Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

88/1991

Reglugerð um Starfsmannaráð Póst- og Símamálastofnunar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Starfsmannaráð Póst- og símamálastofnunarinnar.

1. gr.

Hjá Póst- og símamálastofnun skal vera starfsmannaráð skipað á eftirfarandi hátt:

a) Framkvæmdastjórar aðaldeilda Póst- og símamálastofnunar (fjármáladeild, tæknideild, umsýsludeild og viðskiptadeild) og umdæmisstjóri í Umdæmi I. Auk þess einn samkvæmt tilnefningu póst- og símamálastjóra.

b) Formaður Félags íslenskra símamanna og einn fulltrúi tilnefndur af félaginu.

c) Formaður Póstmannafélags Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af félaginu.

d) Formaður Félags háskólamenntaðra póst- og símamanna.

e) Fulltrúi félaga innan stofnunarinnar í ASÍ skal eiga þess kost að mæta á fundum ráðsins með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt, þegar fjallað er um stöður innan ASÍ.

2. gr.

Starfsmannaráð kýs sér formann til eins árs í senn úr hópi fulltrúa stjórnenda Póst- og símamálastofnunar. Formenn Félags ísl. símamanna og Póstmannafélags Íslands skulu gegna stöðu varaformanns til skiptis eitt ár í senn. Starfsmannaráð kýs sér ennfremur ritara og vararitara.

Falli atkvæðin jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Starfsmannaráð skal halda fund minnst einu sinni í mánuði.

Starfsmannaráð getur ákveðið fasta fundardaga og haldið aukafundi eftir því sem þörf krefur, svo og ef a.m.k. þrír atkvæðisbærir ráðsmenn krefjast. Formaður boðar fundi með dagskrá og stjórnar þeim. Fundir eru ályktunarbærir, ef 8 ráðsmenn eru mættir, enda hafi allir verið boðaðir. Að jafnaði skal ekki afgreiða mál, er heyra undir einhvern fulltrúa stofnunarinnar í ráðinu, að honum fjarstöddum, né heldur mál er varða starfsfólk að fjarstöddum fulltrúum viðkomandi félags.

Halda skal gjörðabók, þar sem fundarefni og afgreiðsla mála er skráð. Ef ráðið er ekki sammála hafa einstakir ráðsmenn rétt á að fá bókuð stutt efnisleg sérálit. Afgreiðsla mála og sérálit skulu jafnan fylgja til þess aðila, sem fær málið til endanlegrar afgreiðslu. Allir fundarmenn skulu undirritað fundargerð.

3. gr.

Starfsmannaráð fjallar um þau mál, er varða launakjör og starfsaðstöðu starfsfólks, skipun, setningu og ráðningu í stöður, niðurlagningu á stöðum, frávikningu, menntunarkröfur og önnur skilyrði til starfa, nýjar stöðuveitingar, svo og önnur mál, er varða hagsmuni einstakra starfsmanna, starfshópa og stofnunarinnar, svo sem aðgerðir sem kunna að fela í sér almenna röskun á atvinnuöryggi og högum starfsfólks, hvort sem slík mál berast frá póst- og símamálastjóra eða einstakir ráðsmenn bera þau fram.

Starfsmannaráð skal fjalla um tillögur og hugmyndir starfsmanna um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Jafnframt skal kynna í ráðinu allar meiriháttar breytingar á skipulagi stofnunarinnar.

Skal að jafnaði kynna málin með dagskrá.

Póst- og símamálastjóri skal boða starfsmannaráð á fundi þá, sem hann heldur með framkvæmdastjórum aðaldeilda og umdæmisstjórum sbr. 8. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála nr. 36/1977, sbr. lög nr. 34/1987.

Skal þar leggja fram, skýra og ræða rekstrar- og framkvæmdaáætlanir stofnunarinnar, svo og ársreikninga og fjárhagsstöðu, og annað er varðar meginstefnumál og verkefni stofnunarinnar.

Leitast skal við að auka áhuga starfsfólksins á því að gefa ráðinu ábendingar um það sem betur mætti fara og gera tillögur til úrbóta og senda þær starfsmannaráði.

Skal ráðið auglýsa eftir slíkum ábendingum eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

Póst- og símamálastjóri veitir starfsmönnum viðurkenningu fyrir slíkar tillögur, eftir ábendingu starfsmannaráðs.

4. gr.

Starfsmannaráð er ráðgefandi um þau mál, sem það tekur til meðferðar og gerir skriflegar tillögur eða umsögn um þau mál til póst- og símamálastjóra. Ráðið getur kallað starfsmenn Póst- og símamálastofnunar á sinn fund til að fá upplýsingar um mál. Ef um er að ræða mál, sem snerta störf umdæma sem ekki eiga fulltrúa í starfsmannaráði, skal leitað álits viðkomandi umdæmisstjóra.

Áður en starfsmannaráð tekur afstöðu til stöðuveitinga, skal að jafnaði leitað álits næsta yfirmanns þeirrar stöðu sem um er að ræða.

5. gr.

Umræður á fundum ráðsins, er varða einstaka menn persónulega, skulu vera trúnaðarmál.

Reglur þessar eru hér með settar samkvæmt 10. gr. laga nr. 36/1977, um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, sbr. lög nr. 34/1987, til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 5/1983.

Samgönguráðuneytið, 21. febrúar 1991.

Steingrímur J. Sigfússon.

Halldór S. Kristjánsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica