Menntamálaráðuneyti

638/1982

Reglugerð um Þýðingarsjóð - Brottfallin

1. gr.

Hlutverk sjóðsins er að veita útgefendum styrki eða lán til útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslensku máli, einkum skáldrita og viðurkenndra fræðirita. Aðrar greinar bókmennta koma einnig til álita, sé fullnægt nauðsynlegum kröfum að mati sjóðstjórnar, m. a. er heimilt að veita fjárstuðning til útgáfu á þýðingum á leikritum, þó að þær séu ekki gefnar út í bókaformi, enda sé fjölföldun og dreifing fullnægjandi. Sama máli gegnir um einstök tímaritshefti eða sérútgáfur, sem helgaðar eru þýðingum.

Endurútgáfu vandaðra þýðinga má styrkja, ef ástæða þykir til. Sjóðstjórn getur átt frumkvæði að einstaka úthlutunum.

2. gr.

Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn, einn tilnefndan af samtökum útgefenda, einn tilnefndan af Rithöfundasambandi Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Engan má tilnefna í stjórn tvívegis í röð né oftar en tvisvar samanlagt. Einn hinna þriggja stjórnarmanna má þó skipa tvisvar í röð, ef sérstök ástæða þykir til.

Menntamálaráðherra ákveður þóknun sjóðstjórnar.

Semja skal við einhvern bankanna um vörslu sjóðsins.

3. gr.

Sjóðstjórn úthlutar úr sjóðnum a. m. k. einu sinni á ári og skal fyrstu úthlutun að jafnaði lokið fyrir 1. mars ár hvert. Skal auglýst með venjulegum hætti eftir umsóknum og skulu þær vera á sérstökum umsóknareyðublöðum.

4. gr.

Skilyrði fyrir styrkveitingu skulu einkum vera þessi:

1. Verkið sé þýtt úr frummálinu, ef þess er kostur.

2. Upplag sé að jafnaði eigi minna en 1000 eintök.

3. Gerð og frágangur verka fullnægi almennum gæðakröfum.

4. Eðlileg dreifing sé tryggð.

5. Útgáfudagur sé ákveðinn.

5. gr.

Útgefendur skulu nota styrki og lán úr sjóðnum til að greiða þýðingarlaun. Sjóðstjórn er heimilt að veita lán til þýðinga á viðamiklum verkum, sem koma eiga út í áföngum, og má lánið þá jafnvel nema þýðingarkostnaði við verkið allt.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 6. gr. laga nr. 35 26. maí 1981, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 13. nóvember 1982.

Ingvar Gíslason.

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica