Menntamálaráðuneyti

138/1997

Reglugerð um almenna kennarafundi í framhaldsskólum. - Brottfallin

1. gr.

Almennir kennarafundir í framhaldsskólum skulu fjalla um stefnumörkun í starfi skólans, m.a. námsskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, skipulag starfstíma skólans á önn/hverju ári, tilhögun prófa og námsmat.

Skólanefnd, skólameistari og skólaráð geta leitað umsagnar kennarafundar um önnur mál, þ. á m. um ráðningu í stjórnunarstörf við skólann. Kennarafundur getur haft frumkvæði að því að mál komi til meðferðar skólanefndar og/eða skólaráðs.

Kennarafundur kýs við upphaf haustannar fulltrúa í skólaráð og áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

2. gr.

Halda skal kennarafund eigi sjaldnar en tvisvar á önn. Skólameistari boðar til fundarins. Skylt er skólameistara að halda kennarafund ef fulltrúar kennara í skólaráði eða þriðjungur fastra kennara skólans krefjast þess.

3. gr.

Kennarafundi skal halda innan dagvinnumarka á starfstíma skólans og skal til þeirra boðað með a.m.k. tveggja daga fyrirvara og dagskrá. Allir kennarar sem starfandi eru við skólann eiga rétt til setu á kennarafundi. Skólameistari undirbýr mál er fyrir kennarafund koma, en öllum sem þar eiga seturétt er heimilt að bera þar fram mál.

4. gr.

Skólameistari sér um að samþykktum kennarafunda sé komið á framfæri við rétta aðila nema fundurinn ákveði að hafa annan hátt á. Halda skal gerðabók um kennarafundi.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 7. febrúar 1997.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica