Innanríkisráðuneyti

816/2011

Reglugerð um hafnarríkiseftirlit.

1. gr.

Markmið.

Tilgangur þessarar reglugerðar er að stuðla að því að draga verulega úr siglingum undirmálsskipa um hafsvæði sem heyra undir lögsögu Íslands með því:

a)

að stuðla að því að farið sé að alþjóðlegri löggjöf og viðeigandi löggjöf EES-svæðisins um siglingaöryggi, siglingavernd, verndun sjávarumhverfis og aðbúnað og vinnuskilyrði um borð í skipum, óháð því undir hvaða fána þau sigla,

b)

að koma á sameiginlegum viðmiðunum fyrir eftirlit með skipum af hálfu hafnarríkis og samræma verklagsreglur um skoðun og farbann þar sem byggt er á sérfræðiþekkingu og reynslu sem áunnist hefur á vettvangi Parísar­samkomulagsins um hafnarríkiseftirlit,

c)

að hrinda í framkvæmd innan EES-svæðisins hafnarríkiseftirlitskerfi, byggðu á skoðunum, sem fara fram innan EES-svæðisins og á svæði Parísar­samkomulagsins um hafnarríkiseftirlit, þar sem stefnt væri að því að skoða öll skip með tilteknu millibili. Slíkar skoðanir skyldu byggjast á áhættusniði skipa þar sem meiri áhætta kallar á nákvæmari skoðun með styttra millibili.2. gr.

Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. Samningar: Eftirtaldir samningar eða samþykktir ásamt bókunum og tilheyrandi breytingum, svo og tengdir bindandi kóðar, í uppfærðum útgáfum þeirra:

a)

alþjóðasamningur um hleðslumerki skipa frá 1966 (LL 66),

b)

alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS 74),

c)

alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 ásamt bókuninni við hann frá 1978 (MARPOL ´73/78),

d)

alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978 (STCW 78/95),

e)

samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó frá 1972 (COLREG 72),

f)

alþjóðasamningur um mælingar skipa frá 1969 (ITC 69),

g)

samningur um lágmarksstaðla kaupskipa frá 1976 (ILO nr. 147),

h)

alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíu­mengunar frá 1992 (CLC 92). 1. Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit (MOU): Samkomulagið um hafnar­ríkiseftirlit, sem undirritað var í París 26. janúar 1982, í uppfærðri útgáfu.
 2. Rammi og verklagsreglur fyrir valkvætt úttektarkerfi aðildarríkja Alþjóða­siglingamála­stofnunarinnar (IMO): Ályktun þings Alþjóða­siglinga­málastofnunar­innar (IMO) A.974(24).
 3. Svæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit: Landsvæði þar sem undirritunaraðilar Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit framkvæma skoðanir innan ramma þess.
 4. Skip: Sérhvert hafskip sem ein eða fleiri þessara samþykkta gilda um og siglir undir öðrum fána en fána hafnarríkisins.
 5. Tengsl skips og hafnar: Samskipti sem eiga sér stað þegar skip verður beint og tafarlaust fyrir áhrifum af aðgerðum sem tengjast flutningi fólks eða vöru eða við það að hafnarþjónusta er innt af hendi.
 6. Skip á akkerislægi: Skip sem er í höfn eða á öðru svæði innan lögsögu hafnar en liggur þó ekki við bryggju, sem myndar tengsl skips og hafnar.
 7. Skoðunarmaður: Starfsmaður Siglingastofnunar Íslands eða annar einstaklingur sem hlotið hefur viðurkenningu stofnunarinnar til að framkvæma hafnar­ríkis­eftirlitsskoðanir og heyrir undir hana.
 8. Lögbært yfirvald: Siglingamálayfirvald sem ber ábyrgð á hafnarríkiseftirliti í samræmi við reglugerð þessa.
 9. Að næturlagi: Tímabil sem er ekki styttra en sjö klukkustundir, eins og skilgreint er í lögum eða reglugerðum, og verður í hverju tilviki að fela í sér tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni dags.
 10. Upphafsskoðun: Heimsókn skoðunarmanns um borð í skip til þess að kanna hvort farið sé að ákvæðum viðeigandi samninga og reglna, þ.m.t. eftirlit sem krafist er skv. 1. mgr. 13. gr. hið minnsta.
 11. Nákvæm skoðun: Skoðun sem felst í því að skip, búnaður þess og áhöfn, í heild eða að hluta til, eftir því sem við á, við þær aðstæður sem tilgreindar eru í 3. mgr. 13. gr., er kannað nákvæmlega, með tilliti til smíði skips, búnaðar, mönnunar, aðbúnaðar og vinnuskilyrða um borð, ásamt því að kanna hvort þar sé beitt réttum starfsaðferðum.
 12. Víðtæk skoðun: Skoðun sem tekur a.m.k. til atriðanna sem tilgreind eru í VII. viðauka. Víðtæk skoðun kann að fela í sér nákvæmari skoðun hvenær sem gildar ástæður eru til þess í samræmi við 3. mgr. 13. gr.
 13. Kvörtun: Hvers konar upplýsingar eða skýrsla frá einstaklingi eða stofnun sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta varðandi öryggi skipsins, þ.m.t. hagsmunir um hættu sem tengist öryggi eða heilbrigði áhafnar, aðbúnaði og vinnuskilyrðum um borð og mengunarvörnum.
 14. Farbann: Formlegt bann við því að skip haldi til hafs vegna sannanlegra annmarka sem hver fyrir sig eða ásamt öðrum annmörkum gera skipið óhaffært.
 15. Úrskurður um aðgangsbann: Úrskurður sem birtur er skipstjóra skips, félagi, sem ber ábyrgð á skipinu, og fánaríkinu þar sem þessum aðilum er tilkynnt að skipinu verði bannaður aðgangur að öllum höfnum og akkerislægjum í EES-ríkjum.
 16. Stöðvun starfsemi: Formlegt bann við því að skip haldi áfram starfsemi vegna sannanlegra annmarka sem hver fyrir sig eða ásamt öðrum annmörkum gætu skapað hættu ef starfsemi yrði haldið áfram.
 17. Félag: Eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri eða skipamiðlari þurrleiguskipa, er hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins fyrir hönd eiganda skipsins, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem felst í alþjóðlega kóðanum um öryggisstjórnun (ISM-kóðanum).
 18. Viðurkennd stofnun: Flokkunarfélag eða annar einkaaðili sem framkvæmir lögboðin verkefni fyrir hönd stjórnvalds í fánaríki.
 19. Lögboðið skírteini: Skírteini gefið út af eða fyrir hönd fánaríkis í samræmi við samninga.
 20. Flokkunarskírteini: Skjal sem staðfestir samræmi við reglu 3-1, hluta A-1, kafla II-1 í SOLAS 74.
 21. Skoðunargagnagrunnur: Upplýsingakerfið fyrir framkvæmd hafnarríkiseftirlits innan EES-svæðisins sem tengist gögnum um skoðanir sem fara fram innan EES-svæðisins og á svæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit.

3. gr.

Gildissvið.

1. Reglugerð þessi gildir um öll skip, ásamt áhöfnum þeirra, sem hafa viðkomu í höfnum eða á akkerislægjum á Íslandi vegna tengsla skips og hafnar.

Ef Siglingastofnun skoðar skip á hafsvæði innan lögsögu sinnar, en utan hafnar, telst það vera skoðun skv. reglugerð þessari.

Ákvæði greinar þessarar hafa ekki áhrif á rétt Siglingastofnunar til afskipta samkvæmt viðeigandi samningum.

2. Siglingastofnun skal beita þeim reglum í viðeigandi samningum, sem gilda um skip minni en 500 brúttótonn og grípa til nauðsynlegra ráðstafana, til að tryggja að viðkomandi skip stofni hvorki öryggi né heilbrigði manna eða umhverfinu í beina hættu. Við beitingu þessa ákvæðis skal Siglingastofnun hafa að leiðarljósi 1. viðauka við Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit.

3. Við skoðun á skipi, sem siglir undir fána ríkis sem ekki er aðili að samningi, skal Siglingastofnun tryggja að skipið og áhöfn þess fái ekki hagstæðari meðferð en það hefði fengið ef það hefði siglt undir fána ríkis sem er aðili að þeim samningi.

4. Reglugerð þessi gildir ekki um fiskiskip, herskip, hjálparskip í flota, tréskip með frum­stæðu byggingarlagi, ríkisskip nýtt til annarra þarfa en í atvinnuskyni og skemmtis­nekkjur sem ekki eru nýttar í atvinnuskyni.

4. gr.

Skoðunarheimildir.

1. Siglingastofnun skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, að þjóðarétti, til að tryggja lagalegan rétt skv. reglugerð þessari til skoðana um borð í erlendum skipum.

2. Siglingastofnun skal hafa yfir að ráða nægilegum mannafla, einkum hæfum skipaskoðunarmönnum, og fylgja því eftir að skoðunarmenn séu tiltækir og ræki skyldur sínar við skoðun skipa, eins og mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

5. gr.

Skoðunarkerfi og árleg skoðunarskylda.

1. Siglingastofnun skal skoða skip í samræmi við valfyrirkomulagið sem lýst er í 12. gr. og I. viðauka við reglugerð þessa.

2. Siglingastofnun skal uppfylla árlega skoðunarskyldu sína með því að:

a)

skoða öll skip í forgangshópi I, sbr. a-lið 12. gr., sem hafa viðkomu í höfnum og á akkerislægjum þeirra og

b)

skoða árlega þann fjölda skipa í forgangshópi I og II, sbr. a- og b-lið 12. gr., sem svarar hið minnsta til þess hluta af heildarfjölda skoðana sem eiga að fara fram innan EES-svæðisins og á svæði Parísarsamkomulagsins um hafnar­ríkiseftirlit. Skoðunarhlutdeild hvers EES-ríkis skal byggjast á fjölda skipa, sem hafa viðkomu í höfnum ríkisins, miðað við heildarfjölda skipa sem hafa viðkomu í höfnum ríkja innan EES-svæðisins og á svæði Parísar­samkomulags­ins um hafnarríkiseftirlit.3. Til að reikna út hlutdeild heildarfjölda skoðana, sem eiga að fara fram árlega innan EES-svæðisins og á svæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit, sbr. b-lið 2. mgr., skulu skip á akkerislægi ekki talin með, nema annað sé tekið fram af hálfu hlutaðeigandi EES-ríkis.

6. gr.

Reglur um hvernig uppfylla ber skoðunarskyldu.

Takist Siglingastofnun ekki að uppfylla skilyrði a-liðar 2. mgr. 5. gr., skal litið svo á að stofnunin hafi uppfyllt skyldu sína ef fjöldi skipaskoðana sem farast fyrir:

a)

fer ekki yfir 5% af heildarfjölda skipa í forgangshópi I með snið sem vísar til mikillar áhættu og hafa viðkomu í höfnum þess og á akkerislægjum,

b)

fer ekki yfir 10% af heildarfjölda skipa í forgangshópi I, önnur en þau sem eru með snið sem vísar til mikillar áhættu og hafa viðkomu í höfnum þess og á akkerislægjum.Þrátt fyrir hlutfallstölurnar í a- og b-lið skal Siglingastofnun forgangsraða skoðun skipa, sem hafa sjaldan viðkomu í höfnum innan EES-svæðisins, samkvæmt upplýsingunum sem fengnar eru úr skoðunargagnagrunninum.

Þrátt fyrir hlutfallstölurnar í a- og b-lið fyrir skip í forgangshópi I, sem hafa viðkomu á akkerislægi, skal Siglingastofnun forgangsraða skoðun skipa með snið sem vísar til mikillar áhættu og hafa sjaldan viðkomu í höfnum innan EES-svæðisins, samkvæmt upplýsingunum sem fengnar eru úr skoðunargagnagrunninum.

7. gr.

Fyrirkomulag um jafna skiptingu skoðunarhlutdeildar innan EES-svæðisins.

1. EES-ríki, þar sem heildarfjöldi viðkoma skipa í forgangshópi I í höfnum og á akkeris­lægjum fer yfir skoðunarhlutdeild þess, sem um getur í b-lið 2. mgr. 5. gr., telst upp­fylla skoðunarskylduna, ef fjöldi skoðana skipa í forgangshópi I sem það ríki fram­kvæmir samsvarar hið minnsta umræddri skoðunarhlutdeild þó ríkið nái ekki að skoða meira en 30% af heildarfjölda skipa í forgangshópi I sem hefur viðkomu í höfnum og á akkerislægjum þess.

2. EES-ríki, þar sem heildarfjöldi viðkoma skipa í forgangshópi I og II í höfnum og á akkerislægjum er minni en skoðunarhlutdeild sem um getur í b-lið 2. mgr. 5. gr. telst uppfylla skoðunarskylduna ef ríkið skoðar skip í forgangshópi I samkvæmt kröfunni í a-lið 2. mgr. 5. gr. og skoðar a.m.k. 85% af heildarfjölda skipa í forgangshópi II sem hefur viðkomu í höfnum og á akkerislægjum þess.

8. gr.

Frestun skoðana og undantekningartilvik.

1. Siglingastofnun er heimilt að ákveða að fresta skoðun skips í forgangshópi I í eftir­farandi tilvikum:

a)

ef framkvæma má skoðunina í næstu viðkomuhöfn skipsins á Íslandi, að því tilskildu að skipið hafi ekki viðkomu í neinni annarri höfn á EES-svæðinu eða á svæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit þess á milli og frestunin sé ekki lengri en 15 dagar eða

b)

ef heimilt er að framkvæma skoðunina í annarri viðkomuhöfn á EES-svæðinu eða á svæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit innan 15 daga, að því tilskildu að ríkið þar sem slík viðkomuhöfn er staðsett hafi samþykkt fyrir fram að sjá um skoðunina.Ef skoðun er frestað, í samræmi við a- eða b-lið, og það er skráð í skoðunargagnagrunn skal skoðun, sem ferst fyrir að framkvæma, ekki tilgreind sem skoðun sem ferst fyrir að framkvæma gagnvart því EES-ríki sem frestaði skoðuninni.

Ef skoðun á skipi í forgangshópi I er ekki framkvæmd skal viðkomandi skip þó ekki undanþegið skoðun í næstu viðkomuhöfn innan EES-svæðisins í samræmi við þessa reglugerð.

2. Sé skoðun á skipi í forgangshópi I ekki framkvæmd af rekstrarástæðum telst hún ekki til skoðunar sem farist hefur fyrir að framkvæma, að því tilskildu að ástæðan sé skráð í skoðunargagnagrunninn og eftirtalin undantekningartilvik eigi við:

a)

það sé mat Siglingastofnunar að skoðun myndi stefna öryggi skoðunarmanna ásamt skipinu, áhöfn þess, höfninni eða sjávarumhverfinu í hættu, eða

b)

viðkoma skipsins er aðeins að næturlagi. Í slíku tilviki skal Siglingastofnun grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að skip, sem hafa reglulega viðkomu í höfn að næturlagi, séu skoðuð með viðeigandi hætti.3. Sé skip ekki skoðað á akkerislægi telst ekki vera um að ræða skoðun sem farist hefur fyrir:

a)

ef skipið er skoðað í annarri höfn eða á akkerislægi innan EES-svæðisins eða á svæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit innan 15 daga, sbr. I. viðauka, eða

b)

ef viðkoma skipsins á sér aðeins stað að næturlagi eða dvöl þess í höfn er of stutt til að unnt sé að framkvæma skoðun með fullnægjandi hætti og ástæða þess er skráð í skoðunargagnagrunninn, eða

c)

ef það er mat Siglingastofnunar að skoðun myndi stofna öryggi skoðunarmanna ásamt skipinu, áhöfn þess, höfninni eða sjávarumhverfinu í hættu og ástæðan er skráð í skoðunargagnagrunninn.9. gr.

Tilkynningar um komur skipa.

1. Útgerð skips, umboðsmaður þess eða skipstjóri sem, í samræmi við 14. gr., mun sæta víðtækri skoðun og er á leið til hafnar eða akkerislægis á Íslandi, skal tilkynna um komu þess í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í III. viðauka.

2. Við móttöku tilkynningarinnar, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og í 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002 um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis Bandalagsins fyrir umferð á sjó, skal vaktstöð siglinga framsenda slíkar upplýsingar til Siglingastofnunar.

3. Ávallt skal nota rafrænar aðferðir þegar þess er kostur til allra samskipta sem kveðið er á um í þessari grein.

4. Þær verklagsreglur og snið sem Siglingastofnun hefur sett upp, að því er varðar III. viðauka við reglugerð þessa, skulu uppfylla viðeigandi ákvæði sem mælt er fyrir um í tilskipun 2002/59/EB að því er varðar tilkynningar skipa.

10. gr.

Áhættusnið skips.

1. Færa skal inn áhættusnið í skoðunargrunninn fyrir öll skip, sem hafa viðkomu í höfnum eða á akkerislægjum í EES-ríki, en skoðunarforgangur, sá tími sem líður á milli skoðana og umfang skoðana hvers skips er ákveðinn samkvæmt því.

2. Áhættusnið skips skal ákveðið á grunni tiltekinna almennra og sögulegra áhættu­breytna sem hér segir:

a)

Almennar breytur.

Almennar breytur skulu byggðar á tegund, aldri, fána, viðurkenndum stofnunum, sem í hlut eiga, og frammistöðu félags í samræmi við 1. lið I. hluta í I. viðauka og II. viðauka.

b)

Sögulegar breytur.

Sögulegar breytur skulu byggðar á fjölda annmarka sem finnast og hve oft farbann hefur verið lagt á á tilteknu tímabili í samræmi við 2. lið I. hluta í I. viðauka og II. viðauka.11. gr.

Tíðni skoðana.

Skip, sem hafa viðkomu í höfnum eða á akkerislægjum á Íslandi, skulu sæta reglu­bundnum skoðunum eða viðbótarskoðunum sem hér segir:

a)

Skip skulu sæta reglubundnum skoðunum með fyrir fram ákveðnu millibili með tilliti til áhættusniðs þeirra í samræmi við I. hluta í I. viðauka. Sá tími sem líður milli reglubundinna skoðana skipa skal lengjast eftir því sem áhættan minnkar. Að því er varðar skip með snið sem vísar til mikillar áhættu skal þetta tímabil ekki vera lengra en sex mánuðir.

b)

Skip skulu sæta viðbótarskoðunum burtséð frá því hve langt er liðið frá reglubundinni skoðun sem hér segir:

i.

Siglingastofnun skal sjá til þess að skip sem falla undir forgangsþætti, sem tilgreindir eru í lið 2A í II. hluta í I. viðauka, séu skoðuð,

ii.

skip sem taka til óvæntra þátta sem tilgreindir eru í lið 2B í II. hluta í I. viðauka. Ákvörðun um að framkvæma slíkar viðbótarskoðanir skal vera samkvæmt faglegu mati Siglingastofnunar.12. gr.

Val skipa til skoðunar.

Siglingastofnun skal sjá til þess að skip séu valin til skoðunar á grundvelli áhættusniðs þeirra, eins og lýst er í I. hluta I. viðauka, og þegar forgangsþættir eða óvæntir þættir koma í ljós í samræmi við lið 2A og 2B í II. hluta í I. viðauka.

Við ákvörðun um skoðun skipa:

a)

skal Siglingastofnun velja skip, sem komið er að lögboðinni skoðun hjá, tilgreind sem skip í forgangshópi I, í samræmi við valfyrirkomulagið sem lýst er í lið 3A í II. hluta í I. viðauka;

b)

skal Siglingastofnun velja skip til skoðunar, tilgreind sem skip í forgangshópi II, í samræmi við lið 3B í II. hluta í I. viðauka.13. gr.

Upphafsskoðanir og nákvæmari skoðanir.

Siglingastofnun skal tryggja að skip, sem eru valin til skoðunar í samræmi við 12. gr., sæti upphafsskoðun eða nákvæmari skoðun sem hér segir:

1. Við hverja upphafsskoðun skips skal Siglingastofnun sjá til þess að skoðunarmaðurinn framkvæmi a.m.k. eftirfarandi:

a)

skoði skírteinin og skjölin, sem tilgreind eru í IV. viðauka og krafist er að séu um borð, í samræmi við siglingalöggjöf EES-svæðisins og samninga tengda öryggi og vernd,

b)

staðfesti, eftir því sem við á, hvort bætt hafi verið úr útistandandi annmörkum, sem komu í ljós í fyrri skoðun, sem framkvæmd var af hálfu EES-ríkis eða undirritunaraðila að Parísarsamkomulaginu um hafnarríkiseftirlit,

c)

gangi úr skugga um að heildarástand skipsins sé fullnægjandi, þ.m.t. hreinlæti um borð í skipinu auk vélarúms og vistarvera.2. Þegar annmarkar, sem ráða á bót á í næstu viðkomuhöfn, hafa verið skráðir í skoðunargagnagrunninn, að lokinni skoðun, sem um getur í 1. mgr., mega lögbær yfirvöld í næstu viðkomuhöfn ákveða að framkvæma ekki sannprófanirnar sem um getur í a- og c-lið 1. mgr.

3. Framkvæma skal nákvæmari skoðun, þ.m.t. frekari sannprófun á því hvort farið sé að kröfum um rekstrarskilyrði um borð, hvenær sem augljós ástæða er til að ætla, að lokinni skoðuninni sem um getur í 1. mgr., að ástand skips, búnaðar þess eða áhafnar sé ekki að verulegu leyti í samræmi við viðeigandi kröfur samnings.

"Gild ástæða" skal vera til staðar ef skoðunarmaður finnur sannanir sem, samkvæmt faglegu mati hans, kalla á nákvæmari skoðun á skipinu, búnaði þess eða áhöfn.

Í V. viðauka eru talin upp dæmi um "gildar ástæður".

14. gr.

Víðtækar skoðanir.

1. Eftirfarandi flokkar skipa eiga að sæta víðtækri skoðun í samræmi við lið 3A og 3B í II. hluta í I. viðauka:

i.

skip með snið sem vísar til mikillar áhættu,

ii.

farþegaskip, olíuflutningaskip, gas- eða efnaflutningaskip eða búlkaskip, eldri en 12 ára,

iii.

skip með snið sem vísar til mikillar áhættu eða farþegaskip, olíuflutningaskip, gas- eða efnaflutningaskip eða búlkaskip, sem eru eldri en 12 ára, ef um er að ræða forgangsþætti eða óvænta þætti,

iv.

skip sem þurfa að sæta endurtekinni skoðun í kjölfar úrskurðar um aðgangs­bann sem gefinn er út í samræmi við 16. gr.

2. Útgerð skips eða skipstjóri þess skal tryggja að nægilegur tími sé til umráða í rekstraráætluninni svo víðtæk skoðun geti farið fram.

Með fyrirvara um eftirlitsráðstafanir, sem krafist er af verndarástæðum, skal skipið liggja áfram í höfninni þar til skoðun er lokið.

3. Við móttöku tilkynningar frá skipi, áður en það sætir reglubundinni, víðtækri skoðun, skal Siglingastofnun upplýsa viðkomandi aðila ef ekki verður framkvæmd víðtæk skoðun á skipinu.

4. Kveðið er á um umfang víðtækrar skoðunar, þ.m.t. áhættusviðin sem á að skoða í VII. viðauka.

15. gr.

Leiðbeiningar og verklagsreglur um öryggi og vernd.

1. Siglingastofnun skal tryggja að skoðunarmenn stofnunarinnar fari eftir þeim verklags­reglum og leiðbeiningum sem tilgreindar eru í VI. viðauka.

2. Að því er varðar verndarleit skal Siglingastofnun beita viðeigandi verklagsreglum, sem settar eru fram í VI. viðauka við þessa reglugerð, gagnvart öllum skipum, sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 725/2004, sem hafa viðkomu í höfnum þeirra og á akkerislægjum, nema þau sigli undir fána hafnarríkisins þar sem skoðunin fer fram.

3. Ákvæði 14. gr. þessarar reglugerðar, að því er varðar víðtækar skoðanir, skulu gilda um ekjuferjur og háhraðafarþegaför sem um getur í a- og b-lið 2. gr. tilskipunar 1999/35/EB.

Þegar skip hefur verið skoðað, í samræmi við 6. og 8. gr. tilskipunar 1999/35/EB, af hálfu gistiríkis, sem er ekki fánaríki skipsins, skal skrá slíka sérstaka skoðun sem nákvæmari skoðun eða víðtæka skoðun, eftir því sem við á, í skoðunargagnagrunninn og hafa það til hliðsjónar við framkvæmd 10., 11. og 12. gr. þessarar reglugerðar, og við útreikning á efndum hvers EES-ríkis fyrir sig á skoðunarskyldum sínum, að svo miklu leyti sem tekið er á öllum atriðunum sem um getur í VII. viðauka við þessa reglugerð.

Með fyrirvara um rekstrarstöðvun ekjuferju eða háhraðafarþegafars, sem ákveðin er í samræmi við 10. gr. tilskipunar 1999/35/EB, skulu ákvæði reglugerðar þessarar gilda eftir því sem við á um úrbætur á annmörkum, eftirfylgniskoðanir, farbann og aðgangs­bann.

16. gr.

Ráðstafanir varðandi aðgangsbann fyrir tiltekin skip.

1. Siglingastofnun skal sjá til þess að sérhverju skipi:

i.

sem siglir undir fána ríkis sem er á svarta listanum sökum hárrar farbannstíðni, sem samþykktur er í samræmi við Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit, á grundvelli upplýsinga, sem skráðar eru í skoðunargagnagrunninn, og er birtur árlega, af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, og sem farbann hefur verið lagt á eða sem hefur sætt úrskurði um rekstrarstöðvun, samkvæmt tilskipun 1999/35/EB, oftar en tvisvar sinnum á síðastliðnum 36 mánuðum í höfn eða á akkerislægi EES-ríkis eða í ríki, sem er undirritunaraðili að Parísar­samkomulag­inu um hafnarríkiseftirlit, eða

ii.

sem siglir undir fána ríkis sem er á gráa listanum sökum hárrar farbannstíðni, sem samþykktur er í samræmi við Parísarsamkomulagið um hafnarríkiseftirlit, á grundvelli upplýsinga, sem skráðar eru í skoðunargagnagrunninn, og er birtur árlega, af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, og sem farbann hefur verið lagt á eða sem hefur sætt úrskurði um rekstrarstöðvun, samkvæmt tilskipun 1999/35/EB, oftar en tvisvar sinnum á síðastliðnum 24 mánuðum í höfn eða á akkerislægi EES-ríkis eða í ríki, sem er undirritunaraðili að Parísar­samkomulag­inu um hafnarríkiseftirlitverði bannaður aðgangur að höfnum og akkerislægjum á Íslandi nema í tilvikum sem lýst er í 6. mgr. 21. gr.

Aðgangsbann skal öðlast gildi um leið og skip siglir úr höfn eða frá akkerislægi þar sem farbann hefur verið lagt á það í þriðja sinni og þar sem úrskurður um aðgangsbann hefur verið gefinn út.

2. Úrskurð um aðgangsbann má einungis afturkalla að þremur mánuðum liðnum frá útgáfu hans og þegar skilyrði 3. til 9. mgr. VIII. viðauka hafa verið uppfyllt.

Ef skipið sætir aðgangsbanni öðru sinni má afturkalla úrskurð eftir 12 mánuði.

3. Sérhvert síðara farbann í höfn eða á akkerislægi innan EES-svæðisins skal verða til þess að skipinu sé bannaður aðgangur að öllum höfnum og akkerislægjum innan EES-svæðisins. Afturkalla má þennan þriðja úrskurð um aðgangsbann að 24 mánuðum liðnum frá útgáfu hans og því aðeins:

i.

að skipið sigli undir fána ríkis með farbannstíðni sem veldur því að það fer hvorki á svarta né gráa listann sem um getur í 1. mgr.,

ii.

að lögboðin skírteini og flokkunarskírteini skipsins séu gefin út af hálfu stofn­unar eða stofnana sem viðurkenndar eru samkvæmt reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 391/2009 frá 23. apríl 2009 um sameigin­legar reglur og staðla um stofnanir sem sjá um skipaskoðun og skipa­eftirlit,

iii.

að skipið sé gert út af félagi, sem sýnir góða frammistöðu, í samræmi við 1. lið I. hluta í I. viðauka og

iv.

að skilyrðin í 3. til 9. mgr. VIII. viðauka séu uppfyllt.Sérhvert skip, sem uppfyllir ekki viðmiðanirnar sem tilgreindar eru í þessari málsgrein, að loknu 24 mánaða tímabili frá því að úrskurðurinn var gefinn út, skal vera bannaður aðgangur varanlega að öllum höfnum og akkerislægjum innan EES-svæðisins.

4. Hvers konar síðara farbann í höfn eða á akkerislægi innan EES-svæðisins, eftir þriðja aðgangsbann, veldur því að skipinu verður bannaður aðgangur að öllum höfnum og akkerislægjum innan EES-svæðisins.

5. Að því er þessa grein varðar skal Siglingastofnun fara að verklagsreglunum sem mælt er fyrir um í VIII. viðauka.

17. gr.

Skýrsla um skoðun til skipstjóra.

Að aflokinni skoðun, nákvæmari skoðun eða víðtækri skoðun skips skal skoðunarmaður taka saman skýrslu í samræmi við IX. viðauka. Skipstjóra skips sem skoðað var skal afhent afrit af skoðunarskýrslunni.

18. gr.

Kærur.

Siglingastofnun skal senda allar kærur í frummat með hraði. Á grunni slíks mats skal ákveða hvort kæra sé réttlætanleg.

Siglingastofnun grípur til nauðsynlegra aðgerða, í tengslum við kæruna reynist hún réttlætanleg og skal einkum tryggja að allir sem kæran varðar með beinum hætti geti komið sjónarmiðum sínum að.

Komist Siglingastofnun að þeirri niðurstöðu að kæran sé augljóslega tilefnislaus skal upplýsa kæranda um niðurstöðuna og ástæður hennar.

Ekki skal upplýsa skipstjóra eða eiganda skips um deili á kæranda. Skoðunarmaður skal sjá til þess að trúnaðarleynd sé virt, ef viðtöl eru tekin við skipverja.

Siglingastofnun skal upplýsa yfirvöld í fánaríki skips um kærur sem eru ekki augljóslega tilefnislausar og um eftirfylgniaðgerðir sem gripið er til og senda afrit til Alþjóða­vinnumála­stofnunar­innar (ILO), ef við á.

19. gr.

Úrbætur og farbann.

1. Siglingastofnun skal ganga úr skugga um að verið sé að ráða bót á eða ráðin verði bót á staðfestum annmörkum eða annmörkum sem komu í ljós við skoðun í samræmi við samningana.

2. Ef um er að ræða annmarka, sem sannanlega stofna öryggi og heilbrigði manna eða umhverfinu í hættu, skal Siglingastofnun tryggja að farbann sé lagt á skipið eða þeirri starfsemi, sem innt var af hendi þegar annmarkarnir uppgötvuðust, verði hætt. Siglingastofnun skal hvorki afturkalla úrskurð um farbann né aflétta kröfunni um stöðvun starfsemi fyrr en hættan er liðin hjá eða skipið getur, að teknu tilliti til nauðsynlegra skilyrða, sem kunna að verða sett, haldið til hafs á ný eða unnt sé að halda starfseminni áfram án þess að öryggi og heilbrigði farþega eða áhafnar eða annarra skipa sé stefnt í hættu eða án þess að sjávarumhverfi sé ógnað með ótilhlýðilegum hætti.

3. Þegar skoðunarmaður metur hvort farbann skuli lagt á skip eða ekki skal hann hafa til hliðsjónar viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í X. viðauka.

4. Leiði skoðun í ljós að skipið sé ekki búið starfhæfum siglingarita, þegar notkun slíks rita er skyldubundin í samræmi við tilskipun 2002/59/EB, skal Siglingastofnun sjá til þess að farbann sé lagt á skipið.

Ef ekki er hægt að ráða bót á slíkum annmarka í farbannshöfn getur Siglingastofnun annaðhvort heimilað skipinu að halda áfram til viðeigandi skipaviðgerðarstöðvar næst farbannshöfn, þar sem þegar í stað verður ráðin bót á annmarkanum, eða þess verður krafist að það verði gert eigi síðar en innan 30 daga eins og kveðið er á um í leið­beiningunum sem samdar voru á vettvangi Parísarsamkomulagsins um hafnar­ríkis­eftirlit. Af þessum ástæðum skal málsmeðferðin, sem mælt er fyrir um í 21. gr., gilda.

5. Siglingastofnun getur í undantekningartilvikum, ef almennt ástand skips er greinilega ekki sem skyldi, frestað skoðun þar til aðilar sem bera ábyrgð á skipinu grípa til ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að tryggja að skipið uppfylli viðeigandi skilyrði samninganna.

6. Ef farbann er lagt á skip skal Siglingastofnun þegar í stað tilkynna það skriflega, og láta fylgja skýrslu um skoðunina, til yfirvalds í fánaríki eða, þegar það er ekki hægt, til ræðismanns eða, í fjarveru hans, til næsta fulltrúa utanríkisþjónustu ríkisins, um þær ástæður sem ollu því að íhlutun var talin nauðsynleg. Auk þess skal, þegar það á við, einnig tilkynna um tilnefnda skoðunarmenn eða viðurkenndar stofnanir sem bera ábyrgð á útgáfu flokkunarskírteina eða lögboðinna skírteina í samræmi við samninga.

7. Ákvæði reglugerðar þessarar gilda með fyrirvara um viðbótarkröfur samninganna sem lúta að málsmeðferð við tilkynningar og skýrslugerð í tengslum við hafnarríkiseftirlit.

8. Þegar hafnarríkiseftirliti er beitt, samkvæmt reglugerð þessari, skal gera allt, sem hægt er, til að forðast að farbann sé lagt á skipið eða það tafið á ótilhlýðilegan hátt. Ef lagt er farbann á skip eða það tafið á ótilhlýðilegan hátt skal eigandi þess eða útgerð eiga rétt á bótum fyrir hvers konar tapi eða tjóni sem hún hefur orðið fyrir. Í hvert skipti sem meint eða ótilhlýðilegt farbann hefur verið lagt á skip eða það tafið skal sönnunarbyrði þess hvíla á herðum eiganda skipsins eða útgerðar þess.

9. Í því skyni að komast hjá þrengslum í höfn má Siglingastofnun heimila að skip sem farbann hefur verið lagt á verði fært til annars hluta hafnar sé það öruggt. Þó skal hætta á þrengslum í höfn ekki vera til fyrirstöðu þegar ákvörðun um farbann eða um niðurfellingu farbanns er tekin.

Hafnaryfirvöld eða -aðilar skulu eiga samvinnu við Siglingastofnun með það í huga að greiða fyrir móttöku skipa sem farbann hefur verið lagt á.

10. Hafnaryfirvöld eða -aðilar skulu upplýstir við fyrsta tækifæri um það hvenær úrskurður um farbann er gefinn út.

20. gr.

Kæruréttur.

1. Eigandi skips eða útgerð þess eða fulltrúi hennar á Íslandi getur kært ákvörðun Siglingastofnunar um farbann eða aðgangsbann. Kæra ógildir ekki ákvörðun um farbann eða aðgangsbann.

2. Siglingastofnun skal koma á og viðhafa viðeigandi kærumálsmeðferð.

3. Siglingastofnun skal, með viðeigandi hætti, veita skipstjóra skips, sem um getur í 1. mgr., upplýsingar um kæruréttinn og hagnýtt fyrirkomulag sem tengist honum.

4. Þegar úrskurður um farbann er afturkallaður eða aðgangsbanni aflétt eða breytt í kjölfar kæru eða óskar af hálfu eiganda eða útgerðar skips eða fulltrúa hennar skal Siglingastofnun:

a)

tryggja að skoðunargagnagrunnurinn sé tafarlaust uppfærður,

b)

tryggja að upplýsingarnar, sem eru birtar í samræmi við 26. gr., séu leiðréttar innan 24 klukkustunda frá því að úrskurður um farbann eða aðgangsbann er gefinn út.21. gr.

Eftirfylgni í kjölfar skoðana og farbanns.

1. Ef ekki er hægt að bæta úr annmörkum, skv. 2. mgr. 19. gr., í skoðunarhöfn getur Siglingastofnun heimilað viðkomandi skipi að halda án óþarfa tafar til viðeigandi skipaviðgerðarstöðvar næst farbannshöfn, samkvæmt ákvörðun skipstjóra og hlutaðeigandi yfirvalda þar sem framhaldsaðgerðir geta farið fram, að því tilskildu að farið sé að þeim skilyrðum sem lögbært yfirvald fánaríkis setur og Siglingastofnun samþykkir. Slík skilyrði skulu tryggja að skipið geti haldið áfram ferð sinni án þess að öryggi og heilbrigði farþega eða áhafnar sé stefnt í hættu, öðrum skipum sé hætta búin eða sjávarumhverfi ógnað með óskynsamlegum hætti.

2. Ef ákvörðun um að senda skip til skipaviðgerðarstöðvar er tekin sökum þess að ekki var farið að ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar IMO A. 744(18), annaðhvort að því er varðar skjöl skipsins eða að því er varðar bilanir í burðarvirki skipsins og annmarka, má Siglingastofnun krefjast þess að nauðsynlegar þykktarmælingar verði framkvæmdar í farbannshöfn áður en skipinu er heimilað að sigla.

3. Við þær aðstæður sem um getur í 1. mgr. skal Siglingastofnun tilkynna lögbæru yfir­valdi í ríkinu þar sem skipaviðgerðarstöðin er, aðilunum, sem um getur í 6. mgr. 19. gr., og öðrum yfirvöldum, eftir því sem við á, um öll skilyrði sem sett eru fyrir sjóferð­inni.

Lögbært yfirvald í EES-ríkinu, sem tekur við slíkri tilkynningu, skal upplýsa þau yfirvöld sem að tilkynningum standa um aðgerðir sem gripið er til.

4. EES-ríki skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að skipum, sem um getur í 1. mgr., sé bannaður aðgangur að öllum höfnum og akkerislægjum innan EES-svæðisins þegar þau halda til hafs:

a)

án þess að uppfylla skilyrði Siglingastofnunar í skoðunarhöfn, eða

b)

neita að fara að gildandi kröfum samninganna með því að halda ekki til til­greindrar skipaviðgerðarstöðvar.

Slíkt bann skal vera við lýði þar til eigandinn eða útgerðin leggur fram sannanir svo fullnægjandi sé að mati Siglingastofnunar, sem sýna að skipið uppfylli að öllu leyti gildandi kröfur samninganna.

5. Við aðstæður, sem um getur í a-lið 4. mgr., skal Siglingastofnun gera lögbærum yfir­völdum allra hinna aðildarríkjanna tafarlaust viðvart um það.

Við aðstæður, sem um getur í b-lið 4. mgr., skal lögbært yfirvald í EES-ríkinu, þar sem skipaviðgerðarstöðin er, gera lögbærum yfirvöldum allra hinna aðildarríkjanna tafarlaust viðvart um aðstæðurnar.

Áður en skipi er meinaður aðgangur að höfn getur Siglingastofnun ráðfært sig við yfirvald í fánaríki hlutaðeigandi skips.

6. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. getur viðeigandi yfirvald hafnarríkis heimilað skipum aðgang að tiltekinni höfn eða akkerislægi ef um er að ræða óviðráðanlegar aðstæður eða for­gangs­þætti sem tengjast öryggissjónarmiðum, sem vega þyngra, eða nauðsynlegt reynist að draga úr mengun eða lágmarka hættu á mengun eða ef nauðsynlegt reynist að ráða bót á annmörkum, að því tilskildu að eigandi, útgerð eða skipstjóri skipsins hafi gert full­nægj­andi ráðstafanir, sem lögbær yfirvöld í viðkomandi EES-ríki telja fullnægjandi, til að tryggja örugga komu í höfn.

22. gr.

Fagleg hæfni skoðunarmanna.

1. Eingöngu þeir skoðunarmenn sem uppfylla hæfniskröfurnar, skv. XI. viðauka, og hafa heimild Siglingastofnunar til að framkvæma hafnarríkiseftirlit skulu sjá um skoðanir.

2. Ef Siglingastofnun getur ekki kallað til faglega sérfræðinga má skoðunarmaður stofnunarinnar fá aðstoð frá einstaklingi með tilskilda sérfræðiþekkingu.

3. Skoðunarmenn Siglingastofnunar sem framkvæma hafnarríkiseftirlit og einstak­lingarnir, sem aðstoða þá, mega hvorki hafa viðskiptahagsmuna að gæta í skoðunar­höfn né í þeim skipum sem skoðuð eru og skoðunarmenn skulu ekki heldur vera ráðnir hjá frjálsum félagasamtökum eða taka að sér vinnu fyrir hönd frjálsra félaga­samtaka sem gefa út lögboðin skírteini og flokkunarskírteini eða framkvæma það eftirlit, sem krafist er, til útgáfu þessara skírteina handa skipum.

4. Hver skoðunarmaður skal bera á sér persónulegt skjal í formi kennivottorðs sem gefið er út af Siglingastofnun í samræmi við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 96/40/EB frá 25. júní 1996 um að taka upp sameiginlega fyrirmynd að kennivottorði fyrir skoð­unar­menn sem sjá um hafnarríkiseftirlit.

5. Siglingastofnun skal tryggja að gengið sé úr skugga um hæfni skoðunarmanna og að þeir uppfylli lágmarkskröfurnar, sem um getur í XI. viðauka, áður en þeir fá heimild til að framkvæma skoðanir og það sé gert reglulega þaðan í frá í ljósi þjálfunaráætlunarinnar sem um getur í 7. mgr.

6. Siglingastofnun skal tryggja að skoðunarmenn fái viðeigandi þjálfun í tengslum við breytingar á hafnarríkiseftirlitskerfinu sem beitt er á EES-svæðinu og eins og mælt er fyrir um í þessari reglugerð og breytingum á samningunum.

7. Í samstarfi við EES-ríkin skal framkvæmdastjórn ESB þróa og efla samræmt kerfi Bandalagsins um þjálfun og hæfnismat skoðunarmanna við hafnarríkiseftirlit aðildarríkja.

23. gr.

Skýrslur frá hafnsögumönnum og hafnaryfirvöldum.

1. Siglingastofnun skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hafnsögumenn, sem starfa við að leggja skipum að eða frá bryggju eða starfa um borð í skipum á leið til hafnar á Íslandi eða sigla milli hafna innanlands, upplýsi stofnunina tafarlaust, eins og við á, ef þeir komast að því við dagleg skyldustörf sín að um sé að ræða greinilegan vanbúnað þannig að það gæti ógnað öryggi skipsins á siglingu eða stefnt sjávarumhverfi í hættu.

2. Hafi hafnaryfirvöld eða -aðilar komist að því við dagleg skyldustörf sín að skip í höfn þeirra sé greinilega vanbúið með þeim hætti að það gæti ógnað öryggi skipsins eða stefnt sjávarumhverfi í ótilhlýðilega hættu skulu þau tafarlaust tilkynna það til Siglinga­stofnunar.

3. Siglingastofnun skal krefjast þess að hafnsögumenn og hafnaryfirvöld eða -aðilar tilkynni a.m.k. eftirfarandi upplýsingar á rafrænu formi þegar unnt er:

i.

upplýsingar um skipið (nafn, IMO-auðkennisnúmer, kallmerki og fána),

ii.

upplýsingar um siglinguna (síðustu viðkomuhöfn, ákvörðunarhöfn),

iii.

lýsingu á greinilegum vanbúnaði um borð.

4. Siglingastofnun skal tryggja að gripið sé til viðeigandi aðgerða til eftirfylgni ef hafnsögumenn og hafnaryfirvöld eða -aðilar tilkynna um greinilegan vanbúnað og skal stofnunin skrá upplýsingar um þær aðgerðir sem gripið var til.

24. gr.

Skoðunargagnagrunnur.

1. Framkvæmdastjórnin skal þróa, viðhalda og uppfæra skoðunargagnagrunninn byggðan á sérfræðiþekkingu og reynslu sem fengist hefur á vettvangi Parísar­samkomulags­ins um hafnarríkiseftirlit.

Skoðunargagnagrunnurinn skal innihalda allar þær upplýsingar sem krafist er til fram­kvæmdar skoðunarkerfinu, sem sett er á laggirnar, samkvæmt þessari reglugerð, og skal fela í sér þá virkni sem mælt er fyrir um í XII. viðauka.

2. Siglingastofnun skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að upplýsingarnar um raunverulegan komutíma og raunverulegan brottfarartíma allra skipa, sem hafa viðkomu í höfnum og á akkerislægjum á Íslandi, ásamt auðkenni hlutaðeigandi hafnar, séu færðar inn í skoðunargagnagrunninn innan hæfilegra tímamarka fyrir milligöngu SafeSeaNet-kerfisins sem um getur í s-lið 3. gr. tilskipunar 2002/59/EB. Þegar stofnunin hefur fært þessar upplýsingar inn í skoðunargagnagrunninn, fyrir milligöngu SafeSeaNet-kerfisins, er hún undanþegin þeirri kvöð að leggja fram gögn í samræmi við málsgrein 1.2 og a- og b-lið 2. mgr. í XIV. viðauka við þessa reglugerð.

3. Siglingastofnun skal tryggja að upplýsingar um skoðanir í samræmi við reglugerð þessa, séu færðar inn í skoðunargagnagrunninn um leið og lokið hefur verið við að skrifa skoðunarskýrsluna eða farbanni verið aflétt.

Siglingastofnun skal tryggja að upplýsingarnar, sem færðar eru í skoð­unar­gagnagrunninn, séu fullgiltar til birtingar innan 72 klukkustunda.

4. Á grunni skoðunargagnanna, sem Siglingastofnun leggur fram, skal fram­kvæmda­stjórn ESB geta sótt í skoðunargagnagrunninn hvers konar gögn, sem varða fram­kvæmd þessarar reglugerðar, sérstaklega um áhættusnið skipsins, um skip sem komið er að skoðun hjá, um ferðir skipa og um skoðunarskyldur stofnunarinnar.

Siglingastofnun skal hafa aðgang að öllum upplýsingum sem skráðar eru í skoð­unar­gagnagrunninn og hafa þýðingu fyrir framkvæmd verklagsreglna um skoðun skv. reglugerð þessari.

Siglingastofnun og þriðju undirritunaraðilar að Parísarsamkomulaginu um hafnar­ríkis­eftirlit skulu fá aðgang að hvers konar gögnum, sem þau hafa skráð í skoðunar­gagnagrunninn, og að gögnum um skip sem sigla undir fána þeirra.

25. gr.

Upplýsingaskipti og samvinna.

Hafnaryfirvöld eða -aðilar og önnur viðeigandi yfirvöld eða aðilar sjái Siglingastofnun fyrir eftirtöldum tegundum upplýsinga sem þau hafa í fórum sínum:

i.

upplýsingar, sem tilkynnt er um í samræmi við 9. gr. og III. viðauka,

ii.

upplýsingar um skip þar sem farist hefur fyrir að tilkynna um hvers konar upplýsingar í samræmi við kröfur skv. reglugerð þessari og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/59/EB frá 27. nóvember 2000 um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi skipa og farmleifum og tilskipun 2002/59/EB og auk þess, ef við á, reglugerð (EB) nr. 725/2004,

iii.

upplýsingar um skip sem hafa haldið til hafs án þess að hafa uppfyllt ákvæði 7. eða 10. gr. tilskipunar 2000/59/EB,

iv.

upplýsingar um skip sem hefur verið meinaður aðgangur að höfn eða vísað frá höfn af verndarástæðum,

v.

upplýsingar um greinilegan vanbúnað í samræmi við 23. gr.26. gr.

Birting upplýsinga.

Framkvæmdastjórn ESB skal gera aðgengilegar og viðhalda á opinberu vefsetri upp­lýsingum um skoðanir, farbann og aðgangsbann, í samræmi við XIII. viðauka, þar sem byggt er á sérfræðiþekkingu og reynslu sem fengist hefur á vettvangi Parísar­samkomulags­ins um hafnarríkiseftirlit.

27. gr.

Birting skrár yfir félög með lélega og mjög lélega frammistöðu.

Framkvæmdastjórn ESB birtir reglulega á opinberu vefsetri upplýsingar, sem tengjast félögum sem teljast hafa lélega eða mjög lélega frammistöðu í þrjá mánuði eða lengur, með tilliti til mats á áhættusniði skips sem um getur í I. hluta I. viðauka.

Framkvæmdastjórn ESB samþykkir reglur um framkvæmd þessarar greinar, í samræmi við reglunefndarmeðferðina, þar sem tilgreindar eru aðferðir við birtinguna.

28. gr.

Gögn til að fylgjast með framkvæmd.

Siglingastofnun skal láta framkvæmdastjórn ESB í té upplýsingar, sem koma fram í XIV. viðauka, skv. þeim tímafresti sem þar segir.

29. gr.

Endurgreiðsla kostnaðar.

Ef útgerð skips, umboðsmaður þess eða skipstjóri sem, í samræmi við 14. gr., mun sæta víðtækri skoðun og er á leið til hafnar eða akkerislægis á Íslandi, uppfyllir ekki kröfur 9. gr. um tilkynningu skal hún greiða 5.000 evrur í sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði Siglingastofnunar við móttöku tilkynninga.

Sé lagt á farbann skv. 19. gr. skal allur kostnaður í tengslum við skoðanirnar falla á eiganda skipsins, útgerð þess eða fulltrúa hans á Íslandi og skal greiða kostnað vegna þess að fjárhæð 5.000 evrur. Farbanni skal ekki aflétt fyrr en full greiðsla hefur borist eða fullnægjandi tryggingar verið settar fyrir endurgreiðslu kostnaðar.

30. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt VII. kafla laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

31. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 1. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um hafnarríkiseftirlit með sjóflutningum, nr. 589/2003, með síðari breytingu, nr. 815/2004. Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/16/EB frá 23. apríl 2009 um hafnarríkiseftirlit.

Innanríkisráðuneytinu, 3. ágúst 2011.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica