmason


Þetta vefsvæði byggir á Eplica