Menntamálaráðuneyti

324/1978

Reglugerð um Stofnun Árna Magnússonar á Íslands - Brottfallin

1. gr.

       Heiti stofnunarinnar er: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Til hennar er stofnað með lögum nr. 70 29. maí 1972. Hún er háskólastofnun innan vébanda Háskóla Íslands, en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra, en undir ríkisstjórnina um varðveislu og umsjón með handritum þeim og skjalagögnum sem til Íslands hafa verið og verða flutt frá Danmörku, sbr. 2. gr.

 

2. gr.

       Hlutverk stofnunarinnar er:

a)       Að varðveita handrit þau og skjalagögn sem ríkisstjórn Íslands hefur veitt og veitir viðtöku samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum stofnunar Árna Magnússonar í Danmörku og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn í vörslu og umsjón Háskóla Íslands, dagsettum 1. júlí 1965 og fullgiltum 1. apríl 1971.

b)       Að varðveita önnur handrit sem stofnunin á og kann að eignast eða fá til varðveislu. Stofnunin skal einkum leita eftir handritum sem tengjast þeim handritakosti sem fyrir er í safninu.

c)       Að koma upp sem fullkomnustu safni af filmum og ljósmyndum af íslenskum handritum í erlendum söfnum og að láta mynda önnur handrit, þótt nærtækari séu, sem mikið þarf að nota við rannsóknir. Jafnframt skal stofnunin láta í té ljósmyndir af handritum, sem eru í vörslu hennar, til nota handa öðrum stofnunum eða fræðimönnum, enda komi greiðsla fyrir.

d)       Að gera nákvæmar skrár um handrit stofnunarinnar og halda áfram skrásetningu Handritastofnunar Íslands á íslenskum handritum í erlendum söfnum, sem ófullkomnar eða engar skrár hafa verið til um. Stefnt skal að útgáfu á þessum skrám eftir þörfum.

e)       Að safna og skrásetja þjóðfræðaefni og varðveita það í uppskriftum og á segulböndum, sem skulu endurnýjuð eftir geymsluþörfum.

f)        Að varðveita og auka bókakost stofnunarinnar, einkum á sviði evrópskra miðaldafræða og þjóðfræða. Sérstaklega skal stofnunin afla þeirra bóka á þessum sviðum, sem ekki eru til í öðrum söfnum hér á landi.

g)       Að annast rannsóknir heimilda og vinna að aukinni þekkingu á máli, bókmenntum og sögu íslensku þjóðarinnar fyrr og síðar, meðal annars með útgáfustarfsemi (sbr. lið h).

h)       Að undirbúa og kosta útgáfu frumheimilda og fræðirita um íslenska tungu, bókmenntir og sögu, svo og ljósprentun handrita og útgáfu þjóðfræðaefnis, meðal annars á hljómplötum eða segulböndum.

i)         Að gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum, umræðufundum, fyrirlestrum og hverju öðru sem eflir starfsemi stofnunarinnar, í samræmi við það hlutverk sem henni er ætlað.

j)         Að sýna handrit, þó þannig að fyllsta öryggis sé gætt, og kynna almenningi handritin og efni þeirra með öðrum hætti, eftir því sem ástaeða þykir til.

 

3. gr.

       Rekstur stofnunarinnar annast sérstakur forstöðumaður. Skal hann jafnframt vera prófessor í heimspekideild með takmarkaðri kennsluskyldu og leiðbeina þeim nemendum er taka hjá honum ritgerðarefni til lokaprófs. Um veiting starfsins fer eftir sömu reglum sem um önnur prófessorsembætti.

       Fræðilega stjórn stofnunarinnar annast forstöðumaður ásamt óðrum starfsmönnum hennar. Ákvarðanir um útgáfur og önnur fræðileg viðfangsefni skulu teknar á húsþingum, en á þeim eiga sæti: forstöðumaður, fastráðnir sérfræðingar og einn fulltrúi úr hópi styrkþega, kjörinn af þeim til eins árs í senn.

       Húsþing skulu haldin að jafnaði á mánaðar fresti. Heimilt er forstöðumanni að halda aukahúsþing ef ástæða þykir til, og einnig er honum skylt að halda slík aukaþing ef meiri hluti sérfræðinga og styrkþega æskir þess. Til húsþinga má eftir þörfum kveðja annað starfslið stofnunarinnar, til dæmis útgefendur ákveðinna verka sem eru til umræðu. Einnig má kveðja til húsþinga menn utan stofnunar sem bjóða verk sín til útgáfu.

       Forstöðumaður og sérfræðingar skulu leiðbeina styrkþegum og öðrum þeim sem vinna við stofnunina. Á húsþingum má ákveða að fela sérfræðingum yfirumsjón með fræðilegum verkum annarra á vegum stofnunarinnar.

 

4. gr.

       Við stofnunina starfar þriggja manna stjórnarnefnd skipuð á þessa leið: Forstöðumaður stofnunarinnar, rektor Háskóla Íslands sem jafnframt er formaður stjórnarnefndarinnar, og einn maður, skipaður af menntamálaráðherra, án tilnefningar til sex ára í senn. Stjórnarnefndin hefur fundi þegar ástæða þykir til. Hún hefur yfirumsjón með árlegri fjárhagsáætlun stofnunarinnar og er að öðru leyti forstöðumanni til ráðuneytis og tekur með honum ákvarðanir í vandasömum málum.

 

5. gr.

       Við stofnunina eru tveir tilsjónarmenn (ephori) kjörnir af háskólaráði til fjögurra ára í senn. Skulu þeir líta eftir því að stofnunin starfi í samræmi við stofnskrá dánargjafar Árna Magnússonar frá 18. janúar 1760, að því leyti sem hún er enn í gildi.

 

6. gr.

       Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé samkvæmt því sem veitt er í fjárlögum.

       Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:

a)    Tekjur af seldum útgáfubókum og öðrum útgáfum.

b)   Styrkir til einstakra verkefna.

c)    Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.

d)   Gjafir.

e)    Vextir af höfuðstól stofnunarinnar sem er í vörslu Háskóla Íslands og vextir af bókasjóði Þorsteins M. Jónssonar og Sigurjónu Jakobsdóttur.

f)    Aðrar tekjur er stofnuninni kunna að berast.

 

7. gr.

       Stofnunin á heima í Árnagarði við Suðurgötu í Reykjavík, uns öðruvísi kann að verða ákveðið.

       Stofnunin skal hafa nána samvinnu við skyldar stofnanir heima og erlendis. Ber þar einkum að nefna Stofnun Árna Magnússonar í Danmörku og handritadeild Landsbókasafns Íslands.

 

8. gr.

       Starfslið stofnunarinnar auk forstöðumanns er sem hér segir:

a)    Sérfræðingar sem hafa þar fullt og fast starf, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum. Þeir skulu settir eða skipaðir af menntamálaráðherra að undangenginni auglýsingu og að fenginni umsögn stofnunarinnar.

b)   Styrkþegar sem ráðnir eru til starfa takmarkaðan tíma í senn. Stöður styrkþega skulu auglýstar og í þær ráðið af forstöðumanni með samþykki húsþings.

c)    Ritari.

d)   Bókavörður, einn eða fleiri.

e)    Ljósmyndari, einn eða fleiri.

f)    Nætur- og helgidagaverðir.

g)    Fræðimenn og stúdentar, innlendir og erlendir, sem vinna að tímabundnum verkefnum við stofnunina.

h)    Annað starfslið eftir því sem þörf krefur og fé er til að kosta, enda komi til samþykki menntamálaráðherra.

9. gr.

       Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 70 29. maí 1972, og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 30. ágúst 1978.

 

Vilhjálmur Hjálmarsson.

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica