Mennta- og menningarmálaráðuneyti

301/2021

Reglugerð um breytingu á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, nr. 173/2017 ásamt síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Við ákvæði reglugerðarinnar til bráðabirgða bætist nýtt ákvæði, svohljóðandi:

Heimild skólastjóra til að veita undanþágu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. nær einnig til þeirra nem­enda 9. bekkjar sem kjósa að taka ekki samræmd könnunarpróf skólaárið 2020-2021 vegna ann­marka sem voru á fyrirlögn þess í íslensku, þrátt fyrir að þeir uppfylli ekki skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Undanþáguheimild þessi tekur sérstaklega mið af Barnasáttmála Sam­ein­uðu þjóðanna sem kveður á um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ráðstafanir eru gerðar í málefnum barna og með hliðsjón af fordæmalausum aðstæðum vegna heimsfaraldurs á skólaárinu. Heimild þessi nær einnig til samræmdra könnunarprófa í stærð­fræði og ensku í 9. bekk.

Skólastjóra ber ekki að fara eftir ákvæði 2. mgr. 8. gr. við framkvæmd undanþágu samkvæmt þessu ákvæði. Ekki þarf að tilkynna sérstaklega til skólastjóra hyggist nemandi ekki þreyta próf. Kjósi nemandi að taka eitthvert pófanna skal það tilkynnt til skólastjóra sem tilkynnir Menntamála­stofnun um þátttöku viðkomandi nemanda.

Kjósi nemandi að þreyta próf í íslensku á ný, vegna fyrrgreindra annmarka, er slíkt heimilt þrátt fyrir að hann hafi skilað úrlausn sinni 8. mars sl. og skal þá einkunn úr síðara prófi gilda.

Menntamálastofnun er heimilt að víkja frá skyldum sínum samkvæmt 10. gr. um úrvinnslu og birtingu niðurstaðna samræmdra könnunarprófa skólaárið 2020-2021.

 

2. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 6. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og fellur úr gildi 10. júní 2021.

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 12. mars 2021.

 

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica