Menntamálaráðuneyti

279/1997

Reglugerð um fullorðinsfræðslu og endurmenntun. - Brottfallin

1. gr.

            Reglugerð þessi gildir um nám í öldungadeildum framhaldsskóla, um endurmenntunarnámskeið á vegum framhaldsskóla og starfsemi fullorðinsfræðslumiðstöðva.

2. gr.

            Framhaldsskólum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að bjóða upp á nám í öldungadeildum, þ.e. almenna og sérhæfða fræðslu fyrir fullorðna sem hentar ekki að sækja reglulega kennslu í dagskóla. Nám í öldungadeildum er jafngilt námi á einstökum námsleiðum framhaldsskólans.

            Framhaldsskóli skal sækja um heimild til menntamálaráðherra sbr. 1. mgr. 2. greinar. Í umsókn skal gera grein fyrir væntanlegri starfsemi, námsframboði og umfangi. Þegar heimild hefur verið veitt fyrir öldungadeildarnámi skulu frekari upplýsingar um starfsemina koma fram árlega í starfs- fjárhagsáætlun skólans.

3. gr.

            Nám í öldungadeildum skal vera jafngilt námi á námsleiðum dagskóla, en skipulag og kennsluhættir taki mið af því að um fullorðna nemendur er að ræða. Í náminu skal gera sömu kunnáttu- og færnikröfur og til nemenda í dagskóla. Námi skal ljúka með sambærilegum prófum og í dagskóla.

4. gr.

            Framhaldsskóli getur boðið fram allar námsbrautir í öldungadeild sem eru skilgreindar í aðalnámskrá eftir því sem nemendafjöldi, fjármagn og aðstæður leyfa. Skipulag náms og kennslu fer eftir ákvæðum í aðalnámsskrá.

5. gr.

            Nemendur sem stunda nám í öldungadeild skulu að jafnaði vera orðnir 18 ára þegar þeir hefja námið.

            Það er á valdi viðkomandi skólameistara að meta hvort yngri nemendur, sem eru innritaðir í dagskóla, geta fengið að stunda nám í öldungadeild ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi svo sem

  1. að námsáfangi sé ekki kenndur í dagskóla.
  2. að nemandi eigi aðeins eftir að taka fáa námsáfanga til að ljúka námi og geti vegna stundaskrár ekki sótt námið í dagskóla.
  3. að persónulegar aðstæður, svo sem sjúkleiki eða félagslegar aðstæður, geri nemanda erfitt um vik að sækja dagskóla.

6. gr.

            Skóla er heimilt að meta fyrra nám til styttingar á öldungadeildarnámi skv. viðurkenndum skírteinum og ákæðum í aðalnámskrá. Eins skulu nemendur geta fengið kunnáttu sína metna með stöðuprófi eftir því sem aðstæður leyfa enda greiði þeir kostnað sem prófinu fylgir.

7. gr.

            Um námsmat í öldungadeildarnámi gilda sömu reglur og um námsmat í dagskóla.

8. gr.

            Fyrir kennslu í öldungadeildum greiða nemendur gjald sem nemur sem næst þriðjungi kennslulauna vegna þeirrar kennslu.

9. gr.

            Heimilt er framhaldsskóla að starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar námskeið. Starfræksla slíks námskeiðahalds getur verið á vegum skólans einvörðungu eða byggst á formlegu samkomulagi við faggreina- eða stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- og áhugahópa.

            Þátttökugjöld nemenda og/eða framlög samstarfsaðila skólans samkvæmt samkomulagi skulu standa að fullu undir kostnaði. Halda skal sérgreindum kostnaði vegna námskeiðahaldsins aðgreindum frá öðrum rekstri skólans og skal skólinn ekki veita nein framlög til þess af rekstrarfé sínu.

            Framhaldsskóla ber fyrirfram að leita eftir samþykki menntamálaráðherra fyrir námskeiðahaldi skv. 1. mgr. og kynna um leið samkomulagið við samstarfsaðila skólans, ef um slíkt er að ræða, þar sem greiðsla kostnaðar vegna námskeiðahaldsins er tryggð.

            Um endurskoðun reikninga vegna þessarar starfsemi fer með sama hætti og um endurskoðun reikninga skólans.

10. gr.

            Framhaldsskóa er heimilt, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að stofna til samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa um rekstur sjálfstæðrar miðstöðvar, fullorðinsfræðslumiðstöðvar, sem ætlað er að skipuleggja og reka fræðslu- og kynningarstarf fyrir fullorðna.

            Um starfsemina skal gera samstarfssamning þar sem gerð er grein fyrir hlut skólans, helstu stefnumálum og rekstrargrundvöllur tryggður en starfsemi þessi skal hafa sjálfstæðan fjárhag og bókhald. Í samstarfssamningi skal kveðið á um hvernig endurskoðun reikninga skuli hagað.

11. gr.

            Reglugerð þessi er sett samkvæmt 33. og 35. gr. sbr. 34. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 17. apríl 1997.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica