Leita
Hreinsa Um leit

Menntamálaráðuneyti

388/1995

Reglugerð um Kvikmyndaskoðun. - Brottfallin

1. gr.

Kvikmyndaskoðun starfar samkvæmt lögum nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

Skoðun kvikmynda fer fram í Reykjavík, nema leyfð hafi verið skoðun annars staðar.

2. gr.

Kvikmyndaskoðun úrskurðar að hvers kyns dreifing kvikmyndar, þ.m.t. sýning, sala, leiga eða útlán sé bönnuð hér á landi, teljist kvikmyndin ofbeldiskvikmynd í skilningi laga nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

Þá úrskurðar Kvikmyndaskoðun hvort takmarka skuli dreifingu kvikmyndar miðað við tiltekið aldursmark teljist kvikmyndin að mati Kvikmyndaskoðunar geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna, sjá 3. gr.

Úrskurðir Kvikmyndaskoðunar eru endanlegir. Ef sérstök ástæða þykir til er Kvikmyndaskoðun heimilt að meta að nýju sýningarhæfni kvikmyndar sem áður hefur verið metin.

3. gr.

Telji skoðunarmenn Kvikmyndaskoðunar að takmarka skuli aðgang barna að kvikmynd úrskurðar Kvikmyndaskoðun að bannað skuli að sýna myndina börnum innan tiltekinna aldursmarka. Um sýningar í kvikmyndahúsum skal miða við eftirtalin aldursmörk eftir mati skoðunarmanna: 10 ár, 12 ár, 14 ár eða 16 ár. Um dreifingu á myndböndum skal miða við aldursmörkin 12 ár eða 16 ár. Ef atriði í kvikmynd, sem ekki sætir aðgangstakmörkun, gætu hugsanlega vakið ótta ungra barna skal auðkenna slíka kvikmynd með sérstakri viðvörun.

Heimilt er Kvikmyndaskoðun að ákveða sérstök aldursmörk fyrir mismunandi myndmiðla.

4. gr.

Markmið með skoðun kvikmynda hjá Kvikmyndaskoðun er að meta hvort kvikmyndin teljist ofbeldiskvikmynd í skilningi laga nr. 47/1995 og hvort kvikmyndin sé við hæfi barna, sbr. 2. gr.

Þeim aðilum, sem framleiða kvikmyndir hér á landi, flytja þær til landsins eða ætla að sýna, dreifa eða selja kvikmyndir hérlendis, er skylt að koma kvikmynd til skoðunar hjá Kvikmyndaskoðun og er sala, dreifing eða sýning kvikmyndar óheimil nema fyrir liggi skoðunarvottorð Kvikmyndaskoðunar, sjá þó 5. gr. laga nr. 47/1995 að því er varðar kvikmyndir í sjónvarpi.

Tveir fulltrúar sem skipaðir hafa verið af menntamálaráðherra í Kvikmyndaskoðun skulu skoða hverja kvikmynd. Greini þá á getur forstöðumaður Kvikmyndaskoðunar kvatt hinn þriðja til og ræður þá meiri hluti skoðunarmanna.

Kvikmyndaskoðun gefur út skriflegt vottorð um að skoðun hafi farið fram. Skal það látið skoðunarbeiðanda í té að afgreiðslu lokinni gegn greiðslu gjalds, sbr. 6. gr.

Þegar um skoðun kvikmyndar á myndbandi er að ræða fær skoðunarbeiðandi auk vottorðs einnig afhentan tiltekinn fjölda límmiða og skal þar koma fram aldursmark ef úrskurðuð er takmörkun skv. 3. gr., svo og skráningarnúmer viðkomandi kvikmyndar hjá Kvikmyndaskoðun. Límmiða þessa skal skoðunarbeiðandi í umboði Kvikmyndaskoðunar koma fyrir á sérhverri myndbandsspólu og kápu, þannig að fullljóst megi vera að skoðun á vegum Kvikmyndaskoðunar hafi farið fram. Skoðunarbeiðandi ber ábyrgð á því að öll eintök myndbandsútgáfu kvikmyndarinnar séu þannig merkt áður en þau koma til almennrar dreifingar.

Aðrir skoðunarmenn en þeir sem upphaflega skoða kvikmynd geta ef svo ber undir farið á almenna sýningu kvikmyndarinnar endurgjaldslaust gegn framvísun skilríkja, enda sé þá um faglega nauðsyn að ræða að mati forstöðumanns og samkomulag um framkvæmd við eigendur kvikmyndahúss.

5. gr.

Kvikmyndaskoðun kveður upp úrskurði sína svo fljótt sem unnt er, sbr. 2. gr. og 3. gr. Úrskurðir Kvikmyndaskoðunar skv. 2. gr. skulu vera skriflegir og skal fylgja þeim rökstuðningur þar sem koma fram þau meginsjónarmið sem úrskurðurinn byggist á. Úrskurðir Kvikmyndaskoðunar skulu kynntir aðilum sem hlut eiga að máli og vera almenningi aðgengilegir.

Kvikmyndaskoðun gefur a.m.k. tvisvar á ári út heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir þar sem fram kemur mat á sýningarhæfni þeirra. Kvikmyndaskoðun skal sjá til þess að yfirlit þessi séu almenningi aðgengileg.

Kvikmyndaskoðun annast heildarskráningu á kvikmyndum sýndum í kvikmyndahúsum og útgefnum á myndbandamarkaði.

6. gr.

Fyrir skoðun kvikmynda á myndböndum skulu skoðunarbeiðendur greiða gjald í ríkissjóð vegna kostnaðar við skoðun kvikmynda. Gjald þetta skal miðast við lengd hverrar kvikmyndar þannig að fast gjald, kr. 1 700, greiðist fyrir hverja skoðun auk kr. 57 fyrir hverja mínútu kvikmyndarinnar og merkingu allt að 150 eintaka af hverri kvikmynd. Gjaldið hækkar sem nemur kr. 2,50 fyrir hvern merkimiða umfram þann fjölda.

Fyrir skoðun kvikmynda í kvikmyndahúsi skal sá er skoðunar beiðist greiða gjald í ríkissjóð, kr. 5 500. Fari skoðun fram utan venjulegs dagvinnutíma skal greiða eitt og hálft gjald fyrir skoðun og tvöfalt gjald fari skoðun fram að nóttu til eða um helgi.

Fjárhæðir skv. 1. og 2. mgr. eru miðaðar við vísitölu neysluverðs 172.1 stig og taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölunni í janúar, apríl, júlí og október ár hvert.

Nú hefur kvikmynd, sem dreifa skal til almennings á myndbandi, verið áður skoðuð í kvikmyndahúsi og skal þá skoðunarbeiðandi einvörðungu greiða mínútugjald, kr. 57, fyrir hverja mínútu myndarinnar skv. 1. mgr. vegna skoðunar og skráningar kvikmyndarinnar. Ekki er áskilið að tveir skoðunarmenn skoði kvikmynd þegar svo stendur á ef forstöðumaður metur það svo.

Fyrir endurmat á sýningarhæfni kvikmyndar skv. 3. mgr. 2. gr. skal ekki greiða skoðunargjald.

7. gr.

Þóknunargreiðslur til nefndarmanna í Kvikmyndaskoðun og þóknun til forstöðumanns vegna umsjónarstarfa skal ákveðin af menntamálaráðherra.

8. gr.

Aðilum skv. 2. mgr. 4. gr. rg. þessarar er skylt að sjá til þess að á öllum eintökum hinnar skoðuðu kvikmyndar sé merki Kvikmyndaskoðunar þar sem mat á sýningarhæfni kemur fram.

Dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda skulu láta niðurstöður Kvikmyndaskoðunar fylgja öllum auglýsingum og kynningu á kvikmyndum í fjölmiðlum. Stefnt skal að því að mat Kvikmyndaskoðunar á sýningarhæfni kvikmyndar birtist á skjámynd áður en sýning hennar hefst, hvort sem er í kvikmyndahúsi eða í öðrum myndmiðlum. Allt kynningarefni svo sem efni auglýsingar, tónlistarmyndbönd og sýnishorn úr öðrum kvikmyndum, sem fylgir sýningu aðalmyndar í kvikmyndahúsi eða útgáfu hennar á myndbandi skal vera í samræmi við aldursmark þeirrar kvikmyndar.

Forstöðumaður kvikmyndahúss ber ábyrgð á að úrskurði Kvikmyndaskoðunar um aldursmörk sé framfylgt og breytir engu þó að barn sé í fylgd þeirra sem heimild hafa til að sjá kvikmyndina.

Óheimilt er að leigja, lána eða selja börnum eintak kvikmyndar, ef hún er bönnuð börnum á viðkomandi aldri. Hver sá sem rekur myndbandaleigu ber ábyrgð á að úrskurði Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt í hvívetna.

Barnaverndarnefndir og löggæslumenn skulu hafa reglubundið eftirlit með því, að úrskurðum Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt og að aðeins séu til dreifingar, sýningar, sölu eða leigu kvikmyndir, sem Kvikmyndaskoðun hefur skoðað og heimilað dreifingu á.

9. gr.

Sjónvarpsstöðvar sem leyfi hafa til útvarps skv. útvarpslögum nr. 68/1985 annast skoðun kvikmynda, sem þær sýna, að höfðu samráði við Kvikmyndaskoðun. Menntamálaráðherra getur þó ákveðið, að tiltekin kvikmynd skuli skoðuð af Kvikmyndaskoðun, sem hefur þá úrskurðarvald um það hvort myndin brjóti gegn ákvæðum laga nr. 47/1995.

10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar refsingu samkvæmt 10. gr. laga nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Heimilt er að gera upptankar kvikmyndir ef sýning, dreifing eða sala þeirra fer í bága við ákvæði framangreindra laga. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. lögum nr. 47/1995 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 614/1989 með áorðnum breytingum.

Menntamálaráðuneytið, 27. júní 1995.

Björn Bjarnason.

Árni Gunnarsson.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica