Leita
Hreinsa Um leit

Menntamálaráðuneyti

11/1989

Reglugerð um kosningu Æskulýðsráðs ríkisins - Brottfallin

1. gr.

Æskulýðsráð ríkisins skal skipað fimm mönnum. Menntamálaráðherra skipar formann ráðsins án tilnefningar. Þrír menn skulu tilnefndir af aðildarsamtökum Æskulýðssambands Íslands og öðrum hliðstæðum æskulýðssamtökum og skulu þeir kjörnir á sameiginlegum fundi þessara aðila er menntamálaráðuneytið boðar til. Einn maður skal tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sömu reglur gilda um varamenn.

Skipunartími er tvö ár. Ekki er heimilt að skipa sama aðila lengur en tvö kjörtímabil samfellt.

 

2. gr.

Menntamálaráðuneytið boðar til sameiginlegs fundar með þeim aðildarsamtökum Æskulýðssambands Íslands og öðrum hliðstæðum æskulýðssamböndum, er uppfylla skilyrði 1. og 2. tl. 2. mgr. 1. gr. laga um æskulýðsmál nr. 24/1970, þar sem þrír menn eru kjörnir til setu í Æskulýðsráði ríkisins og þrír til vara.

Á fundi þeim sem boðaður er skv. 1. mgr. hefur hvert æskulýðssamband einn fulltrúa og eitt atkvæði.

Fulltrúar þeirra samtaka, er boðuð eru á fundinn skulu hafa fullgilt skriflegt umboð stjórnar þeirra samtaka er þeir eru fulltrúar fyrir.

Fulltrúi frá ráðuneytinu stjórnar fundinum.

 

3. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 24/1970 um æskulýðsmál og öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 483/1986.

 

Menntamálaráðuneytið, 4. janúar 1989.

 

Svavar Gestsson.

Knútur Hallsson.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica