Menntamálaráðuneyti

589/1989

Reglugerð um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. - Brottfallin

1. gr.

Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skal vera sjálfstæð vísindaleg stofnun og samstarfsvettvangur aðila er sinna rannsóknum á því sviði, m.a. menntamálaráðuneytis, kennaramenntunarstofnana, samtaka kennara og einstaklinga.

 

2. gr.

1.Meginhlutverk Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála er að vinna að verkefnum sem teljast hafa fræðilegt eða hagnýtt gildi fyrir skóla og menntamál á Íslandi, þar með talin verkefni sem tengjast sálarfræði náms, félagslegum og almennum þroska og skólastarfi. Stofnunin getur bæði haft frumkvæði að verkefnum sem hún vinnur ein eða í samstarfi og tekið að sér verkefni er aðrir kunna að fela henni eða samþykkt er að vinna í samvinnu við aðra.

 

2.Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála veitir einstaklingum og hópum faglega ráðgjöf um rannsókna-og þróunarverkefni. Heimilt er stofnuninni að veita fjárhagslegan stuðning og vinnuaðstöðu þegar sérstaklega stendur á. Ef þörf krefur er stofnuninni heimilt að leita utanaðkomandi ráðgjafar, bæði innanlands og erlendis, vegna einstakra verkefna.

 

3.Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skal veita kennurum, kennaraefnum og háskólastúdentum í framhaldsnámi á sviði uppeldis- og menntamála þjálfun og ráðgjöf í fræðilegum vinnubrögðum, m.a. með námskeiðum.

 

4.Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skal kynna íslenskar og erlendar rannsóknir m.a. með útgáfustarfsemi, fyrirlestrum og ráðstefnum.

 

3. gr.

Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn stofnunarinnar. Stjórn Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála skal vera í höndum stjórnarnefndar sem í eiga sæti: Rektor Háskóla Íslands, rektor Kennaraháskóla Íslands og fjórir fulltrúar tilnefndir til fjögurra ára af eftirtöldum aðilum: Fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðherra og skal hann vera formaður stjórnarnefndar, fulltrúi tilnefndur af félagsvísindadeild Háskóla Íslands, fulltrúi tilnefndur af skólaráði Kennaraháskóla Íslands, fulltrúi tilnefndur af samtökum kennara á grunn- og framhaldsskólastigi.

Formaður boðar fundi stjórnarnefndar og stýrir þeim. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Formaður hefur samráð við forstöðumann stofnunarinnar um fundarboðun og dagskráfunda.

Stjórnarnefnd Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála skal koma saman eigi sjaldnar en þrisvar á ári. Óski forstöðumaður stofnunarinnar eða a.m.k. tveir stjórnarmenn þess, skal kalla stjórnarnefnd saman til fundar.

Stjórnarnefnd hefur yfirumsjón með fjárhag stofnunarinnar og gerir tillögur til menntamálaráðuneytis um fjárveitingar í fjárlögum. Hún ræður, að fengnum tillögum forstöðumanns, starfsmenn að stofnuninni og samþykkir val meiri háttar rannsóknarverkefna.

Stjórnarnefnd skal kjósa ritstjórn til þess að annast útgáfu rita stofnunarinnar í samráði við forstöðumann.

 

4. gr.

Vísindalegu starfi stofnunarinnar stjórnar forstöðumaður. Stjórnarnefnd ræður forstöðumann til fjögurra ára í senn. Ráðning hans er háð staðfestingu menntamálaráðherra. Forstöðumaður skal uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru til prófessora. Hann skal hafa staðgóða þekkingu á rannsóknaraðferðum félagsvísinda og hafa sannað hæfni sína m.a. með rannsóknum á sviði mennta- og uppeldismála.

Umsækjendur um stöðu forstöðumanns skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu            um vísindastörf þau er þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil sinn og störf. Stjórnarnefnd Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála skal skipa þriggja manna

nefnd sem gera skal tillögu um ráðningu forstöðumanns. Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands skulu tilnefna hvor sinn fulltrúa í nefndina og stjórnarnefnd skipa einn án tilnefningar og er hann formaður. Nefndin skal láta í té rökstutt álit á því hverja umsækjenda hún telur hæfa og raða þeim í forgangsröð.

Stjórnarnefnd skal hafa álitsgerð nefndarinnar til hliðsjónar við ráðningu forstöðumanns sem er ráðinn úr hópi þeirra umsækjenda sem taldir eru hæfir.

Forstöðumaður hefur umsjón með fjárreiðum stofnunarinnar, framgangi rannsóknaverkefna og útgáfustarfsemi og annast daglegan rekstur, m.a. ráðningu starfsmanna til minni háttar verkefna. Hann gerir tillögur til stjórnarnefndar um ráðningu starfsmanna að stofnuninni, undirbýr fjárhagsáætlanir og semur árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar.

 

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 69/1988, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 13. desember 1989.

 

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica