Menntamálaráðuneyti

487/1995

Reglugerð um skipan Rannsóknarráðs Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Menntamálaráðherra skipar ellefu aðalmenn og jafn marga varamenn til setu í Rannsóknarráði Íslands til þriggja ára í senn, samkvæmt eftirfarandi ákvæðum:
a) Þrír aðalmenn og þrír varamenn eru skipaðir úr hópi er tilnefna skal þannig:
1. Sex tilnefndir af Háskóla Íslands.
2. Einn tilnefndur af Háskólanum á Akureyri.
3. Einn tilnefndur af Kennaraháskóla Íslands.
4. Einn tilnefndur í sameiningu af Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni, Lista-safni Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskjala-safni Íslands.
5. Einn tilnefndur af Vísindafélagi Íslendinga.

Menntamálaráðherra leitar eftir tilnefningum samkvæmt liðum 1-5, hér að ofan. Skal tilnefning samkvæmt fjórða lið ákveðin á fundi sem menntamálaráðherra boðar og skal kveðja þangað einn fulltrúa frá hverri stofnun.
b) Þrír aðalmenn og þrír varamenn eru skipaðir úr hópi er tilnefna skal þannig:
1. Níu eru tilnefndir af rannsóknarstofnunum atvinnuveganna og annarra rannsóknarstofnana utan verksviðs menntamálaráðuneytis. Tilnefning þeirra skal ákveðin á fundi sem menntamálaráðherra boðar og skal kveðja þangað einn fulltrúa frá hverri eftirtalinna stofnana:

 • Hafrannsóknastofnunin,
 • Iðntæknistofnun Íslands,
 • Náttúrufræðistofnun Íslands,
 • Orkustofnun,
 • Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins,
 • Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins,
 • Rannsóknastofnun landbúnaðarins,
 • Skógrækt ríkisins,
 • Veðurstofa Íslands,
 • Veiðimálastofnun.

2. Einn skal tilnefndur af hvorum eftirtalinna aðila:

 • Læknaráði Landspítalans,
 • Læknaráði Borgarspítalans.

Menntamálaráðherra leitar eftir þessum tilnefningum.
c) Þrír aðalmenn og þrír varamenn eru skipaðir úr hópi er tilnefna skal þannig: Fimm eru tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands og fimm eru tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands.
Menntamálaráðherra leitar eftir þessum tilnefningum.
d) Tveir aðalmenn og tveir varamenn án tilnefningar að höfðu samráði við ríkisstjórn.

Við tilnefningu til setu í Rannsóknarráði Íslands skal velja einstaklinga, sem hafa þekkingu á vísindalegum rannsóknum, yfirsýn yfir rannsóknir í landinu og eru hæfir til þess að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu. Þeir sem skipaðir eru til setu í Rannsóknarráði Íslands eru ekki fulltrúar þeirra stofnana er tilnefna þá heldur fulltrúar vísinda- og tæknisamfélagsins alls.

Við val einstaklinga til setu í Rannsóknarráði Íslands ber ráðherra að tryggja að jafnvægi sé á milli vísinda, tækni og nýsköpunar og skal þess gætt að sjónarmið atvinnulífs komi fram í ráðinu.

2. gr.

Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi hinna skipuðu.

3. gr.

Framangreindir fundir þar sem tilnefndir skulu fulltrúar í Rannsóknarráð Íslands eru lögmætir ef 2/3 boðaðra fulltrúa sækja þá. Afl atkvæða ræður kjöri, en hlutkesti ef atkvæði falla jöfn.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 44/1995 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 374/1994 um skipan Rannsóknarráðs Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

Með vísun til bráðabirgðaákvæðis laga nr. 44/1994 um breytingu á lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, kemur c liður 1. gr. í þessari reglugerð til framkvæmda frá og með 5. ágúst 1997, þegar starfstími þess Rannsóknarráðs sem skipað var 1994, rennur út.

>Eftirfarandi skipan skal gilda uns c liður 1. gr. í þessari reglugerð kemur að fullu til framkvæmda: Menntamálaráðherra skipar einn aðalmann og einn varamann úr hópi fjögurra einstaklinga sem Alþýðusamband Íslands tilnefnir og einn aðalmann og einn varamann úr hópi fjögurra einstaklinga sem Vinnuveitendasamband Íslands tilnefnir.

Menntamálaráðherra leitar eftir þessum tilnefningum. Skal skipun þeirra gilda uns starfstíma þess Rannsóknarráðs sem nú situr, rennur út. Frá og með þeim degi fellur niður bráðabirgðaákvæði þessarar reglugerðar.

Menntamálaráðuneytið, 29. ágúst 1995.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica