Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

751/2003

Reglugerð um skráningu ökutækja.

I. KAFLI
Skráningarskylda.
1. gr.
Skráningarskyld ökutæki.

Skylt er að skrá bifreið, bifhjól, torfærutæki og dráttarvél áður en ökutækin eru tekin í notkun. Sama á við um eftirvagn bifreiðar eða dráttarvélar sem gerður er fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagn. Eigi þarf þó að skrá eftirvagn bifreiðar á beltum eða dráttarvélar sem nær eingöngu er notaður utan opinberra vega.

Eigandi ökutækis, innflytjandi, og eftir atvikum innlendur framleiðandi, bera ábyrgð á því að ökutæki sé skráð.


2. gr.
Notkun ökutækis án skráningar.

Óskráð ökutæki má nota til reynsluaksturs, vegna kynningarstarfsemi eða í sambandi við skráningu enda sé það merkt með reynslumerki. Misnotkun reynslumerkja varðar afturköllun á rétti til að nota þau.

Umferðarstofa setur verklagsreglur um notkun reynslumerkja.


3. gr.
Vátrygging og opinber gjöld.

Liggja skulu fyrir gögn um vátryggingu ökutækis og greiðslu opinberra gjalda til þess að:

1. skrá megi ökutæki,
2. skrá megi eigendaskipti að ökutæki,
3. afhenda megi að nýju skráningarmerki ökutækis sem verið hafa í vörslu Umferðarstofu, sbr. 16. gr.,
4. afhenda megi skoðunarmiða, sbr. 14. gr. og
5. afhenda megi reynslumerki til notkunar, sbr. 2. og 27. gr.

Gögn, sem liggja skulu fyrir samkvæmt 1. mgr., eru staðfesting þess að:

a. í gildi sé vátrygging fyrir ökutækið, sbr. reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 392/2003,
b. greitt hafi verið bifreiðagjald, sbr. lög um bifreiðagjald nr. 39/1988,
c. greitt hafi verið úrvinnslugjald, sbr. lög um úrvinnslugjald nr. 162/2002,
d. greiddur hafi verið þungaskattur, sbr. lög um fjáröflun til vegagerðar nr. 3/1987, og
e. greitt hafi verið vörugjald, sbr. lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.


II. KAFLI
Ökutækjaskrá og skráningarskírteini.
4. gr.
Ökutækjaskrá.

Umferðarstofa heldur ökutækjaskrá og annast aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað.

Í ökutækjaskrá skal færa upplýsingar um ökutækið og það skal skráð á nafn eiganda og eftir atvikum á nafn umráðamanns þess. Umráðamaður er sá sem á vegum eiganda ökutækis hefur varanleg umráð þess, t.d. samkvæmt eignarleigu- eða afnotasamningi í tiltekinn tíma.

Ökutækið fær í ökutækjaskrá fastanúmer, valið af handahófi, sem í eru tveir bókstafir og þrír tölustafir.

Beiðnir og tilkynningar til Umferðarstofu, sem varða skráningu ökutækja og umsýslu vegna ökutækjaskrár, skulu vera í því formi sem Umferðarstofa ákveður og á þeim eyðublöðum sem Umferðarstofa lætur í té, eftir atvikum með undirskrift eða rafrænni staðfestingu, sbr. verklagsreglur Umferðarstofu.

Umferðarstofa setur verklagsreglur um skráningu í ökutækjaskrá og útgáfu skráningarskírteinis.


5. gr.
Skráningarskírteini.

Umferðarstofa gefur út skráningarskírteini ökutækis sem skal vera í samræmi við tilskipun 1999/37/EB.

Umferðarstofu eða þeim sem hefur umboð hennar er heimilt að gefa út skráningarskírteini til bráðabirgða og skal þar tilgreina:

a. að skírteinið sé gefið út til bráðabirgða,
b. skilyrði útgáfu skráningarskírteinis og
c. eftir því sem við verður komið, þær upplýsingar sem koma fram í skráningarskírteini (fullnaðarskírteini).

Í skráðu ökutæki skal jafnan varðveitt skráningarskírteini eða eftir atvikum bráðabirgðaskráningarskírteini.


III. KAFLI
Skráning ökutækis.
6. gr.
Forskráning.

Innflytjandi skráningarskylds ökutækis skal afhenda Umferðarstofu eða þeim sem hefur umboð hennar gögn um ökutækið þegar það er flutt til landsins. Sama gildir um framleiðanda eða eiganda ökutækis sem framleitt er hér á landi. Ökutækið skal forskráð ef gögnin og aðrar upplýsingar, sem fyrir liggja, eru fullnægjandi og líkur á því að mati Umferðarstofu að ökutækið uppfylli settar reglur um gerð og búnað.

Innflytjandi ökutækis eða framleiðandi ökutækis, sem framleitt er hér á landi, skal tilgreindur við forskráningu. Heimilt er að tilgreina eiganda ökutækis sem er forskráð.


7. gr.
Nýskráning.

Eigandi og innflytjandi ökutækis eða eftir atvikum innlendur framleiðandi skulu óska eftir nýskráningu ökutækis.

Ökutæki skal hafa fengið viðurkenningu, sbr. reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 308/2003, áður en það er skráð.

Ökutæki skal hafa staðist skoðun fulltrúa eða samanburðarskoðun faggiltrar skoðunarstofu áður en það er skráð samkvæmt heildargerðarviðurkenningu eða gerðarviðurkenningu. Með skoðun skal athugað og staðfest hvort um rétt ökutæki sé að ræða og hvort upplýsingar um ökutækið við forskráningu séu réttar. Fulltrúi er sá sem Umferðarstofa hefur viðurkennt til þess að bera ábyrgð á heildargerðarviðurkenningu, gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja fyrir hönd innflytjanda eða framleiðanda ökutækis. Umferðarstofa kveður nánar á um skoðun fulltrúa og samanburðarskoðun í verklagsreglum.

Fulltrúi eða faggilt skoðunarstofa skal ganga úr skugga um áður en ökutæki er tekið í notkun að verksmiðjunúmer og skráningarmerki ökutækisins séu í samræmi við það sem skráð er í skráningarskírteini þess og réttur skoðunarmiði hafi verið límdur á skráningarmerki skoðunarskyldra ökutækja.


8. gr.
Skráning ökutækis til flutnings á hættulegum farmi.

Skráning ökutækis til flutnings á hættulegum farmi skal ekki fara fram nema fyrir liggi viðurkenning þess að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til slíks ökutækis, sbr. reglugerð um flutning á hættulegum farmi, nr. 984/2000, og reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Skrá skal fyrir hvaða hættulegan farm ökutækið er viðurkennt.


9. gr.
Afskráning.

Óski eigandi skráðs ökutækis þess að fá það afskráð, skal það því aðeins gert að:

a. ólíklegt megi telja að ökutækið verði tekið í notkun á ný og fyrir liggi vottorð um að ökutækið hafi verið móttekið til úrvinnslu,
b. ökutækið sé týnt,
c. ökutækið verði eða hafi verið flutt til annars lands eða
d. ökutækið sé orðið 25 ára og yfirlýsing liggi fyrir um að það verði varðveitt sem safngripur.

Umferðarstofu er heimilt að afskrá ökutæki án samþykkis eiganda ef staðfest er af þar til bærum aðila að:

a. ökutækið uppfylli ekki settar reglur um öryggisbúnað og vart sé talið mögulegt að koma því í lögmælt ástand og að fyrir liggi vottorð um að ökutækið hafi verið móttekið til úrvinnslu,
b. ökutækið sé týnt eða
c. ökutækið verði eða hafi verið flutt til annars lands.

Tilkynna skal eiganda ökutækis um fyrirhugaða afskráningu, samkvæmt a lið 2. mgr., og hefur hann mánuð til að koma að mótbárum.

Upplýsingar um afskráð ökutæki eru varðveittar hjá Umferðarstofu.


10. gr.
Endurskráning.

Heimilt er að beiðni eiganda að endurskrá ökutæki sem hefur verið afskráð nema það hafi verið afskráð til úrvinnslu.

Ökutæki skal hafa staðist skráningarskoðun, sbr. reglugerð um gerð og búnað ökutækja, áður en það er skráð.

Komi í ljós að um er að ræða endurbyggt ökutæki sem að mati Umferðarstofu jafngildir nýju ökutæki, ber að skrá það sem nýtt ökutæki enda hafi það staðist skráningarskoðun, sbr. 2. mgr.


IV. KAFLI
Breytingar á skráningu o.fl.
11. gr.
Breyting á ökutæki.

Ökutæki skal fært til skoðunar hjá faggiltri skoðunarstofu innan 7 daga ef:

a. búnaður þess er ekki lengur í samræmi við skráðan ökutækisflokk, sbr. 1. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja,
b. ökutækinu eða notkun þess hefur verið breytt frá því sem tilgreint er í skráningarskírteini eða
c. á eða við ökutækið hefur verið festur búnaður sem gerir nauðsynlegt að breyta skráningu.

Skoðunarstofa skal samdægurs senda Umferðarstofu tilkynningu um breytingu.

Heimilt er að skrá breytingu á notkunarflokki ökutækis án skoðunar á faggiltri skoðunarstofu ef engin breyting hefur verið gerð á ökutækinu eða búnaði þess.

Fulltrúi getur óskað eftir skráningu á tengibúnaði sem er gerðarviðurkenndur, sbr. reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Fulltrúi skal skoða tengibúnaðinn og festingu hans við ökutækið áður en búnaðurinn er skráður og með þeim hætti sem kveðið er á um í verklagsreglum Umferðarstofu.

Umferðarstofa gefur út nýtt skráningarskírteini fyrir ökutæki að lokinni skráningu á breytingu.


12. gr.
Eigendaskipti.

Við eigendaskipti að ökutæki skulu fyrri og nýi eigandinn innan 7 daga senda Umferðarstofu eða þeim sem hefur umboð hennar tilkynningu um eigendaskiptin. Einnig skal tilkynnt um nýjan umráðamann ökutækisins.

Umferðarstofa gefur út nýtt skráningarskírteini fyrir ökutækið að lokinni skráningu eigendaskipta.


13. gr.
Tímabundin stöðvun á notkun ökutækis.

Lögreglan skal taka skráningarmerki af ökutæki:

a. ef ökutæki er til hættu fyrir umferðaröryggi,
b. ef ökutæki er skráð úr umferð í ökutækjaskrá,
c. ef bifreið er metin sem tjónabifreið, sbr. reglugerð um gerð og búnað ökutækja,
d. þegar lögreglustjóri, sbr. reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, hlutast til um að skráningarmerki séu tafarlaust tekin af ökutækinu vegna þess að fullnægjandi vátrygging er ekki fyrir hendi,
e. hafi bifreiðagjald ekki verið greitt, sbr. lög um bifreiðagjald eða
f. hafi gjöld af henni ekki verið greidd á réttum gjalddaga, sbr. lög um fjáröflun til vegagerðar.

Lögreglan getur tekið skráningarmerki af ökutæki ef:

a. vanrækt hefur verið að tilkynna eigendaskipti að ökutæki eða
b. ökutækið er ekki fært til skoðunar þegar krafist er.

Lögreglan skal samdægurs tilkynna Umferðarstofu um bann við notkun ökutækis.


14. gr.
Ökutæki skráð tímabundið úr notkun að ósk eiganda (umráðamanns).

Óski eigandi (umráðamaður) ökutækis þess að mega taka ökutækið tímabundið úr notkun, skal hann senda tilkynningu þess efnis til Umferðarstofu sem skráir ökutækið úr umferð í ökutækjaskrá og er þá óheimilt að nota það. Skal annað hvort taka skráningarmerki af ökutækinu og afhenda þau, sbr. 16. gr., eða setja yfir skoðunarmiða merkisins miða frá Umferðarstofu með áletrun um að notkun ökutækisins sé bönnuð.

Óski eigandi (umráðamaður) þess að mega taka ökutæki aftur í notkun skal senda tilkynningu þess efnis til Umferðarstofu sem skráir ökutækið í notkun á ný að fullnægðum skilyrðum 3. gr. Óheimilt er að nota ökutækið fyrr en skráningarmerki hafa verið sett aftur á það eða skoðunarmiði frá Umferðarstofu, sem er í samræmi við gilda skoðun ökutækisins, hefur verið settur yfir miða um að notkun þess sé bönnuð.


15. gr.
Tilkynning um tjónabifreið.

Tollstjóri, lögregla og vátryggingafélög skulu tilkynna Umferðarstofu um bifreið sem upplýsingar liggja fyrir um að skemmst hafi það mikið að hún sé talin vera tjónabifreið, sbr. skilgreiningu í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Sömu aðilar skulu, ef aðstæður leyfa, sjá til þess að skráningarmerki verði tekin af bifreiðinni.


16. gr.
Geymsla og förgun skráningarmerkja.

Skráningarmerki, sem tekin eru af ökutæki samkvæmt 9., 13., 14., 15., 35. og 36. gr., skulu svo fljótt sem verða má afhent Umferðarstofu eða þeim sem hefur umboð hennar.

Óski skráður eigandi (umráðamaður) ökutækis þess að merkja ökutækið með skráningarmerkjum af annarri gerð en það hefur verið merkt með, sbr. 18.-24. gr. (almenn skráningarmerki), 26. gr. (einkamerki) og 28.-31. gr. (skráningarmerki samkvæmt eldri reglugerðum), skal hann skila fyrri merkjunum til Umferðarstofu eða þess sem hefur umboð hennar um leið og hann fær hin nýju afhent.

Farga má skráningarmerkjum, sbr. 1. og 2. mgr., svo og öðrum skráningarmerkjum sem eru í vörslu Umferðarstofu eða þess sem hefur umboð hennar þegar merkin hafa verið geymd í ár. Þó skal farga merkjunum strax við móttöku þeirra þegar ökutæki er afskráð eða skráningarflokki þess breytt.

Heimilt er að afhenda skráningarmerki sem safngrip, sbr. nánar verklagsreglur Umferðarstofu, en óheimilt að setja merkið á ökutæki.


V. KAFLI
Almenn skráningarmerki - fastanúmer ökutækis.
17. gr.
Skráningarmerki ökutækja.

Skráð ökutæki skal merkt með skráningarmerki sem Umferðarstofa lætur í té. Stafir á merkinu skulu vera þeir sömu og eru í fastanúmeri ökutækisins, sbr. þó 25.-27. gr. og 29.-31. gr.

Ökutæki, sem bera sömu stafi á skráningarmerki og eru í fastanúmeri, skulu merkt með sama skráningarmerki meðan þau eru í sama skráningarflokki í ökutækjaskrá. Breytist forsendur skráningar þannig að ökutæki sé flutt milli skráningarflokka, skal skipta um skráningarmerki á því.


18. gr.
Gerð skráningarmerkja.

Skráningarmerki skal vera úr a.m.k. 1,0 mm þykku áli.

Litur:
Grunnur skráningarmerkis skal vera hvítur með endurskini og stöfunum ÍS í vatnsmerki. Rönd á brúnum, stafir og bandstrik skulu vera blá. Frávik frá þessari litasamsetningu eru skv. 2. mgr. 19. gr., 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 22. gr.

Stærð:
A: 520 x 110 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.
B: 280 x 200 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.
C: 240 x 130 mm, hæð stafa 49 mm og breidd stafleggja 7 mm.
D: 305 x 155 mm, hæð stafa 61 mm og breidd stafleggja 9 mm.

Áletrun:
Skráningarmerki af gerð A skulu hafa áletrun í einni röð. Skráningarmerki af gerð B, C og D skulu hafa áletrun í tveim röðum, bókstafi auk bandstriks í þeirri efri og tölustafi í þeirri neðri.

Upplyftir fletir:
Stafir, bandstrik þar sem það á við, rönd á brúnum, svo og flötur fyrir skoðunarmiða þeirra ökutækja sem færa skal til almennrar skoðunar, skulu vera upplyft.

Flötur fyrir skoðunarmiða - skoðunarmiði:
Flötur fyrir skoðunarmiða skal vera aftan við bókstafi nema á skráningarmerkjum af gerð B þar sem flöturinn skal vera framan við tölustafi. Umferðarstofa setur nánari verklagsreglur um skoðunarmiða og gerð hans.

Þjóðarmerki:
Framan við bókstafi á skráningarmerkjum af gerð A, B og D skal áprentað þjóðarmerki á hvítum grunni sem skal vera 95 mm á hæð og 50 mm á breidd. Íslenski fáninn, 30 x 42 mm, skal vera á efri hluta merkisins en stafirnir IS, svartir að lit, á neðri hlutanum. Hæð stafanna skal vera 27 mm. Sjá 28. gr. um þjóðarmerki á eldri gerð merkja. Þjóðarmerki skal ekki vera á skráningarmerkjum bifreiða sem tilgreindar eru í 2. mgr. 19. gr. Í stað þess skal vera tígullaga flötur.


19. gr.
Skráningarmerki á bifreið.

Bifreið skal merkt að framan og aftan með skráningarmerkjum af gerð A. Nota má skráningarmerki af gerð B, henti ekki merki af gerð A og merki af gerð D ef merkjum af gerð A og B verður ekki með góðu móti komið fyrir.

Frávik frá 1. mgr. varðandi lit á skráningarmerki:

a. Á skráningarmerkjum bifreiðar, sem lýtur reglum um innskatt vegna virðisaukaskatts, sbr. reglugerð um innskatt nr. 192/1992, skulu brúnir, stafir, bandstrik og tígullaga flöturinn vera rauð.
b. Á skráningarmerkjum sérbyggðrar keppnisbifreiðar til rallaksturs, sem hefur verið undanþegin álagningu vörugjalds, sbr. reglugerð um vörugjald af ökutækjum, námubifreiðar og beltabifreiðar, skulu brúnir, stafir, bandstrik og tígullaga flöturinn vera græn.


20. gr.
Skráningarmerki á bifhjóli.

Bifhjól skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð C. Á léttu bifhjóli skal grunnur merkisins þó vera blár en rönd á brúnum, stafir og bandstrik hvít.


21. gr.
Skráningarmerki á dráttarvél.

Dráttarvél skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð C en að framan ef merkinu verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan. Nota má merki af gerð A (án þjóðarmerkis) ef dráttarvél er hönnuð þannig að merki af gerð C verði ekki með góðu móti komið fyrir.


22. gr.
Skráningarmerki á torfærutæki.

Torfærutæki skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð C með því fráviki að grunnur skráningarmerkisins skal vera rauður og rönd á brúnum, stafir og bandstrik hvít. Merkið má vera að framan eða á hlið ef því verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan.


23. gr.
Skráningarmerki á eftirvagni eða skráðu tengitæki.

Skráður eftirvagn og skráð tengitæki skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð A. Verði því ekki með góðu móti komið fyrir, skal nota skráningarmerki af gerð B eða D.


24. gr.
Skráningarmerki fyrir óskráð ökutæki sem bifreið dregur.

Dragi bifreið, sem á er skráður tengibúnaður, ökutæki, sem ekki er skráningarskylt og skyggir á skráningarmerki bifreiðarinnar, skal merkja það að aftan með skráningarmerki af gerð A, B eða D með því fráviki að merkið skal vera án litaðra, upplyftra brúna og án upplyfts flatar fyrir skoðunarmiða. Skráningarmerkið skal vera með sömu áletrun og sama lit og skráningarmerki bifreiðarinnar.


VI. KAFLI
Almenn skráningarmerki - önnur áletrun en fastanúmer.
25. gr.
Ökutæki erlendra sendiráða.

Ökutæki erlendra sendiráða og einnig erlendra sendiráðsmanna, maka þeirra og barna, sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar og eiga ekki lögheimili hér á landi, skulu vera merkt með skráningarmerki samkvæmt 18. gr. með eftirgreindum frávikum:

a. Ekki skal vera þjóðarmerki.
b. Grunnur skal vera grænn en stafir og rönd á brúnum hvít.
c. Á merkinu skulu vera bókstafirnir CD og aftan við þá bókstafur og tveir tölustafir, sbr. nánar verklagsreglur Umferðarstofu.


26. gr.
Einkamerki.

Að ósk eiganda (umráðamanns) bifreiðar eða bifhjóls er heimilt að veita honum rétt gegn sérstöku gjaldi, sbr. 64. gr. a umferðarlaga, til að velja bókstafi og tölustafi á skráningarmerki (einkamerki) ökutækisins sem komi í stað skráningarmerkis samkvæmt 18.-20. gr. Einkamerki skal þó ekki vera á bifreiðum sem tilgreindar eru í 2. mgr. 19. gr.

Gerð einkamerkis skal vera samkvæmt 18. gr. með eftirgreindum frávikum:

a. Áletrun einkamerkis skal vera 2–6 íslenskir bókstafir eða tölustafir að vali eiganda (umráðamanns) ökutækisins. Á einkamerki má þó hvorki vera áletrun sem í eru tveir bókstafir og þrír tölustafir né sama áletrun og er á skráningarmerki af eldri gerð í notkun.
b. Þjóðarmerki skal ekki vera á einkamerki.
c. Áletrun einkamerkis má hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera líkleg til að valda hneykslun.

Umferðarstofa kveður nánar á um áletrun einkamerkis í verklagsreglum.

Eftirfarandi reglur gilda um réttinn til þess að nota einkamerki:

a. Sá sem hefur rétt til að nota einkamerki, skal vera skráður eigandi eða umráðamaður viðkomandi bifreiðar eða bifhjóls.
b. Við úthlutun einkamerkis skal farið eftir röð, þannig að sá sem fyrst sækir um tiltekna áletrun hlýtur réttinn.
c. Réttur til að nota einkamerki með tiltekinni áletrun á ökutæki gildir í átta ár.
Réttinn má endurnýja enda sé sótt um það áður en gildistíminn rennur út en þó ekki fyrr en þrem mánuðum áður.
d. Heimilt er að beiðni eiganda (umráðamanns) að skrá (flytja) einkamerki yfir á annað ökutæki í hans eigu.
e. Sé rétti til einkamerkis afsalað áður en 8 ára gildistíminn rennur út, skal skila einkamerkjunum, sbr. 16. gr. Má þá úthluta einkamerkinu á ný gegn sérstöku gjaldi, sbr. 1. mgr.


27. gr.
Reynslumerki.

Reynslumerki ökutækja skal vera samkvæmt 18. gr. með eftirgreindum frávikum:

a. án þjóðarmerkis,
b. með rauðan grunn,
c. með svarta rönd á brúnum og svarta stafi og
d. með bókstafina RN, og aftan við þá tölustafi.

Ökutæki sem er merkt með reynslumerki skal fylgja skrifleg heimild Umferðarstofu eða þess sem hefur umboð hennar þar sem tilgreind eru skilyrði notkunar.

Á reynslumerki skal festa miða er sýnir leyfilegan notkunartíma merkisins og ákveður Umferðarstofa gerð miðans.


VII. KAFLI
Skráningarmerki samkvæmt eldri reglugerðum - notkun þeirra.
28. gr.
Ökutæki skráð fyrir 1. janúar 2004.

Ökutæki, skráð frá 1. janúar 1989 til og með 31. desember 2003, mega vera merkt með skráningarmerkjum af eldri gerð, samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 78/1997, í stað skráningarmerkja samkvæmt 18. gr. reglugerðar þessarar, enda séu merkin heil og vel læsileg.

Heimild 1. mgr. er þó bundin eftirfarandi skilyrði: Á upplyftan flöt framan við bókstafi á almennu skráningarmerki af gerð A, B og D, sem ætlaður er fyrir skjaldarmerki, skal setja límmiða sem þjóðarmerki er prentað á. Límmiðinn skal vera 66 mm á hæð og 37 mm á breidd. Íslenski fáninn, 24 x 33 mm, skal vera á efri hluta þjóðarmerkisins en stafirnir IS á neðri hlutanum. Hæð stafanna skal vera 21 mm.


29. gr.
Ökutæki skráð fyrir 1. janúar 1989.

Ökutæki, skráð fyrir 1. janúar 1989, mega vera merkt með skráningarmerki af eldri gerð sem heimilt var að nota á þeim tíma enda séu merkin heil og vel læsileg. Það er skilyrði að á skoðunarskyldum ökutækjum sé framrúða þar sem festa má skoðunarmiða.

Torfærutæki má bera skráningarmerki sem það var merkt með við gildistöku reglugerðar nr. 78/1997 og til 31. desember 2007.


30. gr.
Fornbifreiðir.

Fornbifreið, sbr. skilgreiningu um gerð og búnað ökutækja, má merkja með skráningarmerkjum af eldri gerð, sem voru notuð til og með 1988, í stað skráningarmerkja samkvæmt 18. gr. Umferðarstofa kveður í verklagsreglum á um gerð og áletrun eldri merkjanna með hliðsjón af aldri bifreiðarinnar og gildandi reglum á sínum tíma.


31. gr.
Bifhjól og dráttarvélar sem eru a.m.k. 25 ára.

Bifhjól og dráttarvélar sem eru a.m.k. 25 ára má merkja með skráningarmerki, sem notað var á tímabilinu 1950-1980, í stað skráningarmerkja samkvæmt 18. gr. Umferðarstofa kveður í verklagsreglum á um gerð og áletrun eldri merkjanna með hliðsjón af aldri ökutækjanna og gildandi reglum á sínum tíma.


VIII. KAFLI
Sérstök skráningarmerki.
32. gr.
Ökutæki embættis forseta Íslands.

Ökutæki embættis forseta Íslands mega vera auðkennd með merki forseta Íslands á hvítum fleti auk númers í stað skráningarmerkis samkvæmt 18. gr.


33. gr.
Skammtímaskráningarmerki.

Heimilt er að merkja tímabundið með sérstöku skammtímaskráningarmerki skráð ökutæki sem er án skráningarmerkja og ökutæki sem hefur verið afskráð og færa skal til endurskráningar.

Umferðarstofa kveður í verklagsreglum á um skilyrði þess að nota megi skammtímaskráningarmerki og um gerð merkisins.


34. gr.
Önnur merki.

Heimilt að auðkenna ökutæki að aftan með íslensku þjóðernismerki ef það er ekki merkt með skráningarmerki sem á er þjóðarmerki, sbr. 18. eða 28. gr.

Þjóðernismerkið skal vera sporöskjulaga, 175 mm á breidd og 115 mm á hæð, með bókstöfunum IS. Grunnur merkisins skal vera hvítur og stafir svartir, 80 mm á hæð.

Ökutæki, sem skráð er hér á landi og ekið erlendis, skal merkt annað hvort með þjóðarmerki samkvæmt 18. gr., þjóðarmerki samkvæmt 28. gr. eða að aftan með þjóðernismerki samkvæmt 1. mgr.


IX. KAFLI
Notkun skráningarmerkja.
35. gr.

Skráningarmerki skal komið fyrir á þar til gerðum fleti þar sem það sést vel og er tryggilega fest. Merkið skal vera í lóðréttri eða sem næst lóðréttri stöðu og hornrétt á lengdarás ökutækisins. Óheimilt er að hylja skráningarmerkið eða hluta þess með nokkrum hætti eða koma fyrir búnaði sem skyggir á það. Heimilt er þó að hafa skráningarmerkið í þar til gerðum ramma. Hylji ramminn rönd merkisins skal hann vera svartur eða hafa sama lit og stafir merkisins.

Skrúfur, sem notaðar eru til að festa skráningarmerki, má ekki setja þannig að dragi úr því að lesa megi á merkið. Haus skrúfunnar skal, ef unnt er, hulinn með hettu eftir því sem við á, í sama lit og grunnur merkisins eða stafir.

Skráningarmerki skal ávallt vera sýnilegt og vel læsilegt. Skylt er að endurnýja skráningarmerki ef það verður ógreinilegt eða ónothæft. Þegar nýtt skráningarmerki er afhent í stað annars skal skila eldra merkinu, sbr. 16. gr.

Skráningarmerki og önnur merki, sem ætluð eru á ökutæki, má eigi nota með öðrum hætti en fyrir er mælt.

Óheimilt er að festa á ökutæki merki, áletranir eða önnur auðkenni ef hætta er á að villst verði á þeim og merkjum sem nota skal samkvæmt reglugerð þessari.

Óheimilt er að festa á skráningarmerki önnur merki eða áletranir en ákveðið er í reglugerð þessari.


36. gr.

Glatist skráningarmerki, skal það strax tilkynnt skriflega til Umferðarstofu eða aðila í umboði hennar og nýtt skráningarmerki pantað. Finnist skráningarmerki, skal því skilað, sbr. 16. gr., svo fljótt sem við verður komið.

Ekki skal afhenda fleiri en eitt skráningarmerki í stað merkja sem glatast hafa af sama ökutæki á tveggja ára tímabili heldur skal ökutækið fá ný skráningarmerki með nýrri áletrun, sbr. 3. mgr. 4. gr. Ákvæði þetta á ekki við um einkamerki.


X. KAFLI
Gildistaka.
37. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 60., 64. gr. a og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50 frá 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2000/53/EB, sem vísað er til í XX. viðauka við EES samninginn nr. 32 db, sbr. ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 162/2001, eins og hún er birt í EBE viðauka nr. 13, 7. mars 2002.

Reglugerð þessi tekur þegar gildi, þó ekki 18. gr., 2. mgr. 28. gr., og 3. mgr. 34. gr., að því er varðar þjóðarmerki samkvæmt 18. og 28. gr., sem tekur gildi 1. febrúar 2004. Jafnframt fellur þegar úr gildi reglugerð nr. 78/1997 með síðari breytingum, þó ekki 13. gr. sem fellur úr gildi 1. febrúar 2004.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 6. október 2003.

Björn Bjarnason.
Björn Friðfinnsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica